12.11.1956
Neðri deild: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

20. mál, iðnlánasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hér er hreyft mikilvægu nauðsynjamáli, og vildi ég því leyfa mér að fara nokkrum orðum um það.

Hv. frsm. sagði, að iðnaðurinn væri þriðji aðalatvinnuvegur okkar Íslendinga. Þetta er ekki rétt. Iðnaður er orðinn aðalatvinnuvegur Íslendinga, stærsti atvinnuvegur Íslendinga í þeim skilningi, að fleira fólk starfar við iðnað en nokkra aðra atvinnugrein, sem þjóðin stundar. Skv. síðasta manntali voru framfærendur og framfærðir af iðnaði 37557, en framfærendur og framfærðir af landbúnaði voru 29191 og af sjávarútvegi 15587. Auk þess er um að ræða fiskiðnað og mjólkuriðnað og fleira þess háttar, og þar eru framfærendur og framfærðir 7273, svo að þeir, sem vinna við fiskiðnað og mjólkuriðnað, eru ekki taldir með í þeirri tölu, sem ég nefndi áðan.

Nákvæmar skýrslur eru ekki til um hlutdeild þessara meginatvinnuvega landsins, iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar, í sjálfri þjóðarframleiðslunni, og er miður, að svo skuli vera. Ef við því eigum að gera okkur grein fyrir þýðingu atvinnuveganna fyrir landsfólkið, er í ekkert annað hús að venda en skýrslur manntals um atvinnurekendur og starfsfólk eða framfærendur og framfærða við atvinnugreinarnar sjálfar. Þar er niðurstaðan þessi, sem ég gat um áðan, að við iðnað, að meðtöldum byggingariðnaði, starfar nú mun fleira fólk en við nokkra aðra atvinnugrein í landinu.

Síðan manntalið var gert 1950, hafa hlutföllin áreiðanlega enn breytzt, þannig að hlutdeild iðnaðarins hefur vaxið, en hinna greinanna, sérstaklega landbúnaðarins, minnkað enn. Það er því vissulega rétt, að ástæða er til þess að hyggja að því, hvernig lánsfjármálum iðnaðarins er háttað.

Iðnaðurinn hefur ekki átt aðgang að neinum öðrum sérsjóði til öflunar stofnlána en iðnlánasjóðnum, sem þó, eins og frsm. tók fram, hefur einnig haft það hlutverk að veita rekstrarlán. Auk þess hefur nú nýlega verið komið á fót sérstökum iðnaðarbanka, sem var aðallega ætlað og er aðallega ætlað að sjá iðnaðinum fyrir rekstrarfé. En að því er varðar stofnlánaþörfina hefur iðnaðurinn ekki átt í annan sérsjóð að venda en iðnlánasjóðinn. Hvernig er nú högum hans háttað, ef borið er saman við aðstæður hinna meginatvinnuveganna tveggja, varðandi stofnlán?

Tekjur iðnlánasjóðs á árinu 1956 munu verða alls um 11/2 millj. kr. Ef við nú lítum á, hvernig hliðstæðu er varið varðandi sjávarútveg, er það að segja, að þar eru tveir sjóðir, sem gegna áþekku hlutverki, þ.e. fiskveiðasjóður og fiskimálasjóður. Ef við athugum skilyrði þessara sjóða til þess að gegna sínu hlutverki á þessu ári, eru þau þannig, að tekjur fiskveiðasjóðs 1956 munu verða 42 millj. kr. Í sjóði í ársbyrjun voru 22 millj., þar með talið 5 millj. kr. ríkislán. Ríkisframlag 1956 og lán nema 7 millj. kr. og útflutningsgjöld og not af geymslufé vegna erlendra lána munu nema alls um 13 millj. kr. Þetta verða samtals 42 millj. kr., sem fiskveiðasjóðurinn mun hafa til ráðstöfunar á þessu ári, en fiskimálasjóður mun hafa til ráðstöfunar 3.5 millj. kr.

Ef vikið er að landbúnaðinum, eru framlög og loforð um lán á árinu 1956 þannig: Að því er varðar ræktunarsjóð er framlag úr ríkissjóði 1.6 millj. kr. og lán úr mótvirðissjóði 4.5 millj. kr. Að því er snertir byggingarsjóð er framlag úr ríkissjóði 2.5 millj. og lán úr mótvirðissjóði 10 millj. kr. Framlag úr ríkissjóði til landnáms er 2.5 millj. kr. Þetta er samtals 21.1 millj. kr.

Meðan fiskveiðasjóður og fiskimálasjóður hafa til ráðstöfunar 451/2 millj. kr. og ræktunarsjóður og byggingarsjóður auk framlags til landnáms 21.1 millj. kr., hefur iðnlánasjóðurinn, sá sjóður, sem á að standa undir stofnlánaþörf þess atvinnuvegar, sem veitir flestum atvinnu, til umráða 11/2 millj. kr. Þetta er ástand, sem ekki má dragast lengur að ráða bót á.

Svipað verður upp á teningnum, ef litið er á fjárlögin og athugaðar þær fjárveitingar, sem veittar eru til þessara meginatvinnuvega þriggja. Á fjárlögum yfirstandandi árs eru veittar til iðnaðarmála samtals 2.6 millj. kr., þar af framlag til iðnlánasjóðs 450 þús. kr. Til sjávarútvegsmála eru hins vegar veittar 10.7 millj. kr., þar af framlag til fiskveiðasjóðs 2 millj. kr., en auk þess fékk fiskveiðasjóður af tekjuafgangi 1955 10 millj. kr., 5 millj. kr., sem borgaðar voru fyrir áramót, og aðrar 5 millj., sem greiddar voru eftir áramót. Hvort tveggja snertir í raun og veru fjárlagaafgreiðsluna, þó að það sé veitt af tekjuafgangi, þannig að raunverulega fékk fiskveiðasjóður 12 millj. kr. á fjárlögum síðasta árs sem fjárveitingu og af tekjuafgangi, um leið og iðnlánasjóðurinn fær einar 450 þús. kr.

Til landbúnaðarmála eru veittar á fjárlögum yfirstandandi árs 48.7 millj. kr., og þar af eru eftirfarandi upphæðir vegna fjárfestingar: Jarðræktarframlög 10 millj. kr., til framræslu 7.2 millj. kr., til kaupa á jarðræktarvélum og styrkir til vélakaupa 2.1 millj., til kaupa á skurðhreinsunarvélum 200 þús. kr., til landnáms 21/2 millj. kr., til byggingarsjóðs 21/2 millj. kr., til ræktunarsjóðs 1.6 millj. kr., til fyrirhleðslna 11/2 millj. kr. og til sandgræðslu, girðinga, nýrra sandgræðslugirðinga, 400 þús., þ.e. til fjárfestingar 28 millj. kr. sléttar. Enn fremur var ræktunarsjóði veitt af tekjuafgangi ársins 1955. greitt fyrir áramót 1955 og 1956, 22 millj. kr., og veðdeild Búnaðarbankans var veitt af tekjuafgangi 1955, en greitt fyrir áramót 1956, 2 millj. kr., þannig að við síðustu fjárlagaafgreiðslu fékk landbúnaðurinn raunverulega til fjárfestingarframkvæmda 52 millj. kr.

Það er mjög fjarri mér að telja þessu fé, sem til sjávarútvegs og landbúnaðar er varið á fjárlögum, illa varið eða að það sé of mikið. Ég efast ekki um, að um mikla fjárþörf hjá báðum þessum atvinnuvegum hefur verið að ræða, og ég vil ekki gagnrýna, að því fé, sem hvorum atvinnuveginum um sig, landbúnaði og sjávarútvegi. var ætlað, hafi einmitt verið varið á þann hátt, sem ég nú hef verið að lýsa. En þegar í sambandi við síðustu fjárlagaafgreiðslu 12 millj. eru veittar til aukinna fjárfestingarskilyrða í þágu sjávarútvegs og 52 millj. kr. til aukinna fjárfestingarskilyrða í þágu landbúnaðar, þá er engum blöðum um það að fletta, að við það er ekki lengur unandi, að við 450 þús. kr. framlag til aukinna fjárfestingarskilyrða í iðnaði sé látið sitja.

Hv. frsm. þessa frv. er einn helzti áhrifamaður Sjálfstfl. í fjvn. og er þar af leiðandi einn af þeim, sem meginábyrgðina bera á þeirri fjárlagaafgreiðslu, sem ég var að lýsa, þ.e. einn þeirra, sem meginábyrgðina bera á því, að því fé, sem til ráðstöfunar hefur verið til aukinna fjárfestingarskilyrða í aðalatvinnuvegunum þremur, hefur verið skipt eins og því er skipt. Ég segi þetta ekki í ádeiluskyni, heldur vek aðeins athygli á því, að þannig standa málin, þegar fyrrv. forsvarsmaður iðnaðarmálanna, hv. 1. þm. Rang. (IngJ), skilar þeim af sér í hendur núv. ríkisstj. En núv. ríkisstjórn er ljóst, að hér þarf nýtt átak til úrbóta. Þess vegna hafa málefni iðnlánasjóðsins verið til athugunar í iðnmrn., og það mun ekki líða langur tími, þangað til ég mun geta gert grein fyrir því, hvaða till. ríkisstj. hefur fram að færa varðandi eflingu iðnlánasjóðsins, og það vil ég undirstrika að síðustu, að efling hans er orðin brýn nauðsyn. Það má ekki lengur við svo búið standa, að að honum sé búið á þann hátt, sem verið hefur undanfarið. Þessu þingi má ekki ljúka og mun ekki ljúka þannig, að ekki verði gert átak til þess að rétta nokkuð hlut iðnaðarins á þessu sviði.