07.12.1956
Neðri deild: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (3171)

75. mál, selja þjóðjörðina Hrafnkelsstaði

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Að ósk hreppsnefndar Eyrarsveitar hef ég flutt frv. það, sem hér er tekið til meðferðar, um heimild fyrir hæstv. ríkisstjórn til að selja eyðijörðina Hrafnkelsstaði til Eyrarsveitar fyrir það verð, sem dómkvaddir menn meta.

Telja verður eðlilegt og sanngjarnt, að ríkisstj. verði veitt heimild til að verða við óskum hreppsnefndarinnar um sölu á þessari eyðijörð. Ekki er trúlegt, að jörðin byggist á ný, þar sem því miður nokkrar aðrar og betri jarðir í sömu sveit hafa lagzt í eyði á undanförnum árum. Bændur, sem bjuggu á þeim jörðum, hafa flutt byggð sína í Grafarnes, með því að þeir töldu sig hafa þar öruggari atvinnu og betri lífsafkomu á ýmsum sviðum.

Í 2. gr. frv. hef ég viljað tryggja Gunnari bónda Stefánssyni á Eiði, sem á síðustu árum hefur haft afnot jarðarinnar og ræktað að nýju nokkurn hluta af túni hennar, leigurétt á landi heimajarðarinnar, bæði hvað snertir hann sjálfan og erfingja hans. Tel ég rétt, að þessi réttur sé ákveðinn í löggjöfinni. Að öðru leyti vitna ég í grg. mína með frumvarpinu.

Að lokinni þessari umr. vil ég biðja hæstv. forseta að vísa frv. til landbn. og til 2. umr.