25.03.1957
Neðri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3246)

139. mál, eignarnámsheimild á löndum í Hafnarfirði, Gerðahreppi og Grindavíkurhreppi

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég man nú ekki frekar en hv. þm. Hafnf. örugglega, hvað fram fór, þegar þessi lög voru sett. Ég veit þó fyrir víst, að ég hef ekki sjálfur orðað þennan 3. tölulið 1. gr., einfaldlega af því, að ég hef ekki nægan kunnugleika, þó að undarlegt megi kannske heita, til þess að gera það. Ég neita hins vegar engan veginn, ef hv. þm. heldur því fram, að hér hafi verið um að ræða af hans hendi eða okkar hendi beggja tilraunir til þess að sætta þá aðila, sem við erum umboðsmenn fyrir hér á Alþingi, í þessu máli. En að sjálfsögðu er honum ljóst engu síður en mér, að það, sem hefur þótt gott eða viðunandi a.m.k. fyrir 21 ári, getur verið orðið algerlega óviðunandi fyrir annan aðilann og jafnvel óhagstætt báðum nú, þegar svo langur tími er liðinn, og það á jafnörlagaríkum breytingatímum og þetta 21 ár er.

Ég minnist svo aðeins á, að gefnu tilefni, að í grg., sem raunar er ekki samin af mér, segir, að ef nefnd lönd verði sameinuð lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar, muni þau mynda tvær eyjar inni í miðjum byggðum Garðahrepps. Þó að það sé rétt, að Hafnarfjarðarkaupstaður er umluktur Garðahreppi á alla vegu, þá er það heldur ólánlegt að hafa þarna tvær nýjar eyjar inni í Garðahreppi í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Það sker auðvitað ekki úr málinu, en heldur er það ólánlegt.

Ég tek svo alveg undir óskir hv. þm. Hafnf., sem ég raunar hafði látið í ljós, að bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar, annaðhvort beinlínis eða fyrir milligöngu hv. þm., verði nánar umspurð um þetta. En ég hef það eftir kunnugum manni, að þær raddir munu hafa heyrzt frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, að það væri meira en hæpið, hvort Hafnarfjörður óskaði svo sérstaklega nú eftir, að þetta land yrði innlimað, og vildi ég, að það mætti satt reynast, því að það auðveldar að sjálfsögðu mjög málið, ef Hafnarfjörður hefur ekki óskir um að halda landinu, en hinir hafa bæði ríka þörf og óskir um það.

Ég vil svo aðeins leyfa mér að mælast til þess, að málið verði ekki tafið, enda Garðahreppsbúum mikil nauðsyn að vita sem fyrst, hvað verða á í þessum efnum.