18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

121. mál, ríkisborgararéttur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við fjórir þm. höfum leyft okkur að flytja á þskj. 351 brtt. við frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Þess gerist ekki þörf að skýra efni þeirrar till., vegna þess að það blandaðist talsvert inn í þær umr., sem þegar hafa farið fram um málið hér í þessari hv. þd. Örfá orð vildi ég þó aðeins láta fylgja sem eins konar undirstrikun eða ítrekun á kjarna þeirra raka, sem við teljum liggja til grundvallar því, að sú stefna. sem þar er mörkuð, verði upp tekin.

Við viðurkennum, að í þessu máli sé allmikill vandi á höndum. Það er tvímælalaust eðlilegt, að fram komi óskir um að stemma stigu við því, að erlend nöfn festist í íslenzku máli. Það er tvímælalaust eðlilegt og réttmætt, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að íslenzkir ríkisborgarar beri ekki um aldir fram nöfn, sem ekki lúta lögmálum íslenzkrar tungu. Á hinn bóginn teljum við mjög óeðlilegt, að fullorðið fólk sé skyldað til að skipta um nafn, sé skyldað til þess að segja skilið við þau persónulegu og jafnvel fjárhagslegu verðmæti, sem nafni manns eru tengd, og okkur þykir óeðlilegt að láta þetta gerast í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar, þar sem segja má, að annar aðilinn að þeim löggerningi geti skipað og hinn verði að hlýða. Okkur þykir það líka galli á þessari skipan, að með því móti að halda áfram þeirri stefnu, sem framfylgt hefur verið undanfarið, er væntanlegum nýjum ríkisborgurum gert að skyldu að leggja niður nöfn, sem aðrir íslenzkir ríkisborgarar bera nú með fullum rétti og að íslenzkum lögum og munu mega bera áfram. Okkur þykir sem sagt vera gert ranglátlega upp á milli manna, þegar sum nöfn eiga nú að teljast óhæf til að vera borin af íslenzkum ríkisborgurum, þegar aðrir íslenzkir ríkisborgarar hafa mátt bera þau, mega bera þau og munu mega bera þau áfram í framtíðinni að almennum íslenzkum nafnalögum óbreyttum.

Þess vegna höfum við viljað fara þá millileið í þessu máli, sem gert er ráð fyrir í till., en hún er sú, að hinum nýju íslenzku ríkisborgurum skuli gert skylt að taka sér íslenzkt fornafn. Það er venjulega hægt með mjög einföldum hætti, þar eð hin útlendu fornöfn eru oft mjög svipuð íslenzkum nöfnum. Hins vegar megi þeir halda sínu ættarnafni, en samkv. erlendum nafnasiðum leggja menn venjulega meira upp úr gildi ættarnafnsins en fornafnsins. Hins vegar er síðan gert ráð fyrir því, að niðjar þessara nýju ríkisborgara kenni sig við föður sinn á sama hátt og tíðkast samkv. íslenzkum nafnvenjum. Mundi þá nafn niðjanna geta orðið alíslenzkt, þar eð fornafn föðurins er orðið íslenzkt og fornöfn niðjanna verða það þá væntanlega líka. Með þessu móti finnst okkur vera farinn sá hóflegi meðalvegur í þessu vandamáli, að fyrir það ætti að vera girt, að erlend nöfn festist í málinu, án þess þó að nokkrum einstaklingi sé gert að skyldu að leggja niður það nafn, sem hann hefur borið, frá því að hann hlaut skírn.

Um önnur rök í þessu máli skal ég ekki fjölyrða, enda væri það endurtekning á því, sem hefur áður verið sagt í umr. Ég tel, að meginkjarni þeirra raka, sem hægt er að flytja fyrir þessu máli og raunar fyrir þeim öðrum sjónarmiðum, sem fram geta komið í málinu, hafi þegar verið flutt.