10.04.1957
Neðri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (3263)

153. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Frv. það, sem við flytjum, hv. 3. þm. Reykv. og ég, á þskj. 408. var flutt hér í hv. deild á síðasta Alþingi af sömu þingmönnum ásamt Sigurði Guðnasyni. Frv. var samþ. til 2. umr. og til heilbr.- og félmn. Meiri hl. n. skilaði ekki áliti um málið, en minni hlutinn, núv. hæstv. félmrh., mælti með því, að það væri samþykkt, en málið fékkst ekki tekið fyrir hér í hv. deild. Áhugi hv. alþm. fyrir þessu mikla hagsmunamáli togarasjómanna var því miður ekki meiri þá.

Frá því á síðasta Alþingi, þegar þetta mál var til umræðu, má segja, að margt hafi breytzt. M.a. vildi ég leyfa mér að benda á, að hér í hv. Alþingi hefur komið fram í ræðum allmargra hv. alþm. allmikill áhugi fyrir bættum kjörum sjómannastéttarinnar almennt og því m.a. óspart á lofti .haldið, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í sambandi við skattafrádrag sjómanna að tilhlutan hæstv. ríkisstj., hafi verið lítilfjörlegar og að skattafríðindi til handa sjómönnum hefðu átt að vera meiri.

Ég mun nú ekki í sambandi við þetta frv. ræða um skattafríðindi út af fyrir sig til handa sjómönnum, enda er það mál afgreitt nú að þessu sinni. Ég minni aðeins á þetta nú í von um, að það frv., sem nú liggur fyrir til 1. umr. hér, fái betri afgreiðslu nú á þessu þingi en í fyrra. Í framsöguræðu um málið gat 1. flm. frv., hv. núv. 3. þm. Reykv., þess, að á síðasta flokksþingi Sósfl., þar sem miklar umræður urðu um vandamál sjávarútvegsins og þá alveg sérstaklega um þau vandræði útgerðarmanna og annarra eigenda togaranna og annarra fiskiskipa um að manna togaraflotann nægilega dugandi íslenzkum sjómönnum, hafi einn af fulltrúum þingsins, Guðmundur J. Guðmundsson, núv. starfsmaður Dagsbrúnar, komið fram með þá uppástungu, hvort ekki mundi tiltækilegt að koma á lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn í svipuðu formi og embættismenn nú njóta. Þessi verkamaður þekkir mætavel til lífs togarasjómanna. Sjálfur er hann sonur togarasjómanns, sem í áratugi hefur unnið á íslenzkum togara. Þessari uppástungu var að sjálfsögðu vel tekið og þá þegar ákveðið að fela þingmönnum Sósfl. að vinna að framgangi málsins á Alþingi. Upplýst er enn fremur, að hugmynd um stofnun lífeyrissjóðs togarasjómanna hafi þá verið allmikið rædd meðal togarasjómanna.

Hv. 3. landsk. sagði m.a. í framsöguræðu um málið í fyrra, með leyfi hæstv. forseta: „Ég átti m.a. nýlega tal við formanninn fyrir Sjómannafélagi Akureyrar, Tryggva Helgason. Hann sagði mér frá því, að togarasjómenn á Akureyri hefðu rætt þetta mál um nauðsynina á lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn allmikið hjá sér, og stjórn Sjómannafélags Akureyrar hafði síðan rætt þetta mál við stjórn útgerðarfélagsins þar á Akureyri, en það mál verið fellt í útgerðarfélagsstjórninni.“

Síðan þetta mál var flutt hér á Alþingi, hefur málið mikið verið rætt meðal togarasjómanna og á áreiðanlega miklum vinsældum að fagna meðal þeirra. Mér er enn fremur kunnugt um, að stjórnendur Sjómannafélags Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Siglufjarðar, Akureyrar og Ísafjarðar og viðar hafa lýst sig samþykka hugmyndinni um lífeyrissjóð togarasjómanna, og mörg önnur verkalýðssamtök hafa. lýst yfir fullum stuðningi sínum við frv. Það er því engum vafa undirorpið, að þetta mál nýtur fyllsta stuðnings verkalýðshreyfingarinnar almennt og ég vil segja alþjóðar. Mönnum er nú máske frekar en áður farið að skiljast það, hvers virði sjómennirnir eru fyrir íslenzku þjóðina og fjárhagslega afkomu almennings í þessu landi. Ég minni hér á, að um 1200 togarasjómenn afla um helming alls fisks, sem Íslendingar veiða, eða nánar tiltekið 1/5 hluti sjómannastéttarinnar aflar þessara verðmæta.

Það ætti að vera óþarft að rökstyðja sérstaklega þá miklu þörf og ég vil segja lífsnauðsyn fyrir þjóðina, að hægt sé á hvaða tíma sem er að tryggja dugandi sjómenn á fiskiflotann.

Þessir 1200 menn, sem á togurunum eru, standa undir stórum hluta af okkar útflutningsverðmæti eða sem næst 400–500 millj. kr.

Ég tel óþarft að ræða eða fjölyrða hér um þörf togaramannanna sjálfra fyrir, að þessum málum verði komið í framkvæmd, hún er svo augljós hverjum þeim, sem vill hugsa raunhæft um málið.

Ég þykist vita, að hv. Alþingi telji það sjálfsagða skyldu sína að hlynna frekar en gert hefur verið að hinum ýmsu hagsmunamálum sjómannastéttarinnar, og nú með flutningi þessa frv. gefst alveg sérstakt tækifæri til þess.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir betri og skjótari tryggingu sjómönnum til handa hvað lífeyrissjóð snertir en hjá opinberum starfsmönnum. Það er gert ráð fyrir, að lífeyririnn hækki fyrr með starfsaldrinum. Áður fyrr, á meðan hvíldartíminn var styttri, og jafnvel áður en vökulögin voru til, voru fjölmargir togarasjómenn orðnir útslitnir menn eftir 15–20 ára starf á sjónum. Þetta er svo kunnugt öllum, sem eitthvað hafa fylgzt með þeim málum, að óþarft er að ræða frekar um það atriði. En á þessu hefur orðið allmikil breyting til batnaðar, eftir að hvíldartíminn hefur verið lengdur. Hins vegar er vinnan á togurunum það erfið, að menn verða útþrælkaðir með því að stunda í tugi ára togarasjómennsku og verða þreyttari og útslitnari en flestir aðrir, sem erfiðisvinnu stunda. Þess vegna er sjálfsagt að reikna með því, að lífeyririnn hækki fyrr hjá togarasjómönnum en t.d. hjá embættismönnum.

1. gr. frv. mælir svo á um, að stofna skuli sérstakan sjóð til þess að tryggja togarasjómönnum, er láta af störfum vegna elli eða vanheilsu, lífeyri svo og ekkjum þeirra og börnum. Rétt er og að lána togarasjómönnum úr slíkum sjóði til húsbyggingar handa þeim sjálfum með góðum kjörum. Ríkissjóður leggi lífeyrissjóði togarasjómanna sem stofnfé 2 millj. kr., Landsbanki Íslands 2 millj. kr., Útvegsbanki Íslands 1 millj. kr. Það virðist allt mæla með því, að aðalbankar þjóðarinnar láti töluvert af mörkum sem stofnfé í sjóðinn, þegar það er m.a. haft í huga, að mikinn hluta af gróða sínum fá bankarnir beint eða óbeint í gegnum útgerðina og fyrir starf sjómannastéttarinnar.

Þá er og gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 6% af heildarkaupi hvers togarasjómanns, sem er hlutgengur sem aðili í lífeyrissjóði, á móti 1% af heildarkaupi sjómannsins. Ég býst við, að framlag sjómannanna þyki of lágt, og væri sjálfsagt hægt að ná samkomulagi um hærra framlag frá togarasjómönnum til sjóðsins. Þá er gert ráð fyrir, að togaraeigendur greiði 3% af heildarkaupi því, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins.

4. gr. frv. er um, hvernig stjórn sjóðsins skuli skipuð, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn sjóðsins skal skipuð þrem mönnum.

Einn skal tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, og skal hann vera form. stjórnarinnar, annar af ríkisstj. og hinn þriðji kosinn af sjóðfélögum eða félagsskap þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Skipunar- og kjörtími stjórnar er þrjú ár.“

Ég hef hér að nokkru rætt um þær tekjur, sem lífeyrissjóði er ætlað að fá sem stofnfé og árlegar tekjur. Um greiðslur úr sjóðnum mun ég ekki ræða neitt að ráði, enda er þar farið að miklu leyti eftir þeim greinum í lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Þó er farið inn á nýjar brautir að nokkru leyti.

Gert er ráð fyrir í 7. gr., að að fimm árum liðnum skuli lögin endurskoðuð, og ætti það ákvæði að tryggja þá galla, sem kunna að vera á frv. frá líftryggingarsjónarmiði, enda ekki ætlazt til samkv. 10. gr. frv., að greitt verði úr lífeyrissjóðnum, fyrr en menn hafa verið fimm ár á togurum eftir gildistöku þessara laga.

Það er því engin hætta á taprekstri hjá lífeyrissjóði, þó að úr honum verði lánað mjög fljótt, þar sem endurskoðun laganna er ákveðin eftir aðeins fimm ár. Allir vita, hve mikil hlunnindi það eru fyrir opinbera starfsmenn, að þeir geti fengið lán úr sínum lífeyrissjóðum til húsbyggingar. Eins mundi það verða mjög hagkvæmt fyrir togarasjómenn að eiga kost á að fá lán úr sínum lífeyrissjóðum til íbúðarhúsabygginga, enda alveg sérstök nauðsyn að aðstoða þá með slíkt. Sjómenn eiga allra verkamanna erfiðast hvað þetta snertir. Landverkamenn geta á margan hátt unnið við að koma upp þaki yfir höfuðið, eins og það er kallað, og leggja mjög mikið á sig í þeim efnum, þræla jafnvel oft og tíðum myrkranna á milli við hús sín, en starfandi sjómenn á hafi úti hafa enga aðstöðu til slíks.

Þegar togari kemur að landi með afla sinn, stanzar skipið í fæstum tilfellum lengur en einn sólarhring. Geta því allir séð örðugleikana, sem á því eru fyrir sjómennina að vinna sjálfir að því að byggja sér hús. Þeir hafa enga aðstöðu til þess að nota sinn eigin vinnukraft á sama hátt og þeir, sem í landi búa. Fyrir því er það réttlætismál og um leið þjóðarnauðsyn, að þessum mönnum verði séð fyrir viðunandi lánum með góðum kjörum til íbúðarhúsabygginga.

Ekki má þó skilja orð mín á þann veg, að ég telji ekki nauðsynlegt, að útveguð séu lán til annarra íbúðarhúsabygginga. Síður en svo. Lán til íbúðarhúsabygginga almennt séð er stórt þjóðfélagsvandamál, sem verður að leysa fyrr eða síðar, og ég held, að um það séu flestir sammála.

Við flm. þessa frv. erum sannfærðir um, að samþykkt þess mundi verða til þess m.a. að tryggja togaraeigendum góða og örugga togarasjómenn og tryggja það um leið að sýna togarasjómönnum, sem búa á margan hátt við ekki aðeins erfiða atvinnu, erfiðasta atvinnu allra íslenzkra verkamanna, heldur líka þær sérstæðu aðstæður að vera lengur fjarri heimilum sínum en nokkrir aðrir þegnar þjóðfélagsins, hvort Alþingi metur vinnu þeirra og starf og hve þjóðfélagið leggur mikið upp úr því að geta haldið hverjum dugandi sjómanni, sem á togara fer, sem allra lengst, og að þjóðfélagið vilji búa sem bezt að þeim og aðstandendum þeirra og sýna það með verki, og enn fremur, að það kunni að meta verk þeirra að verðleikum.

Það mætti segja og það með fullkomnum rökum máske, að aðrir fiskimenn, t.d. þeir, sem vinna á mótorbátaflotanum, ættu að verða aðnjótandi slíkra eða líkra fríðinda og frv. þetta gerir ráð fyrir til handa togarasjómönnum. Því er til að svara, að þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir lífeyrissjóði togarasjómanna. Hins vegar er það álit okkar, sem að þessu frv. stöndum, að það sé fyllilega tímabært að athuga um lífeyrissjóð fyrir fleiri, t.d. bátasjómenn, þó að við á þessu stigi málsins teljum rétt að láta þetta mál togarasjómannanna ganga fyrir öllu öðru.

Það er sannarlega mikið alvörumál fyrir okkur Íslendinga, hve fáir menn vilja gera það að lífsstarfi sínu að verða sjómenn. Þjóð eins og okkur Íslendingum, sem eigum jafnmikið undir sjósókn og veiðiskap á hafi úti, verður að skiljast það og jafnframt sýna það í verki, hvers virði dugmikil sjómannastétt er fyrir okkar fámenna þjóðfélag. Þessi stétt framleiðir eða aflar verðmæta, sem nema hvorki meira né minna en 90–95% af öllum þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir útfluttar vörur. Nú er svo komið, að á fiskiflota okkar, togurum og mótorbátum, eru mörg hundruð útlendinga, — það er reyndar ekki nýtt fyrirbrigði, þetta hefur verið áður, — sem við verðum vitanlega að greiða að miklu leyti kaup í erlendum gjaldeyri. Þetta ástand verður að breytast. Við getum ekki til frambúðar treyst á það, að hægt verði að manna út fiskiskip okkar með erlendum fiskimönnum. Eina varanlega úrræðið á þessu sviði er það, að við búum þannig að okkar sjómannastétt, að það verði eftirsótt fyrir dugandi unga menn að gerast sjómenn. Í þessu liggur m.a. aðallausnin.

Þetta frv., sem liggur hér fyrir, ætti, ef að lögum yrði, að verða stór áfangi á þeirri leið, sem fara verður til þess að tryggja það, að nægilega margir dugandi og hraustir íslenzkir menn fáist til þess að gera það að lífsstarfi sínu að verða togarasjómenn.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að vonast til þess, að hv. alþm. og hæstv. ríkisstjórn taki þessu frv. okkar með velvild og skilningi. Að lokum vil ég svo leyfa mér að leggja til við hæstv. forseta, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til heilbr.- og félmn.