06.11.1956
Neðri deild: 12. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég hafði ætlað að svara hér að nokkru þeim 5. þm. Reykv. og 1. þm. Rang., en öðrum hefur nú verið svarað að nokkru og hinum til fulls. Og þar sem þeir eru ekki hér viðstaddir, en eftir því hef ég beðið, sé ég ekki ástæðu til þess að hrekja það, sem þeir sögðu hér, eða svara því.

En út af ummælum, sem féllu hér í hv. d. frá hv. 2. þm. Skagf., þykir mér rétt að lesa hér yfirlýsingu, sem ég gerði ráð fyrir á þeim fundi, þegar hann flutti sína ræðu, að flytja hér síðar. Það eru ummæli í ræðu minni, þar sem hv. þm. taldi rangt með farið, sem gáfu tilefni til þess, að ég fékk þessa yfirlýsingu. Það má vitanlega segja, að þetta orðalag, sem ég hafði, sé ekki nákvæmt, og það má með lagni toga út úr því það, sem hv. þm. sagði, þó að hann vissi að sjálfsögðu, við hvað var átt. Það stendur hér í ræðu minni, að það hafi þurft að ná í framleiðsluráð landbúnaðarins, — en í framleiðsluráði er stjórn stéttarsamtaka bænda, — og það náðist í hvern einasta mann nema einn bónda austur á landi. Vitanlega er þetta nefnt þarna, að stjórn stéttarsamtakanna sé í framleiðsluráði, til þess að það liggi ljóst fyrir, og setningin vísar þannig til stéttarsamtakanna, en ekki framleiðsluráðs, og er náttúrlega alveg vafalaust, að þingmaðurinn veit, við hvað var átt. En sleppum því. Aðalatriðið er það, hvort ríkisstj. hefur leitað til bændasamtakanna á þann hátt, sem formaður þeirra telur sig ánægðan með, því að það er fyrst og fremst hans verk að sjálfsögðu að vera milligöngumaður milli ríkisstj. og bændasamtakanna. Ég skal nú lesa bréf, sem mér hefur borizt frá honum, dags. 2. þ. m. Og það er nú svo skylt skeggið hökunni, að hann er form. stéttarsamtaka bænda og hann er form. framleiðsluráðs, og ég býst við, að gæti svo farið, að hv. 2. þm. Skagf. tæki þessa yfirlýsingu alls ekki gilda, ef hann sæi það, að í bréfhausnum er nefnt Framleiðsluráð landbúnaðarins. Sverrir Gíslason er form. í hvoru tveggja. Yfirlýsingin er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Forsætisráðherra hefur óskað yfirlýsingar frá mér um það, hver samráð hafi verið höfð við bændasamtökin varðandi festingu kaupgjalds og verðlags á s. l. hausti.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, að á stjórnarfundi Stéttarsambands bænda þann 21. ágúst s. l. samþykkti stjórnin að tilnefna mig til að vera fulltrúi í nefnd til að athuga efnahagsmál þjóðarinnar, en bréf þess efnis, að Stéttarsambandíð tilnefndi mann af sinni hálfu í nefndina, hafði borizt frá forsætisráðherra nokkru áður. Framkvæmdastjóri hafði þá haft samband við stjórnarmenn um, að ég tæki sæti í nefndinni, en formlega var ekki gengið frá þessu atriði fyrr en á nefndum fundi þann 21. ágúst.

Daginn eftir tilkynnti forsætisráðherra mér, að komið hefði til orða að festa kaupgjald og verðlag miðað við vísitölu 178, og óskaði eftir áliti Stéttarsambandsins á þeirri ráðstöfun. Var fundum stjórnar Stéttarsambandsins þá nýlokið og stjórnarmenn farnir heim, nema Jón Sigurðsson alþm. á Reynistað. Ræddi ég þá strax málið við hann, skýrði honum frá málavöxtum, og taldi hann, að við gætum ekki staðið gegn tilraun til þess að stöðva verðbólguna í landinu. Enn fremur hafði ég samband við Bjarna Bjarnason skólastjóra, Laugarvatni, og Einar Ólafsson, Lækjarhvammi, er báðir voru á sömu skoðun og Jón Sigurðsson.“ — Eins og ég sagði áðan, er bréfritarinn, Sverrir Gíslason, form. bæði framleiðsluráðs og stéttarsamtakanna. — „Þá hafði ég samband við séra Sveinbjörn Högnason, sem að vísu er ekki í stjórn Stéttarsambandsins, en er í framleiðsluráði og form. stjórnar Mjólkursamsölunnar. Var hann á sama máli. Pál Metúsalemsson á Refsstað, sem er í stjórn Stéttarsambandsins, tókst mér ekki að hafa samband við, þar sem hann var á ferð heim til sín:“ — Og það er hann, sem auðvitað er átt við í þeim orðum, sem ég lét falla í minni ræðu. — „Höfðu þá fjórir af fimm úr stjórn Stéttarsambandsins lýst sig fylgjandi þessari tilraun og fimm af níu framleiðsluráðsmönnum, þ. e. a. s. allir, sem náðst hafði til.

Ég hef litið svo á, að slík mál sem þetta heyrðu fyrst og fremst undir Stéttarsamband bænda og stjórn þess. Á aðalfundi Stéttarsambandsins, sem baldinn var á Blönduósi 10. og 11. sept. s. l., kom engin gagnrýni fram á verðfestingarlögunum nema frá einum fulltrúa, en gagnrýni hans fékk engan hljómgrunn meðal fundarmanna.

Reykjavík, 2/11 1956,

Sverrir Gíslason.“

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Bréfið er svo ljóst, að það þarf engra skýringa við.