15.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Rannsókn kjörbréfa

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það liggur hér fyrir till. frá hv. þm. Sjálfstfl. í öllum kjördeildum þingsins um að ógilda kjörbréf fjögurra hv. þm. Alþfl. Umr. um þessa till. hafa nú staðið dögum saman, að segja má, og þingsetning stendur enn yfir og virðist ætla að taka allt að vikutíma að þessu sinni, en fyrr en þingsetningarfundi þeim, sem enn stendur yfir, er lokið, getur þingið ekki tekið til starfa.

Það má segja, að hér sé að vísu um óvenjulegt mál að ræða. Alþingi hefur aldrei áður ógilt kjörbréf landskjörinna þm., sem út hafa verið gefin af landskjörstjórn til handa svonefndum uppbótarþm., en þeir hafa átt sæti á Alþingi í meira en 20 ár samkv. ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga. Mér vitanlega hefur heldur aldrei komið fram till. á Alþingi um ógildingu slíkra kjörbréfa. Úthlutun uppbótarþingsætanna samkv. ákvæðum kosningalaga og stjórnarskrár og eftir úrslitum alþingiskosninga hverju sinni er í sjálfu sér mjög einfalt reikningsdæmi, og það er ólíklegt, að svo glöggum mönnum sem allajafna skipa landskjörstjórn geti fatazt um þann útreikning, enda er það svo, að ég er ekki viss um, að í ákvæðum kosningalaganna sé beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika, að Alþingi ógildi kjörbréf landskjörins þm. eða uppbótarþingmanns, sem landskjörstjórn hefur úthlutað þingsæti.

Í 19. kafla kosningalaganna, 142. og 143, gr., eru þau ákvæði, sem í kosningalögunum felast yfirleitt um úrskurð Alþingis um gildi kosninga. Í hópi hv. ræðumanna Sjálfstfl. um þetta mál eru menn, sem eru vel fróðir um þessi efni. En það ber svo undarlega við, að ég hef ekki orðið þess var, að neinn þessara löglærðu manna hafi nefnt þær greinar eða þau ákvæði kosningalaganna, sem eigi við þetta tilfelli, að Alþingi ógildi kjörbréf landskjörins þm. eða þingmanna. Ég verð að segja, að mér hefði ekki þótt úr vegi, þegar svo löglærðir menn tala sem hér hafa rætt þetta mál, að þeir hefðu bent á þau ákvæði 142. gr. kosningalaganna, sem þeir telja að eigi við um þetta sérstaka tilfelli, ógildingu Alþingis á kjörbréfi landskjörins þm. Það væri fróðlegt að heyra skoðun þessara hv. þm. á þessu atriði. Mér virðist, að það gæti ef til vill varpað ljósi yfir það, hvernig með þetta mál skuli fara að dómi hv. tillögumanna í framhaldi af ógildingu kjörbréfanna, ef hún yrði ofan á hér á hv. Alþingi.

Hv. þm. Sjálfstfl, hafa heldur enga till. flutt um það, hvernig með skuli fara, eftir að hin umdeildu fjögur kjörbréf hafa verið ógilt. Ég vil því leyfa mér að beina til hinna löglærðu hv. þm. Sjálfstfl., sem mest ræða þetta mál, einni eða tveimur spurningum um formshlið málsins. Í fyrsta lagi vil ég spyrja: Samkv. hvaða ákvæðum 142. gr. kosningalaganna ber Alþingi að ógilda hin umdeildu kjörbréf? Í þessari grein laganna eru, eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt, beinlínis talin upp þau atriði kosninga og þær misfellur á kosningum, sem geta varðað ógildingu af hálfu Alþingis, og hvaða atriði í kosningum skuli beinlínis varða ógildingu Alþingis. Mér virðist liggja nærri að ætla eftir orðalagi þessarar greinar, að löggjafinn hafi ætlazt svo til, að þessi upptalning væri tæmandi. Og ég er ekki alveg viss um með sjálfum mér, að neitt af ákvæðum þessarar greinar eigi beinlínis við það tilfelli, sem hér liggur fyrir, að Alþ. ógildi kjörbréf landskjörins þm. Ég veit að vísu vel af 146. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að Alþ. úrskurði um kosningu þingmanna. En það má líka benda á, að öll ákvæði stjórnarskrárinnar um kosningar til Alþ. vísa til kosningalaganna og nánari ákvæða kosningalaga um þau.

Í öðru lagi vil ég spyrja, og það skiptir raunar meira máli: Hvaða afleiðingar ætlast þeir hv. þm., sem standa að þeirri till., sem hér liggur fyrir um ógildingu kjörbréfa, til að hún hafi? Hvað ætlast þeir til að gerist, eftir að Alþ. hafi ógilt kjörbréfin? Mér virðist, að svar við þessari spurningu snerti beinlínis kjarna þessa máls, en ég held, að hv. ræðumenn Sjálfstfl. hafi nokkuð sneitt hjá því í sínum mörgu og löngu ræðum að gefa svar við þessari spurningu. Og um þetta, hvað eigi að gerast, eftir að Alþ. hefur ógilt kjörbréfin, hafa þeir enga till. flutt. Það er víst.

Það er ekkert lítið atriði í þessu máli, hvaða þýðingu ógilding kjörbréfanna, sem hér ræðir um, á að hafa, ekki einungis fyrir skipun þessa nýkosna Alþingis, heldur fyrir framtíðina. Telja hv. þm. Sjálfstfl., að með ógildingu þessara kjörbréfa sé öllu réttlæti fullnægt? Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) lét orð falla í síðustu ræðu sinni hér áðan á þá leið, að svo virtist sem hann teldi, að aðeins ef þessi umdeildu kjörbréf væru ógilt, þá væri öllu réttlæti fullnægt í þessum málum. En ég verð að efast um, að með ógildingu þessara umdeildu kjörbréfa verði sett af Alþingis hálfu það fordæmi, sem tryggi réttari meðferð slíkra mála í framtíðinni, en það virðist mér aðalatriði þessa máls.

Hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa í ræðum sínum um þetta mál mjög deilt á okkur þm. Alþýðubandalagsins fyrir það, að við munum ekki fylgja till. þeirra um ógildingu hinna umdeildu kjörbréfa. Um þessa afstöðu þingmanna Alþýðubandalagsins hafa hv. sjálfstæðismenn farið hinum hörðustu orðum, talið hana svik við afstöðu flokksins í kosningunum í sumar, svik við kjósendur, og raunar hafa þeir kveðið miklu harðar að orði, sem ég sé ekki ástæðu til að hafa eftir.

Það er rétt, að Alþýðubandalagið fordæmdi fyrir kosningar úrskurð landskjörstjórnar 28. maí s. l. og taldi hann rangan. En ábyrgð á þeim úrskurði báru og bera fulltrúar Sjálfstfl. í landskjörstjórn. Alþýðubandalagið og þm. þess fordæma enn þennan úrskurð og telja hann rangan. En hv. 3. þm. Reykv. hefur í þessum umræðum þegar gefið yfirlýsingu og flutt grg. af hálfu þingflokks Alþýðubandalagsins um afstöðu þingflokksins til þessa máls og þeirrar till., sem hér liggur fyrir. En ef allir hv. þm. Sjálfstfl. fordæma sem einn maður þá niðurstöðu, sem í þessum úrskurði fólst, og það liggur fyrir í grg. þingmanna Alþb., að þeir fordæma hana í sjálfu sér einnig, þá liggur það fyrir, að meiri hluti Alþingis er andvígur þeim skilningi, sem kom fram í úrskurði landskjörstjórnar. Það liggur því fyrir, að þessi úrskurður verður í sjálfu sér ekkert í fordæmi eða fyrirmynd, jafnvel þótt þeir fjórir þm., sem hafa hlotið kjörbréf samkv. honum, taki nú sæti á Alþ. Það verður ekki vitnað til þess, að meiri hluti Alþ. hafi fallizt á úrskurð landskjörstjórnar, jafnvel þó að þessi kjörbréf verði tekin gild að svo stöddu. Í þeirri afstöðu er því engin réttlæting á niðurstöðu þessa úrskurðar, sem vitnað verði til síðar sem fordæmis. En ógilding hinna umdeildu kjörbréfa ein út af fyrir sig er engin lausn á því deilumáli og því stjórnskipulega vandamáli, sem kom upp með kosningabandalagi Alþfl. og Framsfl. fyrir kosningarnar í sumar og með úrskurði landskjörstjórnar um það hinn 28. maí s. l. Ógilding kjörbréfanna ein út af fyrir sig hefur enga teljandi pólitíska þýðingu fyrir skipun þessa nýkosna Alþingis. Og í þeirri aðgerð Alþ. einni saman að ógilda kjörbréfin felst engin trygging fyrir réttlátari skipun Alþ. í framtíðinni.

Ég hygg, að það, sem ég hef nú sagt, verði ljósast fyrir mönnum, ef þeir svara eða leitast við að svara þeirri spurningu, sem hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa í þessum umræðum forðazt að svara og meira að segja forðazt að koma inn á, þessari spurningu: Hvað gerist, ef Alþ. ógildir kjörbréfin? Hvað á þá að fylgja á eftir? Mér virðist augljóst, að ef hinir fjórir landskjörnu þm. Alþfl. víkja af Alþ. vegna þess, að kjörbréf þeirra verði metin ógild, þá eigi aðrir fjórir uppbótarþingmenn að taka sæti þeirra samkv. ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga. Í stjórnarskránni, d-lið 31. gr., segir að vísu: „Á Alþingi skulu eiga sæti allt að 52 þingmenn.“ En þar segir einnig, að á Alþ. skuli eiga sæti allt að 11 þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Enn fremur segir þar, að um skipun jöfnunarþingsætanna fari að öðru leyti eftir kosningalögum. En í kosningalögunum eru nákvæmar reglur um það, hve mörgum uppbótarþingsætum skuli úthluta og hvernig, en það fer eftir úrslitatölum alþingiskosninga. Nú er það því augljóst samkv. eðli málsins, ákvæðum 125.–128. gr. kosningalaganna og þeim úrslitatölum alþingiskosninganna í sumar, sem fyrir liggja, að það ber samkv. kosningalögunum að úthluta fullkomlega 11 uppbótarþingsætum, öllum þeim 11 uppbótarþingsætum, sem um getur verið að ræða, eftir því sem í kosningalögunum segir. Nú hefur landskjörstjórn þegar úthlutað þessum 11 uppbótarþingsætum eftir reglum laganna, eins og hún skilur þær, í samræmi við og í rökréttu framhaldi af þeim úrskurði, sem landskjörstjórnin felldi fyrir kosningar, en úrslitum um þann úrskurð réð, eins og kunnugt er, Jón Ásbjörnsson hæstaréttardómari, fulltrúi Sjálfstfl. Hæstaréttardómarinn tók það skýrt fram í grg. sinni fyrir úrskurðinum, að honum væri ljóst, að kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. væri til þess lagað, eins og hann komst að orði, orðrétt, „til þess lagað að raska flokkum þessum í hag þeirri þingmannatölu, sem þeir mundu fá, ef þeir byðu fram til Alþ. með venjulegum hætti“. En þrátt fyrir það komst hann að þeirri niðurstöðu, að landskjörstjórn hlyti að líta á hvorn þessara flokka um sig sem sjálfstæðan þingflokk og úthluta uppbótarþingsætunum samkv. því, þ. e. til Alþfl. samkv. atkvæðatölu hans, að meðtöldum þeim atkvæðum, sem hann vitanlega hefur fengið að láni frá framsóknarkjósendum. En hæstaréttardómarinn byggði þennan úrskurð sinn fyrst og fremst á því, að 31. gr. stjórnarskrárinnar vísar um skipun uppbótarþingsætanna til kosningalaga, en í þeim lögum sé, eins og hann segir orðrétt, „hvergi gert ráð fyrir því, að atkvæðatala tveggja eða fleiri flokka sé lögð saman og uppbótarþingsætum síðan úthlutað samkv. sameiginlegu atkvæðamagni þeirra“. Þetta er orðrétt eftir grg. hæstaréttardómarans.

Nú er það alveg vafalaust tilgangur Sjálfstfl. með till. um ógildingu kjörbréfanna, að málinu verði vísað til landskjörstjórnar að nýju og að landskjörstjórn úthluti uppbótarþingsætum að nýju samkv. þeirri reglu, að atkvæðatölur Alþfl. og Framsfl. verði fyrst lagðar saman og uppbótarþingsætunum síðan úthlutað samkv. þeirri tölu. Ég þykist vita, að þetta liggi í till. Sjálfstfl. Það er óhugsandi annað, þó að það liggi að vísu ekki fyrir í tillöguformi, því að það getur ekki verið tilgangur flokksins, að þessi fjögur uppbótarþingsæti standi auð og óskipuð, þingmenn verði aðeins 48, þvert ofan í ákvæði stjórnarskrár og kosningalaga og úrslitatölur kosninganna, eins og ég hef þegar sannað. Samkv. kosningalögunum getur ekki verið minnsti vafi á því, að það ber að úthluta 11 uppbótarþingsætum. Sjálfstæðisflokkurinn mun vafalaust með þessari kröfu sinni, till. sinni um ógildingu kjörbréfanna, einnig gera kröfu til þess, að honum verði úthlutað einhverju af þeim fjórum uppbótarþingsætum, sem verða laus við ógildingu kjörbréfanna. En ég vil nú spyrja: Dettur nokkrum þingmanni Sjálfstfl. í hug, að hæstaréttardómarinn Jón Ásbjörnsson, þessi ágæti lögfræðingur, sem myndar sér skoðun á lögfræðilegu atriði eins og þessu, segja hv. sjálfstæðismenn sjálfir, án nokkurs tillits til síns flokks, telji nú fært að úthluta uppbótarsætum eftir þeirri reglu, sem hvergi er gert ráð fyrir í kosningalögunum, eins og hann sjálfur komst að orði í þeirri niðurstöðu, sem birt er frá hálfu landskjörstjórnar? Dettur mönnum í hug, að hann komist nú að annarri niðurstöðu um þetta lögfræðilega atriði en hann komst með úrskurði sínum í sumar? Þá komst hann að þeirri niðurstöðu samkv. sinni sannfæringu, að það bæri að fara eftir bókstaf kosningalaganna einum, án tillits til nokkurs annars.

Ég vil líka spyrja: Ætlast hv. sjálfstæðisþingmenn til þess, að Alþ. setji landskjörstjórn með einfaldri þingsályktun aðrar reglur um úthlutun uppbótarþingsæta en felast í kosningalögunum? En dettur þá nokkrum í hug, að hæstaréttardómarinn Jón Ásbjörnsson og lögfræðingar Framsfl., sem eiga sæti í landskjörstjórn og mynda með honum meiri hluta þar, teldu sér skyldara að fara eftir einfaldri ályktun Alþ. á þingsetningarfundi en ákvæðum laganna, sem þeir telja ótvíræð og telja sig þegar hafa farið eftir út í yztu æsar? Ég geri mér enga von um það, að meiri hluti núverandi landskjörstjórnar telji sér nokkurn tíma skylt að úthluta þessum fjórum uppbótarþingsætum með öðrum hætti en hann hefur þegar gert. [Frh.]