04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (3181)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna það, að ég hef skipt um skoðun á þessu máli á síðari tímum, og ég verð eindregið að taka undir þau rök, sem hv. flm. flytur fyrir þessu frv.

Þetta mál er að verða þjóðfélagslegt vandamál hjá okkur, og þess vegna verður ekki hægt að komast hjá því að líta á það sem slíkt. Hér stoðar ekki að berja höfðinu við steininn. Það er að verða þjóðfélagslegt vandamál, af því að ungt fólk, sem hefur fasta atvinnu, hikar við að giftast vegna skattanna. Þetta er í sjálfu sér ekki broslegt. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það færist mjög mikið í vöxt, eins og allir vita, að fólk búi saman án þess að giftast árum saman, eingöngu vegna skattanna, vegna þess að bæði hjónin geta unnið utan heimilisins, enda er það sízt að furða, þegar á 120 þús. kr. tekjum munar, eftir því sem frsm. gat um, 10 þús. kr. í skatti, sem „hjón“ borga minna, ef þau búa saman án þess að vera gift.

Ég hef orðið þess oft var, að skattarnir fæla ungar konur frá því að halda áfram að vinna utan heimilis, eftir að þær eru giftar, þó að þær hafi aðstöðu til þess og hafi góða atvinnu. Það eru ekki meira en nokkrar vikur síðan stúlka, sem hjá mér vann og gifti sig fyrir nokkrum vikum, kom til mín og sagði upp góðri atvinnu, sem hún hafði. Hún sagðist gera það af þeirri einföldu ástæðu, að hún vildi ekki vinna allt árið og borga kaupið mestallt í skatta.

Þetta er vandamál, sem verður því erfiðara viðfangs, sem dregið er lengur að leysa það. Þess vegna vænti ég, að hv. n., sem tekur við þessu merkilega frv., láti nú hendur standa fram úr ermum, eins og hún er vön, og afgreiði frv. fljótt og á þann veg, að það leiði til þess, að leyst verði þetta erfiða vandamál.