18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (3217)

121. mál, ríkisborgararéttur

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég hef frá upphafi, frá því að þessi mál komu á dagskrá, að gera kröfu til þess, að menn, sem fengju íslenzkt ríkisfang, tækju upp íslenzka nafnareglu, verið því fylgjandi, að við værum mjög strangir í því efni, og ég fyrir mitt leyti taldi þetta ekki vera neina þvingun við viðkomandi menn. Allt þetta fólk, sem er að leita um íslenzkan ríkisborgararétt, er á slíkum gatnamótum í lífi sínu, að það er að segja skilið við sitt fyrra líf og er að hefja nýtt líf sem þegnar í öðru landi. Og hvað er við það að athuga, þegar þannig stendur á, þó að það fólk verði að sætta sig í þessu efni við þær reglur, sem gildandi eru hjá þeirri þjóð, sem það er nú að gerast meðlimir í, eins og svo margt annað, sem það verður að sætta sig við að beygja sig fyrir, að þeim háttum og siðvenjum, sem Íslendingar hafa, en ekki eru í öðrum löndum?

Mér fannst þetta vera svo einfalt mál og sjálfsagt, að furðulegar eru þær deilur, sem búið er að reyna að reisa af svona litlu og sjálfsögðu tilefni. Við skulum segja bara um nafn eins og nafnið mitt. Allir vita, að ég ber ekki föðurnafn mitt eftir íslenzkri reglu. En það er komið til á þann hátt, að þegar ég mæti sem barn í skóla, þá mæti ég með mínar bækur áritaðar á venjulegan íslenzkan hátt sem Áki Jónsson; en erlendis er það ekki viðurkennd regla, og þetta nafn er strikað út af kennaranum og fært inn Jakobsson, af því að ég var staddur erlendis. Á þennan hátt varð ég að sætta mig við þá nafnareglu, sem gilti í því landi, þar sem ég var uppalinn. Mér finnst þess vegna ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að menn verði að sætta sig við að fylgja nafnareglunni, sem hér gildir, þeir sem ætla að gerast hér þegnar. — Þetta, sem hv. þm. G-K. skaut inn í, byggist á því, að ég er yngstur af sjö systkinum, og það var óviðkunnanlegt, að ég einn færi að halda öðru nafni en eldri systkinin. Mér finnst þess vegna þetta í fyllsta máta óeðlilegt. Og ég verð að segja það, að mér er það mikið hryggðarefni, að hæstv. menntmrh. skuli láta það ábyrgðarleysi henda sig að vera 1. flm.till. eins og þessari, till., sem gengur í þá átt að brjóta reglur, sem Alþingi er búið að skapa í 5–6 ár, búið að vera meiri hluti fyrir því í Alþingi í 5–6 ár, vitandi það, að ef þeir sigra, sem standa að þessari till., þá er sá sigur fyrst og fremst á kostnað virðingar Alþingis og íslenzku þjóðarinnar og ekkert annað. Við gerum okkur að hreinum viðundrum, við gerum okkur að kjánum, ef við ætlum að fara að breyta því á hverju einasta ári, hvaða skilyrði við setjum fyrir því, að menn geti fengið ríkisborgararétt. Ég get afsakað það við hv. 5. landsk. þm. (BG). Hann er nýkominn á þing, hann veit ekki um þessar deilur, sem hér hafa verið. Ég get afsakað það við hann, þó að hann leiki sér að því hér í ræðustól að bera þetta saman við t.d. nafn eins og cóca-cóla eða pepsi-cóla og telji þetta ekki skipta neinu máli fyrir okkar þjóðerni. Hann veit ekki um þær deilur, sem hér hafa átt sér stað í málinu, og þess vegna hefur hann þá afsökun fyrir því að rísa þannig upp. En það er enginn vafi á því, að í sambandi við það að varðveita tunguna og varðveita tunguna hreina eru íslenzk mannanöfn eitthvað það allra þýðingarmesta.

Allt talað mál, allt skrifað mál snýst meira og minna um persónur og þar með um nöfn, og þessi regla Íslendinga að kenna sig við föður sinn, við fornafn föður síns, en taka engin ættarnöfn upp, er fornnorræn regla og ekki einasta fornnorræn regla, heldur forngermönsk regla, sem hefur varðveitzt hér á Íslandi. Og það er enginn vafi á því, að það er ekki tilviljun, að einmitt þessi nafngjafarregla varðveitist á því landinu, sem varðveitir bezt hina gömlu norrænu tungu. Það fer saman, og það er rétt fyrir menn að gera sér ljóst, að það er ekki hægt að skilja þarna á milli, það fer saman að varðveita málið og að varðvelta þessa nafnagjafarreglu.

1913 voru sett lög um ættarnöfn, og þá varð í bili ofan á í Alþingi að taka upp þann útlenda sið að fella niður þessa íslenzku nafnareglu að kenna sig við skírnarnafn föður og taka upp ættarnafn, og á árunum frá 1913 til 1925 voru tekin upp mörg ættarnöfn. En 1925 tekur Alþingi aftur af skarið og fellir niður þessi ættarnöfn — og fellir þau niður þannig, að gömlu ættarnöfnin, ættarnöfn, sem voru upp tekin fyrir síðustu aldamót, eiga að fá að standa og niðjar þeirra manna, sem höfðu þau nöfn, eiga að fá að hafa þau. Ættarnöfn, sem tekin voru upp fyrir gildistöku laganna, frá aldamótum og fram til 1913, fá líka að standa, ef þau hafa verið löglega staðfest samkv. ákvæðum laganna frá 1913. En þau nöfn, sem tekin eru upp samkv. lögunum frá 1913, eiga að falla niður, þegar þeir, sem tóku þau upp, og börn þeirra falla frá, og engin ný ættarnöfn má síðan upp taka.

Ég býst við því, ef maður athugar þessi lög frá 1925, að þá byggist þetta á því, að menn vilja fara mildilega. Alþingi hefur viljað fara mildilega með þá menn, sem voru með gömul ættarnöfn. Mörg af þessum ættarnöfnum eru í raun og veru ekkert annað en íslenzk nöfn, sem eru töluð og skrifuð á danska tungu. Þetta er ekki annað en leifar af því, þegar dönsk menning og danskt embættismannavald mótaði mikið hugi Íslendinga, við skulum segja Thorarensen eða Thoroddsen eða eitthvað slíkt. Þetta eru vitanlega bara leifar af hinum dönsku yfirráðum á Íslandi, og vafalaust hafa þeir, sem beittu sér fyrir lögunum 1925, gert sér vonir um, að það kæmi að því, að Íslendingi þætti leiðinlegt að kalla sig slíku dönsku nafni og vildi frekar hníga til þess, sem almenningur á Íslandi hefur alltaf haldið sér við, að hafa íslenzkt nafn og hafa ekki ættarnafn, heldur kenna sig við eiginnafn föður. Þessi nöfn hafa verið nokkru lífseigari, býst ég við, en menn hefðu látið sér detta í hug. Þó er ég þeirrar skoðunar. að þau muni falla niður af sjálfu sér, að mönnum muni finnast þetta broslegt, að vera að kenna sig til slíks, og að þau muni falla niður. En aftur á móti eru ýmis af þeim nöfnum, sem áttu að falla niður með lögunum frá 1925, enn í gangi og það meira að segja á barnabörnum þeirra, sem tóku upp nöfnin, en eiga að vera búin að fella þetta niður samkv. lögunum frá 1925. Það hefur ekki verið fylgzt með þessu, og mér þætti gaman, að hæstv. menntmrh. — ég held, að málið heyri undir hann — upplýsti það, hvort nokkuð hafi verið gert í því efni. Nei, það hefur ekki verið gert neitt í því efni. (Gripið fram í.) Nú, er það dómsmrn.? En ég skal hins vegar viðurkenna, að það er dálítið erfitt að fara að beita harðræði í slíkum hlutum eins og þessum. Höfuðatriði í framkvæmd svona mála er það, á nákvæmlega sama hátt og þegar Íslendingar tóku til við að bjarga tungunni frá dönskum slettum, að þá var það því aðeins hægt, að meginhluti þjóðarinnar talaði rétt mál. Þess vegna tókst að skapa almenningsálit, sem fordæmdi hinar dönsku slettur. Ég man greinilega eftir því, þegar ég kom hingað 1920, þá 9 ára gamall, frá Ameríku, að það var geysilega mikið af dönskum orðum, sem hér voru algeng í Rvík, en eru núna gersamlega horfin og börn okkar t.d. hafa aldrei heyrt nefnd og skilja ekki. Nöfn eins og „fortó“ og annað slíkt eru horfin. Þannig sem sagt tókst að skapa þá virðingu og það almenningsálit fyrir því að halda málinu hreinu, sem nauðsynlegt var, til þess að ekki þyrfti að beita neinum þvingunum. Sama þarf að vera í sambandi við mannanöfnin. Það þarf helzt að vera þannig, að það þurfi ekki að beita neinum þvingunum, en að menn fái sjálfir þá þjóðernistilfinningu, að þeir vilji frekar bera íslenzkt nafn en erlent nafn.

Það finnst mér vera höfuðatriðið. En það hafa orðið vankantar á því, að menn framfylgdu þessu. Menn halda upp á ýmis gömul nöfn og þykir þetta fínt og finnst það sennilega eitthvað upphefja sig fram yfir þann sauðsvarta almúga, sem bara sættir sig við að kenna sig við föðurnafn sitt.

En ég vil aðeins benda á það, að í sambandi við þessa till., sem hæstv. menntmrh. flytur hér ásamt þrem öðrum mönnum, er einmitt aukið á þessa freistingu. Það er einmitt aukið á það, að menn haldi áfram að kenna sig við ættarnafn föður síns, en ekki skírnarnafn, með þessu, af því að faðirinn fær að halda nafninu.

Ég átti tal um þetta við þm., hvað mér fyndist þetta vera sorglegt, að menn skuli vera að fitja upp á þessu máli aftur núna, og hann sagði við mig: „Hugsa sér það, ef hann Gunnar Hansen þyrfti að fella niður nafnið sitt.“ Mér finnst þetta vera eitt gleggsta dæmið um, hvað þetta eru haldlítil rök, sem þarna er verið að tala um. Danir hafa fellt niður þessa gömlu, norrænu nafnareglu, og hver er útkoman? Útkoman er sú, að helmingur danskra karlmanna heitir Hansen, Jensen eða Larsen. Þeir eru að verða að viðundri. Og það á að vera eitthvert óskaplega mikið áfall fyrir Gunnar Hansen, sem er raunverulega ekkert nafn, sérstaklega í Danmörku, af því að þar gleymist nú orðið fornafnið og er bara talað um ættarnafnið. Hansen í Danmörku er nú anzi lítil upplýsing um manninn. (Gripið fram í: En Jón á Íslandi?) Það er rétt, að það hefur verið mikið um endurtekningar á nöfnum á Íslandi, en það er mikið að breytast til hins betra, og það er verið að taka mikið upp af ungu fólki ný nöfn eða endurvekja á nýjan leik nöfn úr okkar fornsögum, sem vel fari í máli og ,eiga vel við og eru þjóðleg. En mér finnst það ekki mikið, þó að Gunnar yrði nú skyldaður til að kalla sig bara Hansson. Ég segi bara þetta sem dæmi. En maður finnur á þessu, þegar svona er slegið fram, hve mikil fásinna þau rök eru, sem verið er að reyna að hleypa undir tillögur eins og þessa. En það eru ákaflega margir, sem halda, að þetta sé bara grín, það sé bara hægt að gera grín að þessu, hvaða máli skipta mannanöfn? En málið er bara ekki svona einfalt. Þetta eru áreiðanlega af þeim málum, sem nú eru á dagskrá, fá mál, sem eru þýðingarmeiri þáttur í því að varðveita okkar tungu en það, að við höldum okkur við hina fornu norrænu nafnareglu.

Það er algerlega út í hött, sem kom fram hjá hv. 5. landsk: þm., að segja, að mannanöfn hafi ekki meiri hættu í för með sér fyrir tunguna heldur en t.d. vörumerkjanöfn, erlend vörumerkjanöfn, og nefndi hann í því sambandi cóca-cóla, pepsi-cóla o.s.frv. Þetta eru nöfn, sem við vitanlega hljótum að hafa eins og fjöldamörg önnur nöfn í hundraðatali, bílanöfnin og allt þess háttar. Þetta eru nöfn, sem við vitanlega verðum að þola í okkar máli. Þau eru að mestu leyti þó bara í töluðu máli í sambandi við alls konar áróður og verzlunarstarfsemi, og þau koma og fara, og einu heimildirnar um þau nöfn eftir á eru þá bara auglýsingar dagblaðanna. Í rituðu máli eru þessi nöfn mjög lítið upp tekin að öðru leyti en því, að Þjóðviljinn hefur gert cóca-cólanafnið að alveg sérstöku uppáhaldsorði í dálkum sínum og gert ítrekaðar tilraunir til þess að gera það að íslenzku skammaryrði. — en það er nú annað mál. En nöfn manna eru allt annars eðlis, og reglan að kenna sig við skírnarnafn föður er eitt af því, sem tengir Ísland og íslenzka menningu og íslenzka tungu við hina fornnorrænu menningu og við forngermanska menningu framar öllu öðru og er mest áberandi og minnir okkur bezt á, hvað Íslandi hefur lánazt að varðveita vel sitt tungumál.

Ég vil eindregið skora á flm. till. á þskj. 351 að draga hana til baka. Það væri sorglegt, ef þessi till. yrði samþ. Það væri sorglegt beinlínis, ef við værum að gera okkur að þeim viðundrum að breyta frá ári til árs þeim skilyrðum, sem við erum að setja fyrir því, að menn verði íslenzkir ríkisborgarar. Ég trúi því ekki, að þessir menn geti haft ánægju af því að láta kasta slíkri rýrð á Alþingi og íslenzku þjóðina og haft gaman af því, að slík till. yrði samþykkt.