04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (3180)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það eru grundvallaratriði góðra laga, að þau fari ekki í bága við önnur lög, að þau séu í samræmi við almenna siðferðisvitund, að þau veiki ekki að neinu leyti grundvöll þjóðfélagsins. að þau séu sanngjörn í garð allra, sem hlut eiga að máli, og að þau séu framkvæmanleg.

Ef spurt er, hvort núgildandi skattalög fullnægi þessum skilyrðum, er varla við því að búast, að svarið verði jákvætt. Skattalögin eru ekki í samræmi við önnur lög um réttarstöðu hjóna, sem líta á hjón sem tvo fjárhagslega sjálfstæða einstaklinga, og það er ekki í samræmi við almenna siðferðisvitund, að fólk stofni heimili ógift, en að því stuðla skattalögin og veikja þannig fjölskylduna, sem er siðferðislega og lagalega grundvöllur þjóðfélagsins.

Engan hef ég heyrt halda fram sanngirni ákvæðanna um skattgjald hjóna. Hjónin bera í raun og veru mun þyngri skatta en ógift fólk. Ekki geta það heldur talizt réttlát lög, sem skerða svo mjög afrakstur af aukaerfiði fólks, að athafnasemi þess lamast. Það er löngu viðurkennt, jafnvel af hinu opinbera, að skattalögin hafa ekki verið framkvæmanleg, ekki getað náð tilgangi sínum.

Núgildandi samsköttun hjóna hefur ýmiss konar óeðlileg áhrif á líf fólks. Ástæðan er fyrst og fremst sú, hve skattstiginn fer ört hækkandi. Hann hefur slæm áhrif á athafnalíf þjóðarinnar, vegna þess að á vissu stigi borgar sig betur að sitja auðum höndum en taka á sig viðbótarvinnu, því að afraksturinn hverfur að mestu til hins opinbera, en ekki þess, sem verkið vinnur. Á sama tíma er erlent fólk sótt til að annast hér ýmis nauðsynleg störf.

Skattstiginn veldur því einnig, að vinna giftrar konu utan heimilis verður í raun réttri mun verr launuð en ógiftrar. Hlutfallslega hærri skattur hlýtur að greiðast af þessum tekjum giftrar konu, þar eð tekjur hennar leggjast við tekjur mannsins.

Hvernig þessi skipan verkar, skal sýnt með nokkrum dæmum, sem skattstofa Rvíkur hefur reiknað út. Ef tveir einstaklingar, þar sem karlmaðurinn hefur 40 þús. kr. nettótekjur á ári og konan hefur 30 þús. kr. nettótekjur, ganga í hjónaband, þá fá þau samkv. núgildandi lögum 4470 kr. í skatta, en ef þau væru ógift, hefðu þau aðeins 2308 kr.

Ef tekið er dæmi um hjón með nokkru hærri tekjur, t.d. þar sem maðurinn hefur 55 þús. kr. í nettótekjur á ári og konan hefur 40 þús. kr. í nettótekjur á ári, þá þurfa þau að greiða samkv. núgildandi lögum 11030 kr., en ef þau væru ógift, þyrftu þau aðeins að greiða 4865 kr.

Ef tekið er dæmi um hjón með enn hærri tekjur, þar sem maðurinn hefur 75 þús. kr. og konan 50 þús., þá þyrftu þau samkv. núgildandi lögum að greiða 20510 kr., en ef þau væru ógift 10110 kr.

Þess má geta, að vegna aukins réttlætis í launamálum kvenna verður óréttlætið í skattamálum hjóna enn meira áberandi.

Ég man eftir barnlausum hjónum, sem bæði vinna utan heimilis. Bæði gegna þau störfum, sem sérþekkingu þarf til, en fyrir það eitt að vera í hjónabandi greiða þau um 20 þús. árlega í beinum sköttum.

Bæði þessi hjón og fjölmörg önnur, sem svipað er ástatt um, vonast til, að leiðrétting fáist á þessum málum. Það er löngu viðurkennt, hvílíkt óréttlæti þetta er, og margir eru þeirrar skoðunar, að við þetta eitt, þ.e.a.s. þau tilfelli, þar sem konan vinnur utan heimilis og bæði hjónin afla beinna tekna, beri að miða till. um sérsköttun hjóna.

En þó yrði vinna konu utan heimilis hærra þjóðfélagslega metin en hinnar, sem algerlega vinnur á heimili sínu, en það verður að teljast fráleitt, því að það er engin leið að slá því föstu, að kona, sem vinnur úti, leggi alltaf á sig meira erfiði en sú, sem heima vinnur. Heimilin eru álíka misjöfn og þau eru mörg. Það er ríkjandi stefna í löggjöf þessa lands, að bæði hjónin skuli vera fjárhagslega og í öðru tilliti jafnréttháir einstaklingar, og það er sú meginstefna, sem ræður í þessu frv., sem hér liggur fyrir. En aðalatriði frv. er í 2. gr. þess, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. málsgr. 11. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt orðist svo:

Samanlögðum skattskyldum tekjum hjóna, sem samvistum eru, skal skipta til helminga og reikna skatt af hvorum helming um sig. Ef bæði hjónin afla peningatekna, skulu þær lagðar saman og síðan skipt í tvo jafna hluta. Ef aðeins annað aflar peningatekna, er þeim líka skipt til helminga og hvoru hjóna reiknaður skattur af helmingnum.“

Vegna þeirrar rýmkunar á núgildandi lögum, sem þetta frv. felur í sér um skattgreiðslur hjóna, þykir sanngjarnt, eins og segir í 1. gr. frv., að núgildandi skattstigi fyrir hjón falli niður og allir einstaklingar greiði skatt eftir sama skattstiga. Þá þykir rétt, að einhleypingar njóti nokkru hærri persónufrádráttar en hjón. Séu einhleypingar með börn á framfæri, þykir, eins og 3. gr. frv. leggur til, rétt að veita þeim hærri frádrátt en nú er leyfður, því að þeim er mun erfiðari aðstaða um framfærslu og uppeldi barnanna en hjónum. Frádrátturinn, sem frv. gerir ráð fyrir, nemur persónufrádrætti einhleypings til viðbótar því, sem nú er fyrir eitt barn, þ.e. 11 þús. kr. samanlagt, en fyrir hvert barn umfram tvöfaldur barnafrádráttur, eða 9 þús. kr.

Þetta mundi hafa í för með sér allmikla lækkun á sköttum einhleypra foreldra. Ef faðir með eitt barn og 55 þús. kr. tekjur greiddi skatt eftir núgildandi skattal., þá á hann að greiða 2675 kr., en samkvæmt þessu greiðir hann 1900 kr. Enn meiri er munurinn, ef hann hefur tvö börn á framfæri; ef hann hefur 55 þús. kr. tekjur, þá á hann að greiða 2080 kr., en samkv. frv. 1108 kr. Ef hann er með tvö börn á framfæri og 70 þús. kr., þá á hann nú að greiða 4340 kr., en samkv. frv. 2615 kr.

Þetta frv. er efnislega samhljóða nokkrum greinum í frv., sem tveir flm. þessa frv., hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hv. 2. þm. Eyf. (MJ), fluttu árið 1952. Þessu frv. er ætlað að bæta úr þeim annmarka núgildandi skattal., sem veldur því, að fólki er fjárhagslega hagkvæmara að búa saman ógift en ganga í hjónaband. Flm. eru þeirrar skoðunar, að menningarþjóðfélagi beri að styðja fjölskylduna og vernda, en því hlutverki er ekki fullnægt, meðan lög sporna við hjónaböndum, eins og nú er um skattalögin. Þetta þarf að leiðréttast. Það er þýðingarlaust að loka augunum fyrir því, að þessi skipan á skattamálum hjóna er veigamikil orsök þess, hve mörg óskilgetin börn fæðast á Íslandi. Börnin, sem fæðast í sambúð ógifts fólks, eru að lögum óskilgetin og réttarstaða þeirra að ýmsu leyti önnur en barna, sem fædd eru í hjónabandi. Eins er réttarsamband ógifts sambýlisfólks nokkuð með öðrum hætti en hjóna. — Það kann að vera óhjákvæmilegt, að frv. þetta hefði lækkun skatta í för með sér, ef það yrði að lögum, og þótt reynt væri að reikna út, hve miklu sú lækkun næmi, yrði erfitt að komast að niðurstöðu, því að líklegt er, að fólk ynni meira fyrir hærri tekjum en nú er, ef það næði fram að ganga. Og framtölin verða réttari, þegar lögin verða réttlátari, og fólk virðir þá frekar ákvæði þeirra.

Og þegar litið er til þess, hve lítill hluti af heildartekjum ríkisins eru skatttekjur, og hins, að raunverulegar skatttekjur ríkisins hafa farið langt fram úr áætlun um mörg undanfarin ár, þá þykjumst við, sem flytjum þetta frv., mega vænta stuðnings við það, því að þrátt fyrir allt er réttlætið líka nokkurs virði.