02.04.1957
Neðri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3252)

144. mál, Búnaðarbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er flutt, er í sjálfu sér mikið nauðsynjamál. En að leysa það á þennan hátt, sem hér er gert ráð fyrir, er vitanlega nákvæmlega það sama og láta málið óleyst með öllu. Það er ekki svona einfalt að leysa það mál að útvega peninga til veðdeildarinnar, og raunverulega sagði hv. þm. A-Húnv. þetta sjálfur. Hann sagði: Það var tvíflutt frv. af mér og hv. 2. þm. Skagf. um stofnlánadeild núna seinustu fimm árin, og þessi frv. náðu ekki fram að ganga. En af því mætti hann ráða það, hvað þýðingarlítið er því miður að flytja svona mál. Hann sagði að vísu, að það virtist ekki vera neinn skilningur á því hjá hv. núv. stjórnarflokkum að leysa þetta mál. Það er vitað mál, að það er miklu erfiðara með lánsfjárútvegun núna en var á seinustu fimm árum, og það þarf ekki að fara í neinar grafgötur til þess að fá þann fróðleik, þar sem hann liggur nú fyrir í greinilegri yfirlýsingu frá þjóðbankanum og sú skýrsla hans hefur verið birt í blöðum undanfarið.

Það er því miklu erfiðara nú en hefur verið á seinustu fimm árum að útvega lánsfé, bæði til veðdeildarinnar og annarra þarfa, og stafar það af ýmsu, m.a., að við höfum sett mikið af okkar fjármunum fast í framkvæmdir. En af þessu mætti hv. þm. sjá, hvað það er tilgangslítið að flytja þetta mál á þennan hátt, því að sjálfsagt vill hann halda því fram, að það hafi verið hjá fyrrverandi stjórnarflokkum fullkominn velvilji fyrir því að leysa þetta mál með stofnlánadeildina, sem er í sjálfu sér alveg hliðstætt mál og um veðdeildina, og það hafi verið fullkominn vilji fyrir því að leysa málefni veðdeildarinnar undanfarin ár, þegar flutt var um það frv. af hv. þm. Borgf. Það þótti ekki fært. Málin voru svæfð í öll þessi skipti, og þó voru meiri möguleikar til lánsfjárútvegunar og sjálfsagt, eftir því sem hv. þm. vill halda fram, meiri vilji til þess að leysa málið. En svona fór um allar þessar sjóferðir, og svona fór jafnframt um frv., sem kom frá hv. 1. þm. Árn. um úrlausn í þessu efni. Fyrrv. stjórn setti dálítinn „píring“ í veðdeildina, ef ég man rétt, einu sinni frekar en tvisvar, eins og hv. þm. rakti. En það tókst aldrei á undanförnum árum að leysa þetta mál. Þess vegna eru náttúrlega miklir erfiðleikar á því núna. Í sjálfu sér vitum við, að það vantar í flesta sjóði, sem lána út fjármuni, vantar tilfinnanlega lánsfé, þó að það sé kannske hvergi eins tilfinnanlegt og þarna í veðdeildinni, því að það er ekki neinn vafi, eins og ég sagði í upphafi, að þarna þrengir skórinn mjög að. En engum okkar dettur í hug, þó að það vanti peninga í verkamannabústaði, vanti peninga til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum eða vanti peninga í húsbyggingamálin yfirleitt, að setja það fram á þann einfalda hátt að flytja frv. um, að þetta skuli lagt úr bæjarsjóði eða ríkissjóði, flytja það í bæjarstjórn Rvíkur eða hér á Alþingi. Það þarf vitanlega að afla fjár, til þess að frv. verði eitthvað meira en nafnið. Þar sem maður veit, að fjárlög eru núna afgreidd þannig, að ekki eru líkur fyrir tekjuafgangi, þá þarf vitanlega að afla fjár til þessa.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, vegna þess að af þessum ástæðum, sem ég hef sýnt, og eins og saga þeirra frv., sem hafa verið flutt á undanförnum árum um þessi mál, sýnir og hv. þm. sjálfur rakti, verður málið vitanlega ekki leyst á þennan veg. En eins og ég hef lýst yfir áður og eins og hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir, er verið að vinna að því að reyna að leysa þetta mál og það á þann hátt, að það komi að einhverju gagni, m.ö.o. að útvega peninga, sem veðdeildin geti fengið til útlána, og það mál vona ég að leysist núna næstu vikur. Og það er raunverulega þessi hlið á málinu, sem er vandinn, það er að útvega fjármunina, því að við erum sjálfsagt, — ég efast ekkert um það, — bæði flm. þessa frv. og stjórnarflokkarnir, sammála um, að það þarf að leysa þetta mál og leysa það raunverulega, en ekki með frv., sem leysir því miður ekki neitt.