25.03.1957
Neðri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3245)

139. mál, eignarnámsheimild á löndum í Hafnarfirði, Gerðahreppi og Grindavíkurhreppi

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það hefur nú atvikazt þannig, að ég hef ekki átt kost á að sjá þetta frv. fyrr en nú, rétt um það bil sem fundurinn var að hefjast, þannig að ég hef ekki getað kynnt mér það sem skyldi fyrir þessa umr. og þá náttúrlega ekki heldur getað rætt það. hvorki við bæjarstjórann í Hafnarfirði né bæjarstjórnarmenn aðra. En mig langaði þó þegar við þessa 1. umr. að segja um það nokkur orð.

Þegar ég flutti frv. til laga um eignarnámsheimild á nokkrum löndum í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindavíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar, árið 1935, ætla ég að það hafi verið, þá var um málið samkomulag við hv. þáv. þm. G-K. og enn verandi sama hv. þm. um það, hvernig þetta frv. yrði gert úr garði, og það voru þá höfð samráð við þá aðila, að ég ætla flesta, sem málið snerti.

Ég held, að mig rangminni það ekki, að einmitt hv. þm. G-K. hafi sjálfur orðað þá breytingu, sem gerð var á frv. mínu 1935, og orðað hana einmitt eins og hún var síðar samþykkt, að sú greinin, sem hann vill láta fella burt úr þessu frv., sé einmitt frá honum sjálfum komin og hans umbjóðendum til þess að fá um málið samkomulag þá. Mér kemur þess vegna nokkuð á óvart, að það skuli einmitt vera þessi grein, sem hann og hans umbjóðendur fengu setta inn í lögin þá, sem eigi að taka í burt nú.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að þessi lög hafa ekki komið til framkvæmda að öllu leyti, en þó hafa þau komið til framkvæmda að mjög verulegu leyti, því að mikill hluti af þessu landi, sem þarna er um að ræða, hefur verið afhentur Hafnarfjarðarbæ. Það er það land, sem ríkissjóður átti og ekki var ráðstafað áður. Það hefur Hafnarfjarðarbær fengið til umráða, þó að heimildin um innlimun í lögsagnarumdæmið hafi ekki komizt í kring enn. En það hefur orðið, eftir því sem ég veit bezt, nokkur hindrun fyrir því, að landið væri hægt að leigja eins ört og á hefur verið sótt um það. Ég held því, að það mundu verða allmiklir agnúar og annmarkar á því, ef nú ætti að nema í burt þessi ákvæði úr lögunum, sem hér er stungið upp á.

Það stendur í grg. frv., fært sem meginrök fyrir málinu, að þetta landsvæði, sem hér um ræðir, verði eins og nokkurs konar eyja í miðjum Garðahreppi og þess vegna skipti það hreppnum óeðlilega, ef þetta verður haft eins og ákveðið er í núgildandi lögum.

Um það er það að segja, að allur Hafnarfjarðarkaupstaður, eins og hann leggur sig, er eins og eyja inni í miðjum Garðahreppi. Garðahreppur er fyrir norðan hann, austan hann og sunnan hann og allt í kringum hann, en þessi litla landspilda, sem hér um ræðir, er tengd við landsvæði Hafnarfjarðar einmitt í Engidal, svo að hún verður ekkert frekar eyja innan í miðjum Garðahreppi en allur Hafnarfjörður er eyja í miðjum Garðahreppi.

Eins og ég sagði í upphafi, er ég ekki búinn að kynna mér þetta nógu vel til þess að taka endanlega afstöðu til málsins, hvorki til þess, hvort það mundi í einhverju einu formi eða öðru vera hugsanlegt að ná um það samkomulagi, né sem sagt um afstöðu til frv. í heild. En mér finnst þó eins og málið komi mér þannig fyrir sjónir, að lítið athuguðu máli, að ég teldi það mjög andstætt þeim tilgangi, sem ætlað var að ná með frv., sem flutt var 1935, og lögunum, sem samþ. voru og afgreidd 1936.

Ég vildi mjög eindregið leyfa mér að mælast til þess, að sú n., sem fær það til athugunar, hafi, eins og flm. raunar óskaði, samráð við bæjarstjórn og bæjarstjóra Hafnarfjarðar og fái þeirra umsögn um málið, og mun ég að sjálfsögðu, þegar tækifæri gefst, einnig ræða við þá um það. En ég hefði haldið, að lítið athuguðu máli, að það væri heldur ástæða til þess að auka enn meira við lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar en að draga úr þeim möguleikum, sem eru þegar fyrir hendi fyrir aukningu, því að byggðin vex þar mjög ört, og það eru ýmsir sambýlisörðugleikar, sem skapast við það, að þéttbýll er að rísa upp og myndast rétt fyrir utan kaupstaðamörkin, eins og þau eru nú.