24.01.1957
Efri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3293)

88. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem er í fimm greinum, felur ekki í sér eins miklar breytingar á lögum um sýsluvegasjóði og ætla mætti við fyrstu sýn, þegar á það er litið, hvað texti frv. er langur. En ástæðan til þess er sú, að upp í frv. eru teknar breytingar á lögum um sýsluvegasjóði, sem gerðar voru með lögum nr. 50 17. maí 1947 og lögum nr. 41 4. apríl 1956, enda ætlazt til þess, að þau lög falli úr gildi, ef þetta frv. verður að lögum.

Einasta efnisbreytingin, sem frv. felur í sér, er sú, að innheimta sýsluvegasjóðsgjaldsins, sem nú er í höndum sýslumanna og innheimt er með þinggjöldum, færist til oddvita hvers hrepps, enda greiði þá oddviti gjaldið til gjaldkera sýsluvegasjóðs á manntalsþingi, en sýslumenn annast vörzlu sýsluvegasjóða, afgreiðslu og bókhald þeirra, eins og kunnugt er.

Hér er þó þess að gæta, að í mjög mörgum hreppum er sýsluvegasjóðsgjaldið greitt beint úr sveitarsjóði og fjárins aflað með útsvörum. Þar sem þessi tilhögun tíðkast, er ekki sérstakt sýsluvegasjóðsgjald lagt á einstaklinga. Nú orðið er þessi háttur viðhafður t.d. í 10 af 12 hreppum Eyjafjarðarsýslu. Lagabreytingin, sem frv. ráðgerir, snertir því þessa hreppa ekki. Þar sem sýsluvegasjóðsgjaldið er innheimt af einstaklingum sem hundraðshluti af fasteignamati, verkar hin fyrirhugaða breyting þannig, að hún léttir starfi af skrifstofu sýslumanna í sambandi við manntalsbókargerð og ritun þinggjaldsreikninga og reikningsskil á skattinum.

Á þessu tel ég fulla þörf, og með þessu er stefnt í þá átt, að manntalsþing geti orðið haldin fyrr en ella og skattheimtan byrjað fyrr á ári hverju en nú tíðkast víðast hvar. Að vísu þarf að breyta ýmsu fleiru í sama skyni, en þetta frv. er einn liður í ráðstöfunum, sem að því miða, á sama hátt og frv. um fasteignaskatt, sem er líka á dagskrá hér í d. í dag. Í grg. frv. er á það bent, að þessi breyting miði að því að auðvelda notkun hraðvirkra bókhaldsvéla við gerð manntalsbóka og ritun þinggjaldsreikninga með því að fækka um einn dálk í manntalsgjaldabók og sjóðbók sýslumanna, en jafnvel þar sem ekki er um að ræða notkun slíkra véla, tel ég breytinguna æskilega og vænti þess, að frv. fái stuðning hv. þdm.

Þetta frv. er borið fram af hv. fjhn. deildarinnar, og n. hefur þegar athugað það. Er því einungis lagt til, að því verði vísað til 2. umr.