02.11.1956
Neðri deild: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Í ræðu þeirri, sem hv. þm. Mýr. (HS) hélt hér í gær, lagði hann sérstaka áherzlu á það, að framsóknarmenn hefðu lýst því yfir í kosningabaráttunni, að nýrra úrræða þyrfti að leita í efnahagsmálunum. Ja, ég kannast við þessa yfirlýsingu frá mörgum kosningafundum fyrir síðustu alþingiskosningar, að nýrra úrræða þyrfti að leita. Ég man líka eftir því að hafa spurt marga málsvara Framsfl. á kosningafundum u.m það, hverra úrræða þyrfti að leita, hvort þeir vildu nú ekki gera svo vel og láta svo lítið að gefa hv. kjósendum eitthvað í skyn, hver hin nýju úrræði mundu verða, því að á því mundi að sjálfsögðu velta mat og dómur kjósendanna um það, hvort þeir vildu greiða þeim atkvæði eða öðrum, sem gert hefðu grein fyrir sínum málefnum. Það fékkst ekki. Það hefur heldur ekki fengizt enn. Það er komið fram í nóvembermánuð, Alþingi er búið að sitja tæpan mánuð, og við erum ekki enn farnir að heyra neitt um hin nýju úrræði, sem framsóknarmenn lýstu svo ákveðið yfir fyrir kosningarnar að leita þyrfti. Og þegar þessir menn eru nánar aðspurðir, þá hefur raunverulega ekki komið fram nema eitt, eins og kom fram hjá þessum hv. þm.: Hin nýju úrræði eru samvinna verkamanna og bænda. Við ætlum að beita okkur fyrir samvinnu verkamanna og bænda. — Og það er helzt svo að skilja, að þessir þm. Framsfl. og aðrir telji, að þeir séu búnir að efna fyrirheitin við kjósendur um samvinnu verkamanna og bænda með því stjórnarsamstarfi, sem nú hefur verið á komið. Þetta er mikil gleymska, og það er mikil hreysti hjá mönnum að koma fram með slíkum hætti. Ég minni enn einu sinni á það, sem Framsfl. lofaði kjósendum þessa lands fyrir kosningar. Hann lofaði þessum kjósendum undir engum kringumstæðum að mynda ríkisstj. með kommúnistum, undir engum kringumstæðum, og síðasta ákvörðunin í því efni var á sjálfan kosningadaginn, 2.4. júní, í málgagni Framsfl., Tímanum, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðviljinn hefur þá fregn að færa liði sínu við lok kosningabardagans, að ákveðið hafi verið í herbúðum Hræðslubandalagsins að leita til kommúnista um stjórnarsamvinnu eftir kosningar. Eins og margbúið er að lýsa yfir af hálfu Alþfl. og Framsfl., er þetta uppspuni frá rótum og ekkert samstarf verður haft við þetta bandalag kommúnista um stjórn, af því að þeir eru ekki hóti samstarfshæfari en áður, þótt þeir hafi skipt um nafn.

Þetta loforð gaf Framsfl. kjósendum sínum úti um land fyrir kosningar. Þetta loforð hefur hann svikið, svo sem staðreyndirnar vitna um, og það er m. a. vegna slíkra augljósra svika við kjósendur landsins, að fólkið úti um dreifðar byggðir og ekki sízt í bændastétt þessa þjóðfélags treystir ekki núv. stjórn.

Að öðru leyti, þegar talað er um samvinnu verkamanna og bænda, þá er það vitað, að Framsfl. á litlu fylgi að fagna í verkamannastétt, en hins vegar er Sjálfstfl. í senn langstærsti flokkur þjóðarinnar, með yfir 42% kjósenda, og hefur mikið fylgi í verkamannastétt og álíka mikið fylgi í bændastétt og Framsfl. Bændur hafa þess vegna í engri ríkisstj. meiri stuðning við sinn málstað en ríkisstj., þar sem að standa sameiginlega Framsfl. og Sjálfstfl. En það er svo að skilja á framsóknarmönnum nú, að þeir telji, að það sé mikill vinningur fyrir bændur þessa lands að hafa losað Sjálfstfl. úr ríkisstj. og tekið upp samstarf við kommúnista. Það er ekki aðeins, að Sjálfstfl. sé jafnstór bændaflokkur og Framsfl., heldur eru flestir landskunnustu framámenn bændasamtakanna forustumenn í liði sjálfstæðismanna. Hér í þingsölunum sitja forustumenn bændasamtakanna, landskunnir menn eins og Pétur Ottesen, Jón á Reynistað og Jón Pálmason, forustumenn í liði sjálfstæðismanna og forustumenn í liði bænda: En hvar eru hinir landskunnu forustumenn bænda í liði framsóknarmanna? Ég veit, að hér í þingflokki framsóknarmanna eru góðir bændavinir og fulltrúar, sem sannarlega vilja bændastéttinni vel, ungir og vel metnir menn, en eiga sannarlega ekki neina sögu sér að baki, sem er lík sögu þeirra manna, sem ég nú hef nefnt, og m. a. undirstrikar það, sem ég sagði áðan, að það er ekki aðeins að Sjálfstfl. eigi sitt mikla bændafylgi, heldur á hann í bændasögunni kannske stærstu bændahöfðingjana og forustumennina.

Þessi sami hv. þm. sagði líka, að það væri eftir kröfu sjálfstæðismanna, að fjárhagsráð hafi verið lagt niður og byggingarfrelsi innleitt. Já, það var sannarlega eftir kröfu sjálfstæðismanna, að fjárhagsráð var lagt niður og byggingarfrelsi innleitt í þessu landi, og við sjálfstæðismenn skjótum okkur ekki undan ábyrgð af þeim ráðstöfunum. Það er satt. Þetta var fyrir forustu okkar. En framsóknarmenn tóku fullan þátt í þessu. Þetta mun hafa verið haustið 1953, og það leið ekki lengur en fram í janúarmánuð 1954, því að þá voru bæjarstjórnarkosningar hér í Rvík, að þá var það dag eftir dag, sem Tíminn heimtaði meiri byggingar, afnám allra fjárfestingarhamla, meiri fjárfestingu, það væri lífsnauðsyn að auka fjárfestinguna í höfuðstað landsins með auknum byggingum, og sjálfstæðismönnum legið á hálsi á undanförnum árum fyrir að hafa staðið gegn því eða ekki komið því áleiðis, að meira væri byggt í höfuðstað landsins. Þannig er tvísöngurinn hjá þessum flokki, að þegar bæjarstjórnarkosningar eru hér í Rvík, þá á að byggja meira, þá á fjárfestingin að vera meiri, þessi sama fjárfesting sem síðar, nokkrum mánuðum seinna, er svo í munni þessara manna þjóðarböl og ein ástæðan fyrir erfiðleikunum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Það hefur margt komið fram í þessum umr. um frv. ríkisstj. um staðfestingu á brbl. um verðfestingu kaupsins, og hafa umr. að verulegu leyti, eins og vænta mátti, snúizt um efnahagsmálin almennt.

Mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. forsrh. (HermJ). Hann er nú búinn að tala nokkuð mikið um efnahagsmálin, bæði á flokksfundum framsóknarmanna, í útvarpsumr. og svo nú hér á þingi, og það er eins og það sé ævinlega sami söngurinn hjá þessum ráðherra, og ekki sízt eftir að hann tók við stjórnarforustunni, að hér sé allt komið á heljarþröm, allir sjóðir tómir. Það er enginn peningur í rafvæðingu landsins, ekkert í byggingu sementsverksmiðju, ekkert í húsbyggingasjóði, ekkert í fiskveiðasjóði, það eru tómir sjóðir landbúnaðarins, gjaldeyrislaust landið, of mikil útlán bankanna, allt í ólagi, — fjárfestingin allt of mikil, allt í ólagi nema fjármálastjórn Eysteins Jónssonar. Það er eins og þetta séu ær og kýr þessa hæstv. forsrh. í sambandi við efnahagsmálin. En ég held, að það sé mjög gagnlegt, að þingheimur geri sér nokkra grein fyrir, hvað hér er um að ræða, og sannast að segja held ég, að það sé langsamlega gagnlegast fyrir hæstv. forsrh. sjálfan.

Maður hafði ekki búizt við, að stóllinn væri orðinn tómur strax eða auður, en þessi ráðh. lætur nú ekki svo lítið að fylgjast með umr. um efnahagsmálin, og veitti honum þó sannarlega ekkert af, og vildi ég nú beina því í allri vinsemd til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki ráðherrans vegna stuðla að því, að hann reyndi að afla sér dálítið meiri upplýsinga um efnahagsmálin með því að hlýða á ræður þingmanna um þau.

Þessi hæstv. ráðh. sagði: Ja, það var bara það fyrsta, sem ég rak mig á, þegar ég kom í stjórnarráðið, að það var enginn peningur til til þess að framkvæma rafvæðingu landsins með. — Og stjórnarblaðið hefur eftir forsrh., að sjálfstæðismenn hefðu skilið þannig við, sjálfstæðismenn, — það var að vísu framsóknarmaður, sem var raforkumálaráðherra, en látum það liggja á milli hluta, — að sjálfstæðismenn hefðu skilið þannig við, að það vantaði 23 millj. kr. í sjóð rafmagnsáætlunarinnar til þess að standa við gefin loforð. Þetta segir hæstv. ráðh. hér á þingi og lætur blað sitt hafa eftir sér til þess að standa við gefin loforð. En þessi hæstv. ráðh. hefur verið á fundum með bönkunum á þessu hausti til þess að biðja þá um að leggja fram meira fé en þeir voru búnir að lofa, til þess að hægt sé að hafa fjármagn í það, hvað framkvæmdirnar eru komnar umfram það, sem áætlað var. Þetta veit hæstv. ráðh., og þess vegna er furðulegt, að hann skuli koma hér og halda slíku fram, að það vanti einhverja peninga, vegna þess að það hafi ekki verið staðið við gefin loforð. En hvað var í raforkusjóði, hvaða fé var handbært til raforkuframkvæmda, þegar ríkisstj. sjálfstæðismanna tók við, eftir alþingiskosningarnar 1953? Þá var gerð 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins, og í henni fólst í meginatriðum, að tryggt skyldi sem svaraði 25 millj. kr. á ári að meðaltali næstu 10 ár til þess að virkja og leiða rafmagn um gervallt landið. Það var þá enginn sjóður, sem sjálfstæðismenn gátu gripið til eða stjórn þeirra og haft á reiðum höndum til þess að efna þessi fyrirheit. Hins vegar tryggði stjórn sjálfstæðismanna það fjármagn, sem talið var nauðsynlegt að tryggja innanlands til þessara framkvæmda. Og það hefur verið með þeim hætti enn, að það er ekki eitt einasta loforð í þeim efnum, sem óefnt er, heldur hefur verið gengið miklu lengra en lofað var, framkvæmd áætlunarinnar gengið miklu hraðar, og það er m. a. þess vegna, sem framkvæmdirnar eru í fjárskorti nú í bili, en ekki vegna þess, að nein loforð hafi verið vanefnd.

Á því árabili, sem sjálfstæðismenn höfðu stjórnarforustuna, var varið um 100 millj. kr. til framkvæmda hinnar umræddu raforkuáætlunar af innlendu fé og um 29 millj. kr. erlent lánsfé: 1954 10 millj. kr. úr ríkissjóði, 17.1 millj. frá bönkum, 1955 10 millj. kr. frá ríkissjóði, 25.6 millj. kr. frá bönkum og 1956 15 millj. frá ríkissjóði og 24 millj. kr. úr bönkum, sem gerir 100 millj. kr., og síðan hefur verið aflað tæpl. 30 millj. kr. erlends láns til kaupa á vélum, þannig að þetta á árunum 1954 og 1955 og það sem af er þessu ári er um 130 millj. kr. En eins og ég sagði, var heildaráætlunin í upphafi miðuð við 250 millj. kr., þó að það sé skylt að geta þess, að mjög fljótlega hafi menn áttað sig á, að það þyrfti að hækka hana verulega til að standa við loforðin að framkvæma áætlunina á 10 árum eða rafvæðinguna á 10 árum. En menn sjá á þessum fjárframlögum, sem hér er um að ræða, að framkvæmd áætlunarinnar um rafvæðingu landsins undir stjórnarforustu sjálfstæðismanna hefur verið með miklu meiri hraða en áætlað var.

Það er heldur kannske ekki nein tilviljun, eins og hv. 1. þm. Rang. benti á, að það er einmitt þegar sjálfstæðismenn hafa haft stjórnarforustuna, sem stærstu ákvarðanirnar hafa verið teknar í raforkumálum landsins. Sjálfstæðismenn báru fram á sínum tíma undir forustu Jóns Þorlákssonar og Jóns Sigurðssonar till. hér á Alþingi um almenningsrafveitur á Íslandi fyrir 1930. Og eftir að áhrif sjálfstæðismanna jukust í ríkisstj. og á Alþingi, höfðu sjálfstæðismenn forustu um að bera fram lögin um raforkusjóð, og undir stjórnarforustu sjálfstæðismanna voru samþykkt lögin um almenningsrafveiturnar frá 1946 og einnig á því sama tímabili lögin um hina stórfelldu aukningu Sogsins, sem átti sér stað upp úr þeim tíma, og undir stjórnarforustu sjálfstæðismanna var gerð og lögfest 10 ára áætlunin um rafvæðingu landsins, sem nú er verið að vinna að og svona langt er komið.

Svo kemur hæstv. forsrh., sem ef til vill er nú líka raforkumálaráðherra, og segir: Hvernig stendur á þessu? Það er enginn peningur til í sjóði, þegar ég kem í stjórnarráðið? — Ég held, að ráðh. hefði átt að líta eitthvað á það og reyna að kynna sér, hvað hefur verið gert á undanförnum árum, og gera sér grein fyrir því, að nú er það hans hlutverk eins og fyrirrennara hans að tryggja framhald fjármuna í þessar framkvæmdir, að svo miklu leyti sem það hefur ekki þegar verið tryggt með samningum við bankana.

Sama er um sementsverksmiðjuna. Hæstv. forsrh. segir, að þar vanti fé til áframhaldandi framkvæmda og þetta sé eitt sýnishornið af eyðimörkinni í efnahagslífinu. En hvar voru sjóðirnir, þegar stjórn sjálfstæðismanna tók við 1953 til að byggja sementsverksmiðju? Þeir voru sannarlega engir. En á þeim tíma, sem sú ríkisstj. fór með völd, voru sementsverksmiðjunni tryggðar milli 60 og 70 millj. kr., og það er nákvæmlega það sama, sem núv. ríkisstj. verður að horfast í augu við, að hún verður að tryggja áframhaldandi fjármagn til þessara framkvæmda, nákvæmlega á sama hátt og fyrrv. stjórn sinnti þessu hlutverki sinu, þegar hún fór með völd.

Nú, íbúðarhúsalánin, þar eru tómir sjóðir, segir hæstv. ráðh. Ja, hvar voru sjóðirnir, þegar stjórn sjálfstæðismanna tók víð 1953? Það væri mjög æskilegt, ef hæstv. forsrh. gæfi þingheimi einhverjar upplýsingar um þessa sjóði. En hvað gerðist? Það gerðist í tíð fyrrverandi stjórnar í sambandi við íbúðamálin og húsabyggingarnar, að afnumdar voru óeðlilegar fjárfestingarhömlur og gefnar voru frjálsar byggingar hóflegra íbúða, sem leysti úr læðingi orku einstaklinganna í þessu þjóðfélagi og stuðlaði að meiri byggingarframkvæmdum en nokkru sinni áður hafa átt sér stað í þessu þjóðfélagi. Í öðru lagi tryggði stjórnin strax í upphafi 20 millj. kr. viðbótarlán til íbúðabygginga, sem rann í lánadeild smáíbúða. Í þriðja lagi var svo eftir hæfilegan undirbúning stofnsett nýtt veðlánakerfi til íbúðabygginga, sem miðar að varanlegri lausn lánsfjármálanna.

Það er vissulega rétt, að hér er aðeins um byrjun að ræða. En ef tekst að halda áfram eins og til var stofnað, þá má vænta þess, að hér sé upphaf að verulega veigamiklu fjármálakerfi í þjóðfélaginu, sem, eins og ég hef áður sagt, er ástæða til að ætla að geti ekki aðeins stuðlað að eflingu íbúðabygginga í landinu, heldur síðar meir stutt margar aðrar framkvæmdir. Því er haldið fram núna, að þetta veðlánakerfi sé eiginlega einskis virði, það hafi ekkert fé til að lána og ekkert verið úr því lánað. En úr þessu veðlánakerfi var í ágústmánuði s. l. búið að lána A-lán 53.4 millj. kr. og B-lán 21.4 millj. kr. Og vegna ráðstafana fyrrv. ríkisstj. eru til ráðstöfunar vegna lána til útrýmingar heilsuspillandi íbúða 7.7 millj. króna: 3 millj. kr. fyrir árið 1955 eftir lögunum og 3 millj. kr. 1956 og 1.7 millj, kr. af 13 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkisins 1955, sem fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir að varið var til íbúðabygginga.

Síðan í ágúst munu hafa verið lánaðar úr þessu kerfi um 4 millj. króna, og er líklegt, að til áramóta geti orðið um allt að 16 millj. kr. að ræða, sem í gegnum þetta kerfi verður veitt, og hefur þá, frá því að það var stofnað, verið úr því veittar um 102 millj. kr.

Það eru líka staðreyndir í þessum málum, sem eru veigamestar, að það hefur aldrei meira verið byggt en í tíð fyrrverandi stjórnar, og byggingarmálunum er þannig á veg komið, ekki aðeins hér í höfuðstað landsins, heldur einnig um gervallt land, að ef menn horfast í augu við það og geta náð þeim árangri, að þróun þessara mála fái næstu tvö til þrjú ár að halda áfram svipað og verið hefur, þá eru mestu vandræði húsnæðiserfiðleikanna leyst.

Eftir skýrslu, sem veðdeild Landsbankans hefur gefið, liggur það fyrir, að þegar útlánunum úr veðdeildinni er hlutað á milli ára, þá eru það um 105 millj. kr., sem runnið hafa í gegnum þetta kerfi á árinu 1955, og þá er miðað við sams konar áætlun og var í grg. Landsbankans við frv. ríkisstj. á sínum tíma, ekki aðeins það, sem veðdeildin sjálf lánar, heldur aðrar stofnanir eins og sparisjóðir og byggingarsjóðir í tengslum við þetta veðlánakerfi. Og áætlun veðdeildarinnar, sem birtist í grg. frv. á sínum tíma, gerði ráð fyrir, að fjármagnið mundi verða um 100 millj. kr. á ári, og hefur hún því fyllilega staðizt. Enn fremur kemur fram í þessu bráðabirgðayfirliti veðdeildarinnar, að hún áætlar, að á árinu 1956 muni mega búast víð á sama hátt, að um 120 millj. kr. renni í gegnum þetta veðlánakerfi og að af því verði lán veðdeildarinnar einnar um 60 millj. kr.

Mér er alveg ljóst, að hér er enn of skammt gengið í lánsfjáröflun til íbúðabygginga. En það þýðir ekki að koma með vandlætingu og segja: Af því að nú eru ekki til tugir og hundruð millj. í sjóði af handbæru fé, þá er það vitnisburður um þá eyðimörk í fjárhagslífinu og efnahagslífinu, sem liggur eftir fyrrv. ríkisstjórn. — Núverandi hæstv. ríkisstj. verður bara að reyna að standa í „stykkinu“, ef nota má það orð, eins og fyrrv. ríkisstj. og halda þessum málum áfram. Og þegar hæstv. forsrh. segir nú: Það er ekkert fé í þessum sjóðum eða veðlánakerfinu, — þá veit ég ekki fyllilega, við hvað hann á, því að heilbrigð skynsemi mælir þó með því að menn mættu ætla, að það væri hægt að tryggja framhald þessarar starfsemi. Það er að vísu svo, að fyrrv. ríkisstj. samdi ekki við bankana nema til tveggja ára, og eins og ég hef áður vikið hér að á Alþ., er það samningstímabil útrunnið um næstu áramót. Hæstv. núverandi ríkisstjórn er búin að sitja nokkra mánuði, og hún segir, að það séu ekki til neinir peningar. Hún hefur kannske búizt við því, að það væri vonlaust verk að ræða um það við peningastofnanir þessa lands, að það héldu áfram lánveitingar af þeirra hálfu gegnum veðlánakerfið. Ég fyrir mitt leyti hef búizt við því, að viðræður við bankana yrðu um það hafnar og mundu vissulega bera þann árangur, að það fengi ekki staðizt, að ekkert fé væri fyrir hendi til þessara framkvæmda.

Mig furðar stórlega á því, eins og ég lét í ljós um annað mál hér, þegar breytingar um lögin um húsnæðismálastjórn voru til umr., að ráðherrar núverandi hæstv. ríkisstj. séu að fjargviðrast yfir fjárskortinum í þessu efni, en hafa ekkert gert, svo að vitað sé, til þess að reyna að halda áfram þeirri starfsemi til fjáröflunar, sem hafin var.

Þá var tómur fiskveiðasjóður. Í tíð fyrrverandi ríkisstj. voru lánveitingar úr fiskveiðasjóði 1954 20.9 millj. kr., 1955 25.7 millj. kr. og til 25. okt. á þessu ári 42 millj. kr., og áætlaðar til áramóta um 20 millj. kr. Það eru 108 millj. kr. á þremur árum, 1954, 1955 og 1956, sem lánað hefur verið úr fiskveiðasjóði til uppbyggingar bátaútveginum í landinu. Einhvers staðar hygg ég nú, að þessa hljóti að sjá stað. Hins vegar er mér ljóst, að þessi þróun verður að halda áfram, og það er vitað, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. reyndi með forgöngu Framkvæmdabankans að afla erlends lánsfjár til viðbótar til fiskveiðasjóðs, og þær tilraunir hafa ekki enn borið árangur. Það er rétt. Ég held hins vegar, að ekki sé ástæða til að ætla, að slíkar tilraunir geti ekki borið árangur. Við vitum, og hæstv. forsrh. veit, að það varð bið á framkvæmd þeirra mála, meðan lánsfjármálin til sementsverksmiðjunnar voru ekki leyst. Og það er eitthvað nýtt, ef ekki er hægt að búast við því, að fjárreiður okkar og lánstraust sé þannig, að nú sé komið að því, að efnt verði vilyrði, sem vissulega má telja að legið hafi fyrir um það, að Íslendingar yrðu aðnjótandi lánsfjár úr Alþjóðabankanum bæði til fiskveiðasjóðs og annarra framkvæmda. Meðan hins vegar fyrrv. ríkisstj. tókst ekki á stuttum valdatíma að fá þetta erlenda fjármagn, þá aflaði hún fiskveiðasjóði 20 millj. kr. í sinni valdatíð, 8 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1954, 10 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1955 og 2 millj. kr. framlag ríkissjóðs 1956, sem er fyrsta árlega framlagið, sem lögfest var með hinum nýju lögum um fiskveiðasjóð Íslands, sem hæstv. fyrrv. sjútvmrh. hafði forgöngu um. Við sjálfstæðismenn leggjum nú til í frv. hér á Alþ., að þessu sé haldið áfram til þess að firra vandræðum, að meðan ekki sé hægt að tryggja nýtt erlent lánsfé til þessarar mikilvægu starfsemi, þá ákveði og slái þingið því föstu, að fiskveiðasjóður skuli a. m. k. fá 10 millj. kr. á ári til viðbótar við hið 2 millj. kr. árlega framlag og þá strax á þessu ári. Og ég vil leyfa mér að vænta góðrar samstöðu allra flokka hér á hv. Alþ. um þá tillögu.

Þá eru sagðir tómir sjóðir landbúnaðarins. Já, landbrh. mætti vel vita og trútt um tala. Sannleikurinn er sá, að það voru litlir sjóðir, pínulitlir sjóðir landbúnaðarins, þegar núverandi hæstv. landbrh. hætti að vera landbrh. 1942, eins og 1. þm. Rang. vék að hér í gær. En við aukin áhrif sjálfstæðismanna í ríkisstj. og á Alþ. hafa þessi mál tekið stökkbreytingum á undanförnum árum. Og þessir sjóðir hafa nú fengið tugi milljóna kr. einmitt í samræmi við grundvöll þeirrar löggjafar, sem sett var landbúnaðinum til handa í landbúnaðarráðherratíð Péturs heitins Magnússonar, í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, á árunum 1944–46. Og hvað skyldu þessir sjóðir hafa fengið í stjórnartíð sjálfstæðismanna, sem framsóknarmenn eru stundum að segja að séu litið hlynntir landbúnaðinum? Jú, ræktunarsjóðurinn hefur fengið af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1954 8 millj. og 1955 22 millj., frá Framkvæmdabankanum 1954 5 millj., 1955 13.5 millj. og 1956 mætti ætla um 14 millj. kr. Og byggingarsjóður hefur fengið frá Framkvæmdabankanum 1954 3 millj. kr., frá veðlánakerfinu 1955 12 millj. kr. og á rétt til frá veðlánakerfinu á þessu ári 12 millj. kr., sem þessir sjóðir hafa fengið. — En þá kemur hæstv. ráðh. og segir: Já, en það eru 90 millj. kr., sem búnar eru, og það eru engar aðrar 90 millj. kr. fyrir hendi. Það er alveg rétt, þær liggja ekki í handraðanum, 90 millj. kr. En hvaða ástæða er til þess að ætla, að þessir sjóðir geti ekki í framtíðinni fengið svipað fjármagn eftir hendinni eins og verið hefur? Ósköp er barnalegt að koma hér og tala um, að nú séu þessir sjóðir tæmdir. Er það ekki fyrir forustu Péturs Ottesens, að ræktunarsjóði er þó tryggt, fullkomlega tryggt, á næstu árum a. m. k. 15–16 millj. kr. árlegt framlag frá Framkvæmdabankanum, sem er helmingur mótvirðissjóðsins? Sá sjóður, sem hefur tryggt 15–16 millj. kr. árlegt framlag og búið er að veita jafnmikið fé í og á undanförnum árum, er a. m. k. ekki tómur, því að umfram það, sem ég hér hef nefnt, hafa þessum sjóðum verið lagðir tugir milljóna króna, upphaflega sem lán og síðan sem framlög, — og allt með fullu samþykki og fyllsta áhuga sjálfstæðismanna fyrr og síðar í samstjórnartíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það væri alveg gjaldeyrislaust, — það var eitt einkennið á eyðimörkinni, — og það væri því að kenna, hvernig fyrrverandi stj. hefði skilið við. Menn gleyma því nú alltaf, þegar verið er að tala um efnahagsmál og fjármál fyrrverandi stjórnar, að framsóknarmenn hafi þar nokkuð nálægt komið. En ég spyr enn: Voru gjaldeyrissjóðir, þegar stjórn sjálfstæðismanna tók við 1953? Var öðruvísi umhorfs fyrir þá stj. að taka við heldur en núverandi hæstv. ríkisstj. Hermanns Jónassonar? Nei, það var ekki öðruvísi, þvert á móti. Ég skal færa því stað. Hann hefur því enga minnstu ástæðu til þess að kvarta af þessu tilefni eða nokkur rök til þess að telja ástandið í þessum efnum neinn vott um sýkingu efnahagslífsins fram yfir það, sem það kann að hafa verið, þegar Sjálfstfl. tók við stjórnarforustunni 1953.

Hæstv. forsrh. var að tala um ölmusur, sem Íslendingar hefðu þegið, og gerði lítið úr. Hann á víst við Marshallféð. Jú, Íslendingar urðu þess aðnjótandi eins og fleiri þjóðir, meðan hæstv. forsrh. Hermann Jónasson var í ríkisstjórn. Þá voru þessar ölmusur þegnar, ef hæstv. forsrh. þykir viðeigandi að kalla þær því nafni. En í stjórnartíð sjálfstæðismanna undanfarin 2½ ár hafa engar slíkar ölmusur verið þegnar. Hér heggur sá, er hlífa skyldi. Það liggur fyrir grg. um fjármunamyndun þjóðarinnar á undanförnum árum af erlendu fé, hvað hið erlenda fé hefur verið hlutfallslega mikill þáttur í fjármunamyndun þjóðarinnar, meðan Hermann Jónasson, hæstv. forsrh., var í ríkisstj. og framsóknarmenn höfðu stjórnarforustuna og fjármálaráðherrann: 1950 31%, 1951 25%, 1952 18%, 1953 13% og 1954 6.7 % og hverfandi lítið árið. 1955 og a. m. k. ekki í tíð fyrrverandi hæstv. ríkisstj., sem sjálfstæðismenn veittu forustu, neinar ölmusur þegnar, svo að notað sé mál hæstv. forsrh.

En hver var þá gjaldeyrisstaðan, þegar sjálfstæðismenn tóku við stjórnarforustunni og þegar hæstv. forsrh. tekur við stjórnarforustunni? Ég skal miða við apríl- og maímánuð þess árs, sem sjálfstæðismenn tóku stjórnarforustuna, 1953. Þá voru erlendar skuldir bankanna í apríl 41 millj. kr., en núna í ár 27 millj. kr. Það er með öðrum orðum 14 millj. kr. hagstæðari jöfnuður. Og í maímánuði 1953 voru erlendu skuldirnar 50 millj. kr., 1956 22 millj. kr. Það er með öðrum orðum 28 millj. kr. hagstæðari jöfnuður, sem núverandi hæstv. ríkisstj. fær að búa við í gjaldeyrismálunum, heldur en stjórn sjálfstæðismanna, þegar hún tók við á árinu 1953. Og það er meira, sem kemur til í þessu sambandi, eins og hæstv. sjútvmrh. (LJós) hefur glögglega bent á í ræðum, sem hann hefur haldið og vitnað hefur verið til eftir honum, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar fara stöðugt vaxandi vegna aukinnar útflutningsframleiðslu, og þess vegna má segja, að þróunin í gjaldeyrismálum sé að því leyti mjög hagstæð. Hitt vita allir, sem um þessi mál vilja hugsa, að það eru erfiðleikar í gjaldeyrismálum hjá þjóð, sem er í jafnörri uppbyggingu með athafna-, atvinnu- og framkvæmdalíf sitt eins og Íslendingar og hefur ekki tekizt að tryggja eða fá til þess nú síðari árin nema sáralítið erlent fjármagn og hefur þurft að byggja það allt saman upp af afrakstri þjóðarbúsins frá ári til árs.

Mér er það ljóst, að það er ofrausn að ætlast til þess, að við svo búið. geti lengi staðið, ef halda á áfram svipaðri þróun og verið hefur, og þess vegna hlýtur það að vera eitt af veigamestu viðfangsefnum núverandi hæstv. ríkisstj. að afla þjóðinni erlends fjármagns til hinnar heilbrigðu uppbyggingar, sem fram undan er. En ekkert í þessu sambandi, í sambandi við gjaldeyrismálin og gjaldeyriserfiðleikana, sem við búum við í bili af nefndum sökum, vitnar um neina helsýki í efnahagslífinu, þvert á móti, og ég meina þvert á móti vegna þess, að skorturinn er m. a. vegna hins mikla áræðis, vegna hins mikla dugnaðar íslendinga að byggja upp sitt atvinnulíf og sitt fjárhagskerfi.

Þá er útlánaaukning bankanna, sem gerð hefur verið að umtalsefni. Það er of mikil útþensla, segir hæstv. forsrh., í lánum bankanna, og það er m. a. einn votturinn um sýkinguna í efnahagslífinu, sem er arfurinn frá stjórnartíð sjálfstæðismanna. — Hv. 9. landsk. þm. (ÓB) benti á það í sinni ágætu ræðu í gær, að nú kveði við nokkuð annan söng en hjá fyrrverandi stjórnarandstæðingum, sem ekki aðeins voru sí og æ að ásaka fyrir lánsfjárkreppuna, heldur ásökuðu fyrrverandi ríkisstj. fyrir að hafa bara skipulagt lánsfjárkreppu algerlega að óþörfu. Það var ekki sjaldan, sem mátti heyra það. Það áttu að vera nógir peningar til í bönkum landsins, en ríkisstj., sem vildi hallæri og vildi fátækt yfir fólkið í landinu, bannaði bönkunum að lána þetta fé. Þannig skipulagði hún lánsfjárkreppuna. Svona var sungið þá. Nú kemur hæstv. forsrh. og segir, að meinið í efnahagslífinu, sem innleitt var, auðvitað af sjálfstæðismönnum, væri þessi mikla útlánaþensla bankanna. Og það er rétt, að útlánaaukning bankanna hefur verið mikil á undanförnum árum, en eins og hv. 2. þm. Reykv. benti á, hefur hún m. a. að verulegu leyti grundvallazt á þeirri hagstæðu þróun, sem átt hefur sér stað á sama tíma í sparifjármyndun og sparifjáraukningu landsmanna.

En það er nú ekki nóg, að stjórnarandstæðingar, kommúnistar og Alþýðuflokksmenn, hafi á undanförnum árum sagt, að það hafi verið skipulögð lánsfjárkreppa, heldur var það eitt af aðalatriðunum í kosningastefnuskrá Framsfl. eða Hræðslubandalagsins, sem gefin var út fyrir kosningarnar, að lánsfjárskorturinn færi óðum vaxandi og væri allt að drepa. Þetta var sagt á sama tíma sem það lá fyrir, að öll útlán bankanna voru í árslok 1950 1190040000 kr., en í árslok 1955 2224000000 kr., eða lánsfjáraukningin hafði numið meiru en öll útlánin voru fyrir rúmum 5 árum: 192 millj. 1951, 136 millj. 1952, 255 millj. 1953, 236 millj. 1954 og aldrei meira en 1955, þegar lánsfjárkreppan var sem mest samkv. kosningaplaggi tveggja flokka, eða 414 millj. kr.

Auðvitað er það rétt, sem bent hefur verið á af ýmsum hv. þm., að óheilbrigð þensla í útlánum bankanna getur haft alvarlegar afleiðingar í efnahagslífinu. Hæstv. menntmrh. (GÞG) vék að því m. a., að útlánaaukningin hefði verið mjög varhugaverð hjá seðlabanka landsins, og skildi ég hann svo, að hann væri m, a. að draga þetta fram í dagsljósið til þess að sýna, hvað þróunin í efnahagsmálunum hafi verið varhugaverð og að þarna yrði að breyta, stöðva útlánin frá seðlabankanum og draga úr þeim. En ef við lítum á þær tölur, sem hæstv. ráðh. gaf upp, þá eru þær svona, að útlánaaukning seðlabankans er 1951 117 millj. kr., 1952 114 millj. kr., 1953 34 millj. kr., 1954 —- fyrsta heila árið undir stjórnarforustu sjálfstæðismanna — mínus 31 millj. kr., þá er dregin inn 31 millj. kr. af útlánum bankans, og svo 1955 115 millj. kr. Mér finnst, að þróunin sé athyglisverð. Frá því að gengisbreytingarlögin voru sett og eftir að afleiðinga þeirra gætir í þjóðfélaginu, þá dregur stöðugt úr útlánaaukningu seðlabankans: 117, 114, 34 og svo mínus 31 millj. 1954. Þetta er athyglisverð þróun. En hvað hefur þá skeð 1955, þegar útlánaaukningin er allt í einu orðin 175 millj. kr.? Ég held, að í útlánaaukningunni 1955 gæti að verulegu leyti áhrifanna frá hinni vaxandi verðbólgu, sem var afleiðing verkfallanna á árinu 1955 og ég skal síðar víkja að. En svo er annað: Hvað eru mikið í þessari 175 millj. kr. útlánaaukningu seðlabankans 1955 aukin útlán út á afurðir landsmanna og þá — spyr ég hæstv. landbrh. — fyrst og fremst út á landbúnaðarafurðir landsmanna? Það var eitt af stjórnarsamningsatriðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, að bændur þessa lands skyldu fá rekstrarlán, svipað og útvegsmenn þessa lands, sem fá lán út á óveiddan afla, að bændur skyldu fá lán út á fé á fjalli, og einnig, að lána skyldi út á landbúnaðarafurðirnar, kjötvörurnar og sláturafurðirnar á haustin, svipað og þann sjávarafla, sem búið er að draga á land og biður afskipunar til útlanda. Þetta var eitt af stefnuskráratriðum í ríkisstj. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, og ég hygg, að það sé rétt, að það sé farið einmitt að gæta framkvæmda á þessu stefnuskráratriði, að hér séu tugir, ef ekki yfir 100 millj. kr. af fjármagni þjóðarinnar, sem á nýjan hátt vegna þessa stjórnarsamnings er veitt bændastétt þessa lands í einni eða annarri mynd. Og mig undrar það, ef bændur þessa lands hafa ekki fundið fyrir því aukna fjármagni, sem þeir þannig hafa átt að vera aðnjótandi í sínum búrekstri. Það væri mjög æskilegt, að nánari skýringar á þessu atriði gætu fram komið, ef hæstv. ráðherrar hafa eitthvað að árétta í þessu, sem ég hef sagt. En þannig er það, að tölur eru alltaf vandmeðfarnar, og það er margt, sem kemur til athugunar í því sambandi. Og ef við sjálfstæðismenn erum ásakaðir fyrir útlánaaukninguna, þá mega framsóknarmenn ekki heldur á sama tíma þakka sér fyrir það, að bændur landsins hafa fengið tugi og hundruð millj. kr. meira lánsfé til meðferðar en ella hefði verið og felst í þessari útlánaaukningu.

Svo var áttundi liðurinn, og hann er nú víst sá síðasti hjá hæstv. forsrh., og það var þetta, að það er allt í lagi hjá fjmrh., en fjárfestingin er bölið og á fjárfestingunni bera sjálfstæðismenn ábyrgð, og þar er höfuðsökudólgurinn Ingólfur frá Hellu. Niðurstöðurnar í þessu margendurtekna lagi eru þessar: Framkvæmdirnar eru framsóknarmönnum að þakka, hinar miklu framkvæmdir í tíð fyrrverandi ríkisstj. Sjáið þið ekki raforkuframkvæmdirnar? Sjáið þið ekki húsabyggingarnar? Sjáið þið ekki fiskiðjuverin? Sjáið þið ekki bátana, sem eru að koma að landi? Allt er þetta okkur að þakka, segja framsóknarmenn. En fjárfestingin, þ. e. a. s., að það skuli þurfa að fara eitthvert fé í þetta, — ja, blessaðir, snúið ykkur að sjálfstæðismönnum, það er allt saman þeim að kenna. Þeir hafa látið allt þetta fé í þessar framkvæmdir, og það er það, sem er vitnisburðurinn um eyðimerkurgönguna í efnahagslífi þjóðarinnar.

Þó er það svo, þegar við erum ásakaðir um fjárfestinguna, um leið og Framsókn eru þakkaðar framkvæmdirnar, að hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson er einmitt bankamálaráðherra og hefur verið bankamálaráðherra Framkvæmdabankans, sem lögum sínum samkvæmt á að vera ríkisstj. til ráðuneytis um fjárfestingarmál þjóðarinnar. Verða menn ekki að festa sér í minni þessar staðreyndir, sem hér er um að ræða, og koma ekki æ ofan í æ, á fundi eftir fund í flokksfélögum sínum, í ríkisútvarpi og á Alþingi, fram með hinar og þessar staðreyndir í sambandi við efnahagsmálin, sem eiga enga stoð í raunveruleikanum, og ganga gersamlega fram hjá meginkjarna málsins?

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri greiðsluafgangur fjmrh. á undanförnum árum, sem væri sterkasti vitnisburðurinn um hina heilbrigðu fjármálastjórn, og það væri eina heilbrigðið í efnahagskerfi þjóðarinnar. Nú er það svo, að á undanförnum árum hefur verið greiðsluafgangur hjá fjmrh. Ég held, að sjálfstæðismenn hafi fyrir sitt leyti gert sitt til að stuðla að því, að sá greiðsluafgangur gæti til orðið, með afgreiðslu fjárlaganna, hvort sem ber að þakka þeim það eða ekki. En má ég minna á, að á þessum árum, sem þessi greiðsluafgangur hefur verið, hafa umframtekjur ríkissjóðs verið — ja, ætli það sé ekki eitthvað um 500 millj. kr.? Það eru 115 millj. kr. 1951. Þá fær ríkissjóður 115 millj. kr. tekjur umfram áætlun. Það var þá birgðalaust land af innflutningsvörum, það var flutt inn miklu meira en áður hafði verið, fengin til þess erlend aðstoð, af þessu flutu auðvitað margar krónur í kassa fjmrh., hann fær 115 millj. kr. umfram áætlaðar tekjur. Hann fær 44 millj. kr. 1952, hann fær 91.6 millj. kr. 1953, 107.6 millj. kr. 1954 og áreiðanlega nokkra tugi 1955, en því miður er eyða hérna á blaðinu hjá mér, ég man ekki nákvæmlega töluna, og ef einhver hv. þm. getur minnt mig á hana, þá er það kærkomið. En þetta munu vera um 500 millj. kr. Af hverju eru svona miklar umframtekjur? Og eru ekki umframtekjurnar grundvöllurinn undir greiðsluafganginum? Af hverju eru þær? Það eru miklar framkvæmdir í landinu, það er mikil fjárfesting, það eru miklir tollar af miklum innflutningi og miklir skattar af háum tekjum almennings. M. ö. o.: Það, sem skapar grundvöllinn undir greiðsluafganginn, eru umframtekjurnar, sem leiðir af hinum miklu framkvæmdum, af þessari voðalegu fjárfestingu, sem er öll sjálfstæðismönnum að kenna.

En svo er annað, sem hv. 1. þm. Reykv. benti á, að þegar við erum að ræða um greiðsluafganginn sem þýðingarmikið atriði í sambandi við verðbólgu og tæki til þess að hafa hemil á verðbólgu í þjóðfélaginu, þá hefur ekki greiðsluafgangur Eysteins Jónssonar haft neina þýðingu í þessu sambandi, þó að ég dragi á engan hátt úr, að hann hafi haft þýðingu í öðru sambandi, sem ég skal víkja að. En hann hefur ekki haft neina þýðingu til að draga úr verðbólgunni og er þess vegna enginn vitnisburður að þessu leyti um heilbrigðari fjármálastjórn heldur en á öðrum sviðum í efnahagslífinu, vegna þess að greiðsluafganginum hefur alltaf verið veitt út. Honum hefur alltaf verið úthlutað eftir á í nýjar framkvæmdir, nýja fjárfestingu, nýja verðbólguaukandi fjárfestingu og framkvæmdir.

Eins og hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) sagði, þá er hæstv. fjmrh. (EystJ) enginn kjáni, það er siður en svo, og hann veit vel, hvað hann er að fara. Klókindi hæstv. fjmrh. eru mikil, um leið og þau eru í raun og veru mjög einföld. Það hefur verið þannig á undanförnum árum: varleg tekjuáætlun fjárlaga, — miklar umframtekjur, greiðsluafgangur, — ráðstafað eftir á utan fjárlaga, — ef ráðstafað í fjárlögum, þá hefði auðvitað enginn greiðsluafgangur verið. — Engin skýring, ætti maður að segja á eftir þessu, því að þetta skýrir sig sjálft. Í þessu höfum við sjálfstæðismenn verið þátttakendur með hæstv. fyrrv. fjmrh., en við getum bara ómögulega fundið út, að þetta sé einhver vitnisburður um, að þetta eina ljós sé það, sem logað hefur í efnahags- og fjármálalífi landsins. Og nú kem ég að því, að greiðsluafgangurinn undanfarin ár, sem þannig er til kominn og hefur ekki þýðingu til þess að draga úr verðbólgunni, hefur gegnt veigamiklu hlutverki til þess að fylla í skörðin, þar sem okkur vantaði hið erlenda lánsfjármagn, og hefur þess vegna m. a. verið ómetanlegur fyrir ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð og fleiri framkvæmdir, sem honum var varið til. En það mátti auðvitað alveg eins hafa hina aðferðina, eftir að þetta var búið að endurtaka sig ár eftir ár, að áætla í fjárlögunum til ræktunarsjóðsins 20 millj. kr., til fiskveiðasjóðs 10 millj. kr. og laga tekju- og útgjaldaáætlun fjárlaganna eftir því. Þá hefðum við fengið alla sömu fjármunina í þessa sjóði, fjárlög í jafnvægi, engan greiðsluafgang, alveg nákvæmlega sömu útkomu og er í þjóðfélaginu og efnahagslífinu og fjármálalífinu.

Fjármálasnilli sú, sem kennd er við Eystein Jónsson nú af hæstv. forsrh., kristallast í raun og veru í einu einföldu dæmi. Það er lagt til af fulltrúum allra flokka að auka stórlega bifreiðainnflutning til landsins og leggja á hvern bíl sérstakt gjald í svokallaðan togarasjóð, til þess að hægt sé að halda áfram þessari stórvirkustu framleiðslustarfsemi þjóðarinnar. Hinn aukni bílainnflutningur í þessum sérstaka tilgangi, að afla fjár í togarasjóð, gefur fjmrh. alveg ófyrirséð og ekki áætlaðar aukatekjur í hinum venjulegu aðflutningsgjöldum af bifreiðum. Aukatekjurnar á árinu, um 50 millj. kr., greiðsluafgangur ríkissjóðs um 50 millj. kr. Framsóknarmenn segja: Mikill angurgapi er Ingólfur að flytja inn svona marga bíla. — Aftur á móti: Mikill snillingur er Eysteinn að skila þessum greiðsluafgangi. — Og skemmtilegastur af öllum er hæstv. forsrh., sem segir, að um þessa fjármálasnilli þurfi menn alls ekki að vera að ræða, því að hún sé bara skjallega staðfest, sem sé á prenti, bæði í álitsgerðum íslenskra og erlendra hálærðra hagfræðinga!

Ég held, að ég sé nú búinn að vekja athygli á þeim atriðum í ræðu hæstv. forsrh., sem að fjármálaspillingunni lutu, og hef ég viljað reyna að draga fram í dagsljósið ýmsar staðreyndir, sem gætu kannske varpað nokkru öðru ljósi á þessi mál og leitt menn til þess að draga aðrar niðurstöður en hæstv. forsrh. varð á.

Það er líka reyndar svo, að þegar menn nú eru æ ofan í æ að býsnast yfir því, hversu óskaplega sé komið fyrir okkur Íslendingum, eins og hæstv. forsrh. hefur nú oft gert, þá komast menn oftast jafnframt að hinni niðurstöðunni, að fólkið í þessu landi hafi aldrei búið við betri kjör en einmitt nú. Og ég vek athygli á því, að hæstv. forsrh. sagði í útvarpsræðu, sem hann flutti fyrir alþingiskosningarnar í sumar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft lykilaðstöðu í þjóðfélaginu á undanförnum 17 árum með valdaaðstöðu sinni og stjórnarforustu æ ofan í æ, lykilaðstöðu í þjóðfélaginu á undanförnum 17 árum. Og hverjum á þá að þakka fremur en þeim, sem lykilaðstöðuna hefur haft, ef vel hefur gengið og ef það er satt, sem kom fram hjá hæstv. forseta í gær og fram hefur komið víða, að íslenzka þjóðin búi nú við meiri velmegun og betri kjör en nokkrar aðrar þjóðir? Þegar þetta er athugað, þá verða nokkuð haldlausar ásakanirnar um það, að Sjálfstfl. hafi leitt þjóðina út í eyðimörk efnahagslífsins. En hæstv. fjmrh. sagði hér í fjárlagaræðu sinni í fyrra, með leyfi hæstv. forseta:

„Við höfum aldrei átt betri framleiðslutæki en nú, aldrei haft betri skilyrði til þess að bjarga okkur en einmitt nú. Dugnaður er mikill, þótt stundum sé annað á orði haft. Unga fólkið er yfirleitt tápmikið og dugmikið, og atvinna er mikil og afkoma almennings er góð. Þetta er ánægjulegt, og þessa er gott að minnast, ef mönnum fer að vaxa vandinn mjög í augum.“

Þetta var lýsing hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðunni á Alþingi í fyrrahaust. Og í málgagni hæstv. forsrh., Tímanum, stóð þetta 18. maí s. l., í sumar:

„Óvíða í heiminum hafa verið meiri framfarir en hér á landi síðustu áratugina. Lífskjörin hafa breytzt og batnað, svo að undrum sætir. Fyrir fáum áratugum voru lífskjörin hér lakari en víðast annars staðar í veröldinni, en í dag eru þau óvíða eða hvergi betri en hér”.

Þetta eru orð blaðs forsrh. um ástandið, eftir það að Sjálfstfl. hefur haft lykilaðstöðu í stjórnmálalífi þjóðarinnar um 17 ára tímabil. Og þetta mundi ég vilja biðja hv. síðasta ræðumann að hafa í huga líka, þegar hann var að tala svo mikið um hin rýrðu kjör verkalýðsins fram og aftur og flutti að vísu að miklu leyti ræðu, sem var líkari því, að stjórnarsinnar væru farnir að hafa einhvern áhuga fyrir því að beita málþófi í þessu máli, sem hér liggur fyrir, heldur en hitt, að ræða efnishlið málsins og efnahagsmálanna almennt. Og ég vil árétta það, að það er ekki rétt, sem hv. 6. landsk. (GJÓh) sagði hér áðan og kom fram hjá hæstv. félmrh. (HV) og hefur verið leiðrétt af hv. 9. landsk., Ólafi Björnssyni, það er ekki rétt, að lífskjör verkamanna hafi versnað í stjórnartíð fráfarandi stjórnar. Um áramótin 1954 og 1955 var það reiknað út af hagstofustjóra og Ólafi Björnssyni, að frá síðasta verkfalli, sem varð haustið 1952, hefðu kjör verkamanna og launafólks ekki rýrnað, og var þó skoðun beggja, að þau hefðu fremur batnað, og það er augljóst, þegar á það er litið, hvað menn höfðu miklu meiri vinnu en áður, að niðurstöðurnar hlutu að leiða til þess, að þau hefðu batnað. Og eftir að verkalýðssamtökin höfðu fengið hagfræðinga, sem þau trúðu betur til þessara útreikninga, staðfestu þeir útreikningar algerlega útreikninga hagstofustjórans og Ólafs Björnssonar, að eftir haustverkfallið 1952 og fram til áramóta 1954 og 1955 hefðu kjör verkafólks og launafólks í landinu ekki rýrnað.

Hitt er svo annað mál, að sömu hagfræðingar komust að þeirri niðurstöðu, að á árunum 1947–49 hefði átt sér stað röskun á lífskjörum launafólks og verkamanna í þessu þjóðfélagi, og það skal ég ekkert rengja þessa menn um. Það var á þeirri tíð, þegar hæstv. núv. félmrh. (HV) stóð að aðgerðum þáv. hæstv. ríkisstj. varðandi verkafólkið í landinu, og það er ekki réttmætt að leiðrétta þá villu, hafi hún einhver verið, eða rök, að hún hafi átt að leiðréttast í verkfalli, sem síðan var gert 1955.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að því, sem hér hefur fram komið frá hv. þingmönnum kommúnista um, að þeim þyki nú nýstárlegt, að sjálfstæðismenn vilji ræða um eða telja sig vera þess umkomna að tala máli verkafólksins í þessu landi. En okkur hefur furðað á því í þessu máli, eins og reyndar öðrum, hvað þessir menn eru liðugir að éta ofan í sig, því að sannast að segja hefur það ævinlega verið svo, að þegar sjálfstæðismenn hafa borið fram till. um kaupbindingu og enda þótt hún hafi verið samfara verðfestingu, þá hafa fulltrúar kommúnista talið þetta glapræði, glæpsamlegar tiltektir gegn verkafólkinu í landinu.

Hæstv. sjútvmrh. (LJós) sagði, að verkalýðssamtökin hafi nú ekki verið að samþ. neina kauplækkun með vísitölubindingunni, enga skerðingu, vegna þess að síðar hafi verðlagið átt að hækka og það hafi verið stöðvað, og verkalýðurinn var ekki svikinn um kaupgjald með kaupbindingunni, sagði þessi hæstv. ráðh. Látum þetta gott heita. En hvað sögðu þessir sömu menn, þegar kaupbindingin átti sér stað undir forustu stjórnar Alþfl. 1947 og þegar á sama tíma voru settar hömlur á verðlagið í landinu og verðhækkanir bannaðar? Þjóðviljinn sagði þá, að það væri „útþurrkun gildandi samninga verkamanna. og atvinnurekenda með festingu vísitölunnar“. Það að festa vísitöluna í lögunum samsvaraði útþurrkun gildandi launasamninga verkamanna og atvinnurekenda. Hæstv. forseti d. sagði hér í þingsölunum þá, að með því, þ. e. festingu vísitölunnar í 300 stigum, — og ég minni á, að á sama tíma var verðlagið bundið, — „er Alþingi að eyðileggja alla frjálsa samninga, er launþegar og atvinnurekendur hafa gert með sér, og lagareglur um launakjör“, og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Það er verið að stela stórum hluta af launum allra launþega í landinu undir yfirskini lagasetningar um dýrtíðina.”

Þá hét það, að það væri verið að stela stórum hluta af launum allra launþega í landinu að lögfesta vísitölubindingu. Og verkamannafélagið Dagsbrún ályktaði í des. 1947: „Stjórnin telur frv. þetta ósvífna kauplækkunarárás, þar sem rift er ákvæðum frjálsra samninga um fulla dýrtíðaruppbót á vinnulaun.“

Þannig hefur sungið í þessum mönnum áður. Við sjálfstæðismenn, um leið og við höfum lýst fylgi okkar við þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, í frv. því, sem fyrir liggur, höfum látið í ljós undrun okkar yfir því, hversu þessir menn hafa skipt um skoðanir snögglega eða eru reiðubúnir til þess að éta ofan í sig það, sem þeir hafa áður sagt. Og við höfum ekki getað skilið það öðruvísi en að þessir menn séu að borga fyrir sig það, sem sett hefur verið upp, til þess að fá að setjast í ráðherrastólana í þessu landi, og þá fullyrði ég fyrst og fremst: til þess að hafa þau áhrif á utanríkismálin, sem þessum mönnum þykir mestu máli skipta. Og nú vil ég segja, að hv. kommúnistaþingmenn hér ættu ekki að tala með mikilli vandlætingu um það, að sjálfstæðismenn ættu sem minnst að tala um forstöðu sína í verkalýðsmálum. Við erum alveg óhræddir að mæla okkur við þá í þeim efnum, hvernig hinn almenni verkalýður í þessu landi lítur á aðgerðir okkar sjálfstæðismanna, bæði þeim og öðrum stéttum þessa þjóðfélags til handa, og hins vegar aðgerðir kommúnistanna. Ég gæti viðhaft mín orð um það og mínar skoðanir um það, hvers virði aðgerðir kommúnista hafa verið fyrir launþegasamtökin og verkalýðinn og hvað hefur á bak við búið og hvort þeir hafi verið að vinna fyrir verkalýðinn eða hvort þeir hafi verið að vinna fyrir kommúnismann. En ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég hef oft gert það, og hafa margir heyrt það af mínum vörum. En ég ætla að lofa núverandi hæstv. félmrh. að tala og gefa lýsingu á því, hversu ætla má að alvarlega sé meint verkalýðsbarátta kommúnista, en hann hefur verið í samvinnu með þeim í verkalýðssamtökunum og forseti Alþýðusambands Íslands studdur af kommúnistum. Hann skrifaði einu sinni grein ekki alls fyrir löngu, hæstv. félmrh., það var í septembermánuði 1948, það er nú ekki lengra síðan, þar sem fyrirsögnin var: „Það verður að leysa Alþýðusambandið undan oki kommúnista.“ Meðal annars sagði hann, að þeir færu þannig að í verkalýðsmálunum, að tímaritið Vinnuna notuðu þeir, kommúnistarnir, sem er þó málgagn samtakanna, sem pólitískt málgagn kommúnista, þótt það sé að verulegu leyti gefið út fyrir fé frá hinum ópólitísku samtökum verkalýðsins í landinu.

Þá sagði hæstv. félmrh. enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta vil ég ekki þola. Og þeir munu vera margir í verkalýðshreyfingunni, sem telja þetta grófa misnotkun á fjármunum samtakanna.“

Ætli þetta hafi verið gert til þess að styrkja verkamennina og verkalýðssamtökin, sem áttu málgagnið, eða skyldi það hafa verið til þess að koma svolítið lengra áleiðis hinum kommúnistíska áróðri í þjóðfélaginu? Enn fremur sagði hæstv. félmrh., með leyfi hæstv. forseta:

„En kommúnistar eru nú farnir að ganga enn lengra um misnotkun þess fjár, sem þeir fá frá verkalýðsfélögunum. Þeir eru farnir að láta erindreka Alþýðusambandsins haga ferðum sínum og starfi alveg eins og þeir væru erindrekar kommúnistaflokksins.“

Hafa kommúnistar legið undir þessu þegjandi og hljóðalaust, að þeir misnotuðu fé verkalýðsins til þess að eyða því í sinn kommúnistíska áróður? Og ætla þeir að liggja undir þessu, eða ætla þeir að mótmæla þessu? Ef þeir ekki mótmæla því hér, þá er það staðfesting á því, að þetta hafi þeir gert, og þá förum við að skilja svolítið betur eðli verkalýðsbaráttunnar hjá þessum mönnum.

Hæstv. félmrh. sagði líka, að þetta yrðu andstæðingar kommúnista í verkalýðshreyfingunni að fyrirbyggja með því að svipta þá yfirráðum yfir Alþýðusambandinu. „Þeir eru meira að segja búnir að stjórna því allt of lengi og misnota þar aðstöðu sína,“ sagði hann. Og enn fremur:

„Réttmætar sakir á hendur kommúnistum í Alþýðusambandinu eru þó miklu fleiri en þetta. Ég var sjálfur sjónarvottur að því á Alþýðusambandsþinginu 1944, hvernig þeir sviptu þá réttkjörna fulltrúa, sem voru þeim andvígir, rétti til þingsetu, en samþykktu aftur gervifulltrúa sér til atkvæðadrýginda. Þannig fengu þeir þá ranglega meirihlutavald yfir alþýðusamtökunum.“

Flokkspólitískt, ranglega fengið meirihlutavald yfir verkalýðssamtökunum í landinu! Og þá segir hæstv. félmrh. enn fremur í þessari sömu grein, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar ofbeldið er komið á slíkt hástig, þá er ekki hægt að þola óréttinn lengur. En þar sem ofbeldisseggirnir eru ekki líklegir til að vilja láta af ofríki sínu, er einskis annars kostur en að láta þá þoka til hliðar, og valdið til þess hefur fólkið í verkalýðsfélögunum um breiðar byggðir Íslands.“

Ja, guð minn góður, að láta þá þoka til hliðar, sá hefur unnið að því í verkalýðssamtökunum og nú síðast í ríkisstj. Íslands! Og ég má ekki sleppa þessari síðustu setningu, með leyfi hæstv. forseta:

„Eru ekki dæmin um valdbeitingu, hlutdrægni, ranglæti kommúnista í einstökum verkalýðsfélögum og í Alþýðusambandi Íslands orðin nógu mörg til þess, að sundraðir andstæðingar þeirra geti orðið sammála um, að þeir séu búnir að vinna sér til óhelgi og verði að víkja frá stjórn samtakanna?“

Þetta er dómur hæstv. félmrh. um svokallaða verkalýðsforustu kommúnista. Þess vegna er það, að það verður ekki tekið mjög hátíðlega, þegar kommúnistar segja, að eitt og annað hafi verið samþykkt í verkalýðsfélögunum, á fundum verkalýðssamtaka úti um land, þeirra verkalýðssamtaka, sem eru undir slíkri kúgun kommúnismans, meðan þau geta ekki náð því marki eins og alþýða annarra landa nú í álfunni að hrista þetta ok af sér.

Loks vil ég svo segja í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, að okkur sjálfstæðismenn furðar á því, að kommúnistar láti hafa sig til að fylgja því, eins og ég sagði áðan, og þess vegna hljóti það að vera dýru verði keypt, vegna þess að þeim er réttilega lýst, — og verður það síðasta lýsing hæstv. félmrh. á þessum mönnum, — þegar hann segir í greininni, sem ég vitnaði til áðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Boga atvinnulífsins mega verkalýðssamtökin aldrei brjóta, því að þá dugir ekkert kaupgjald, hversu hátt sem er, til þess að tryggja velmegun hins vinnandi fólks. En þetta hafa kommúnistar aldrei látizt skilja og geta líklega aldrei skilið, enda hefur barátta þeirra stundum orðið áþekkust ofsóknartilraunum til þess beinlínis að koma atvinnulífinu í rústir,“ — takið eftir: líkust ofsóknartilraunum til þess beinlínis að koma atvinnulífinu í rústir!

Þetta eru ekki mín orð, heldur hæstv. félmrh. um þessa menn, hvernig þeir hafa hegðað sér fyrr og síðar, og lái þá aðrir okkur sjálfstæðismönnum, þó að við höfum ekki mikla trú á einlægni þessara manna þá stundina, sem þeir eru að éta ofan í sig fyrri afstöðu sína og fyrri yfirlýsingar. Og það er ekki úr lausu lofti gripið, þegar við höldum því fram, að hér muni annað og miklu meira liggja á bak við, sem síðar á eftir að verða bæði hv. þingmönnum og almenningi í landinu ljóst.

Herra forseti. Umr. þessar eru nú orðnar nokkuð langar. En ég tel, að það geti verið mjög lærdómsríkt, að þm. ræði þessi mál, sem í senn virðast vera svo flókin, en þó svo einföld. Og vissulega hefur það sinn tilgang, ef meginatriðin verða bæði hv. þingheimi og öllum almenningi í þessu landi ljósari en áður. Þó má segja, að þessar umræður séu aðeins forspil að þeim mikla atburði, þegar tjaldið verður dregið frá og bæði þingmönnum og þjóðinni verður opinberuð hin leyndardómsfulla nýja stefna Framsfl. og hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálunum, hin varanlegu úrræði, eins og þeir kalla það, sem svo mikið hefur verið látið af að koma skyldi, en lítið eða öllu heldur alls ekkert hefur verið látið uppi um, hver verða mundu, og jafnvel sumir hæstv. ráðherrar hafa fram til þess síðasta sagt, að væri ekki enn farið að ræða um innan stjórnarherbúðanna. Á meðan bíðum við og fylgjum þeim bráðabirgðaúrræðum, sem felast í þessum brbl. hæstv. ríkisstjórnar, sem í meginatriðum eru aðeins staðfesting á því, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram að fyrr hefði þurft að gera, enda þótt töluvert hafi verið sagt ósatt um, hvernig þessi brbl. hafi til orðið, og margir hafi keppzt við að éta ofan í sig fyrri stóryrði um glæpsemi slíkra ráðstafana gegn íslenzkum verkalýð og launastéttum, þegar sjálfstæðismenn lögðu til eða stóðu að sams konar ráðstöfunum.