01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

89. mál, hundahald

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi láta falla hér, áður en málið færi til nefndar. Það gildir sama um þetta frv. og frv. næst á undan. Það stefnir að því að flytja störfin af ríkisskrifstofum og koma þeim yfir á sveitarstjórnirnar. Það er orðið þannig í sveitunum og fer vaxandi, eftir því sem fámennið verður meira, að alltaf verður erfiðara og erfiðara að fá menn til að gegna t.d. oddvitastörfum og yfirleitt opinberum störfum, sérstaklega oddvitastörfum, sem eru mjög fyrirhafnarsöm, og margir bændur segja, að þeir hafi ekki tíma eða aðstöðu til að sinna þeim vegna heimila sinna.

Með því að taka upp þá stefnu að flytja störf af skrifstofum ríkisins, sem hafa launaða starfsmenn, svo að segja sumar hverjar á hverjum fingri, og flytja yfir til þeirra manna, sem verða að hafa þetta í hjáverkum, komast varla til þess og liggur við, að þeir verði að hætta við að sinna þessum störfum vegna heimilisstarfa, er áreiðanlega verið að taka öfugt á hlutunum. Ég vona þess vegna, að örlög þessa frv. verði sömu og samhljóða frv. á síðasta þingi. að n. láti þetta mál ekki fara lengra. Ég mun því greiða atkv. með frv, til nefndar.