30.11.1956
Neðri deild: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla ekki neitt að fara að andmæla þessu frv., því að ég viðurkenni, að það er spor í rétta átt, sem hefði þurft að taka fyrir löngu. Það má segja um það: Betra er seint en aldrei. En það er eitt atriði, sem ég vildi hér gjarnan spyrja um og fá upplýst. Því miður er enginn hæstv. ráðh. hér við, en form. og frsm. hv. fjhn. kann að geta upplýst um það.

Fyrir okkur, sem erum meðmæltir þessu frv. og ætlum að samþ. það, finnst mér dálítið erfitt að samþ. 1. gr. frv. óbreytta eins og hún er, því að samkvæmt henni eiga þessi lög að falla úr gildi að mánuði liðnum. Ég vildi þess vegna gjarnan vita um það, hvort hv. n. sæi ekki ástæðu til þess, áður en þetta frv. fer hér út úr d., að afnema þessa tímatakmörkun og gera þessi lög þannig úr garði, að þau giltu áfram. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið. En það veit ég, að allir hv. þm. sjá og skilja, að þessi lög koma að tiltölulega litlu haldi, ef þau eiga að ganga úr gildi að mánuði liðnum.