15.03.1957
Neðri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (3212)

121. mál, ríkisborgararéttur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef í rauninni litlu við það að bæta, sem ég sagði í minni framsöguræðu. Mér finnst, að það hafi ekki komið fram í þessu máli rök, sem hnekki því, sem ég bar fram þar, en þar að auki hafa í ræðum þeirra hæstv. menntmrh. og hv. 2. þm. Rang. komið fram ýmis ný rök máli mínu til stuðnings, og fagna ég því.

En svo að ég víki aðeins örfáum orðum að ræðu hv. frsm. allshn., þá virtist hann vera hneykslaður á því, að ég hafði þau ummæli í minni framsöguræðu, að við Íslendingar gerðum okkur að viðundri með því að hafa í lögum ákvæði svipuð þessum.

Það var síður en svo tilætlun mín að fyrta hann eða aðra, sem honum fylgja að málum í þessum efnum. Ég skil vel þeirra sjónarmið og veit, að fyrir þeim vakir aðeins gott eitt. Hann og þeir, sem honum fylgja að málum, telja nauðsynlegt að gera þetta til verndar íslenzkri tungu, en eins og ég benti á, tel ég árangur af því hæpinn, en hins vegar vissu fyrir því. að slíkt fyrirkomulag veldur þeim, sem við það eiga að búa, margvíslegum óþægindum. En það, sem ég átti við, þegar ég talaði um, að þessi ákvæði gerðu okkur að meira eða minna viðundri í augum annarra þjóða, var það, að mér er alls ekki kunnugt um, að slík löggjöf sé í gildi í nokkru öðru landi, og mér þætti vænt um, ef þeir, sem halda vilja til streitu nafnbreytingunni, gætu nefnt einhver slík dæmi, en mér eru þau ekki kunnug. Og ég tel ekki vafa á því, að ef það er þannig, að þessi löggjöf þekkist hvergi nema hér, þá muni erlendir aðilar líta á þetta undrunaraugum.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að ekki hefðu komið fram neinar umkvartanir varðandi framkvæmd þessara laga, en hæstv. menntmrh. og hv. 2. þm. Rang. voru þar á öðru máli, og mér þykir það með miklum ólíkindum, ef allir þeir, sem við þessi ákvæði eiga að búa, una því glaðir, því að hjá því fer ekki, að auk þess sem þetta er tilfinningamál, þá hlýtur það að baka þessum aðilum ýmiss konar fjárhagslegt tjón, eins og ég gerði grein fyrir.

Mér finnst, að kjarni málsins í þessu sambandi sé sá, hvort sérstök ástæða sé til þess fyrir okkur Íslendinga að gera ríkisfang hér á landi háð sérstökum skilyrðum, sem eru mjög óaðgengileg. Það er, eins og við vitum, regla í viðskiptum þjóða á milli, a.m.k. vestan járntjalds, — af ókunnugleika skal ég ekki segja um, hvernig það er fyrir austan járntjaldið, — að fólk, sem dvalið hefur tiltekinn tíma í tilteknum löndum, getur öðlazt þar ríkisfang, án þess að því fylgi sérstök óaðgengileg skilyrði.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að fyrir það fólk, sem fengi ríkisborgararétt, væru það mikil fríðindi og hlunnindi, sem eðlilegt væri, að það keypti þá sérstöku verði. En í þessu sambandi má á það benda, að þetta fólk hefur starfað hér um árabil, og það eitt, að það hefur verið hér að störfum um árabil, gefur það til kynna, að þörf hefur verið fyrir þess starfskrafta. Annars hefði það ekki fengið hér atvinnuleyfi eða atvinnu, þannig að okkur er einnig hagur í því að fá þetta fólk. Enn fremur benti ég á það og nefndi mörg alkunn dæmi því til stuðnings, að okkur hefur oft verið það mikil nauðsyn að fá hingað erlenda sérfræðinga, sem hér hafa svo ílenzt, og það er ekki von til þess, að fólk ílendist hér eða í öðrum löndum, ef það á að búa við það öryggisleysi, sem það hefur í för með sér að hafa ekki ríkisborgararétt. Það eru engar líkur á öðru en að við einnig í framtíðinni höfum þörf fyrir slíka sérfræðinga, því að einmitt litlum þjóðum er það meiri nauðsyn en stórum þjóðum að njóta krafta slíkra sérfræðinga, svo að einnig af hagrænum ástæðum virðist síður en svo ástæða til þess, að við setjum strangari skilyrði en tíðkast með öðrum þjóðum fyrir því, að fólk fái hér ríkisborgararétt, þó að ég sé að öðru leyti sammála hæstv. menntmrh. um það, að fjárhagsatriðið er hér ekki aðalatriðið, heldur tillitið til persónulegra tilfinninga þeirra, sem hér eiga hlut að máli.

Það má auðvitað, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði, nefna dæmi um það, að sérfræðingar, sem við höfum gert greiða, hafi misnotað þann trúnað og svo framvegis, en slíkt er að mínu áliti ekki nein sönnun í þessu máli, á samsvarandi hátt og það mundi ekki vera nein sönnun fyrir því, að við gætum komizt af án lækna, þótt einhver læknir hefði reynzt illa í sínu starfi. Og hvað þetta dæmi snertir með þennan þýzka mann, sem veittur var ríkisborgararéttur í trausti þess, að hann settist hér að, þá hygg ég, að alveg sama tilfelli hefði getað komið fyrir, þó að ákvæði hefðu verið í gildi um það, að menn skyldu taka íslenzkt nafn, því að auðvitað hefði hann eftir sem áður getað sleppt því nafni, þegar til Argentínu kom, og einmitt ef það er ekki alvara með að nota ríkisborgararéttinn, þá eru það auðvitað miklu minni viðurlög, þó að honum fylgi skilyrðið um nafnbreytingu.

Ég loka engan veginn augunum fyrir því, eins og ég impraði líka á í minni framsögu, að æskilegt sé að útrýma nöfnum, sem illa fara í íslenzku máli, en þetta tel ég að auðveldlega mætti gera, t.d. með ákvæðum um það, að afkomendur þessa útlenda fólks séu þá skyldaðir til að skipta um nafn, og ég vil lýsa því yfir, að ef fram kæmi hér miðlunartillaga, þó að skemmra gengi en mín tillaga, ef hún aðeins sniði verstu agnúana af þessu frv. að mínu áliti, þá mundi ég vera reiðubúinn til þess að taka mína till. aftur og fylgja þeirri málamiðlunartill., sem fram kynni að koma. Mér skilst, að hæstv. menntmrh. sé að vinna að einhverri slíkri málamiðlun og hafi óskað eftir því, að þetta mál yrði að svo stöddu tekið af dagskrá. Það mundi ég vera reiðubúinn til að styðja, og mér finnst einmitt sérstök ástæða til þess, vegna þess að mannanafnamálið er enn þá í deiglunni. Mér skilst, að till., sem fram komu á s.l. þingi þar að lútandi, hafi ekki orðið útræddar. Þá finnst mér sérstök ástæða til þess einmitt að fresta framkvæmdinni að sinni.

Hv. 2. þm. Reykv. vakti athygli á því, að þar sem bannað væri samkvæmt mannanafnalögunum að taka upp ættarnöfn, væri réttur útlendinga hér meiri en íslenzkra aðila. Um það mál vil ég nú aðeins segja það, að ég er ekki hlynntur ættarnafnabanninu, en það er ekki til umræðu hér. Annars þekki ég þess dæmi frá öðrum löndum, að þótt hömlur séu settar við því þar eins og hér er og eðlilegt er, að börn séu skírð nöfnum, sem illa fara í málinu. þá breytir það ekki því, að þeir aðilar, sem ríkisfang fá í viðkomandi landi, fá að halda þessum nöfnum, þó að þau séu að öðru leyti bönnuð, svo að að því leyti er hér um alþjóðlegt fyrirbrigði að ræða. En auðvitað er þá því fólki, sem ríkisfang hefur fengið með þessum annarlegu nöfnum, bannað að skíra börn sín slíkum nöfnum.