08.04.1957
Neðri deild: 82. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

72. mál, girðingalög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þar sem hv. 2. þm. Rang., sem er 1. flm. að þessu frv., er ekki viðstaddur, vil ég leyfa mér f.h. okkar flm. að þakka nefndinni fyrir þau störf, sem hún hefur lagt í þetta frv.

Ég vil geta þess, að bæði hv. frsm. n. og form. landbn., hv. þm. Dal., hafa rætt við okkur flm. um þær breytingar, sem nefndin gerir á frv. okkar, og höfum við fallizt á þær.

Ég vil einnig geta þess, að ég hefði að vísu kosið þegar í upphafi að gera nokkrar fleiri breytingar á girðingalögunum, en af því varð ekki að sinni af ástæðum, sem ég mun ekki greina hér, en vonandi gefst tækifæri til þess, að það verði gert síðar. Ég vil svo vænta þess, að hv. þm. sjái sér fært að veita málinu brautargengi, svo að það nái fram að ganga á þessu þingi.