11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að tala hér langt mál, og tilefnið er ekki svo stórvægilegt, að ég tek til máls, að ég þurfi að eyða mörgum orðum að því að svara.

Það er í fyrsta lagi, að ekki hafi verið leitað til stéttanna. Það er svo margrætt, að ég held, að þess gerist ekki þörf að ræða það atriði nánar og hrekja oftar en gert hefur verið þá staðhæfingu, að ekki hafi verið leitað til stéttanna. Það var gert rækilega af forseta Alþýðusambands Íslands m. a. og færðar fram sannanir fyrir því, að leitað var til verkamannasamtakanna á þann fullkomnasta hátt, sem hægt var að koma víð á stuttum tíma. Ef hefði átt að halda fund í hverju félagi á landinu, hefði það sennilega tekið lengri tíma en svo, að þessi brbl. hefðu nokkurn tíma verið sett. Annars þarf ég engu að bæta við um þetta atriði. Hv. 8. landsk, hefur gert því skil.

Að því er snertir, að ekki hafi verið leitað til bændasamtakanna, gegnir þar sama máli. Það hefur oft verið rætt, og fyrir liggja alveg greinilegar yfirlýsingar frá formanni Stéttarsambands bænda um, að það var gert. Vitanlega leitar stjórnin til trúnaðarmanna samtakanna, og þeir ráða síðan í meginatriðum, hvenær þeir telja sig hafa fengið nægilegar upplýsingar um vilja stéttarinnar, og gera það á þann hátt, sem þeir telja fullnægjandi. Það er upplýst mál, að það var leitað til allra í stjórn Stéttarsambands bænda nema eins manns, sem ekki náðist til, vegna þess að hann var á ferðalagi, og það er jafnframt upplýst af form. stéttarsamtakanna, að það var leitað til meiri hluta framleiðsluráðs. En það er náttúrlega fyrst og fremst stjórn stéttarsamtakanna, sem er aðili í þessu máli. Að það hafi komið fram vítur á ríkisstj. á fundi Stéttarsambandsins núna s. l. haust, á fundi,. sem var haldinn á Blönduósi, er rangt, eins og er tekið greinilega fram í yfirlýsingunni, sem ég fékk frá formanni Stéttarsambands bænda, vegna þess að þessum brigzlum var stöðugt haldið á lofti í Nd. Segir í yfirlýsingunni, að það hafi komið fram ein rödd eins manns á fundinum um óánægju út af þessari löggjöf og hennar gætti svo lítið, að það tók enginn undir það. Þetta stendur í yfirlýsingunni frá form. Stéttarsambands bænda.

Svo eru það áhyggjur hv. þm. N-Ísf. út af því, að stjórnin sé nú alveg að klofna. Ég skil náttúrlega mætavel, að hann hafi áhyggjur af því og sérstaklega skrifum þeirra blaða, sem að ríkisstj, standa. En einnig þar þarf litlu við að bæta það, sem hv. 8. landsk. sagði hér. Það má minna jafnfróðan mann og hv. þm. N-Ísf. á það, að í sambræðslustjórnum er ekki alltaf samkomulag og það af þeirri einföldu ástæðu, að að samsteypustjórnum standa flokkar með mismunandi skoðanir. Það er áreiðanlega svo greinilega í minni allra, að ekki þarf að fara um það mörgum orðum, að í landinu eru uppi þrjár skoðanir í varnarmálunum. Sumir vilja, að því er virðist, alltaf hafa her eða a. m. k. þótt hættan sé sáralítil. Aðrir vilja hér engan her, hvað mikil sem hættan er. Þetta er hvort tveggja staðreynd. Og þriðja skoðunin er sú, að það eigi að nota hvert tækifæri til þess að losna við herinn, ef birtir til, en hér eigi samt eftir þeim samningum, sem við höfum gert, og samkv. eðli málsins að vera her, þegar er yfirvofandi mikil hætta. Í samræmi við þessa stefnu var gefin út yfirlýsing frá utanrrn. um stefnuna í varnarmálunum, og hún var send öllum blöðum innanlands og mörgum blöðum erlendis, og hún var einmitt mörkuð svona, eins og ég gat um áðan, og í samræmi við það, sem við höfðum lýst yfir fyrir kosningar. Það liggja víst fyrir í þessum leiðara, sem ég hef ekki lesið náið, því að ég hafði öðrum hnöppum að hneppa í dag, en hv. þm. segir, að þarna séu brigzl um svik. Þegar hv. þm. N-Ísf. lítur yfir þessar þrjár stefnur, sem hinir mismunandi flokkar hafa, hlýtur hann að geta dæmt um það sjálfur, hvort um svik er að ræða, því að dæmið er svo einfalt. Og þó að það væri margbrotnara, mundi hann áreiðanlega geta greitt fram úr því. En þessi orð gefa ekki tilefni til lengri ræðu af minni hendi, að öðru leyti en því, að ég vil minna á það, að þegar var samsteypustjórn, sem Sjálfstfl, og Framsfl. stóðu að, þá gerðust þau tíðindi, sem ekki eru óeðlileg, vegna þess að flokkarnir höfðu mismunandi skoðanir, að orð féllu í blöðum, ekki einu sinni, heldur tugum sinnum, um svik á stefnum og framkvæmd. Að hve miklu leyti þetta er eðlilegt, skal ég ekkert dæma um, en nærtækasta dæmið er það, sem ég hef minnt á áður, að í framkvæmd varnarmálanna taldi flokksþing Framsfl. utanrrh., sem var sjálfstæðismaður, eins og þingdeildin man, hafa brugðizt þannig, að það var lýst yfir vantrausti á ráðherrann, og okkur var brigzlað um það í þrjú eða fjögur næstu ár, svo að segja daglega, í blöðum Sjálfstfl., að við sætum þrátt fyrir þetta í ríkisstj., og var talið okkur til mikils vansa. Þannig gekk það í þeirri samsteypustjórn, ekki einu sinni, heldur oft, svo að ég hélt nú satt að segja, að hv. þm., sem er blaðamaður jafnframt, þyrfti ekki að kippa sér upp við þetta eftir þeirri venju, sem verið hefur á vinnubrögðum, þó að ég sé ekki að mæla með þeim.

Hann spurði enn fremur: Hverjar ráðstafanir verða gerðar núna á næstunni? Ég vænti þess, að hv. þm. geri sér það ljóst, að til þess að gera grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem væntanlega verða gerðar núna á næstunni, eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir hér í þessari hv. þd., þyrfti hvorki meira né minna en að hafa framsögu um frv., sem ekki liggur enn þá fyrir. Ég vænti þess, að hann geri sér ljóst við nánari athugun, að inn á þær brautir get ég ekki farið í vinnubrögðum hér á Alþingi. Það kemur svo í ljós, þegar það frv. liggur fyrir, hvort það er í samræmi við þær yfirlýsingar, sem flokkarnir hafa gefið fyrir kosningar, og verður að bíða síns tíma að dæma um það.