01.11.1956
Neðri deild: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þær koma okkur, sem búnir erum að berjast við íhaldíð hér í Reykjavík síðasta aldarfjórðunginn, dálítið undarlega fyrir sjónir, svo að vægt sé að orði komizt, þessar ræður, sem hafa verið fluttar hérna af Sjálfstæðisflokksþingmönnunum, eftir að þeir eru nú komnir í stjórnarandstöðu. Ég held, að það veiti ekki af, þegar þeir núna kjósa að koma fram í nýju gervi, að rifja ofur lítið upp, hver hefur verið hin raunverulega afstaða þessa flokks til verkalýðsins, til baráttu fyrir umbótum, til baráttu fyrir bættum launakjörum og lífskjörum á undanförnum árum.

Aðalmálsvari Sjálfstfl. hér í hv. deild, 1. þm. Reykv., sagði, að við, sem fyrst og fremst höfum verið fulltrúar verkalýðsins og ekki sízt verkalýðsins hér í Reykjavík undanfarna áratugi á Alþingi, hefðum innan þings og utan barizt fyrir kauphækkun, þegar ekki var efnahagslegur grundvöllur fyrir kauphækkun.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. sjálfstæðisþingmenn þessarar deildar: Hvenær hafa þeir álitið, að það væri efnahagsgrundvöllur fyrir kauphækkun handa verkamönnum? Hvenær hafa þeir álitið slíkt? Ég má kannske ýta ofur lítið við minni þeirra. Ég skal rekja ofur lítið af sögunni, sem ég þekki persónulega til hérna í Reykjavík í því sambandi. Ef til vill er þó verkamönnum aldrei önnur eins þörf á kauphækkun og þegar þeir búa við atvinnuleysi, þó að það sé erfiðast fyrir þá að knýja það fram. Og hvað sagði hv. aðalmálsvari Sjálfstfl. hér í deildinni, hv. 1. þm. Reykv. um, hvernig Sjálfstfl. vildi haga sér, þegar verkamenn væru atvinnulausir? Jú, hann sagði, að hann vildi heldur, að það sé gengið á eftir verkamönnum, að þeim sé boðin vinna, boðið í þá jafnvel, heldur en að þeir þurfi að búa við atvinnuleysi. Það eru fögur orð. En hvernig hagar Sjálfstfl. sér, þegar verkamenn búa við atvinnuleysi? Hvernig eru gerðirnar? Hvernig er samræmi þeirra gerða við þessi orð hv. 1. þm. Reykvíkinga?

Atvinnuleysi hefur aldrei sorfið eins ægilega að verkamönnum hér í Reykjavík og 1932, aldrei hefur þeim e. t. v. verið þörf á kauphækkun í eins ríkum mæli og þá, þegar kaupgjaldið um tímann var kr. 1.36, vinnutíminn 10 stundir á dag, en vinnan ein vika í mánuði í atvinnubótavinnu. Hvernig gekk íhaldið á eftir verkamönnum þá? Hvernig bauð það þeim vinnuna þá? Eina viku af fjórum áttu allmargir þeirra kost á að fá atvinnubótavinnu. Og hvað sagði íhaldið við þá í nóvember 1932? Það sagði ekki: Nú þurfið þið að fá hækkað kaup, því að nú hafið þið litla vinnu og hafið lítið upp. — Það sagði: Nú skal lækka kaupið hjá ykkur. — Og var það kannske bara bæjarstjórnin í Reykjavík, íhaldsmeirihlutinn þar, sem tók þá ákvörðun? Nei, það var ákvörðun, sem var tekin á fundi miðstjórnar Sjálfstfl. um að hefja almenna kauplækkun í landinu og byrja á þeim, sem bágast áttu. Á þeim, sem höfðu vinnu eina viku í mánuði, átti að níðast. Þar var garðurinn lægstur. Þar svarf sulturinn að.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um boðskap sultarólarinnar í sinni ræðu hér áðan. Jú, verkamenn í Reykjavík hafa fengið að kenna á boðskap sultarólarinnar. Sjálfstfl. hefur lamið sultarólinni um hrygg þeirra, þegar hann hefur treyst sér til við þá, af því að þeir voru fátækir, atvinnulausir og áttu bágt. Það er bezt fyrir Sjálfstfl. að tala varlega í þessum efnum. Það er bezt fyrir hann að gleyma ekki sinni fortíð.

Verkamenn mótmæltu. Þeir mótmæltu ranglætinu. Þeir mótmæltu boðskap sultarólarinnar. Menn muna, hvað gerðist. Og menn muna e. t. v. líka, að auðvitað sagði Sjálfstfl., að verkamenn hefðu ætlað að steypa þjóðfélaginu. Það átti svo sem ekki að vera neitt meira né minna en byltingartilraun eða eitthvað slíkt. En verkamenn mótmæltu því, að það væri níðzt á þeim og kaupið lækkað, þegar þeir áttu bágast.

Ég vil heldur, að það sé gengið á eftir verkamönnum, segir hv. 1. þm. Reykv. Ég vil segja hv. þingmönum Sjálfstfl., eftir að þeir eru komnir hér í stjórnarandstöðu: Það þýðir ekki að ætla að skipta svona um. Þeir grafa ekki fortíð síns flokks,og fari þeir að reyna að tala á þennan hátt hérna, þá verður það til þess, að þeirra fortíð verður grafin upp og þeim sýnd hún daglega fyrir augum eins og hún er, staðreyndirnar uppmálaðar fyrir þeim. (Gripið fram í.) Ætli væri ekki nær fyrir hv. 1. þm. Reykv. að tala um hans ágætu bandalagsríki, Frakkland og England, í dag og innrásina í Egyptaland, og fyrst hann hefur alltaf trúað því, að Atlantshafsbandalagið væri varnarbandalag, að koma með till. um að reka Frakkland og England úr Atlantshafsbandalaginu? Slík árásarríki eiga líklega ekki heima í svona fínu varnarbandalagi.

Nei, það er bezt fyrir Sjálfstæðisflokksþingmennina að fara ekkert að ókyrrast á bekkjunum, þó að það sé verið að draga upp myndina af því, hvernig þeir hafa hagað sér á undanförnum áratugum. Ég ætla að biðja þá um, þó að þeir sjái sínar eigin afturgöngur frammi fyrir sér, að fara ekki að una illa við það hlutskipti að verða að vera í stjórnarandstöðu dálítinn tíma. Þeir þurfa nefnilega að venja sig við það að haga sér, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, eins og þegar þeir eru í stjórn og þora að berjast jafnt, þegar verið er í ríkisstjórn, fyrir hagsmunum verkalýðsins eins og þegar verið er utan hennar. Það er ekki nóg, þegar menn eru komnir út úr ríkisstjórn, að segja þá: Ég er með alþýðunni. Ég ætla að hjálpa alþýðunni. Ég ætla að hækka verkalaunin og annað slíkt, — en að berjast á móti henni alltaf meðan þeir eru við völd.

Ég gæti haldið áfram, ef hv. þm. Sjálfstfl. langar til þess, að rekja hérna þeirra sögu, að athuga, hvenær þeir hafa álitið efnahagslegan grundvöll fyrir kauphækkun hér á Íslandi. Það er rétt, að við, sem nú erum fulltrúar Alþýðubandalagsins hér á þingi, og við, sem áður höfum verið fulltrúar Sósfl. hér á þingi, höfum barizt fyrir kauphækkunum, og hv. 1. þm. Reykv. sagði, að við hefðum aðeins gert það, þegar efnahagslegur grundvöllur hefði ekki verið fyrir kauphækkunum. (ÓTh: Má ég grípa fram í?) Já, velkomið. (ÓTh: Þið hafið verið í stjórnarandstöðu og barizt fyrir kauphækkunum, en núna í stjórn berjizt þið fyrir, að verkamennirnir fái ekki kauphækkun, sem þeir voru búnir að semja um.) O, við skulum sýna ykkur fram á, að verkamennirnir munu fá sína kauphækkun, og ég vona, að auðvaldið í Reykjavík kvarti ekki, þegar að því kemur.

Við skulum svo taka næsta dæmi, t. d. 1942. Við börðumst fyrir kauphækkun þá. Hvernig var ástandið á Íslandi þá? Auðurinn streymdi inn í landið, auðurinn var vaxandi í landinu. Hafi nokkurn tíma verið grundvöllur fyrir kauphækkun, þá var hann þá. Hvað gerði Sjálfstfl. þá? (ÓTh: Hver var forsrh.?) Það kemur ekki málinu við, hver var forsrh. þá, því að það er Sjálfstfl., sem verið er að gera upp, og hans afstaða. Máske Sjálfstfl. vilji allt í einu fara að segja, að hann hafi nú aldrei ráðið neinu, auminginn, þegar hann hafi verið í ríkisstjórn, það hafi alltaf verið einhverjir vondir menn, sem hafi stjórnað og tekið fram fyrir hendurnar á honum? Máske hæstv. þáverandi ráðh. gerðardómsstjórnarinnar, þm. G-K., vilji núna reyna að fara að afsaka, að hann hafi ekki komið nærri gerðardómslögunum?

Nei, það var grundvöllur fyrir kauphækkun þá. Og hvað gerði íhaldið? Íhaldið áleit ekki grundvöll fyrir kauphækkun. Það setti lög, gerðardómslög, sem bönnuðu alla kauphækkun, sem lögðu við fangelsun verkalýðsleiðtoganna og upptöku sjóða verkalýðsfélaganna, ef lagt væri út í kauphækkanir. Auðvitað börðumst við á móti þessum lögum, og auðvitað börðumst við fyrir kauphækkun. Við neyddumst meira að segja til þess að brjóta þessi lög og brjóta þau á bak aftur og knýja meira að segja sjálfan Sjálfstfl. til að vera með í að afnema þau, eftir að verkalýðurinn hafði sýnt honum eins og stundum áður, að hann var nægilega sterkur til þess að knýja réttlætið fram í þjóðfélaginu, þótt Sjálfstfl. stæði með ranglætinu. Sjálfstfl. stóð á móti kauphækkun, þó að það væri efnahagslegur grundvöllur fyrir hana.

Á ég að halda áfram að rekja? Á ég að rekja kauphækkanirnar 1944? Hvernig stóð t. d. hv. 2. þm. Reykv. þá? Það var ekki nóg með, að hann væri á móti kauphækkunum verkalýðsins þá. Það var ekki nóg með, að hann léti blað sitt, Vísi, skrifa þá, að það væri sama sem að eyðileggja þjóðfélagið að berjast fyrir kauphækkunum. Nei, það var meira að segja svo, að nýsköpun atvinnutækjanna, það, að verkamenn og sjómenn fengju betri atvinnutæki til að berjast með, var að áliti hv. 2. þm. Reykv. og hans blaðs launráð og Lokaráð við þjóðfélagið til þess að eyðileggja þjóðfélagsskipulagið á Íslandi.

Svona var afstaða Sjálfstfl. þá. Auðvitað var talað um, að við værum að eyðileggja þjóðfélagið. Auðvitað var talað um, að þjóðfélagið væri að hrynja, ekki bara ef við börðumst fyrir kauphækkun, heldur líka ef við börðumst fyrir nýjum atvinnutækjum. Og svona hefur þetta gengið áfram. Í hvert einasta skipti, sem verkalýðurinn á Íslandi hefur gert kröfu um kauphækkun, hefur íhaldið svarað: Það er enginn efnahagslegur grundvöllur fyrir kauphækkun. — Núna síðast 1955, í stóra verkfallinu þá, knúði það verkalýðinn til sex vikna verkfalls, þegar það var að reyna að brjóta hans eðlilegu og sjálfsögðu tilraun til kauphækkunar á bak aftur. M. ö. o.: Sjálfstfl. hefur aldrei álitið, að það væri efnahagslegur grundvöllur fyrir kauphækkun á Íslandi. Ef Sjálfstfl. hefði fengið að ráða, þá hefði aldrei verið barizt fyrir kauphækkun á Íslandi.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að lífskjörin á Íslandi væru einhver hin beztu í heimi. Lífskjörin á Íslandi voru áreiðanlega ekki hin beztu í heimi fyrir stríð, og meira að segja Sjálfstfl. mundi ekki hafa haldið því fram þá. Og þau eru máske heldur ekki enn sem komið er, því miður, þau beztu í heimi, þó að þau geti orðið það. Það er unnið lengri vinnutíma hér nú en víðast hvar tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. En hitt er engu að síður rétt, að lífsafkoma manna í heild er allgóð og lífskjörin eru miklu betri en var fyrir stríð. Og hverju er það að þakka? Er það að þakka því, að Sjálfstfl. hafi barizt fyrir kauphækkunum á þessum árum. Nei. (BBen: Hverjir hafa verið við völd þessi ár?) Sjálfstfl. hefur nú verið við völd í ríkisstjórnum síðustu 12 árin, ef ég man rétt, og var á árunum 1939–42 og hafði einhver ítök þess á milli, a. m. k. var 2. þm. Reykv. í stj., meðan það var utanþingsstjórn, svo að ef Sjálfstfl. ætlar allt í einu að fara að afsaka sig á því, að hann hafi aldrei ráðið neinu öll þessi ár, aldrei verið í ríkisstjórn og aldrei þess vegna haft tækifæri til þess að skipta sér af því að hækka kaupið, þá fer að líta hálfundarlega út saga íslenzka verkalýðsins á undanförnum árum. Eða eru hv. þm. Sjálfstfl. komnir á slíkan flótta, að þeir ætli að fara að afsaka sig með því, að þeir hafi aldrei haft tækifæri til þess síðustu 20 ár að berjast fyrir kauphækkunum hjá verkalýðnum? Eru þeir komnir í svona öngþveiti?

Nei, verkalýðurinn hefur á þessum áratugum undir forustu þess fólks, sem nú skipar Alþýðubandalagið hér á þingi, þess hóps, sem m. a. hefur áður samfylkt bæði í sambandi við Sósfl. og stóran hluta úr Alþfl. til baráttu fyrir bættum lífskjörum verkalýðsins, — verkalýðurinn hefur á þessum undanförnu áratugum með sínum kauphækkunum og sinni baráttu knúið fram þá gerbreytingu á lífskjörunum, sem orðið hefur á Íslandi, og hann hefur orðið að knýja þá gerbreytingu fram í harðvítugri baráttu við Sjálfstfl.

Þetta eru staðreyndirnar í þessum málum, staðreyndir, sem ég veit að Sjálfstfl. muni vera illa við, þegar hann nú er kominn í stjórnarandstöðu allt í einu, þykist ætla að vera ósköp róttækur, ósköp vinsamlegur verkalýðnum, og þess vegna vildi helzt mega gleyma allri sinni fortíð. Íhaldið hefur alltaf barizt á móti endurbótunum, alltaf barizt á móti endurbótum á lífskjörum verkalýðsins. Það hefði aldrei orðið nein breyting á þeim ömurlegu lífskjörum, sem verkalýðurinn lifði við fyrir stríð, ef íhaldið hefði mátt ráða. Það hefur streitzt á móti til síðustu stundar og streittist hvað harðvítugast á móti nú síðast, þegar kauphækkunin var knúin fram með verkfallinu 1955.

Ég veit, að íhaldið er að iðrast eftir þetta. Það er alveg greinilegt. Það er ósköp erfitt fyrir flokk, sem kominn er út úr ríkisstj. og sér jafnvel, að hann er að missa völd í landinu, að standa uppi með svona flekkótta fortíð og þurfa nú að gera hosur sínar grænar fyrir almenningi og sjá þær allar saman um leið blettóttar eftir fortíðina. Ég sé meira að segja, að hv. 1. þm. Reykv. er byrjaður að iðrast. Hann segir nú, Morgunblaðið ítrekar það og hv. 9. landsk. tekur það sérstaklega fram hér, að hann álíti, að gerðardómslögin hafi verið vitleysa. Jæja, það er alveg ágætt. Kannske það fari fleiri hv. þingmenn Sjálfstfl. að koma hér upp og iðrast og tilkynna með honum, að gerðardómslögin hafi verið vitleysa? Máske þeir komi hérna upp einhverjir og tilkynni, að það hafi verið alveg misráðið af Sjálfstfl. að reyna að lækka kaupið í atvinnubótavinnunni 9. nóv. 1932? Kannske þeir komi núna fram og segi: Það er voðalega ljótt að reyna að níðast á verkamönnum, þegar þeir eru atvinnulausir, og lækka kaupið hjá þeim, slíkt eiga menn aldrei að gera. — Kannske Sjálfstfl. komi upp og biðji fyrirgefningar? Kannske meira að segja mismælin hjá hv. 1. þm. Reykv. um, að gengislækkunarlögin hafi verið vitleysa, kannske meira að segja þau mismæli eigi nú eftir að verða réttmæli og Sjálfstfl. eftir nokkurn tíma, þegar hann er búinn að vera dálítinn tíma í stjórnarandstöðunni, komi og segi : Ja, gengislækkunarlögin voru vitleysa? — Máske meira að segja ég megi skilja framíköllunina, sem kom áðan, þannig, að þeir vilji segja: Ja, öll barátta okkar á móti kauphækkun á undanförnum árum hefur verið hrein vitleysa, — yfirleitt allt starf og öll afstaða Sjálfstfl., meðflokks auðmannastéttarinnar í Reykjavík í fjandskap hennar við verkalýðinn, hafi verið vitleysa? Máske við eigum eftir að lifa það? Við því er bara eitt að segja: Það er of seint að iðrast eftir dauðann. Það er of seint að iðrast, þegar menn eru með sínum ferli búnir að drepa sig pólitískt. Það er of seint fyrir Sjálfstfl. að hafa allt sitt líf hatazt við launahækkun og lífskjarabætur hjá verkalýðnum, barizt gegn verkalýðnum, fjandskapazt við endurbæturnar, en liggja í þessari baráttu, bíða hvern ósigurinn á fætur öðrum fyrir réttmætum kröfum verkalýðsins, — það er of seint að koma svo í dag og segja: Ja, ég ætlaði að vera með verkalýðnum. Ég ætlaði að vera með því, að hann fengi launabætur. En þetta var allt saman mistök hjá mér og mismæli hjá mér, þegar ég fór að leiðrétta það.

Nei, Sjálfstfl. hefur aldrei álitið efnahagslegan grundvöll fyrir kauphækkanir, af því að hann hefur alltaf farið eftir því, hvað þröngsýnni og afturhaldssamri auðmannastétt í Reykjavík bauð við að horfa. Henni fannst hún aldrei græða nóg. Henni fannst alltaf frekja af verkalýðnum að heimta betri lífskjör. Þess vegna stóð Sjálfstfl. alltaf á móti kauphækkununum. Og við skulum taka þá kauphækkun, sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa talað hvað mest um hér í þessum umr., kauphækkunina síðasta sumar, 1955. Við skulum taka hana fyrir alveg sérstaklega, þar sem þeir hafa ítrekað, að þeir væru ekki farnir að iðrast í afstöðunni til hennar enn þá, og ítreka þess vegna, að það hafi verið hrein vitleysa. Ég vil segja hér, að hafi nokkurn tíma verið grundvöllur fyrir kauphækkun verkalýðsins á Íslandi, þá var hann þá. Af hverju var réttmætur grundvöllur fyrir kauphækkun verkalýðsins á Íslandi 1955? Hvað hafði gerzt hér á Íslandi frá 1947 og fram til 1955? Það hafði gerzt, að öll nýsköpunartækin, sem keypt voru á árunum 1944–47, voru komin í gagnið. Allur sá undirbúningur, sem framkvæmdur hafði verið af nýsköpunarstjórninni til þess að undirbyggja efnahagslegan grundvöll atvinnulífsins á Íslandi, var kominn fram, var framkvæmdur. Atvinnutækin voru komin til landsins á þessum tíma, atvinnulífsgrundvöllurinn, sem var verið að byggja upp, var reistur á þessum tíma. Afkastageta Íslendinga margfaldaðist á þessum tíma, og auðurinn hér á Íslandi stóróx á þessum tíma. M. ö. o.: Þjóðarauðurinn og þjóðartekjurnar stórbötnuðu og uxu á tímanum frá 1947 til 1955. Ef réttlátlega var að farið, var þess vegna efnahagslegur grundvöllur fyrir bætt kaup og kjör verkalýðsins á Íslandi 1955, miklu betri en hann hafði verið nokkurn tíma áður.

En hvað hefur gerzt með kaupgjald verkalýðsins á þessum tíma? Hvað hafði gerzt með kaupgjald verkalýðsins á tímabilinu 1947-55? Um það liggja fyrir óyggjanlegar skýrslur, sem ekki verður deilt um. Kaupmáttur tímakaupsins hafði á þessum tíma lækkað um 17%, ef ég man rétt, milli 17 og 20%, aðeins hvað snerti kaupgetuna á brýnum nauðsynjavörum, sem með eru teknar í vísitölunni. Ég bið menn að athuga: raunveruleg kauplækkun, minnkun kaupgetunnar, hafði farið fram um 17–20% aðeins hvað snerti nauðsynjavörurnar, sem eru í vísitölugrundvellinum. Ef hefði átt að reikna þá kauplækkun, sem fram hafði farið, með tilliti til þeirra mörgu vara, sem raunverulega komu ekki inn í vísitöluna, en eru orðnar nauðsynjavörur almennings, mundi kauplækkunin vera enn meiri. Stærsta liðnum var sleppt, húsaleigunni. Hún er ekki með þarna í. En ætti að reikna út rýrnun kaupgetunnar og taka tillit til húsaleiguhækkunarinnar á tímabilinu 1947–55, þá mundi það fara fram úr 17 og fram úr 20%. Ég er hræddur um, að meira að segja hagfræðingur íhaldsins, hv. 9. landsk. (ÓB), mundi komast upp í nokkuð háar tölur.

M. ö. o.: Þegar þjóðin hafði fengið ágæt atvinnutæki í hendur, atvinnutækjagrundvöllurinn hafði stórbatnað, afköst þjóðarinnar stóraukizt og auður hennar vaxið, þá hafði kaupgjaldið raunverulega lækkað, raunverulega ekki bara um 17–20%, heldur miklu meira, ef húsaleigan var tekin með. Og meira að segja á vissum hluta af þessu tímabili var ekki nóg með, að kaupgeta tímakaupsins hefði lækkað, það hafði meira að segja skollið atvinnuleysi yfir verkalýðinn. Íhaldið hafði getað afrekað það að koma atvinnuleysinu á aftur. Haldið þið máske, að ráðherrar íhaldsins hafi þá farið eftir boðorði hv. 1. þm. Reykv. og gengið á eftir verkamönnum til þess að bjóða þeim atvinnu? Haldið þið, að hv. 2. þm. Reykv., þegar hann var ráðherra á þeim árum, hafi gengið á eftir verkamönnum til þess að bjóða þeim atvinnu, þegar þeir voru atvinnulausir? Nei, ætli verkamenn hafi ekki orðið að ganga til hans, ætli þeir hafi ekki orðið að „marséra“ frá hafnarbakkanum upp í Arnarhvol til þess að minna hann á, að það, sem hann hafi sagt hér á Alþingi um, að ekkert atvinnuleysi væri til, stangaðist við staðreyndirnar? Það var ekki nóg með, að íhaldið leiddi kaupgjaldslækkun yfir verkalýðinn. Það leiddi líka atvinnuleysi yfir hann. Og það var svo fjarri því, að það gengi á eftir verkalýðnum til þess að bjóða honum atvinnu, að það barði hausnum við steininn hér í þingsölunum, hv. 2. þm. Reykv., sem þá var ráðh., og neitaði því, að atvinnuleysi væri til, svo að verkamenn urðu að fara upp í Arnarhvol til þess að segja honum, að það væri til.

En hvað haldið þið, að íhaldið hafi gert, þegar kaupgjaldið var lækkað, kaupgetan rýrð og atvinnuleysi leitt yfir verkalýðinn, þar að auki auðvitað gripið til þess að reyna að stöðva verðbólguna, stöðva verðhækkanirnar og annað slíkt? Hvaða ráðstafanir gerði íhaldið á þeim tíma? Eru núv. hv. þm. Sjálfstfl., þáv. ráðherrar þess, búnir að steingleyma því? Eru þeir búnir að gleyma því, að þeir slepptu lausu öllu og sögðu raunverulega við alla braskara, okrara og auðmenn: Græðið þið nú hver sem betur getur? — Eru þeir búnir að gleyma því, hvað þeir gerðu með brýnustu nauðsynjavöru almennings, húsnæðið? Eru þeir búnir að gleyma, hvernig þeir fóru að þá? Þegar kaupgetan hafði lækkað um 17–20% á brýnustu nauðsynjavörunum, — hindruðu þeir þá kannske, að húsaleigan væri hækkuð? Nei.

Um leið og þeir hleyptu braskinu lausu á almenning hvað allt verðlag snerti, sáu þeir um að afnema allar hömlur á hækkun húsaleigu. Og hvað afrekuðu þeir í þessum efnum? Hvernig hefur húsaleigan hér í Rvík breytzt frá 1947–55?

Ég veit af allmörgum íbúðum hér í Reykjavík, þar sem húsaleiga var 1947 og þar í kring 150 kr. fyrir jafnvel þriggja herbergja íbúð. Hver er hún, eftir að íhaldið er búið að sýna framtakssemi í, í því að láta braska með húsnæðið og gera allt húsnæði að braskvöru? Ætli mönnum þyki ekki sæmilegt að fá þriggja herbergja íbúð í Rvík á leigu fyrir 1500 kr. núna, jafnvel 2 þús.? Skyldi ekki íhaldið hér í Reykjavík vera búið að áorka því með sinni pólitík í þessum málum á undanförnum áratug að tífalda húsaleiguna hér í Rvík, þar sem það hefur komið sínu frjálsa braski að? Í krónutölu hefur kaupgjaldið í Reykjavík á þessum tíma, frá 1947–55, tvöfaldazt, á sama tíma sem húsaleigan hefur tífaldazt. Þetta er það, sem íhaldið óskar eftir. Þetta eru þess aðferðir. Þetta er efnahagsgrundvöllurinn, sem það vill leggja. Þetta er þess frjálsa framtak, þegar það fær að njóta sín. Hvað gera svo verkamenn 1955, verkamennirnir, sem standa frammi fyrir því að hafa 3200 kr. fyrir 8 tíma vinnu á dag á mánuði og verða jafnvel að borga af því 1500 kr. í húsaleigu, dýrustu húsaleigu, sem þekkist í Evrópu, húsaleigu, sem hefur verið hækkuð fyrir pólitískar ráðstafanir íhaldsins? Hvað gera þeir? Þeir heimta kauphækkun. Voru það þeir, sem komu einhverri verðbólgu af stað með því? Var það engin verðbólga, var það engin dýrtíðaraukning að hækka húsaleiguna? Ætli það megi ekki taka nokkuð mörg hús hér í Rvík, fjögurra íbúða hús, sem byggð voru fyrir 1930 og kostuðu þá t. d. 30–35 þús. kr. og kosta í dag 800 þús. eða jafnvel milljón? Er þessi verðbólga kaupgjaldshækkununum að kenna, eða er hún því að kenna, að ófyrirleitin braskarastétt hefur fengið að ráða í þjóðfélaginu?

Er það ekki dæmalaus frekja að dirfast að koma hér upp í þennan ræðustól og fara að tala um, að verðbólgan á Íslandi sé að einhverju leyti kaupgjaldshækkunum að kenna, og segja það á sama tíma sem þessir menn, sem hafa skipulagt verðbólguna og dýrtíðina, standa frammi fyrir því, að á árabilinu 1947–55 hafi kaupgetan og raunverulegt kaupgjald, bara hvað nauðsynjavörurnar snertir, lækkað um 17–20% og lækkað miklu meira, ef nauðsyn eins og húsaleigan er tekin með? En á sama tíma hefur íhaldið, t. d. á húsaleigusviðinu, tífaldað dýrtíðina. Ég býst við, að það sé svo sem ekkert undarlegt, þó að þessir hv. þm. íhaldsins opni ekki sinn munn hér, eftir að þeir hafa hagað sér þannig í efnahagslífi þjóðfélagsins, án þess að tala um, að það sé verkalýðurinn, sem hafi ætlað að steypa þjóðfélaginu með kauphækkunum. En það var ekki verið að steypa þjóðfélaginu með því að sleppa braskinu lausu. Það var ekki verið að grafa grundvöllinn undan efnahagslífi Íslands með því að gera húsaleiguna dýrari á Íslandi en í nokkru öðru ríki Evrópu. Það var ekki verið að grafa grundvöll undan efnahagslífinu á Íslandi með því að skapa hér fleiri milljónamæringa en til eru hlutfallslega hjá nokkurri annarri þjóð og jafnvel fleiri en eru hjá sumum öðrum stærri þjóðum. Ég held, að það sé bezt fyrir hv. þm. Sjálfstfl., þó að þeir séu komnir í stjórnarandstöðu, að fara að venja sig af þessum slagorðum. Verkalýðurinn á Íslandi hefur verið að byggja þetta þjóðfélag upp á undanförnum árum, og það var ekki hv. 2. þm. Reykv., sem átti uppástunguna að því að útvega þau tæki, sem efnahagur Íslands núna byggist á. Það var hann, sem slóst á móti því eins og hann gat, og það var ekki einu sinni Sjálfstfl., sem gekk heill til þess verks, þegar við drösluðum honum út í samstarfið um þetta, heldur var hann klofinn.

Það er verkalýðurinn, sem hefur lagt grundvöllinn að því atvinnulífi, sem Ísland núna byggir ú, og það er verkalýðurinn, sem með baráttu sinni hefur bætt þau lífskjör, sem voru aumust, á meðan íhaldið réð mestu. Það er verkalýðurinn, sem hefur verið að berjast fyrir því að gera þetta þjóðfélag að betra þjóðfélagi fyrir alla alþýðu, og það er íhaldið, sem hefur slegizt á móti því allan tímann og sagt, að hver einasta tilraun til þess að gera þetta þjóðfélag að betra þjóðfélagi hafi verið tilraun til þess að steypa því, af því að þetta íhald hefur ekki haft sjálft trú á því, að fólki gæti liðið vel í okkar mannfélagi.

Auðvitað var það sagt við okkur í fyrra, að við ætluðum að steypa þjóðfélaginu með verkfallinu þá, þegar við vorum að leiðrétta 8 ára mistök, svo að notað sé nýjasta slagorð íhaldsins í þessum málum, eða á ég að segja: harðvítugan fjandskap íhaldsins og auðmannastéttarinnar við verkalýðinn, — þegar við vorum að leiðrétta það og tryggja, að verkalýðurinn fengi þó a. m. k. nokkra uppskeru af þeirri nýsköpun atvinnulífsins, sem hann hafði knúið fram. Og það tókst að knýja fram kauphækkun. Hvert var svar íhaldsins við þeirri kauphækkun, við þessari leiðréttingu, sem þó leiðrétti ekki til fulls allt, við náðum ekki öllu, sem rænt hafði verið af verkalýðnum á þessu 8 ára tímabili? Svar íhaldsins var að skipuleggja enn að nýju braskið. Á sama hátt og húsaleigan hafði verið hækkuð forðum daga, var okrið og braskið nú skipulagt í þjóðfélaginu. Það var eins og væri gefið út vígorð af sjálfri auðmannastéttinni í Rvík, að nú skyldi hver hækka sína vöru sem betur gæti. Þannig átti að ná sér niðri á verkalýðnum. Þannig átti að eyðileggja kaupgetu hans. Þannig átti að níðast á honum í skjóli ríkisvaldsins. Þannig átti að skipuleggja okrið að vanda. Og það var gagnvart þeim ráðstöfunum, sem verkalýðurinn sá, að nú dugði ekki annað en að heimsækja íhaldið á því sviði, þar sem það hafði sitt sterkasta vopn, í sjálfu ríkisvaldinu. „Á skal að ósi stemma:“ Það yrði að hindra það, að ríkisvaldið yrði misnotað til þess með skipulögðu braski, okri og verðhækkunum að ræna af almenningi jafnóðum því, sem hann gat áunnið sér með harðvítugri launabaráttu. Þess vegna sagði Alþýðusamband Íslands við íslenzka verkalýðshreyfingu: Verkalýðurinn verður að ná þeim áhrifum í ríkisvaldinu, að hann geti séð til þess, að það sé farið að gerbreyta þessu efnahagskerfi, sem svona er notað á móti honum í sífellu, til þess að ræna hann jafnóðum öllu því, sem hann ávinnur sér með löngum og hörðum verkföllum.

Það er ekki nema eðlilegt, að íhaldið sé ekki alveg búið að venja sig við það undireins að vera í stjórnarandstöðu og eiga nú allt í einu, eftir áratuga söng um þessa voðalegu menn, sem séu að hækka kaupgjald verkalýðsins og eyðileggja þjóðfélagið með því, — það er svo sem eðlilegt, að íhaldið sé ekki strax búið að venja sig á, að það þurfi ekki bara að þykjast fara að vera með því, að verkalýðurinn hafi atvinnu, og jafnvel með því, að hann fái kaupgjaldshækkanir, heldur líka meira að segja með því, að það eigi ekki að okra á honum. Kannske fer íhaldið að læra það bráðum? En hv. 2. þm. Reykv. var ekki búinn að læra það, hann var ofur lítið hreinskilnari en 1. þm. Reykv., sem auðsjáanlega er líka sniðugri stjórnmálamaður en hann. Hv. 2. þm. Reykv. fór ekki dult með það, að vafasömust af öllum ráðstöfunum í þeim lögum, sem hér er um að ræða, væri verðbindingin. Hann sagði bókstaflega, að þetta næði ekki nokkurri átt. Hann sagði, að það væri farið út í öfgar. Hugsa sér annað eins, jafnvel olíuverði væri haldið niðri. Er ekki von, að það komi við hjartað í hv. 2. þm. Reykv.? Olíuhringarnir voru svo fljótir að hækka eftir verkfallið 1955, að það er von, að það komi við, þegar verðhækkun á olíunni m. a. er stöðvuð. Og meira að segja hv. 2. þm. Reykv., atvinnuleysisráðherrann frá 1952, fór að tala um, að jafnvel framkvæmdirnar gætu líka truflað. M. ö. o.: Þegar íhaldsmennirnir eru sæmilega hreinskilnir, eins og hv. 2. þm. Reykv., finnst þeim að vísu gott, ef verkamenn álíta nauðsynlegt að notfæra sér ekki allar þær vísitöluhækkanir, sem þeir ættu rétt á, en þeim finnst ófært, ef þeir segja við auðmannastéttina í Rvík: Nú hækkið þið ekki verð, góðir hálsar. — Það er ekki aðeins varasamt, það er að fara út í öfgar, það nær ekki nokkurri átt.

Nei, íhaldið hefur notað sitt ríkisvald til þess að reyna að eyðileggja jafnóðum árangurinn af hverri kauphækkun, sem verkalýðurinn hefur knúið fram. Þess vegna hefur ríkisvaldið nú verið tekið af íhaldinu. Íhaldið hefur notað sína aðstöðu í þjóðfélaginu, sitt vald í þjóðfélaginu til þess að standa á móti öllum lífskjarabótum verkalýðsins, öllum launahækkunum verkalýðsins undanfarinn aldarfjórðung. Þess vegna hefur verkalýðurinn snúizt á móti íhaldinu, meira nú en nokkru sinni fyrr. Nú hælast að vísu hv. þm. Sjálfstfl. um, að það sé ekki mikið gert enn sem komið er til þess að breyta því ófarnaðarástandi, sem þeir hafi skapað, og tala nú um, að viðhorfið í þ,jóðfélaginu í dag sé ósköp erfitt, og jafnvel fara að tala um, að það sé vont fyrir verkalýðinn.

Ég vil segja þeim, að áratugs skefjalaus braskpólitík auðmannastéttarinnar hér í Rvík verður ekki læknuð í einu vetfangi og afleiðingarnar af henni ekki afnumdar í einu vetfangi. Það, sem hefur verið pólitík auðmannastéttarinnar og íhaldsins á undanförnum árum, er að koma braskinu, brasksjónarmiðunum, braskhugsunarhættinum, inn í hvert einasta efnahagssvið þjóðfélagsins og sem mest inn í allar lífsskoðanir manna. Þeir hafa verið að reyna að gagnsýra allt þjóðfélagið af gróða- og brasklönguninni, og það er enginn hægðarleikur að uppræta þetta í einu vetfangi og verður ekki gert í einu vetfangi. Það er eins og eitrið, sem dælt hefur verið í líkama sjúklings, það getur verið hættulegt að taka það allt út í einu, segja læknarnir. Það er engum efa bundið, að það þarf margar samræmdar efnahagsaðgerðir til þess að lækna þjóðfélagið af þeim brasksjúkdómi, sem íhaldið hefur verið að láta grafa um sig í því.

Hv. 2. þm. Reykv., sem er alltaf mikið fyrir bókmenntirnar, vitnaði í Hóraz. Mér datt næstum í hug að fara að vitna í Hamlet, það gamla: „Something is rotten in the state of Denmark: — Sannleikurinn er, að hér er þjóðfélagið orðið maðksmogið af þessum braskhugsunarhætti, brasklöngun og gróðadýrkun, sem auðmannastéttin í Rvík hefur verið að eitra þjóðfélagið með. Það, sem verkalýður og bændur hafa sagt með þeim lögum, sem hér liggja fyrir, með stöðvuninni svokölluðu, er ekki eins og hv. 1. þm. Reykv. vildi vera láta, að kauphækkun og lífskjaraendurbót séu ekki möguleg fyrir vinnandi stéttir á Íslandi. Það felst í því engin viðurkenning á því, að kaup verkamanna eða bænda, sjómanna og annarra vinnandi stétta sé of hátt eða að þeir taki hærra kaup en efnahagslífið þolir. Nei, það felst aðeins sú viðurkenning í því, að þessar vinnandi stéttir verði að taka til endurskoðunar allt það efnahagskerfi þjóðfélagsins, sem auðmannastéttin hefur verið að láta rotna og spillast í höndum sínum, og reyna að lækna þetta efnahagskerfi og reyna á meðan með ráðstöfunum eins og þeim, sem gerðar voru 1. sept., að hindra, að enn versni sá sjúkdómur, sem brasksjónarmiðið hafði komið inn í þjóðfélagið. Það skal engum takast að reyna að nota þetta til þess að fara að reyna að telja vinnandi stéttunum á Íslandi trú um, að þær geti ekki bætt sín kjör frá því, sem nú er. Það er aðeins hitt, að þeim er ljóst, að það er orðið svo samanslungið, svo flækt, það kerfi, sem auðvaldið hefur skapað hérna á Íslandi, að það þarf heildarendurskoðun á því, til þess að það verði byggt á einhverju viti. Þegar ástandið er orðið svo, að aðalatvinnuvegir þjóðfélagsins eru kallaðir að tapa, þegar útflutningurinn, sem öll gjaldeyrisöflun Íslendinga byggist á, verður að vera styrkþegi eins og kallað er, en heildverzlanir og ýmsir aðrir aðilar í þjóðfélaginu stórgræða á sama tíma, þá er greinilegt, að það dugir ekkert minna en að gerbreyta smátt og smátt öllu þessu efnahagskerfi. Og það, sem verkalýðurinn hefur sagt, er: Nú látum við ekki þennan sjúkdóm versna. Nú byrjum við á því að lækna hann. —

Ef lækningaaðgerðirnar koma við auðmannastéttina hér í Rvík og þá, sem hafa grætt á braskinu og rotnuninni í þjóðfélaginu á undanförnum árum, þá vona ég, að Sjálfstfl. kvarti ekki.

Það hefur fallið í hlut verkalýðsins hér á Íslandi hvað eftir annað að hafa átt forgöngu um að sjá um, að það væri til framleiðslugrundvöllur fyrir efnahagslíf Íslendinga, sjá um, að það væru til framleiðslutæki, stórvirk og góð framleiðslutæki handa íslenzkum stéttum, vinnandi stéttum, til að vinna með, þannig að lífsafkoma almennings gæti byggzt á heilbrigðum grundvelli. Sjálfstfl. hefur stundum reynt að hæla sér af því, að hann hugsaði eitthvað um atvinnulífið, að hann jafnvel væri sérstaklega flokkur framtaksins í atvinnulífinu.

Þegar Sósfl. forðum daga átti nokkurt samstarf við hluta af Sjálfstfl., þá var það Sósfl., sem varð að hafa framtak um að knýja það fram, að aflað væri stórfelldra framleiðslutækja til landsins, til þess að einhver atvinnulífsgrundvöllur væri þá til. Og hvað gerði svo Sjálfstfl., þessi flokkur framtaksins, þegar við höfðum sleppt af honum hendinni, — hvernig hefur það verið síðustu átta árin um togarakaupin til Íslands? Sjálfstfl. hefur síðustu átta ár ekki séð um, að það væri keyptur einn einasti nýr togari til Íslands til þess að bæta við okkar flota. Hann hefur vanrækt í 8 ár að undirbyggja framleiðslugrundvöllinn á Íslandi. Hann hefur haft áhuga fyrir öðru, 5 þús. bíla hefur hann flutt inn á sama tíma — mjög mikinn áhuga haft fyrir bílum. Hann gerir sér auðsjáanlega ekki ljóst, að til þess að við hefðum efni á því að eiga bíla, reka bíla og keyra bíla, þyrftum við að framleiða gjaldeyri og auka samhliða framleiðsluna og gjaldeyrinn.

Verkamenn og bændur landsins hafa tekið saman höndum nú til þess að tryggja, að hafizt verði handa að nýju um nýsköpun atvinnulífsins, að hafizt verði handa á sviði sjávarútvegs og annarra atvinnugreina um að bæta úr vanrækslu undanfarinna ára. Og hvernig er hljóðið í hv. þm. Sjálfstfl., þegar verkamanna- og bændastéttirnar nú mynda stjórn til þess að nýskapa atvinnulífið á Íslandi og til þess að leggja varanlegan grundvöll að betri og réttlátari lífskjörum fyrir vinnandi stéttirnar á Íslandi? Það mátti heyra það í hv. 1. þm. Rang. (IngJ), þegar hann talaði hér, að það var eins og hann vonaðist næstum því til þess, að það yrði ekki rétt mikið úr skýjaborgunum, sem þessi stjórn verkamanna og bænda hefði reist sér í þeim efnum. Hann talaði um, að það væri nú ekkert lán fengið fyrir 15 togurunum. Mig skal ekkert undra, þó að honum liggi.við að vona, að ekkert lán fengist. Það gekk svo bölvanlega fyrir honum, þegar hann var ráðh., að útvega nokkurt lán. Það virtist enginn í veröldinni hafa neitt traust á þeirri stjórn, sem hann sat í, né vilja lána henni.

Ég vil aðeins segja það við hann: Þið skuluð ekki hælast um of snemma í þeim efnum. Íslenzka þjóðfélagið er það sterkt og vinnandi stéttir þess það duglegar og auðlindir þess það miklar, að það verðskuldar að geta fengið lán til þess að byggja upp sitt þjóðfélag. Og það er ekki vandi að fá lán handa Íslandi, ef á að verja þeim lánum til þess að auka framleiðsluna og útflutninginn á Íslandi. Það kann að vera erfitt að fá lán til þess að kaupa 5000 bíla til Íslands, en það er áreiðanlega ekki erfitt að fá lán til þess að kaupa 15 togara. Þeir 15 togarar skapa á einu ári með úrvinnslu íslenzkra vinnandi stétta jafnmikið í gjaldeyri og þeir kosta sjálfir.

Þið skuluð ekki vera með neinar hrakspár í garð þessarar stjórnar hvað það snertir og neinar tálvonir um, að hún geti ekki unnið bug á þeim erfiðleikum, sem hún tekur í arf frá fyrri stjórn.

Það var hér forðum daga, þegar verkalýðurinn barðist fyrir nýsköpuninni þá, líka af hálfu þeirra manna í Sjálfstfl., sem stóðu á móti nýsköpunarstjórninni, eins og hv. 1. þm. Rang. og hv. 2. þm. Reykv., vonazt eftir því, að það yrði ekkert úr þeim skýjaborgum, sem verkalýðurinn reisti sér þá. Það var vonazt eftir, að það yrði ekkert annað en verðfall á öllum útlendum mörkuðum og annað slíkt. Sú von brást. Og íslenzk þjóð gat keypt atvinnutækin, sem síðan hafa verið hennar efnahagslegi grundvöllur, og hún mun geta það enn.

Þær vinnandi stéttir Íslands, sem nú hafa heitið því að reyna að vinna saman til að skapa nýja heilbrigða stjórnarstefnu á Íslandi, munu vinna að því öllu í senn að stórauka framleiðslutækin á Íslandi, auka afköst hinna vinnandi stétta, auka útflutninginn, auka gjaldeyrisöflunina og skapa þannig eðlilegan grundvöll að bættri lífsafkomu vinnandi stéttanna. Þær munu vinna að því að gera efnahagslífið heilbrigt, að útrýma úr því þeim brasksjónarmiðum, sem hafa gagnsýrt það og spillt því. Það verður e. t. v. alllangvinnt starf að gera það efnahagslíf heilbrigt, sem sett hefur verið úr skorðum með þeim skefjalausu yfirráðum og vægðarlausu misbeitingu á efnahagslegu og pólitísku valdi, sem auðmannastéttin í Reykjavík hefur sýnt á undanförnum árum, en það verk mun samt verða unnið. Og vinnandi stéttirnar munu vinna að því samtímis þessu tvennu; samtímis því, sem þær auka framleiðslutækin og skapa þannig sterkari og öruggari grundvöll fyrir allt okkar atvinnulíf, samtímis því, sem þær gera efnahagslífið og þjóðfélagið réttlátara, munu þær vinna að því að bæta lífskjör íslenzkrar alþýðu.

Íhaldið skal ekki gera sér neina von um, að vinnandi stéttirnar á Íslandi hverfi frá því markmiði, sem þær hafa haft öll þessi ár. En þær munu nú vinna að því samtaka með ríkisvaldið í sínum höndum. Og við skulum vona, að sú stjórnarandstaða, sem nú hefur verið að berjast hér í þessu máli, komi ekki til með að kvarta, þótt ráðstafanirnar til þess að gera efnahagslífið heilbrigt kunni að bitna að einhverju leyti á þeim, sem safnað hafa auði í skjóli þess að spilla þjóðfélaginu, láta braskið drottna í því og rýra í skjóli þess kjör almennings. Við skulum vona, að Sjálfstfl. komi ekki þá upp og kvarti fyrir hönd þeirra, sem grætt hafa á verðbólgu og dýrtíð, okri og braski á undanförnum árum.