14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (3208)

121. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér þykir mjög miður farið, að þessi draugur skuli nú vera vakinn upp enn þá einu sinni á Alþ. til þess að gera þetta að deilumáli.

Við höfum heyrt flest þau rök hér í þessari hv. deild áður, sem hv. ræðumaður bar nú fram, svo að flest af því er ekki nýtt fyrir þá, sem hafa setið á þingi undanfarin 5 ár. En það var nýtt að heyra frá manni, sem fyrir þessu máli berst, að Íslendingar séu að gera sig að viðundri í augum alheimsins við að setja þau skilyrði, að nýir borgarar beri nöfn, sem Íslendingar geta borið fram og séu í samræmi við lög landsins og í samræmi við lögmál tungunnar. Hann sagði enn fremur annað, sem ekki hefur heldur heyrzt hér áður í sambandi við þetta mál, að löggjöf af þessu tagi sé óframkvæmanleg. Ég veit ekki, hvaðan hv. flm. hefur þá þekkingu, því að ég veit ekki betur en það hafi gengið mjög vel að framkvæma þessi l. Að minnsta kosti 3 síðustu árin hafa ekki verið neinar umkvartanir frá þeim, sem hafa sótt um ríkisborgararétt, að þurfa að breyta um nöfn, svo að þetta fer nú nokkuð fjarri veruleikanum, sem hann heldur fram.

Hann talaði mikið um það, hversu nauðsynlegt væri fyrir erlenda vísindamenn að fá að halda nöfnum sínum, ef þeir yrðu íslenzkir borgarar. Ég skal ekkert deila við hann um, hvort það sé nauðsynlegt fyrir menn að halda sínum nöfnum, þó að þeir séu vísindamenn, ef þeir ætla sér á annað borð að verða íslenzkir ríkisborgarar. En mennirnir verða sjálfir að gera það upp við sig, hvort þeir vilja það upp á þessar spýtur. Við erum ekki að neyða neinn mann til þess að gerast íslenzkur ríkisborgari. Við erum að veita þeim stórkostleg fríðindi, að heimila þeim að verða borgarar í landi okkar.

Það eru mörg ár síðan Þjóðverji, sem var talinn mikill vísindamaður í sínu landi, fékk ríkisborgararétt hér á einni nóttu, af því að þm. stóðu í þeirri góðu trú, að þetta væri frægur vísindamaður, sem mundi vera gott fyrir landið að fá sem ríkisborgara. Hann fékk ríkisborgararétt fyrir sig og fjölskyldu sína. Hann hafði ekki verið hér margar vikur, þegar hann fór af landi burt til Argentínu á sínu íslenzka borgarabréfi. Ég efast um, að þessi maður hefði nokkurn tíma misnotað þau fríðindi, sem honum voru veitt, ef þá hefði verið byrjað á því að setja mönnum skilyrði um, að þeir yrðu að öðlast íslenzkt nafn, áður en þeir fengju borgararéttinn. Svona fór nú með þennan vísindamann, og vel gæti verið, að svo færi með fleiri. Það hlyti náttúrlega að vera ákaflega leiðinlegt fyrir Jón Helgason að kallast Johannes Pedersen eða einhverju slíku dönsku nafni. Ég er nú ekki svo vel að mér, að ég viti, hvort Jón er danskur ríkisborgari. Mér er nær að halda, að hann sé íslenzkur ríkisborgari, svo. að það er óþarfi hjá hv. flm. að hafa áhyggjur af Jóni í þessu sambandi.

Hann sagði enn fremur: Hvað er gert, hvað gera Íslendingar, sem fara til Kanada? Ekki þurfa þeir að skipta um nöfn. Nei, líklega eru engin skráð lög, sem segja þeim að skipta um nafn, en það er tungan í landinu sjálfu, sem segir þeim að skipta um nafn, alveg á sama hátt og við segjum hér við menn, sem vilja verða íslenzkir ríkisborgarar, að þeir þurfi að bera nöfn, sem lúta lögum tungunnar. Hvað eru margir Vestur-Íslendingar nú í Kanada af líklega 30–40 þús. manns, sem þar hafa setzt að, sem hafa sín íslenzku nöfn í dag? Það er hægt að telja þá á fingrum sér. Þeir eru allir búnir að taka erlend nöfn, sem lúta lögum þeirrar tungu, sem fólkið talar í kringum þá.

Mikið af þeim nöfnum, sem eru í frv., lúta ekki lögum íslenzkrar tungu, og það er öllum ljóst. Hvernig finnst mönnum, að nöfn eins og Leussink, Stieborsky, Wyrwich, Häfner, Hoblyn mundu sóma sér í íslenzkum nafnaskrám, þegar frá líður, og þessi nöfn ættum við að hafa, ekki í tugatali, heldur í þúsundavís? Borgararéttindi eru veitt af þinginu 30–60 manns á hverju ári. Mikill hluti af þessu fólki hefur nöfn, sem Íslendingar geta ekki borið fram. Ef Íslendingar geta ekki borið þau fram, þá eiga þau ekki heima hér og þau eiga ekki heima í okkar tungu. Ég efast ekki um, að hv. flm. beri mikla umhyggju og virðingu fyrir tungunni. En honum skýzt yfir í þessu máli, vegna þess að þetta er geysilega stórt atriði fyrir íslenzka tungu.

Þar að auki hefur hv. flm. líklega ekki athugað, að Íslendingum sjálfum er ekki gefinn sá réttur, sem hann vill gefa útlendingum, þó að hann vildi t.d. taka sér nafn eins og Leussink eða Stieborsky, mundi honum ekki vera það heimílt, honum mundi ekki vera heimilt að prýða sjálfan sig með slíku nafni. En mér skilst, að hann hafi ekkert á móti því, að útlendingar geti fengið þann rétt, sem Íslendingum er ekki heimilaður.

Ákvæðið um íslenzk nöfn fyrir þá útlendinga, sem fá hér ríkisborgararétt, var fyrst tekið í lög 1952. Síðustu 5 árin hafa því allir nýir ríkisborgarar, sem báru útlend nöfn, orðið að taka sér íslenzk nöfn, og þeir menn skipta nú hundruðum, sem hafa fengið þessi réttindi s.l. 5 ár. Það væri því lítill höfuðburður fyrir Alþ., ef nú ætti að fara að breyta um stefnu í þessu máli eftir að hafa um 5 ára skeið fyrirskipað þessa reglu. Þar að auki finnst mér lítil ástæða til að fara að stofna til baráttu fyrir því á Alþ., að útlendingar, sem sækja um borgararétt hér á landi, fái að halda nöfnum, sem ekki samrýmast íslenzkri tungu og mundu um alla framtíð spilla hinum þjóðlegu nöfnum Íslendinga.

Útlendingar, sem hafa fengið íslenzkan ríkisborgararétt á s.l. 5 árum, hafa allir tekið sér íslenzk nöfn, og það verður ekki séð, að þeir hafi tekið sér það mjög nærri, þó að hv. flm. vilji telja það til harmkvæla fyrir þessa menn að fá íslenzkan ríkisborgararétt og þurfa að greiða það eitt fyrir hann, að þeir taki sér íslenzk nöfn.

Það ætti sízt að vera keppikefli fyrir Íslendinga sjálfa að breyta nú þeirri stefnu, sem myndazt hefur. Nú vita allir þeir, sem sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, að þeim er gert að skyldu að breyta um nafn. Þess vegna ganga menn ekki blindandi í sjóinn með það, þegar þeir sækja um borgararétt hér á landi og bera útlend nöfn, að þeir verði að skipta um nafn. Þessir menn munu sjálfir telja það litla fórn fyrir þau miklu fríðindi, sem þeir fá, en hins vegar eðlilegt, að íslenzka þjóðin setji það skilyrði, að nýir ríkisborgarar brjóti ekki í bága við elzta og merkasta þátt íslenzks þjóðernis, mannanöfnin. En það er eins með nöfnin og þjóðtunguna, það þarf að hreinsa úr nafnaskránum nafnaskrípin, en ekki að spilla þeim með því að gera erlend nafnaskrípi að lögum.