14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

121. mál, ríkisborgararéttur

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég hef í raun og veru ekki haft þörf á að taka hér til máls, eftir að hæstv. menntmrh. hefur flutt sína ræðu, því að í öllum aðalatriðum er ég honum algerlega sammála. Ég vil segja það, að þessi löggjöf, þegar hún kom frá hv. Alþ., fannst mér alveg einkennandi um það og skýr vottur um það, hvert öfgar og misskilin vandlætingarsemi getur leitt mann, og ég var alveg undrandi yfir því, að meiri hl. alþm. skyldi geta fengið sig til þess, án þess þá að hreinsa fyrst til í útlendum nöfnum hér í kringum sig á Alþ. Því ekki það? Vill ekki hv. frsm. t.d. gangast fyrir því, að þeir, sem bera útlend nöfn, hafi ekki kjörgengi? Mér finnst, að það væri óneitanlega rétt að gera það, og það stendur honum mjög nærri, þar sem flest af þessum útlendu nöfnum eru honum mjög skyld hér á þingi. En það hefur verið talið alveg ástæðulaust annað en að leyfa þessum mönnum ekki aðeins að bera sín ættarnöfn, heldur líka börnum þeirra og afkomendum lið eftir lið, ætt eftir ætt, kynslóð eftir kynslóð, ekki aðeins sem óbreyttir borgarar, heldur sem embættismenn, alþingismenn og í hæstu stöðum þjóðarinnar. Hvers vegna ekki að hreinsa til þarna, áður en ráðizt er á þessa veslings útlendinga, sem koma hér, og talið, að nöfn þeirra séu háskaleg íslenzkri tungu og lúti ekki lögum hennar? Ja, er það ekki alveg sama með hin ættarnöfnin, sem útlend eru hér hjá okkur, að þau eru sannarlega ekki neitt til fyrirmyndar í íslenzkri tungu og lúta ekki beygingarlögum hennar eða öðru slíku?

Ég hélt satt að segja, að fyrir íslenzka tungu sé enn hættulegra að láta útlendinga, sem eru hreinir útlendingar og kunna ekki íslenzka tungu og kunna ekki lögmál íslenzkrar tungu, fara að bera íslenzk nöfn og að almenningur átti sig ekki á öðru en að hér séu hreinir Íslendingar á ferðinni heldur en það, þó að þeir beri þessi sakleysislegu skírnarnöfn sín, sem þeir koma með frá heimalandi sínu. Ég held að það væri miklu nær að setja skilyrði t.d. um, að þessi grein væri orðuð á þann veg, að þeir, sem öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, skuli þá hafa gengið undir próf og staðfest það, að þeir kunni að tala íslenzka tungu og þeir kunni að rita íslenzka tungu.

Ég held satt að segja, að þeir séu margir, sem hafa orðið íslenzkir ríkisborgarar, án þess að þessa væri á nokkurn hátt gætt; þeir hafi verið tungunni talsvert skaðlegir með því hrognamáll, sem þeir tala alla stund, af því að þeir hafa ekki lagt sig neitt eftir því, og það hefur ekkert verið gengið eftir því, að þeir legðu sig eftir því að kunna að tala íslenzku eða kunna að rita íslenzkt mál. Hér hafa verið embættismenn í hæstu stöðum, sem hafa talað hrognamál alla sína ævi, sem hvorki hefur verið skiljanlegt neinum útlendingi né Íslendingi. Mér virðist, að þarna sé miklu meiri þörf á því að taka hendinni til og raunar segja þessum mönnum, sem koma hér inn. Það eru margir, sem hafa verið algerlega hirðulausir um að læra tungu okkar, af því að við höfum ekki sett nein skilyrði fyrir því. Mér virðist þar af leiðandi, að þessi gr. ætti frekar að stefna í þá átt, að við værum ekki að fá fleiri og fleiri borgara, sem misbjóða lögum tungu okkar og misbjóða tungunni, hvar sem þeir eru, heldur en það, þó að þeir séu kallaðir sinu rétta skírnarnafni. Ég held, að það sé engin hætta fyrir Íslendinga, að það skerði tungutak þeirra, þó að þeir nefni útlend nöfn, enda erum við vanir að gera það dagsdaglega, og satt að segja finnst mér það harla óviðkunnanlegur hlutur, að við förum að skylda menn til að leggja niður skírnarnöfn sín, sem þeir hafa borið frá barnæsku, þó að þeir setjist að hér á Íslandi, eða eins og minnzt hefur verið á. að það ætti fyrir einhverjum okkar að liggja að fara til annarra landa og verða þá kannske skyldaðir til þess að heita Hansen eða Jensen eða eitthvað þess háttar, og mundum við þakka fyrir slíkt.

Þetta eru hreinar öfgar, sem hér hafa komið fram. Ég álít, að það sé skylda Alþ. að ráða bót á þessu afskræmi, sem hér hefur verið flutt inn í sali Alþ., og lögfesta það sem allra fyrst, og að það sé meira að segja skylda við tunguna, að þetta sé gert og menn fari ekki að ganga eins og sannir Íslendingar í orði og verki með alíslenzkt nafn, en kunni ekki nema annað hvert orð í íslenzkri tungu.

Það hefur í þessu sambandi verið minnzt á ættarnöfnin, og það virðist enginn hafa hneykslazt á, þó að við notum þau, og meira að segja mönnum leyft að halda þeim ættlið eftir ættlið, þó að þau séu hin herfilegustu skrípi í okkar eigin tungu frá þeim dögum, þegar Danir tóku upp í framkvæmdinni það, sem við viljum taka upp í löggjöfinni, að umskíra okkar námsmenn, þegar þeir komu t.d. til Kaupmannahafnar, og kalla þá Thordarsen og Thoroddsen og annað því um líkt og ummynda þannig nöfnin, og svo höfum við aftur lögleitt þetta inn í okkar tungu, þessar afbakanir, sem Danir gerðu á námsmönnum okkar í Kaupmannahöfn. Ég held, að það væri réttara að hreinsa það eitthvað til og a.m.k., þó að þeir, sem hafa nú borið þetta mestan hluta ævi sinnar, fái að bera það, þá láti þeir börn sín heita íslenzkum nöfnum og séu ekki með afbakanir, sem Danir settu á ætt þeirra fyrir nokkrum öldum.

Þetta vildi ég biðja menn að athuga rækilega, og satt að segja geri ég engan greinarmun á ólöglegum og löglegum ættarnöfnum; ég er ekki sammála hæstv. menntmrh. í því. Ef menn hafa borið nöfn, þá eru þau búin að vinna nokkurn þegnrétt, hvernig sem þau eru tilkomin. Þetta eru ekki skírnarnöfn, sem menn hafa fengið við skírn sína, og ég held, að þau séu alveg jafnháskaleg, ef nöfn á annað borð geta verið hættuleg, hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg.

Ég fyrir mitt leyti legg á það megináherzlu, að þetta sé afnumið, að við séum að skíra hér upp útlenda menn, sem koma hingað, en að við gerum þeim að reglu, bæði útlendingum, sem koma hingað, og Íslendingum, sem dveljast hérna, að í framtíðinni láti þeir niðja sína bera íslenzk nöfn.