29.11.1956
Neðri deild: 23. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

65. mál, vegalög

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að því leyti enginn nýgræðingur, að slíkar vegalagabreytingar hafa verið fluttar nærri því á hverju ári. Við vegalögin var gerð nokkur viðbót á s.l. þingi og þá teknir upp nokkrir vegir. Á hinn bóginn hefur það orðið svo, að þegar leitað hefur verið eftir að fá verulegan stuðning, sem um hefur munað, til þess að koma sýsluvegum héraðanna í sæmilegt lag, hefur það mætt svo mikilli tregðu, að slík viðleitni hefur lítinn árangur borið. Það er því komið svo víða, að sýsluvegirnir eru í hinu mesta ófremdarástandi, og sérstaklega kemur þetta hart niður í þeim héruðum, þar sem mjólkurframleiðsla er mjög verulegur þáttur í framleiðslu bænda.

Á undanförnum árum hefur í stað þess að hjálpa sýslunum til þess að standa undir þeim gjöldum, sem af sýsluvegunum leiðir, viðhaldi þeirra og nýbyggingu, verið farin sú leið að taka allmarga sýsluvegi upp í þjóðvegatölu og létta þannig á sýsluvegunum. Þetta hefur þó engan veginn reynzt nægilegt, og í ýmsum héruðum eru stórir vegakaflar, sem sýslurnar verða að standa undir og er bersýnilegt að þeim er langt um megn. Hér leggjum við þingmenn Skagf. til, að teknir verði upp nokkrir vegir og vegakaflar, sem er óhjákvæmilegt að gera miklar endurbætur á eða byggja alveg upp að nýju.

Þetta er fullkomið nauðsynjamál, og eins og tekið er fram í grg., eru eftir samt sem áður mjög mikil verkefni fyrir sýsluvegasjóð Skagafjarðarsýslu, ef sinna á, svo að vel sé, vegaþörf héraðsbúa.

Ég hef svo þessi orð ekki fleiri, en vísa að öðru leyti til þeirrar grg., sem fylgir þessu frv.