08.03.1957
Neðri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (3240)

132. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Rang. og ég höfum leyft okkur að flytja frv. á þskj. 307 um breytingu á sveitarstjórnarlögunum. Þessi breyting okkar felur í sér rétt til handa íbúum sveitabyggðar, þar sem þorp hefur myndazt, til þess að segja skilið við þorpið og stofna annaðhvort nýtt sveitarfélag eða sameinast öðru sveitarfélagi. Þessi réttur er nú ekki fyrir hendi, þar sem svona stendur á, nema hjá þorpinu. Það getur sagt sig úr lögum við hreppinn og gerzt sjálfstætt sveitarfélag, og er það eðlilegur réttur, en sýnist einnig hefði átt að gilda fyrir þá, sem utan þorpsins búa, því að þeir geta af ýmsum ástæðum haft gild rök til þess að vilja losna úr tengslum við þorpið.

Eins og vikið er að í grg., sem fylgir frv. þessu, eru mörg félagsleg viðfangsefni gerólík í þorpum og sveitabyggðum. Af þeim ástæðum er ákaflega erfitt í mörgum tilfellum fyrir íbúa í hreppum, þar sem þannig er ástatt, að byggðin skiptist í þorp og dreifbýli, að standa sameinaðir til átaka um ýmisleg framkvæmdamál, sem í þessu eða hinu tilfellinu snerta aðallega annan hvorn hreppshlutann. Af þessum sökum er það, að víða, þar sem svona hefur staðið á, hafa komið upp óskir um skilnað og sjálfstæði. Hefur þá þorpið eitt samkvæmt gildandi l. haft rétt til slíkra óska og skilnaðar, en íbúar sveitabyggðarinnar ekki.

Nú er skylt að játa það, að nokkur hætta virðist í því fólgin, að stofnuð séu mjög smá sveitarfélög, og hafa um það heyrzt raddir, að sveitarfélögin beri fremur að stækka en smækka og helzt þurfi að steypa hreppum saman til þess að gera þá fjárhagslega sterka. Þetta virðist í fljótu bragði hafa við rök að styðjast. En þó má á það benda, að margir smáhreppar eiga sízt í meiri fjárhagsörðugleikum en þeir, sem stærri eru. Með bættum samgöngum eru nú orðnir möguleikar til samstarfs milli hreppa og hefur tekizt sums staðar um víss málefni, svo sem skólahald, félagsheimili o.fl. En sé nú gert ráð fyrir því, að heppilegt sé að stækka sveitarfélög, þá sýnist mér, að mjög komi til athugunar, þar sem svo stæði á, að sveitabyggð, sem er í sama hreppi og þorp og teldi sér hagkvæmt að skilja við þorpið, væri þá sameinuð nágrannasveit, þar sem möguleikar væru fyrir hendi til þess. Gæti það verið nágrannasveitinni góður liðsauki að fá þannig aukinn fólksfjölda, og þeir, sem þannig bættust við, ættu miklu betur samstöðu með stéttar- og starfsbræðrum en með þorpsbúum, sem starfa að ólíkum viðfangsefnum og hafa af þeim sökum allt önnur viðhorf bæði til atvinnu- og félagsmála. Ég geri því ráð fyrir, ef þetta frv. yrði að l. og óskir kæmu fram einhvers staðar frá, þar sem svo stendur á, sem hér er gert ráð fyrir, að sveitabyggð vildi skilja við þorp, að þá yrði tekin sú stefna af viðkomandi valdhöfum að reyna að sameina þá byggð nágrannahrepp. En þó gæti vitanlega verið um svo stóran hreppshluta að ræða, að hann gæti vel verið sjálfstætt sveitarfélag, og væri þá vissulega skynsamlegt af viðkomandi ráðh. og þeim, sem tillögurétt eiga að hafa í slíku máli, að uppfylla óskir íbúanna í því efni, sem hér er um að ræða.

Í grg. þeirri, sem fylgir frv. þessu, og með þeim fáu orðum, sem ég hef hér um þetta sagt, held ég að fram hafi komið það, sem fyrir okkur flutningsmönnum þessa máls vakir, og vænti ég góðra undirtekta hv. alþingismanna.

Ég leyfi mér svo að óska eftir, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. félmn.