05.04.1957
Neðri deild: 81. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

152. mál, breyting á íþróttalögum

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Með frv. því til breytinga á íþróttalögum, sem hér er til umr., er lagt til, að íslenzk glíma verði gerð að skyldunámsgrein í barnaskólum. Þar með er ætlunin að tryggja, að allir heilbrigðir drengir læri glímu í bernsku, og ætti það að verða glímunni allmikil lyftistöng í framtíðinni, ef vel tekst.

Hér er ekki aðeins um íþróttamál að ræða, heldur einnig þjóðernislegt menningarmál. Glíman er sérstæður þáttur í hinum íslenzka arfi, þáttur, sem þjóðin hefur ekki ráð á að glata. Íslenzka glíman er sérkennileg og fögur íþrótt. Hún ber af flestu því, sem nútímaþjóðir kalla glímu, eins og gull af eir. Hún er göfgandi fyrir margra hluta sakir. Aflið eitt fær ekki ráðið, heldur valda lipurð, snerpa, kunnátta og skjót hugsun miklu um leikslok, og glíman þroskar drenglund. Ein af öllum tungum veraldar, sem menn þekkja til hér á landi, á íslenzkan orðið bræðrabylta, og bregður það eitt miklu ljósi á anda glímunnar.

Enda þótt glímunni hafi hnignað mjög frá því, sem áður var hér á landi, hefur hún átt marga áhugamenn, sem mikið hafa lagt í sölurnar fyrir hana. Það er gamalt og heitt áhugamál Íþróttasambands Íslands og ungmennafélaganna að gera glímuna að skyldunámsgrein í skólum á svipaðan hátt og sundið er. Enda þótt svo hafi ekki orðið fyrr, virðast nú vera fyrir hendi aðstæður til að gera þennan gamla draum íþróttamanna og ungmannafélaga að veruleika.

Þótt glíman hafi ekki verið skyldunámsgrein í skólum, hefur það ákvæði staðið í lögum, að gefa skuli nemendum kost á glímukennslu. Hafa margir áhugamenn, bæði íþróttafulltrúi og fjölmargir kennarar, unnið af miklum og lofsverðum áhuga að málefnum glímunnar í skólum. Hefur glíma verið kennd á allmörgum stöðum, og mun reynsla kennaranna vera sú, að drengir taki kennslunni mjög vel og fái fljótlega áhuga á henni. Ef sú breyting nær fram að ganga, sem hér er farið fram á, mega þessir áhugamenn líta á það sem viðurkenningu Alþingis á störfum þeirra, og glímuskyldan ætti að verða þeim byr undir báða vængi í starfinu.

Sá kostur hefur verið valinn að ráði þrautreynds glímukennara að leggja glímuskylduna á árgangana 10 og 11 ára. Þykir ekki ástæða til að láta skylduna ná yfir fleiri ár. En það er að sjálfsögðu vandalaust fyrir íþróttakennara á öllum stigum skólanna fyrir ofan þennan aldur að halda áfram glímukennslu, þegar grundvöllur hefur verið lagður að nokkurri glímureynslu pilta svo snemma. Er full ástæða til að ætla, að glímt verði áfram, þegar einu sinni er byrjað á því.

Glímuna má kenna á tvennan hátt, annaðhvort sem hluta af fimleikanámi eða í sérstökum námskeiðum. Glíman getur prýðilega átt heima með fimleikakennslunni, enda henta henni allar aðstæður, sem þeirri kennslu eru búnar, nema hvað beltum þarf að bæta við. Er það venja fimleikakennara að hafa sameiginlegar fimleikaæfingar fyrstu 10–20 mínútur hverrar kennslustundar, en taka síðan upp aðra leiki, stundum fimleika á slá, í hringum, rimlum, á dýnu eða hesti eða t.d. handknattleik. Í þessum seinni hluta kennslustundanna ætti að vera vandalítið að taka glímuna með og þá um leið mjög kostnaðarlítið.

Það er látið í vald fræðslumálastjórnarinnar að ákveða, hvort þessi kennsluskipan verður á höfð eða glíman kennd í sérstökum námskeiðum, svo og er það látið í vald fræðslumálastjórnarinnar að ráða fram úr mörgum framkvæmdaatriðum þessa máls. Virðist það vera skynsamlegast, að framkvæmd glímukennslunnar verði mótuð eftir aðstæðum í höndum reyndra og glöggra manna, sem um þessi mál fjalla. Gert er ráð fyrir, að glímukennslunni fylgi lítil bók, sem piltar lesi. Er ekki ætlazt til, að þetta sé ýtarleg kennslubók, heldur skal hún kynna nemendum forsögu og anda glímunnar, jafnframt því sem þeim verði kennd nokkur undirstöðuatriði og glímureglur. Ekki þyrfti þetta að vera fyrirferðarmikið lestrarefni, en æskilegt er, að það sé nokkuð.

Vera má, að íþróttakennurum skólanna sé nokkur vandi á höndum fyrst í stað, ef frv. þetta verður að lögum. Hefur þess ekki verið krafizt af þeim hingað til, að þeir kenndu glímu, enda þótt fjölmargir þeirra hafi gert það og fleiri geti það vafalaust. Er því gert ráð fyrir námskeiðum fyrir kennarana, ef þess gerist þörf.

Hitt eru flm. þessa máls sannfærðir um, að íþróttakennarastéttin muni veita þessu máli stuðning sinn, eins og hún hefur lyft öðrum íþróttagreinum til almenns vegs og virðingar með því að kenna þær æskunni í skólum landsins. Með fulltingi íþróttakennara getur mál þetta borið þann árangur, að ný endurvakning glímunnar hefjist og hún verði í framtíðinni eign alls þorra landsmanna, eins og sundið er nú að verða.

Má þess þá vænta, að hið þrotlausa starf áhugamanna fyrir glímunni komist á nýjan grundvöll og íslenzka glíman haldi örugglega áfram að vera einn af gimsteinum íslenzkrar menningar hjá komandi kynslóðum.

Að lokum legg ég til, að málinu sé vísað til menntmn.