01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (3327)

32. mál, orlof

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hv. d. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér er til umr. um breyting á orlofslögunum. Allir nm. voru sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt, tveir þeirra þó með fyrirvara, þ.e. hv. 2. þm. Árn. og hv. 11. landsk.

Hér gerist ekki þörf á að fara mörgum orðum um efni frv. Hæstv. félmrh. skýrði það í framsöguræðu hér í hv. d. á sínum tíma.

Breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir á gildandi lögum, eru þríþættar.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að lögin nái jafnt til þeirra, sem taka laun sín í hluta af verðmæti, sem hinna, er taka laun sín í peningum. Þetta þýðir það í framkvæmd, að fiskimenn, sem ráðnir eru eftir reglunum um hrein hlutaskipti, og hlutarmaður tekur þátt í útgerðarkostnaði, eiga nú að fá orlof til jafns við aðra, en hafa hingað til einungis haft rétt til hálfs orlofsfjár. Þetta þykir ósanngjarnt, eins og nú er komið, því að eðlilegt er að líta á þessa fiskimenn sem launþega. Hlutur þeirra er kaupgreiðsla, sem þeim er áskilin með samningi, og þeir teljast ekki heldur útgerðarmenn.

Önnur breyt., sem felst í 2. gr. frv. og 3. gr. þess, er lögfesting á hækkun orlofsfjár og lengingu orlofstíma, sem þegar hefur gerzt með kjarasamningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, og þarf ekki að útskýra það nánar en gert er í grg. frv. og hæstv. félmrh. gerði í framsöguræðu við 1. umr.

Þriðja breyt. er um fyrningarfrest orlofsfjár í 4. gr. frv. Orlofsfé fyrnist nú innan loka næsta orlofsárs, eftir að krafan stofnaðist. Óánægju hefur gætt með þetta ákvæði, og fresturinn hefur þótt of skammur, og þess vegna er lagt til í þessu frv., að um þetta verði hin almenna regla fyrningarlaganna frá 1905 látin gilda, þ.e., að kröfur þessar fyrnist eins og aðrar kaupkröfur á fjórum árum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, nema sérstakt tilefni gefist til, og legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.