28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (3198)

115. mál, kostnaður við skóla

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. (PO) komst þannig að orði í ræðu sinni, að það væri undarlegt, hvað menntmn. hefði reynzt svifasein við að vinna að framgangi þessa máls. En ýmislegt annað í ræðu hans gaf það til kynna, að þetta mál er í sjálfu sér ekki eins einfalt og því er stillt upp í þessu frv., heldur þarf nokkurrar athugunar við.

Hv. þm. Borgf. tók það m.a. skýrt fram, að fjárhagsbyrði af þessu skólahaldi, sem hér um ræðir, væri mjög misskipt á sýslufélögin í landinu. Hann talaði enn fremur um, að þetta ósamræmi ykist vegna þess, að t.d. í Dalasýslu væri húsmæðraskóli, sem ríkið kostaði að öllu leyti, og að Austfirðingar gætu losnað við framlög til Eiðaskóla. Þetta er allt rétt. En þetta frv., þótt að lögum yrði, mundi ekki breyta þessu. Hið eina, sem í þessu frv. felst, er að hækka framlag ríkisins til stofnkostnaðar heimavistarskóla gagnfræðastigsins upp í 90% á móti 10%, sem héruðin eiga að leggja. Nú er þetta kostnaðarhlutfall ákveðið í lögum 75%. Hið eina, sem þetta frv. mundi breyta, ef að lögum yrði, er þá þetta að færa hlutfall ríkisins úr 75% upp í 90%.

Nú má vitanlega segja, að það sé mjög æskilegt frá sjónarmiði héraðanna og mjög einföld leið að auka bara framlag ríkisins og leita ekki neitt að öðrum leiðum, sem að haldi gætu komið. En við verðum þó að gæta þess, að það er ekki óeðlilegt, að héruðin og þeir, sem að skólunum standa, þurfi að einhverju og allverulegu leyti að standa straum af kostnaði við stofnun þeirra og rekstur. En það er alveg rétt, og ég er hv. þm. Borgf. alls kostar sammála um, að það þurfi í þessu efni að leita að úrræðum til þess að létta þær byrðar, sem falla af þessum sökum á viss sýslufélög í landinu, þar sem önnur sýslufélög komast hjá því að greiða slíkan skólakostnað. Ein leiðin í því efni er t.d. sú að reyna að stækka þær heildir, sem að skólunum standa, og ég tók ekki betur eftir en að hv. þm. Borgf. læsi upp úr erindi, sem hingað hefur borizt, ábendingu um, að það gæti vel komið til greina að jafna fjárhagsaðstöðu héraðanna á þann hátt að skipa gagnfræðaskólunum í hverfi. Þetta er vissulega atriði, sem vert er að íhuga í þessu sambandi.

Þá er einnig full þörf á að íhuga það, hvort þær tekjur, sem til falla heima í héruðunum af ýmiss konar starfsemi, sem skólarnir sjálfir halda uppi eða jafnvel áhugamenn, sem að skólunum standa, vilja koma á til að efla fjárhag þeirra, mega ekki skoðast sem framlag héraðanna umfram það, sem nú er skv. gildandi lögum. Á þessi atriði bendi ég til þess að sýna fram á, að það geta ýmsar leiðir komið til greina til að ná því marki, sem stefnt er að með þessu frv., og ég hygg því, að sú afgreiðsla sé ekki óhyggileg, sem meiri hl. menntmn. leggur til, að afgreiða þetta frv. nú með þeirri rökstuddu dagskrá, sem ég hef lýst.