06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (3154)

72. mál, girðingalög

Flm.. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Mýr. (HS) að flytja frv. á þskj. 104, og er frv. þetta breyting eða jafnvel öllu heldur viðbót við núgildandi girðingalög. Hér er í raun og veru aðeins um að ræða að láta lög um girðingar og gripavörzlur fylgjast með tímanum og gera á þeim þær breytingar eða þær viðbætur, sem breyttar aðstæður og breyttir tímar krefjast.

Þegar girðingalögin voru sett í upphafi, var að langmestu leyti um girðingar að ræða gerðar með neti og vír og að nokkru undirhleðslu. En með tilkomu hinna stórvirku skurðgrafna á síðustu árum eru skurðir æ meira að ryðja sér til rúms og eru almennt notaðir í þessu skyni og þá sérstaklega þar, sem framræsla eða vegur þarf að koma jafnhliða.

Það er því nauðsynlegt orðið, að um þessar vörzlur, þar sem skurðirnir eru jafnvel meginþátturinn í girðingunni, séu sett ákvæði og ákveðin gerð þeirra, svo að fullgild varzla geti talizt, samhliða öðrum ákvæðum í girðingalögunum, og þau ákvæði séu sett inn í núgildandi girðingalög. Þessi ákvæði, sem hér hafa verið sett um, hvernig þeim girðingum skuli hagað, eru að mestu leyti gerð í samráði við ráðunaut Búnaðarfélags Íslands, Ásgeir L. Jónsson, sem er þessum málum kunnugastur, og er að mestu farið eftir þeim till., sem hann hefur gert í því efni.

Fyrri liðurinn, um það, sem telst til fullgildra girðinga, er í raun og veru hinn sami og gildir í núgildandi girðingalögum um gaddavírsgirðingar og netgirðingar, en þó sú breyting á, að hérna er sett í samræmi við það, sem nú er í jarðræktarlögunum, að ekki skuli vera 6 metrar milli staura, heldur 5, því að það mun vera sú algilda regla að framfylgja því, sem þar stendur um girðingar.

Síðari liðurinn í þessu frv. er aftur um skurðina og þau ákvæði, hvernig frá þeim skuli gengið, til þess að þeir geti talizt fullgild varzla.

Loks eru ákvæði um, að á eftir 10. gr. l. komi ný málsgr., svo hljóðandi:

„Nú verður ágreiningur um landamerkjagirðingu, á hvern hátt eða úr hvaða efni hún skuli gerð, og skulu aðilar þá hlíta úrskurði matsmanna eða úttektarmanna.“

Það er sérstaklega nauðsynlegt að fá þessa viðbót inn í girðingalögin um slíka vörzlu sem hér er að ræða, þar sem um landamerkja- eða samgirðingar fleiri aðila er að ræða. Það hafa komið fram árekstrar í þeim efnum, hversu menn skyldu taka þátt í þeim, þar sem það er ekki í girðingalögunum sjálfum. Þess vegna er það nauðsynlegt, að aðilum sé gert að taka sams konar þátt í þessum girðingum og í þeim girðingum, sem í lögunum voru áður. Hafa komið fram ítrekaðar raddir frá mörgum bændum, sem hafa mjög með framræslu og skurðagerð að gera, á síðari árum um að fá ákvæði inn í girðingalögin um þessi efni, þannig að ekki séu árekstrar á milli aðila, sem að girðingunum standa, er um skurðgröft er að ræða. Það er til að fyrirbyggja þessa árekstra, sem þessarar viðbótar er óskað, og með tilliti til þess er 2. gr. þessa frv. um viðbót við 10. gr. laganna sett, að ef ágreiningur verður á milli aðila, t.d. um landamerkjagirðingu eða aðrar samgirðingar, að þá séu það matsmenn eða úttektarmenn, sem skuli skera úr um það, hvaða girðingar skuli settar og sé heppilegra að setja.

Þetta er svo einfalt mál, sem hér er um að ræða, og svo sjálfsagt, þegar menn hafa áttað sig á því, hvað um er að vera, að ég tel enga ástæðu til að fara um það fleiri orðum og óska þess, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til hv. landbn. og til 2. umræðu.