03.12.1956
Neðri deild: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði búizt við því, að við þessa 3. og síðustu umr. hér í d. væri einhver hæstv. ráðh. viðstaddur og gerði hv. d. grein fyrir því, hvað við á að taka, þegar áramót koma og lög þessi falla úr gildi. En það er enginn hæstv. ráðh. hér í deildinni, og það er ekki að sjá, að þessi hv. d. eigi að fá að heyra neitt um það, hvað við á að taka, þegar gálgafresturinn er útrunninn.

Eins og hv. þingmenn vita, þá er gert ráð fyrir festingu verðlags og kaupgjalds til n. k. áramóta, en hvað þá á að taka við, hefur ekki enn heyrzt í þessari hv. d. eða í hv. Alþingi. En fyrir kosningarnar á s. l. vori og á s. l. sumri, um það leyti sem hæstv. ríkisstj. var mynduð, var talað um, að gera ætti varanlegar ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við heyrðum oft talað um að gera varanlegar ráðstafanir. Nú væri eðlilegt, að þessi hv. d. fengi upplýsingar um, hvort hæstv. ríkisstj. hefði villzt af þeirri leið, sem hún ætlaði að fara, um það leyti sem hún var mynduð, og væri hætt við að gera varanlegar ráðstafanir, eða hvort hæstv. ríkisstj. ætlaði að sætta sig við það, sem með lítilsvirðingu var kallað fyrir kosningar bráðabirgðaráðstafanir íhaldsins.

Það er ekki langt síðan einn hæstv. ráðh. gerði efnahagsmálin að umræðuefni, og hann talaði um, að það væru aðeins þrjár leiðir, sem unnt væri að fara: Í fyrsta lagi gengislækkun. Í öðru lagi aukinn bátalisti. Í þriðja lagi auknar niðurgreiðslur. Engin af þessum leiðum er varanleg leið eða varanleg lausn á efnahagsmálunum. Það er þess vegna að sjá sem þessi hæstv. ráðh. eða ríkisstj. í heild, vegna þess að það má ætla, að þessi hæstv. ráðh. hafi talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, sé nú fallin frá því að gera hinar varanlegu ráðstafanir, sem stjórnarflokkarnir allir lofuðu fyrir kosningarnar að skyldu gerðar og hæstv. ríkisstj. lofaði einnig að gerðar skyldu, um það leyti sem hún settist að völdum.

Það hefur verið talað um þessar þrjár leiðir. Og þeim, sem hafa fylgzt með því, sem gerzt hefur síðustu mánuðina, sýnist, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki nálgazt það mark að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl og styrkjalausan grundvöll. Við höfum séð það í blöðunum og hlustað á það í útvarpinu oft, að hæstv. ríkisstj. hefur fallizt á að greiða ýmsum atvinnuvegum hækkaða styrki úr framleiðslusjóði. En tilkynningunum hefur ávallt fylgt: Það hefur ekki enn verið séð fyrir tekjum vegna þessara auknu útgjalda.

Hæstv. ríkisstj. hefur samþykkt að hækka fiskverðið til togaranna um 15 aura á kg, en það mun láta nærri, að það sé sem svarar 2500 kr. á dag, eða þá að styrkur til togara hafi verið hækkaður um 50% frá því, sem samið var um í janúarmánuði s. l. að gilda skyldi þetta ár út. Og það hefur verið ávísað á framleiðslusjóð. Hæstv. ríkisstj. hefur samið um það að hækka styrkinn vegna karfa um 5 aura á kg, og það hefur einnig fylgt þar, að það hafi ekki verið séð fyrir auknum tekjum. Og hæstv. ríkisstj. hefur einnig samið um það að hækka styrk til síldveiða í Faxaflóa, en sama aths. fylgt, að það hafi ekki enn verið séð fyrir auknum tekjum. Og vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur nú undanfarið stöðugt verið að gefa út ávísanir á innstæðu í framleiðslusjóði, sem ekki er til, þá vantar framleiðslusjóð núna 38 millj. kr. til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það kann nú kannske ekki að þykja mikið, en einhvers staðar verður að taka þetta fé.

Þá hefur verið talað um, að við næstu áramót þurfi 100–120 millj. nýtt fé til útgerðarinnar, til þess að hún geti gengið á næsta ári. Á að taka þessar milljónir með niðurgreiðslu? Á að taka þær með auknum bátalista? Á að taka þær með gengislækkun? Eða ætlar hæstv. ríkisstj. að fara fjórðu leiðina, hina varanlegu leið, til að leysa efnahagsmálin, sem áður hefur verið talað um? Eða hefur hæstv. ríkisstj. týnt þeirri leið? Eða hafði hún aldrei áður þekkt þessa leið og aðeins sagt, að hún væri fyrir hendi og greiðfær, til þess að blekkja fólk?

Ég held nú, að ef hæstv. ríkisstj. væri á beinni braut og þættist vera á greiðum vegi til lausnar efnahagsmálunum, þá væri einhver hæstv. ráðh. hér í þessari hv. d. og segði gjarnan frá því, hvað væri að gerast.

En til viðbótar þessu munu fjárlögin hækka um 100 millj, kr. frá gildandi fjárlögum. Og þá eru það ekki nema 250 milljónir, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að innheimta í auknu fjármagni frá því, sem gilti árið sem leið. Og af því að nú er svo stutt til skuldadaganna, þá væri eðlilegt, að ríkisstj. léti eitthvað frá sér heyra og léti okkur þm. heyra um, hvað á spýtunni hangir, hvað fram undan er. Mér fyndist eðlilegt, áður en þetta frv. fer úr d., að það kæmi eitthvert hljóð frá ríkisstj. um þetta. Mér þætti eðlilegt, úr því að hæstv. ráðherrar eru svo uppteknir í dag að geta ekki verið á þessum fundi, að hæstv. forseti frestaði þessari 3. og síðustu umr. til morguns, svo að hæstv. ráðherrar hefðu tækifæri til þess að gera fyrir þessu þýðingarmikla máli.