11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta langa skraf hv. þm. N-Ísf. gefur sannarlega ekki tilefni til þess að eyða á það miklu púðri. Það liggur fyrir yfirlýsing frá formanni Stéttarsambands bænda, sem ég las upp í hv. Nd., um það, hvernig var leitað til stéttarsamtakanna. Og ég sagði hér samkv. þeirri yfirlýsingu formannsins, að það var leitað til fjögurra af fimm, allra nema eins í stjórn Stéttarsambandsins, og er beinlínis tekið fram af hv. 2. þm. Skagf., að þeir hafi allir samþykkt það, enda var fyrst til hans sjálfs leitað samkv. þeirri yfirlýsingu, sem formaðurinn gaf.

Í annan stað gekk hann fram hjá því, sem er vitanlega blekking, að í framleiðsluráði eru að vísu fjórir fulltrúar auk stjórnar Stéttarsambandsins, en eru fulltrúar meira fyrir einstök sölufélög. Hann leitaði til eins af þessum mönnum, en með því að fimm menn úr Stéttarsambandsstjórninni eru í framleiðsluráði, geri ég ráð fyrir, að hann geti lagt það saman og sjái, að 4 + 1 eru fimm — meiri hluti af níu.

Það tekur því bókstaflega ekki að vera að eyða orðum að þessu, þar sem liggur fyrir yfirlýsing frá formanninum um þetta mál, lesin upp í hv. Nd. og var birt í blöðum, og enginn mótmælti því, að hún væri rétt. (SB: En hvað sagði Jón á Reynistað?) Ja, Jón á Reynistað mótmælti ekki yfirlýsingu formannsins með einu orði, þegar hún kom í blöðunum, svo að það er hún, sem stendur óhögguð, enda geri ég ráð fyrir því, að það sé ofvaxið fyrir þennan hv. þm. að rengja sannsögli Sverris Gíslasonar bónda í Hvammi. Ég geri ráð fyrir, að það sé honum ofvaxið. Það hefur enginn leyft sér að rengja þessa yfirlýsingu.

Hv. þm. hefur mikinn áhuga á því, að ekki komi fram ágreiningur milli stjórnarflokkanna, og hefur geysilegar áhyggjur af þessu. Einn af hans flokksmönnum sagði í Nd., að það yrði áreiðanlega að finna önnur ráð til að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum en þau ein, að hún fái hvergi lán. Það skyldi þó ekki hafa verið þessi undiralda frekar en áhyggjur út af ástandinu og áhyggjur út af því, að stjórnin stæði valt, sem kom fram í þeim ummælum, sem féllu hérna hjá hv. þm.? Ég held ég láti þá, sem hlusta á mál hans og mál mitt, gera það upp við sjálfa sig, hvort frekar er. En um vörumerkið vil ég segja það, að ef okkur auðnast að koma fram þeim tillögum, sem við erum að undirbúa, og þegar öll kurl eru komin til grafar, skulum við tala um, hvort það sé íhaldsvörumerki á þeim tillögum.