18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

177. mál, Landsbanki Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu við þessa 1. umr. um þau frv. til laga um breytingu á bankalöggjöfinni, sem nú hafa verið lögð hér fram.

Hæstv. forsrh. hefur nú í fáum orðum gert nokkra grein fyrir þessum frv., og í lok ræðu sinnar sagði hann, hvers vegna þessi frv. væru fram komin, það væri vegna þess, að Sjálfstfl. réði einn tveimur aðalbönkum þjóðarinnar, þ.e. Landsbankanum og Útvegsbankanum. Er þessi fullyrðing hæstv. forsrh. í samræmi við það, sem raunverulega er? Hefur ekki Framsfl. bankastjóra í Landsbankanum, Vilhjálm Þór, og aðstoðarbankastjóra, Svanbjörn Frímannsson, sem ég ætla að báðir séu áhrifaríkir menn, vanir bankastörfum, og trúi því hver sem trúa vill, að bankastjórar Sjálfstfl. í Landsbankanum ráði algerlega, á meðan þessir tveir menn sitja þar einnig að stjórn. Hæstv. ráðh. hefði ekki átt að koma með svona fjarstæðu hér fram í hv. deild, heldur færa fram einhverja aðra og skynsamlegri ástæðu fyrir flutningi þessara mála heldur en þetta.

Ef komið er að Útvegsbankanum, sem sagt er að Sjálfstfl. einnig ráði að öllu leyti, þá veit ég ekki annað en einn bankastjórinn þar, Valtýr Blöndal, sé framsóknarmaður, eða hann hefur verið talinn það. Ég veit heldur ekki annað en Valtýr Blöndal sé mætur maður og alveg maður til að gegna sínu starfi, og hefði ég haldið, að hann ásamt bankastjórum Landsbankans, sem ekki eru sjálfstæðismenn, hefði ekki unnið til þess að fá þær hnútur, sem þeir nú hafa fengið hjá hæstv. forsrh., þar sem hann gerir þessa bankastjóra alveg að núlli og áhrifalausa. — Ekki meira um þetta.

En löggjöf um bankamálin hefur verið boðuð — var boðuð um leið og núverandi ríkisstj. var mynduð. Það hefur verið beðið eftir þessum frv. í allan vetur, og hv. Alþingi hefur verið aðgerðalitið. síðustu vikurnar, vegna þess að þessi frv. hafa ekki komið fram. Nú var þeim útbýtt í gærdag, og hv. þm. munu flestir hafa lesið frv.

Ég vil segja, að í frv. um Landsbanka Íslands er eitt atriði, sem er þess virði að vera rætt, vera hugsað og rætt í fullri alvöru, og það er það atriði að setja seðlabankann undir sérstaka stjórn. Um það hefur oft verið rætt áður, en um það hafa menn ekki verið sammála. Að tilhlutan sjálfstæðismanna var skipuð hin svokallaða bankamálanefnd, og hún skyldi athuga bankamálalöggjöf landsins, m.a. það, hvort heppilegt væri að setja seðlabankann undir sérstaka stjórn. Bankamálanefndin mun ekki hafa verið sammála, enda skilaði hún aldrei áliti.

Við sjálfstæðismenn viljum athuga rækilega þessa hlið málsins. Ef það mætti verða til þess að treysta fjármálalegan grundvöll þjóðarinnar að koma seðlabankanum undir sérstaka stjórn, þá er það vissulega mál, sem er tímabært. Hitt er svo vitað, að þótt þetta yrði gert, þá er vandinn ekki að öllu leystur fyrir því. Fjármagnið vex ekki, þótt seðlabankinn sé undir sérstakri stjórn, og ásókn í afurðalán og ásókn eftir peningum minnkar vitanlega ekki við það. En það má vel vera, að það sé hægara að sporna við, ef stjórnendur seðlabankans eru lausir við það að tala við hina almennu viðskiptamenn og þurfa ekki öðrum að neita heldur en viðskiptabönkunum, þegar þeir koma til seðlabankans og tjá honum raunir sínar og peningaleysi.

Við sjálfstæðismenn viljum athuga þessa hlið frv. undir meðferð málsins hér í hv. Alþingi. En þegar þetta er frá skilið og umbúðirnar eru af því teknar, er augljóst, að tilgangur frv. er sá að tryggja stjórnarflokkunum fleiri sæti og fleiri stöður í bönkunum. Nú þetta veit ég, að hæstv. ríkisstj. vill játa hreinskilnislega: þetta er tilgangurinn — og þetta fólst m.a. í orðum hæstv. forsrh. hér áðan. En það er nú svo, að þetta er nýmæli hjá okkur Íslendingum, að bankalöggjöfinni sé breytt, vegna þess að komin er nú ný ríkisstj. í landinu, breytt til þess, að stuðningsmenn ríkisstj. geti fleiri komizt að í bönkunum en þeir áður gerðu. Mundi ekki einhver segja, að löggjöf, sem byggð er á þessum forsendum, byggist á hentistefnu? En löggjöf má aldrei mótast af slíku, heldur af því einu að geta orðið til almenningsheilla. Löggjöf má ekki mótast af því, að óskir séu uppi um það að koma vissum mönnum í góð embætti og góðar stöður í þjóðfélaginu. Það mundi einhver segja, að þetta gæti verið vafasamt fordæmi. Það mundi einhver segja, að það gæti verið, að seinna yrði minnt á það, sem skeði í lagasetningu Íslendinga árið 1957, og ég býst við, að margir efist um, að þetta út af fyrir sig leiði til þess að skapa aukið traust á fjármálum og bankamálum landsmanna. Ég efast ekki um, að hv. stjórnarflokkar hafa ýmsa mæta og færa menn, sem geta tekið þessi störf að sér, og hafa ýmsir menn verið nefndir í þessu skyni, en það er mál út af fyrir sig, og ég er sannfærður um, að það munu margir ábyrgir menn líta þannig á, að það sé ekki heppilegt fordæmi, sem skapað verður með þessu. Það er auðvitað alltaf hægt fyrir þingmeirihluta að breyta lögum. Það er hægt fyrir þingmeirihluta að gera lög þannig úr garði, að andstæðingar missi áhrif og missi þann rétt, sem þeir hafa haft. Sú breyting, sem nú á að gera á bankalöggjöfinni, leiðir til þess að svipta rétt kjörna bankaráðsmenn umboði því, sem þeir nú hafa samkvæmt l. Og hvers vegna á að svipta þá þessu umboði? Til þess að geta í krafti nýs bankaráðs breytt að einhverju leyti um framkvæmdastjórn bankanna.

Þegar umbúðirnar eru teknar af þessum frv. og atriðið um seðlabankann undan skilið, þá sýnist mér, að frv. hafi aðeins þann eina tilgang að breyta um menn í þessum stofnunum. Frv. eru þrjú, og ég vil minnast á þau öll í fáum orðum, enda þótt nú sé aðeins frv. um Landsbankann til umr.

Það er gert ráð fyrir, eins og áðan er lýst, að gera Útvegsbankann að ríkisbanka. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri nauðsynlegt að breyta l. um Útvegsbankann, m.a. vegna þess, hversu löggjöf sú, sem hann er byggður á, væri ófullkomin, henni hefði verið hraðað, hún hefði verið sett í skyndi. En hvað er þessi löggjöf gömul, hvað höfum við búið lengi við þessi lög? Ég man ekki árið, en ég ætla, að það séu nær 30 ár, og hæstv. forsrh. núverandi hefur víssulega ekki verið áhrifalaus í landsmálunum undanfarið, og mig undrar það, ef þessi löggjöf hefur að hans áliti verið skyndilöggjöf, sem ekki væri hægt við að búa, að hann skyldi aldrei fyrr hafa hreyft því, að það væri nauðsynlegt að breyta þessum l., ekki fyrr en eftir um 30 ár. Þess ber einnig að minnast, að lög þau, sem Landsbanki Íslands býr nú við, voru samin að tilhlutan framsóknarmanna, að ég ætla á árinu 1928. Þá er og sýnilegt, í hvaða tilgangi breytingin um Framkvæmdabankann er flutt hvað snertir bankaráðið. Það er gert til þess, að allir stjórnarflokkarnir geti átt fulltrúa í bankaráðinu og Framsfl. sé öruggur um að hafa formanninn, a.m.k. nú, á meðan þeir eiga fjármálaráðherra, og þá um leið 2 menn af 5 í bankaráðinu. Má því segja, að framsóknarmenn hafi þarna komið ár sinni sæmilega fyrir borð.

Hv. stjórnarflokkar hafa samið um það sín á milli að gera umrædd frv. að lögum, sennilega án breytinga. Við því er ekkert að segja, það verður reynslan, sem sker úr því, hvernig framkvæmdin verður. Eitt held ég að mönnum ætti að vera alveg ljóst, að enda þótt bankastjórum verði fjölgað og enda þótt allir stjórnarflokkarnir eigi fulltrúa í bönkunum og ótal áhrifamenn þar, þá vex peningamagnið ekki við það. Hætt er við, að fjárskorturinn geri vart við sig eigi að síður. Hætt er við, að þeir, sem fara í bankana í leit að peningum, fái neitun eins og áður og að það komi í ljós, að það er ekki allsherjarlausn á þessu máli að skipta um menn.

Það, sem er raunhæft í fjármálum landsmanna, er, að það geti orðið fjármagnsmyndun í landinu, sparifjármyndun, að landsmenn í heild fái aukið traust á gjaldmiðlinum, aukið traust á stjórnarfarinu. Má vera, að það spor að setja seðlabankann undir sérstaka stjórn geti orðið að einhverju leyti til þess að skapa festu og öryggi í þessum málum. Ég vil ekki neita því, að það gæti átt sér stað, að það væri spor í rétta átt. En þess verður að minnast, að um leið og núverandi hæstv. ríkisstj. kom til valda, hvarf sparifjármyndunin næstum því. Sparifjármyndunin hætti að aukast við tilkomu núverandi hæstv. ríkisstj. Sparifjármyndunin hafði aldrei verið meiri en hún var fyrstu 7 mánuði s.l. árs, eða síðustu mánuðina, sem fyrrverandi ríkisstj. fór með völd.

Það hefur mikið að segja í fjármálum landsmanna, að almenningur í landinu treysti stjórnarfarinu, búi ekki við öryggisleysi, að borgararnir elgi ekki refsivöndinn yfir sér, að starfsgleði megi vaxa og þróast, að þeim, sem hafa dug, þeim, sem hafa kjark og þrek til að starfa, sé ekki gert það ómögulegt og þeim sé ekki refsað, af því að þeir sýna ráðdeildarsemi.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri við þessa 1. umr. málsins, en eins og ég sagði áðan, þá viljum við sjálfstæðismenn athuga rækilega þann kafla frv. um Landsbanka Íslands, sem snertir seðlabankann.