11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og alkunnugt er, er meginefni þessa frv., sem flutt er til staðfestingar á brbl. frá 28. ágúst s. l., það, að fjóra síðustu mánuði þessa árs, þ. e. a. s. frá 1. sept. til 31. des., skuli almennar verðhækkanir á öllum vörum og þjónustu frá því, sem var 15. ágúst s. l., bannaðar. Í annan stað, að verðlagsuppbót á kaupgjald og laun skuli á sama tímabili bundin við kaupgjaldsvísitöluna 168, að viðbættum tíu stigum, og verð á landbúnaðarafurðum ákveðið í samræmi við það. Enn er svo ákveðið, að ríkissjóður greiði hækkun þá á verði landbúnaðarafurða, sem leiðir af nýjum verðlagsgrundvelli haustið 1956, þannig að smásöluverð þeirra haldist óbreytt frá því, sem var 1. ágúst 1956, á sama hátt og verð annarra vara og þjónustu helzt óbreytt frá 15. þess mánaðar.

Í lögunum er þó svo ákveðið, að innflutningsskrifstofan geti veitt undanþágu frá verðhækkunarbanni, ef hún telur verðhækkun algerlega óhjákvæmilega, enda sé slík undanþága samþ. af ríkisstjórninni.

Megintilgangur þessa frv. er vitanlega sá að freista þess um takmarkaðan tíma að stöðva vöxt dýrtíðarinnar með tiltölulega einfaldri lagasetningu, þar sem aðeins er tekið tillit til fárra þátta efnahagskerfisins, í þeim tilgangi, að tóm gefist til víðtækari lagasetningar um svipuð efni.

Þegar brbl. þau, sem samhljóða eru því frv., sem hér liggur fyrir, voru sett, stóðu málin þannig, að fyrir dyrum voru miklar hækkanir á landbúnaðarvörum, rafmagnsverði, olíu og mörgum fleiri vörutegundum, sem mjög snerta afkomu almennings og rekstur höfuðatvinnuveganna. Einnig lá fyrir, að kaup mundi almennt hækka að nokkru vegna verðbreytinga, sem þegar höfðu átt sér stað, og að nokkru vegna fyrirsjáanlegra verðhækkana. Af þessum ástæðum taldi ríkisstj. og verkalýðssamtökin og bændasamtökin í landinu þessa bráðabirgðalausn, festingu verðlagsins og vísitölunnar í nokkra mánuði, nauðsynlega.

Þeir, sem helzt hafa haldið uppi gagnrýni á brbl., segja að vísu, að ekki verði dæmt um nauðsyn þessara aðgerða, fyrr en sjái fyrir endann á þeim úrræðum, sem núverandi hæstv. ríkisstj. væntanlega leggur fyrir nú að nokkrum dögum liðnum eða nú fyrir áramótin. En það er mín skoðun, að hvort sem þær ráðstafanir kunna að svara björtustu vonum manna eða ekki, sem ég skal engu um spá, þá geti þessi brbl. aldrei falið í sér neina meinsemd fyrir efnahagslífið, heldur hljóti þau undir öllum kringumstæðum að verða fremur til hagsbóta en hitt, hvað sem framtíðin ber í skauti.

Nokkurri gagnrýni að öðru leyti hefur verið haldið uppi á brbl., og koma allir helztu þættir þeirrar gagnrýni fram í nál., sem liggur hér fyrir á þskj. 127, þ. e. a. s. þar, sem minni hl. fjhn. gerir grein fyrir afstöðu sinni. Á þessu þskj. kemur fram, að minni hlutinn telur, að málsmeðferð af hálfu ríkisstj. hafi verið mjög gölluð, í öðru lagi, að gengið hafi verið á frjálsan samningsrétt launþegasamtakanna, í þriðja lagi, að megintilgangurinn með lögunum sé, að launþegar fái lægra kaup en þeim ber, og í fjórða lagi, að ákvörðunin um verðbindinguna sé óþörf.

Ég tel eftir atvikum rétt að taka til ofur lítillar athugunar þessa fjóra meginþætti gagnrýninnar, sem kemur fram á frv., jafnvel þó að hún endist minni hlutanum ekki til andstöðu við málið í heild. Og það er þá fyrst um málsmeðferðina.

Í höfuðatriðum var hún á þá lund, að ríkisstj. lagði fyrir verðgæzlustjóra að safna verðskýrslum um land allt seinni hlutann í ágústmánuði. Þegar það hafði verið gert, var síðan ákveðið, að verðfestingin skyldi miðuð við 15. ágúst. Með þessum hætti var komið í veg fyrir, að nokkur vitneskja gæti á þeim tíma, sem lögin voru miðuð við, verið komin út á meðal manna, og kaupsýslumenn og aðrir, sem hefðu getað notað slíka vitneskju til misnotkunar með því að hækka vöruverð eða annað hliðstætt, gátu ekki haft neina möguleika til þess vegna þessarar meðferðar málsins. Þegar þessum nauðsynlega undirbúningi var lokið, var leitað samráðs við verkalýðsfélögin á þann hátt, að formenn flestra eða allra stærstu félaganna, sem unnt var að ná sambandi við, formenn fjórðungssambanda Alþýðusambands Íslands, fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík, stjórnir ýmissa verkalýðsfélaga, bæði hér í höfuðborginni og annars staðar, og miðstjórn Alþýðusambands Íslands allir þessir aðilar voru til kvaddir og spurðir álits um það, hvort þeir vildu fallast á þessa tilraun til stöðvunar á dýrtíðinni með þeim hætti, sem hér hefur verið gert. Á svipaðan hátt var leitað til forustumanna bændasamtakanna. Og svörin hjá öllum þessum aðilum voru mjög á einn veg. Allir eða að minnsta kosti langflestir töldu þessa leið bæði sjálfsagða og vel færa, eins og á stóð.

Þá kem ég að þeirri skoðun hv. minni hl., að með þessari lagasetningu sé um að ræða, eins og það er orðað, með leyfi hæstv. forseta, „gagngera og örlagaríka breytingu frá núverandi skipan þessara mála, sem grundvallast á frjálsum samningsrétti launþegasamtakanna um kaup og kjör meðlima sinna,“ eins og segir í nál. Þetta verður tæplega skilið á annan veg en þann, að frv. gangi á frelsi alþýðusamtakanna til þess að semja sjálf um kaup og kjör meðlima sinna. En þetta er vitanlega fjarri sanni. Brbl. eru í eðli sínu samningur um einn þátt launanna yfir ákveðinn tíma.

Eins og ég hef áður sagt, var leitað samþykkis forustumanna allra verkalýðsfélaga, sem eru það stór og öflug, að þau geti raunverulega haft áhrif á launakjör í landinu, og raunar miklu fleiri, eða eins margra og aðstæður frekast leyfðu og eðli málsins. Þessir forustumenn voru allir það öruggir um skoðanir skjólstæðinga sinna í verkalýðsfélögunum, að þeir töldu sér fært að fullyrða um hinn almenna vilja til þess, að slík bráðabirgðalöggjöf yrði sett. Sé því við einhverja að sakast um, að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð við verkalýðssamtökin, hittir það ekki ríkisstjórnina fyrir, heldur þá tugi af forustumönnum í verkalýðsfélögunum, sem tóku um þetta ákvörðun, voru það öruggir um vilja fólksins í verkalýðsfélögunum, að þeir tóku á sig þá ábyrgð og hikuðu ekki við að taka hana, sem því fylgdi að svara þeim fsp., sem fyrir þá voru lagðar.

Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að það sé yfirleitt æskileg aðferð eða regla, að kjörnir forustumenn í verkalýðssamtökunum taki einir ákvarðanir í stórmálum, sem varða hagsmuni heilla stétta. Síður en svo. Þar ber að sjálfsögðu öllum sami réttur að ákveða, hvað gera skuli. En í þessu máli kom tvennt til, sem gerði slíka aðferð sjálfsagða. Í fyrsta lagi, að það lá fyrir, að um fjölda ára hefur það verið einróma álit verkalýðshreyfingarinnar, að happasælasta leiðin í hagsmunabaráttunni væri sú að stemma stigu við dýrtíðinni, og þessi löggjöf féll algerlega saman við þá skoðun, og um hana þurfti ekki að fara í neinar grafgötur. Í öðru lagi lá það einnig fyrir, að þessi löggjöf yrði annaðhvort óframkvæmanleg eða verri en engin, ef ekki yrðu teknar svo skjótar ákvarðanir sem gert var. Hér gilti því hið fornkveðna: að hika var sama og tapa. Og forustumenn verkalýðsfélaganna hikuðu ekki, sem betur fór.

Nú held ég, að það verði ekki lengur um deilt, að fyrir liggja óyggjandi sannanir fyrir því, að hér var farið að í fullu samræmi við vilja fjöldans í verkalýðsfélögunum. Mikill meiri hluti verkalýðsfélaganna í landinu hefur á liðnu hausti og liðnum vetri gert ályktanir um þessi mál, ályktanir, sem tákna ótvíræðan stuðning við stefnu ríkisstjórnarinnar og þessa löggjöf. Undantekningar eru þar svo fáar, að þær eru ekki fleiri en svo, að þær staðfesta aðeins regluna. Hvergi hefur þetta þó komið gr einilegar fram en á 25. þingi Alþýðusambands Íslands, sem haldið var hér í Reykjavík seint í s. l. mánuði. Þar var gerð ályktun um þessi mál, og segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Lýsir þingið fullum stuðningi sínum við þá ákvörðun sambandsstjórnar, sem strax hlaut ákveðinn stuðning margra stærstu verkalýðsfélaganna, að ríkisstjórnin festi til bráðabirgða vísitölu og verðlag, svo sem gert var um mánaðamótin ágúst og september s. l. Telur þingið, að með þeirri ráðstöfun hafi ekki verið rýrður kaupmáttur vinnulauna.“

Þessi samþykkt var gerð einróma á þinginu. Enginn mælti henni í gegn og enginn greiddi atkv. gegn henni, ekki heldur þeir stjórnarandstæðingar, sjálfstæðismenn, sem þingið sátu.

Ég held, að þetta ætti að taka af allan vafa um það, að verkalýðssamtökin líta ekki svo á, að hinn lagalegi réttur til frjálsra samninga hafi á nokkurn hátt verið rofinn fremur en óhjákvæmilega og ævinlega er gert, þegar tímabundnir samningar um kaup eða kjör eru gerðir. Og hér var raunverulega gerður samningur við löggjafann um takmarkaðar kaupuppbætur í skamman tíma, eða fjóra mánuði, gegn fríðindum, sem samtökin mátu jafnmikils og það, sem þau gáfu eftir, og þar er mergurinn málsins.

Alþýðusamtökin eru ekki sammála hv. stjórnarandstöðu um það, að nokkur kjaraskerðing hafi átt sér stað, og ég held, að engir ætta að vita betur um verkanir þessarar löggjafar, sem hér um ræðir, en einmitt sá hlutí þjóðarinnar, sem af minnstum efnum verðnr að sjá sér farborða. Það er rétt, að við í verkalýðsfélögunum afsöluðum okkur 6 stiga kauphækkun, sem við áttum rétt á 1. september, í fjóra mánuði. Yfir þennan tíma mundi hún sennilega nema tæpum 500 kr., miðað við fulla vinnu með verkamannskaupi. Við afsöluðum okkur einnig væntanlegri kauphækkun 1. des., sem ég get ekki sagt með fullri vissu hvað mikil er, en varla hefur hún verið meiri en sú, sem átti að koma til greina 1. sept. Þá mundi heildarupphæðin, sem gefin er eftir, nema rúmlega 600 krónum, og það er vitanlega nokkur upphæð. En þá ber einnig að taka til athugunar; hvað í móti hefur komið.

Ef við hefðum tekið þessa hækkun, þá hefðu landbúnaðarafurðirnar hækkað um 11.8%, og nú er neyzlan bara á einni tegund landbúnaðarvaranna, mjólkinni, það mikil, að hækkunin á henni einni hefði trúlega tekið um fjórða hluta þessarar upphæðar fyrir hverja meðalfjölskyldu. Og hækkun á kjötvörunum einmitt á þeim árstíma, sem almenn kaup á þeirri vörutegund eru mest, og einnig á öðrum tegundum landbúnaðarvara hefðu vafalaust tekið það, sem eftir var af upphæðinni, og trúlega meira. Við þessar hækkanir hefðu svo bætzt aðrar og sumar mjög miklar, t. d. um 12% hækkun á rafmagni, allmikil hækkun á olíum og eflaust ýmsum öðrum vörutegundum, sem komið hefðu til greina.

Þá er engin ástæða til að ganga fram hjá því atriði, að hópur vinnandi manna tekur kaup af aflaverðmæti, en ekki kaupi, og þeirra kjör hafa í engu lækkað við þá löggjöf, sem hér hefur verið framkvæmd, og á ég þar við hlutarsjómennina. Þessi hluti verkalýðsstéttarinnar hefur því með löggjöfinni hlotið umtalsverða launahækkun, og ég tel, að hann hafi verið vel að henni kominn.

Það er held ég á allra vitorði, að grundvöllur framfærsluvísitölunnar er þannig úr garði gerður, að hann samræmist ekki því lífsstigi og þeim kröfum til mats og gæða á neyzluvarningi, sem gerðar eru nú á tímum, enda er sá grundvöllur fyrst gerður, þegar aðstæður voru allar aðrar og óhagstæðari fyrir vinnandi fólk en nú er.

Ein afleiðing af þessu, af því, að kaupið fylgi eftir verðlaginu gegnum vísitölukerfið, verður því það, að almenn hækkun, verðhækkun á neyzluvörum flestum, gefur ekki næga hækkun á kaupgjaldi, miðað við þær sjálfsögðu kröfur, sem almenningur gerir. Hækkandi verðlag á slíkum vörum hlýtur því óhjákvæmilega að þýða í flestum eða öllum tilfellum raunverulega launalækkun, ef engar bætur eða kauphækkanir fást á móti í einhverri mynd. Þetta hafa fyrrverandi ríkisstj. í landinu vitað mjög vel, ríkisstjórnirnar, sem framkvæmdu gengisfellinguna, komu á bátagjaldeyrinum og lögðu á framleiðslusjóðsgjaldið. Þær hafa vitað þetta jafnvel og verkalýðssamtökin, og þær hafa leitazt við að lækka raunveruleg laun með því að pressa upp verðlagið. Núv. ríkisstj. hefur farið inn á aðra braut með þessari löggjöf. Hún hefur látið það verða eitt af sínum fyrstu verkum að stöðva verðhækkanirnar, og um leið hefur verkalýðsstéttin séð sér hug í því að rétta hönd sína fram til stuðnings.

Ég geri að vísu ekki, og þeir munu fleiri, sem gera ekki nein ráð fyrir því, að ríkisstj. sé almáttug í því að halda öllu verðlagi niðri. Þar koma að sjálfsögðu til ýmsir þættir, sem enn eru óviðráðanlegir. En hún hefur gefið um ráð skýlaus loforð, að ekkert verði gert í efnahagsmálunum án fulls samráðs við verkalýðshreyfinguna, og í því felst mikilsverð trygging. Í þessu felast einmitt stærstu breytingarnar á stjórnarstefnu frá því, sem áður var. Verkalýðssamtökin voru ekki spurð ráða 1947, ekki 1950 og ekki í ársbyrjun 1956, og af því sýpur nú öll þjóðin seyðið.

Það skiptir vitanlega engu í þessu sambandi, þótt reynt sé að hafa hausavíxl á hlutunum og segja orsökina afleiðingu og afleiðinguna orsök. Því verður ekki haggað, að kjarabarátta verkalýðssamtakanna á undanförnum árum hefur verið afleiðing af vexti dýrtíðarinnar, en ekki orsök, og ætti að vera nægilegt, í bili a. m. k., að benda á það, að síðan 1947 hefur verkalýðshreyfingin aldrei borið fram neinar kröfur um annað en að sér yrði bættur nokkur hluti af þeirri kjararýrnun, sem hún hefur orðið fyrir í gegnum verðhækkanir.

Þá kem ég aðeins að síðasta atriðinu í gagnrýni minni hlutans, og hún er um það, að verðbindingin sé óþörf, þar sem heimild hafi verið fyrir hana áður í lögum, og er þar vísað til laga nr. 30 1950, um verðlagseftirlit, verðlagsdóm o. fl.

Að sjálfsögðu kemur þetta ekki til greina viðvíkjandi landbúnaðarafurðunum, þar sem um verðlagningu þeirra er fyrir hendi sérstök löggjöf, og ég vil ekki heldur fullyrða, að við það sé átt í áliti minni hlutans. En í þeim lögum, sem minni hlutinn vísar til, eru fyrirmæli um það, að allar verðlagsákvarðanir skuli miða við þörf fyrirtækja þeirra, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Með verðhækkunarbanni þessara bráðabirgðalaga er þetta ákvæði raunverulega numið úr gildi um takmarkaðan tíma, og slíkt varð að sjálfsögðu ekki gert nema með nýrri löggjöf.

Að sjálfsögðu gera þessi lög ráð fyrir því, að það geti komið fyrir, að kaupsýslumenn og verzlunarmenn verði um takmarkaðan tíma að selja einhverjar vörur jafnvel sér í óhag, en löggjöf um slíkt er að sjálfsögðu nauðsynleg, og hefði verið algerlega óheimilt að grípa til slíkra ráða eftir eldri lögum. Ég tel því, að þessi athugasemd standist ekki gagnrýni fremur en hinar, sem ég hef lítillega gert að umtalsefni.

Eins og áður er sagt og nál. á þskj. 127 ber með sér, er fjhn. ósammála um ýmis atriði, sem snerta frv., en er hins vegar sammála um að leggja til, að það verði samþ. án breytinga.