02.11.1956
Neðri deild: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um frv. það, sem hér liggur fyrir, en ummæli hæstv. forsrh. í umr. um þetta mál voru á þann veg, að ég tel mig verða að leiðrétta þau.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir hvað eftir annað, að framleiðsluráð landbúnaðarins hefði samþykkt setningu brbl. um verðlag og kaupgjald, sem hér eru til umræðu. Þessi staðhæfing hæstv. forsrh. kom mér mjög á óvart, jafnvel þó að ráðh. virtist allæstur, er hann flutti ræðu sína, og yfirvega lítt orð sín. Í framleiðsluráði eiga sæti níu menn. Sem einn af þeim staðhæfi ég, að framleiðsluráð hefur alls ekki fjallað um þetta frv., hygg jafnvel, að ríkisstj. hafi aldrei snúið sér til framleiðsluráðs með þetta mál. Aftur á móti er mér kunnugt um, að ríkisstj. leitaði fyrir sér um undirtektir hjá stjórn Stéttarsambands bænda undir þetta mál. Í stjórn Stéttarsambands bænda eiga sæti fimm menn, sem jafnframt eiga sæti í áðurgreindri níu manna stjórn framleiðsluráðs. Þegar fsp. kom frá ríkisstj. um afstöðu stjórnar Stéttarsambandsins til þeirra ráðstafana, er frv. fjallar um, var fundur alveg nýafstaðinn og meiri hl. fundarmanna farinn heimleiðis. Þrátt fyrir það náðist í fjóra af fimm stjórnarnefndarmönnum í síma eða til einkaviðtals. Þessir fjórir, sem til náðist, munu allir hafa tjáð, að þeir væru a. m. k. ekki mótfallnir þessum ráðstöfunum, en tveir þeirra lýst því jafnframt yfir, að hér væri um stjórnarráðstöfun að ræða, sem stjórnin yrði sjálf vitanlega að bera ábyrgð á.

Þannig er saga þessa máls rétt sögð. Allar fullyrðingar hæstv. forsrh. um, að framleiðsluráð hafi samþykkt setningu brbl., eru því rangar, því að þau hafa aldrei verið undir það borin, og sömuleiðis sú staðhæfing ráðh., að þessi brbl. hafi verið sett fyrir atbeina framleiðsluráðs og Stéttarsambands bænda, eins og hann lét orð liggja að í útvarpsræðu sinni í sumar, er hann fylgdi brbl. úr hlaði.

Það er án efa þarft verk að áminna menn um sannsögli í málaflutningi hér á Alþingi sem annars staðar, en það fer vægast sagt illa á því og er ekki sæmandi, að forsrh. landsins gerist vandlætari um þessi efni, samtímis og hann er sjálfur að misþyrma sannleikanum.

Ég mun svo ekki blanda mér frekar í þessar umr., nema sérstakt tilefni gefist til.