16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Rannsókn kjörbréfa

Fram. minni hl. 3. kjördeildar (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Meginatriði þessa máls, sem hér liggur fyrir, er það, hvernig Alþ. skuli skipað þetta kjörtímabil samkv. ákvæðum og anda og tilgangi stjórnarskrárinnar, og það, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst uppbótar- eða jöfnunarsætin. En til þess að öðlast nægan skilning á þessu máli, fyrst og fremst jöfnunarþingsætunum, hvernig þau eru til orðin og um tilgang þeirra, þá er óhjákvæmilegt að rekja nokkuð aðdraganda þess, að þau voru tekin upp í stjórnarskrána fyrir rúmum tveim áratugum. Við athugun á þessu þýðingarmikla máli, sem hér liggur fyrir, um stjórnskipun og stjórnarfar okkar Íslendinga, er einnig nauðsynlegt vegna furðulegra missagna og misskilnings, sem hér hefur komið fram, að athuga nokkuð, hvaða sjónarmið koma einkum til greina við eðlilega og skynsamlega skýringu laga.

Kosningar til Alþ., kjördæmaskipun og skipun Alþ. hefur að sjálfsögðu um langan aldur verið eitt af höfuðviðfangsefnum þings og þjóðar. Það eru nú komin full 50 ár síðan fyrsti íslenzki ráðherrann, Hannes Hafstein, flutti á sínu fyrsta þingi sem ráðherra frv. um nýja kjördæmaskipun og kosningatilhögun, Þetta frv. var að sjálfsögðu flutt vegna þess, að þá um langa hríð hafði mönnum verið ljóst, að nýja skipan þyrfti að gera í þessum málum til að tryggja sem bezt þingræði, lýðræði og vilja fólksins. Frv. Hannesar Hafsteins fól það í sér, að landinu skyldi skipt í sjö kjördæmi, er kjósi hvert 4–6 þm. eftir íbúafjölda og skuli þm. kosnir með hlutfallskosningu. Frv. fékk góðar undirtektir þá, varð ekki útrætt, og á næsta þingi var það flutt að nýju, en var þá fellt með örlitlum atkvæðamun. Síðan virðist þetta mál hafa legið í þagnargildi um langt skeið, enda önnur viðfangsefni, fyrst og fremst samband Íslands og Danmerkur og skilnaður þeirra landa, sem altóku hugi manna um langt skeið.

Næst gerist það, að árið 1928 skrifar Thor Thors, núverandi ambassador Íslands í Bandaríkjunum, ýtarlega grein í tímaritið Vöku um kjördæmaskipunina, ágalla hennar, og gerir ákveðnar tillögur til umbóta í þessu máli og um skipan Alþ, Þær till. voru í stórum dráttum svipaðar till. Hannesar Hafsteins um skiptingu landsins í nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningu.

Árið 1931 verður merkisár í sögu þessa máls. Þá er málið tekið upp á Alþ. Þáverandi ríkisstj. Framsfl., sem studdist þá við hlutleysi Alþfl., flutti frv. um breytingar á stjórnarskránni, breytingar, sem einkum fólu í sér afnám landskjörsins, afnám hinna sex landskjörnu þm., þannig að allir þm. skyldu kosnir hér eftir í einmennings- og tvímenningskjördæmum með óhlutbundnum kosningum. Í meðferð þessa stjórnarfrv. kom það fram, að bæði Sjálfstfl. og Alþfl. töldu þetta frv. enga lausn vandans og yrði að fara allt aðrar leiðir til að tryggja réttlæti í þessum málum, þannig að Alþ. yrði sem réttust mynd af þjóðarviljanum. Að vísu ríkti allmikill ágreiningur um leiðir milli þessara tveggja flokka, þó að þeir væru sammála um meginmarkmiðið, það, að Alþ. yrði sem réttust mynd af þjóðarviljanum, að stjórnmálaflokkarnir fengju þingsæti í samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Leiðirnar, tillögurnar voru mismunandi, þar sem Alþfl. lagði áherzlu á, að landið yrði allt eitt kjördæmi með hlutfallskosningum, en sjálfstæðismenn töldu aðrar leiðir, svo sem einmenningskjördæmi með uppbótarsætum eða nokkur stór kjördæmi, miklu fremur koma til greina og langsamlega mesta ágallana á því að hafa landið allt eitt kjördæmi. En þrátt fyrir skiptar skoðanir um leiðir milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna þá, virtust þó nokkrir möguleikar á því að ná samkomulagi um gagngerar endurbætur á kjördæmaskipuninni. Sllkt mátti Framsfl. að sjálfsögðu ekki heyra nefnt, og eins og kunnugt er hleypti Framsfl. upp þinginu 14. apríl 1931, og var ein af meginástæðum þingrofsins, að sjálfstæðis- og jafnaðarmenn hefðu fyrirætlanir um að lagfæra kjördæmaskipunina og það yrði að koma í veg fyrir slíkar lagfæringar, Það segir svo í þingrofsboðskap forsrh., „að samvinna milli jafnaðarmannaflokksins og Sjálfstfl. er þegar hafin, m. a. til að leiða í lög víðtækar breytingar á kjördæmaskipun landsins.“

Þetta varð upphaf mikilla og stórra átaka og tíðinda um stjórnarskrár- og kjördæmamál, átaka, sem stóðu í full þrjú ár. Framsfl. vann í þingrofskosningunum 1931 mikinn sigur, en sá sigur var Pyrrhusarsigur. Flokkurinn fékk í þessum kosningum 21 þm. af 36 kjördæmakosnum, auk þess hafði hann 2 landskjörna þm. af 6, Hann fékk því samtals eftir þessar kosningar 23 þm. af 42 eða hreinan meiri hl. á Alþingi. En atkvæðamagnið, sem stóð á bak við flokkinn í þessum kosningum, var aðeins 35.9%, eða rúmur þriðjungur þjóðarinnar. Sjálfstfl. og Alþfl., sem höfðu á bak við sig í kosningunum um 60% greiddra atkv. samtals, fengu kosna 15 þm., höfðu 4 landskjörna, höfðu því samtals með 60% þjóðarinnar 19 þm. á móti 23 þm. Framsfl., sem rúmur þriðjungur þjóðarinnar stóð á bak við. Hafi mönnum ekki áður verið fullljóst, að kjördæmaskipunin þyrfti endurskoðunar, þá var það nú öllum skýrt, að svo mátti ekki lengur standa. Kröfur alls almennings urðu svo ákveðnar og háværar um breytingar til að tryggja lýðræðið, að Framsfl. þrátt fyrir hreinan meiri hl. á Alþingi gafst upp ári síðar. Stjórn hans sagði af sér og ný stjórn var mynduð með því höfuðverkefni að reyna að leysa kjördæmamálið.

Í þessum átökum öllum komu nokkuð skýrt fram, bæði í mörgum frv., grg. og þingræðum, meginsjónarmiðin í þessu máli. Forustuna höfðu þar hinir mikilsvirtu foringjar, Jón Þorláksson, formaður Sjálfstfl., og Jón Baldvinsson, formaður Alþfl. Þeir voru þar í fararbroddi og í eldlínunni fyrir sína flokka. Meginmarkmið þeirra beggja var nákvæmlega það sama, og það er orðað svo í frv., sem þeir fluttu sameiginlega 1932, Jón Þorláksson, Jón Baldvinsson og Pétur Magnússon: „Alþingi skal svo skipað, að hver þingflokkur hafi þingsæti í samræmi við atkvæðatölu þá, sem greidd er frambjóðendum flokksins samtals við almennar kosningar.“ Þetta er í 1. gr. stjórnarskrárfrv. þeirra.

Ég skal ekki vitna hér í mörg ummæli Jóns Baldvinssonar í hans mörgu og skeleggu ræðum í þessu máli. Hann tók það hvað eftir annað skýrt fram, að þingfl. yrðu að fá þingsæti í samræmi við atkvæðatöluna, að Alþfl. hefði haldið og mundi halda fast við þær kröfur, sem hann hefði barizt fyrir í undanfarinn hálfan annan áratug, og það þýddi ekki til lengdar að standa á móti þessu máli. Og annar áhrifamaður Alþfl. fyrr og síðar, núverandi formaður hans, Haraldur Guðmundsson, sagði í þessum sömu átökum, 1932–1933: „Afstaða okkar jafnaðarmanna í stjórnarskrármálinu er skýr, við höfum lagt fyrir þingið frv., sem er í samræmi við okkar stefnu, þ. e. meginatriðið, að þingfl. fái jafnan þingsæti í réttu hlutfalli við atkvæðatölu við almennar kosningar.“

Ég skal ekki rekja þessa sögu ýtarlega, en vil þó til þess að marka skýrt og greinilega þá afstöðu, sem Sjálfstfl. hefur fylgt um aldarfjórðung, sem síðan er liðinn, lesa hér upp örstuttan kafla úr ýtarlegri og rökstuddri greinargerð Jóns Þorlákssonar og Péturs Magnússonar með stjórnarskrárfrv. 1932. Þar segir:

„Eftir kosningarnar 1931 hefur Framsfl. algeran meiri hl. í þinginu, 23. þm., sem eftir kjósendafylgi á aðeins að hafa einn þm. umfram þriðjung þingsæta.

Þetta ástand er algerlega óviðunandi í landi, sem vill telja sig lýðræðisríki. Eftir réttarmeðvitund nútímans er þjóðfélagsvaldið í lýðræðislöndum byggt á þeim grundvelli, að valdið sé sameiginleg eign hinna fullveðja borgara, hluti af mannréttindum hvers einstaks þeirra, sem eigi verður með neinu lagaboði réttilega af þeim tekinn eða misjafn ger, þó að hitt geti komið fyrir, að einstaklingur brjóti þessi réttindi af sér um stundarsakir eða fyrir fullt og allt með því að gera sig sekan í athæfi, sem varðar við lög og svívirðilegt er að almenningsdómi. Meðferð þessa valds fela borgararnir þinginu í umboði sínu, en þar af leiðir beint, að þingið á að vera hlutfallslega rétt smækkuð mynd af þeim skoðunum, sem uppi eru meðal kjósendanna. Í öllum löndum koma þessar skoðanir nú á tímum fram á þann hátt, að þeir, sem eru sömu skoðunar í þeim málum, sem aðallega koma til greina við kosningar, hópa sig saman í landsmálaflokka, með tilsvarandi þingflokkum innan þinganna. Af hinum jafna rétti fullveðja borgara til þátttöku í ríkisvaldinu og áhrifa á meðferð þess leiðir það þá, að landsmálaflokkarnir eða þingflokkarnir verða að fá þingsæti í samræmi við þá kjósendatölu, sem stendur að baki hverjum þeirra. Með því er jafnrétti kjósendanna tryggt, og á engan annan hátt verður það tryggt.“

Svo segir í grg. þeirra Jóns Þorlákssonar og Péturs Magnússonar 1932.

Þessi sameiginlega barátta sjálfstæðis- og jafnaðarmanna, sem hafði sameiginlegt markmið, þó að nokkuð greindi á um leiðir, leiddi til stórmerkilegs áfanga með stjórnarskrárbreytingunni 1933. Niðurstaðan varð sú, að sú leið að markinu var valin í bili að taka upp uppbótarsæti, hafa í meginatriðum kjördæmaskipunina eins og hún hafði verið, en taka upp 11 þingsæti til jöfnunar, til þess að hver þingflokkur fái þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölur sínar við almennar kosningar. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, sem samþykkt var 1933, er merkur áfangi í sögu lýðræðis og jafns kosningarréttar á Íslandi. Hér var því veruleg lagfæring fengin.

En nú liðu 8 ár, og kom þá í ljós, að þessi breyting, þó að hún stefndi í rétta átt, var engan veginn fullnægjandi. Þetta stafaði fyrst og fremst af markvissum tilraunum Framsfl. til þess að fara í kringum lögin og til að fá sem allra flest fámenn kjördæmi út á sem allra fæst atkvæði. En eins og kunnugt er, hefur það lengst af verið ein af sérgreinum Framsfl. að misnota kjördæmaskipunina.

Síðan gerist það árið 1942, að Alþfl. tekur upp kjördæmamálið að nýju, og þá er aðalatriði frv. hans það, að upp skuli teknar hlutfallskosningar í 6 tvímenningskjördæmum, en uppbótarsætunum haldið. Þetta frv. hlaut stuðning Sjálfstfl. og Sósfl. og varð að lögum gegn eindreginni andstöðu og ofsafengnum fjandskap Framsfl. Meðal flutningsmanna þessa réttlætisfrv. voru tveir af núverandi þm. Alþfl., formaður hans, Haraldur Guðmundsson, og utanrrh., Emil Jónsson. Þeir segja m. a. í grg. með frv.:

„Aðalatriði þessa frv. stefna að því að jafna atkvæðisrétt þegnanna og skapa jafnvægi milli flokka á þingi. Hér er stefnt að því að endurbæta skipulag lýðræðisins í okkar landi. Einstaklingarnir og réttur þeirra er undirstaða þess, og þingið á að vera rétt mynd af þjóðinni.“

Þetta eru orð þeirra Haralds Guðmundssonar og Emils Jónssonar í grg. fyrir frv. þeirra 1942. Það er að vissu leyti fróðlegt og til nokkurrar skýringar á afstöðu framsóknarmanna í þessum réttlætismálum fyrr og síðar að athuga hér nokkrar setningar eftir aðalmálsvara Framsfl. í þessu máli 1942, núverandi 2. þm. Rang. (SvbH), sem þá var eins og oftar, þegar um slík mál er að ræða, hafður á oddinum. Sveinbjörn Högnason sagði m. a. í þessum umr.:

Alþfl. hefur nú gefið upp alla von um að vinna ný kjördæmi, en vill koma ár sinni þannig fyrir borð, að honum verði not að atkvæðum, sem greidd eru honum víðs vegar um landið, þó að ekkert kjördæmi vilji þá fyrir þingmenn. En svo getur farið, þó að ný kjördæmi séu stofnuð fyrir þá, að atkvæðin týnist og verði þeim ekki að tilætluðum notum. Frv. gengur allt út á að segja við kjósendur: Þó að þið viljið okkur ekki fyrir þm., þá skuluð þið samt hjálpa okkur til að koma mönnum á þing.“ — Og Sveinbjörn Högnason segir: „Trúað gæti ég því, að þeir, sem flytja nú þetta frv. (þ. e. Alþýðuflokksmennirnir) í því skyni að sjá fylkingar sínar vaxa, muni sjá þær hverfa, og það er ekki annað en við má búast, þegar menn bjóða þjóðinni naglasúpu í stað réttlætis.“ — Og enn segir prófasturinn um þetta frv. Alþfl., réttlætismálið: „Við framsóknarmenn erum þess fullvissir, að .... fáa óhappamenn hafi þjóðin átt meiri .... en þá, sem nú bera fram breytingar á stjórnarskránni.“

Öll hefur þessi barátta fyrir uppbótarsætum, jöfnunarsætum, hlutfallskosningum beinzt í eina og sömu átt, að tryggja réttlæti, tryggja lýðræði, að þingið verði sem sönnust mynd af þjóðarviljanum á hverjum tíma.

Lengst af hafa Alþfl. og kommúnistar þótzt eiga samleið um meginstefnuna með sjálfstæðismönnum, Einn flokkur hefur alltaf streitzt á móti, Framsfl. Síðan 1942, þegar þetta stjórnarskrárfrv. Alþfl. Var samþykkt, sem var stórt spor í rétta átt, hefur þó sigið í þessu efni á ógæfuhlið og ranglætið orðið meira ög meira, þó að út yfir taki nú, þar sem öll fyrri met eru slegin í pólitískum hrekkjabrögðum.

Það er eðlilegt, að flokkar reyni að vinna sem flest kjördæmi með því að auka stefnu sinni fylgi með þjóðinni, og vitanlega hafa flokkar heimild til að vinna saman og hafa bandalög sín á milli. En nú hefur það gerzt, sem er óþekkt í íslenzkri stjórnmálasögu. Í rauninni er það tvennt, sem gerzt hefur jafnsnemma: Kosningabandalag Frams.- og Alþfl., kosningaflokkur þeirra, gerði þrauthugsaða tilraun til þess að ná sem flestum fámennustu kjördæmunum á sitt vald, en um leið og þessi tilraun er gerð, reynir þessi sami kosningaflokkur eða bandalag að hremma sem allra flest uppbótarsæti. Glöggt dæmi þessa er Seyðisfjörður. Um nokkurra ára skeið var Seyðisfjörður Alþfl.- kjördæmi, og síðari árin, meðan Sjálfstfl, hefur haft það kjördæmi, hefur aðalandstæðingur sjálfstæðisframbjóðandans verið frambjóðandi Alþfl. Framsfl. hafði sáralítið fylgi þar. Nú gerast þau undur í sumar, að í þessari sambræðslu og samsæri er ákveðið að afhenda Framsfl, Seyðisfjörð. Vegna hvers? Af þeirri einföldu ástæðu, að það er nauðsynlegur liður í samsærinu. Ef Alþfl. hefði unnið Seyðisfjörð úr höndum sjálfstæðismanna, þá hefði Alþfl. fengið einu uppbótarsæti færra. En með því að afhenda Framsfl. þetta kjördæmi gat Alþfl. fengið uppbótarmann engu að síður.

Þetta er það sérstaka við þetta brölt, og fyrir því eru engin fordæmi. Málsvarar bandalagsins hafa reynt að vitna í samstarf Bændaflokksins og Sjálfstfl. í kosningunum 1937. Þetta hefur verið marghrakið sem fjarstæða, að þetta tvennt sé sambærilegt. Bændaflokkurinn og Sjálfstfl. höfðu mótframbjóðendur hvor á móti öðrum í mörgum kjördæmum, en Framsfl. og Alþfl. nú algera samstöðu og sömu frambjóðendur og bandalag í hverju einasta kjördæmi um menn og málefni og bauð hvergi annar fram á móti hinum.

En þó er hér til viðbótar því, sem ræðumenn Sjálfstfl, hafa sagt hér um þetta mál, eitt atriði enn, sem ég vil minna á. Bandalagið í sumar, Frams. og Alþfl., er gert til þess að hremma sem flest af fámennustu kjördæmunum og næla í uppbótarsæti um leið, þvert ofan í anda og tilgang stjórnarskrárinnar.

Hefði í bandalagi Sjálfstfl. og Bændaflokksins hins vegar verið beitt þeirri reglu, sem er sú eina rétta í þessu sambandi, að reikna út í einu lagi bandalag slíkra flokka eins og Alþfl. og Framsfl., þá hefðu þeir flokkar ekki tapað á því, þeir hefðu fengið einu uppbótarsæti fleira. M. ö. o.: Á því bandalagi og þeim útreikningi, sem þá var hafður, töpuðu flokkarnir, Sjálfstæðis- og Bændaflokkurinn, en hefðu sem sagt fengið einu þingsæti fleira, ef atkv. þeirra hefðu verið lögð saman. Raunveruleg tala uppbótarsæta var þá: Sjálfstfl. 5, Bændaflokkurinn 1, Alþfl. 3, Kommúnistafl. 2, Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn samtals 6 uppbótarsæti, en ef þeim hefðu verið reiknuð uppbótarsæti í einu lagi, þá hefðu þeir fengið 7 sæti í stað 6. Það fer því fjarri því á öllum sviðum, að þetta tvennt sé sambærilegt.

Herra forseti. Þessi upprifjun sögunnar er nauðsynleg vegna skilnings á meginatriðum málsins. Menn verða að gera sér grein fyrir, hver var tilgangurinn með þessari hörðu og löngu baráttu fyrir uppbótarsætum, því að það atriði er þýðingarmikið og í rauninni getur ráðið úrslitum um túlkun á því málefni, sem hér er um að ræða, En þá kemur önnur spurning, almenns eðlis, og hún er: Hvaða sjónarmið á almennt að hafa um skýringu á lögum og stjórnarskrá? Hvaða meginsjónarmið á að hafa um lögskýringu? Í rauninni má segja, að þar gæti tveggja meginsjónarmiða. Annað er bókstafstrúin, og bókstafstrúarmenn segja, að það eigi alltaf að skýra lög og dæma dóma eftir orðanna hljóðan, eftir orðalaginu, því að „bókstafurinn blífur“. Þetta höfum við heyrt hvað eftir annað í þessum umr., og þetta heyrðum við ekki sízt í kosningabaráttunni á síðasta sumri.

Í þessu dæmi, sem hér liggur fyrir, segja bókstafsmennirnir: Lögin segja hvergi, að það eigi að reikna út uppbótarsæti í einu lagi fyrir þessa tvo flokka. Þau segja það hvergi berum orðum, og þess vegna hlýtur að eiga að reikna það út í tvennu lagi.

Ég verð að segja, að það er vissulega sorglegt, að slíkrar bókstafstrúar skuli enn vera vart á okkar tímum. Þessi skilningur um skýringu laga var ríkjandi á tímum skólaspekinnar og í myrkri miðaldanna. En hitt er furðulegt, að honum skuli skjóta upp á þessum tímum upplýsingar, lýðfrelsis og lýðfræðslu, Og þegar maður hlustar á jafnvel góða og greinda menn, m. a. lögfræðinga, halda því fram, að það sé orðalag laganna, sem jafnan eigi að skera úr, og ekkert annað, þá fyllist maður undrun yfir því og jafnvel harmi að sjá afturgengin slík nátttröll grárrar forneskju og steingervinga liðinna alda,

Nei, sú lögskýringarregla, sem fyrir löngu hefur rutt sér til rúms og viðurkennd er af flestöllum eða öllum sanngjörnum mönnum, er ekki bókstafsskýringin, heldur skynsemisskýringin. Það á að beita skynseminni, og það á að leita að skynsamlegri túlkun á anda og tilgangi laganna. Það á að leita að því, hvað fyrir löggjafanum hefur vakað, til þess að finna sem allra eðlilegasta og skynsamlegasta lausn málsins. Ef ekki eru til skýr lagaákvæði um eitthvert atriði, þá á að finna, hvað væri eðlilegast, og í rauninni hefur þessi skýringarregla verið viðurkennd á öllum öldum meðal hinna beztu lögvitringa.

Það var gullvæg regla, sem viturlega var orðuð í Rómarétti, eins og margt fleira, að ef bein lagaákvæði skorti, þá skyldi dæma ea bono et aequo, þ. e. eftir því, sem sanngjarnast væri og réttlátast. Það þarf ekki að leita til margra lögfræðinga nú á dögum til þess að sannfærast um, að það er skynsemistúlkunin, en ekki bókstafs- og orðatúlkunin, sem er sú rétta. Þekktasti lögfræðingur Norðmanna, sem nú er uppi, er dr. Castberg, rektor Oslóar-háskóla. Hann hefur ritað allra manna mest um norska stjórnlagafræði, stjórnskipun og stjórnarfar. Í meginriti sínu um stjórnskipun Norðmanna gerir hann einmitt lögskýringuna og sjónarmið hennar að umtalsefni í löngum kafla. Hann segir: „Orðalagið og sú niðurstaða, sem það leiðir til eftir málvenju, getur ekki alltaf ráðið úrslitum. Það á ekki að láta bókstafinn gilda framar skynsamlegri meiningu lagatextans, Það á að leggja megináherzlu á skynsamlega meiningu laganna framar orðalaginu, og það þýðir sama og fara eftir tilgangi laganna. Réttarreglurnar eru alltaf þess eðlis að vera meðal eða ráð til þess að ná ákveðnum tilgangi.“

Svo heyrum við hér jafnvel í þessum umr., m. a. frá síðasta ræðumanni, talað háðulega um það, að við séum að leita að einhverjum óljósum tilgangi laga.

Hinn mikli íslenzki lögspekingur, dr. Einar Arnórsson, segir í Réttarsögu Alþingis um uppbótarsætin og ákvæði stjórnarskrárinnar um þau: „Höfuðmarkmið þessara ákvæða stjórnskipunarlaganna um uppbótarsæti er, að hver þingflokkur geti fengið þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu við almennar kosningar, að hlutfallið milli þingmannatölu og atkvæðatölu verði sem allra líkast hjá öllum flokkum. Fyrirmæli kosningalaganna ber því að haga svo, að þessu takmarki verði náð, svo sem kostur er, eftir fyrirmælum stjórnskipunarlaganna. Það er frá því sjónarmiði mjög áríðandi, að hver flokkur nái þeirri atkvæðatölu, sem hann á með réttu, og að atkv. njóti sín fyllilega, er ákveða skal þingmannatölu.“

Þessi orð Einars Arnórssonar í Réttarsögu Alþingis bera þess ljósan vott, hvílíka höfuðáherzlu hann leggur á takmarkið, tilganginn í stjórnarskránni, bæði við setningu kosningalaga og túlkun þeirra.

Ég vil nefna eitt mjög þýðingarmikið dæmi úr íslenzkum stjórnskipunarrétti þessu til skýringar. Hver á að skera úr um það, hvort almenn lög, sem Alþ. hefur sett, brjóta í bág við stjórnarskrána? Ef það kemur fyrir, sem nokkrum sinnum hefur komið fyrir, að löggjafinn setur almenn lög, sem flestir telja að séu ekkí í samræmi við stjórnarskrána, þá er ekkert ákvæði um það í íslenzku stjórnarskránni, hvernig með skuli fara. Eiga þá dómstólar að dæma eftir þessum lögum, sem brjóta í bág við stjórnarskrána? Eiga stjórnvöldin að fylgja þeim? Á almenningur að haga breytni sinni eftir þeim? Eða er einhver aðili, sem rétt er að úrskurði um það og geti sagt til um það bindandi, að þessum lögum skuli ekki fylgja, vegna þess að þau brjóti stjórnarskrána?

Um þetta er ekkert ákvæði í stjórnarskránni, og bókstafstrúarmenn eins og málsvarar stjórnarliðsins munu auðvitað segja: Þar sem engin ákvæði eru um þetta í stjskr., þá hefur enginn aðili heimild til þess að skera úr þessu, Það verður að fylgja þessum almennu lögum, lög eru lög.

Vitanlega er þessi niðurstaða fráleit. Og skynsemistúlkunin segir: Það er gagnstætt anda og tilgangi stjórnarskrárinnar og vernd stjórnarskrárákvæðanna, að almenni löggjafinn geti brotið gegn stjórnarskránni. Það verður að vera einhver aðili til að skera úr þessu. Og skynsemistúlkunin segir: Með hliðsjón af öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar og verkaskiptingu stjórnvaldsins hljóta það að vera dómstólarnir, að lokum hæstiréttur, sem skera úr þessu. Þetta er alviðurkennd skoðun fræðimanna hér á landi og hefur lengi verið, og hæstiréttur sjálfur hefur oftar en einu sinni staðfest þessa skoðun og þessa túlkun.

Ég nefni þetta dæmi til að sýna, hversu bókstafsdýrkunin og túlkunin getur leitt út á algerar villigötur og jafnvel teflt stjórnskipun okkar og réttarríki í háska. Ég vil bæta því við, að ef löggjafanum eða Alþ. á sínum tíma, 1933 eða 1942, hefði dottið í hug þessi möguleiki, að tveir flokkar kynnu að hafa algert kosningabandalag eða að einn flokkur mundi skipta sér í tvennt til þess að krækja í fleiri uppbótarsæti en ber, þá fullyrði ég, að Alþ. hefði ákveðið að setja undir þennan leka. Það hafði ákveðið skýrum stöfum í kosningalögum, að reikna skyldi uppbótarsæti í einu lagi, ef um algert kosningabandalag flokka væri að ræða eða stjórnmálaflokkur skipti sér og byði fram í tvennu lagi með þessum hætti. Ég er einnig sannfærður um, að þá hefðu þm. Alþfl. og Kommúnistafl. allir saman greitt atkvæði með slíku ákvæði til þess að koma í veg fyrir þá misþyrmingu jöfnunarsætanna, sem nú á sér stað.

En lítum nú á afstöðu landskjörstjórnar.

Ég vil fyrst minnast hér á afstöðu þeirra Sigtryggs Klemenzsonar og Vilhjálms Jónssonar. Það er tvennt, sem þeir byggja sinn úrskurð á, að reikna skuli uppbótarsætin fyrir hvorn flokk fyrir sig. Það er annað, að slík kosningabandalög séu hvergi bönnuð í lögum, bókstafsskilningurinn, sem ég er þegar búinn að ræða nokkuð um, og hin röksemdin, að það séu skýr fordæmi fyrir slíku samstarfi, t. d. kosningabandalag Bændaflokksins og sjálfstæðismanna 1937. Við höfum sýnt fram á það, að það er fráleitt, fjarri öllu lagi að líkja þessu saman. Þetta eru tvær meginstoðirnar undir úrskurði þeirra.

Þriðji landskjörstjórnarmaðurinn, Jón Ásbjörnsson, segir: „Í lögum um kosningar til Alþingis eru engin ákvæði um slík kosningabandalög sem þetta. Það er að vísu ljóst, að slíkt kosningabandalag er, ef hvor þessara stjórnmálaflokka telst sjálfstæður þingflokkur, þegar uppbótarsætum er úthlutað, til þess lagað að raska flokkum þessum í hag þeirri þingmannatölu, sem þeir mundu fá, ef þeir byðu nú fram til Alþ. með venjulegum hætti hvor fyrir sig. En við það eru ákvæði laga um kosningar til Alþingis bersýnilega miðuð.“ Hann telur, að slíkt bandalag, ef uppbótarsætin yrðu reiknuð í tvennu lagi, sé til þess fallið að raska réttu hlutfalli, en vegna þess að skorti bein lagaákvæði um þetta, treysti hann sér ekki til að úrskurða, að reikna skuli í einu lagi.

Rökstuðningur fjórða landskjörstjórnarmannsins, Einars B. Guðmundssonar, er í meginatriðum þessi: „Við alþingiskosningar þær, sem nú eiga að fara fram, hafa Alþfl. og Framsfl. stofnað til algers kosningabandalags í öllum kjördæmum landsins. Íslenzk lög hafa engin ákvæði að geyma um, hvernig með skuli fara, ef stjórnmálaflokkarnir gera með sér kosningabandalög. Hins vegar sýnist hið algera kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. leiða til þess, að ákvæði d-liðs 31. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði 124. gr. kosningalaga verði ekki fullnægt nema með þeim hætti að úthluta þessum flokkum sameiginlega uppbótarsætum samkvæmt samanlagðri atkvæðatölu þeirri, er þeir hljóta við kosningarnar.“

Einna ýtarlegust er greinargerð fimmta landskjörstjórnarmannsins, Vilmundar Jónssonar. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Báðir flokkar, Alþfl. og Framsfl., eru í algeru kosningabandalagi, sem stofnað er til af réttum fyrirsvarsaðilum flokkanna samkvæmt einróma samþykktum flokksþinga beggja flokkanna. Báðir flokkar hafa fullkomna samstöðu í kosningunum sem einn flokkur væri, kosningalega séð.

Kosningabandalag er þekkt kosningalagahugtak og táknar meiri eða minni samstöðu tveggja eða fleiri flokka í kosningum, þeim til sameiginlegs eða gagnkvæms framdráttar. Kosningabandalög eru heimiluð í kosningalögum ýmissa landa og með ýmsu móti, en auðvitað háð ákveðnum skilyrðum og reglum.

Í íslenzku kosningalögunum eru enn engin ákvæði, sem lúta að kosningabandalögum, og hefur löggjafanum láðst að gera ráð fyrir þeim. Engu að síður hefur hér verið stofnað til svo víðtæks og algers kosningabandalags tveggja stjórnmálaflokka sem orðið getur. En eigi slíkt að viðgangast án þess, að það sé nokkrum skilyrðum bundið eða reglum háð, er viðbúið, að það raski hinu löghelgaða kosningafyrirkomulagi og þá alveg sérstaklega að því er tekur til úthlutunar uppbótarsætanna, þannig að með engu móti verði við komið að haga þeirri úthlutun samkvæmt skýlausum fyrirmælum stjórnarskrár og kosningalaga um, að uppbótarmönnum skuli úthlutað til jöfnunar milli þingflokka, Nægir að vitna til þess, að slíkt algert kosningabandalag tveggja flokka, sem fengi sér úthlutað uppbótarsætum í tvennu lagi, býður því heim, að hagrætt sé framboðum og frambjóðendum víxlað með tilliti til þess, að bandalagsflokkunum heimtist fleiri uppbótarsæti en þeim að réttu ber, þá auðvitað á kostnað annarra flokka.

Landskjörstjórn hlýtur að telja sér skylt að halda vörð um þau fyrirmæli stjórnarskrár og kosningalaga svo og anda þeirra fyrirmæla og tilgang, að uppbótarþingsætum verði úthlutað til raunhæfrar jöfnunar milli þingflokka, en vegna hins algera kosningabandalags Alþ.- og Framsfl. fær hún ekki séð, að það verði með öðru móti en því, að uppbótarsætum verði úthlutað í einu lagi til beggja bandalagsflokkanna.“

Þetta var úr greinargerð Vilmundar Jónssonar, og ég vil taka það fram, að með allri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum, sem í landskjörstjórn sitja, verður í þessu sambandi skoðun Vilmundar Jónssonar allþung á metunum, þar sem vitað er, að hann var einn af aðalhöfundum kosningalaganna og vann hér á þingi sem þm. mikið starf við setningu þeirra og undirbúning.

Hver er svo niðurstaðan af þeirri reglu að reikna uppbótarsætin fyrir hvorn flokkinn sér? Ég skal ekki nefna hér margar tölur, en draga upp eina mynd, og myndin er þessi: Alþfl. og Framsókn fá saman í sínu bandalagi 28 þús. atkv. kjósenda og 25 þm. Sjálfstfl. fær 7 þús. atkv. fleira, 35 þús., en sex þm. færra eða 19 þm. Í rauninni þarf ekki frekar vitnanna við um þá skrípamynd af lýðræði, sem hér er verið að framkalla. Og ég vil spyrja flm. frv. Alþfl. frá 1942, þá Harald Guðmundsson og Emil Jónsson: Er með þessu verið að stefna að því að endurbæta skipulag lýðræðisins í okkar landi? Er með þessu verið að jafna atkvæðisrétt þegnanna og skapa jafnvægi á milli flokka á þingi, eins og þeir sjálfir orðuðu það í grg.? Er hér verið að tryggja jafnrétti einstaklinganna, sem er undirstaða lýðræðisins, og erum við með þessu að gera þingið að réttri mynd af þjóðinni, svo að ég taki upp nokkrar af þeim setningum, sem þeir höfðu í grg. sinni með stjórnarskrárfrv. 1942?

Hvað sem öllum bókstafsskilningi líður, sem virðist eiga að fagna um sinn meirihlutafylgi á Alþingi, þá er mér spurn: Finnst mönnum þetta réttlátt? Finnst mönnum sanngjarnt, að einn hópur kjósenda í landinu fái miklu fleiri þm. en annar, sem er miklu fjölmennari? Var það tilgangur þeirra Jóns Þorlákssonar og Jóns Baldvinssonar, sem lögðu fram þrotlaust starf árum saman með heilsu sína að veði til að koma þessu réttlætismáli í framkvæmd, — var það tilgangur þeirra, að jöfnunarsætin yrðu notuð til ójöfnunar, að einmitt uppbótar- og jöfnunarsætin, sem samkvæmt stjórnarskránni áttu að jafna milli stjórnmálaflokkanna og kjósendanna, skuli nú notuð í þveröfugum tilgangi til að gera ójöfnuðinn milli kjósendanna enn meiri?

Sjálfstæðismenn leggja til, að uppbótarsætum sé úthlutað í einu lagi fyrir Framsóknar- og Alþýðuflokk og að þess vegna séu ekki tekin gild þessi fjögur kjörbréf til uppbótarmanna Alþfl.

Nú rís hér upp fulltrúi Alþb., hv. 4. landsk., Finnbogi R. Valdimarsson, sá maður, sem einna hvassast og stórorðast hefur tekið til orða um það samsæri, sem Alþfl. og Framsfl. höfðu hér í frammi. Sem ritstjóri blaðsins Útsýnar, málgagns Alþb., hefur hann viku eftir viku vakið athygli þjóðarinnar á því „svindli og samsæri“, sem þessir flokkar séu að fremja. Finnbogi R. Valdimarsson hefur m. a. sagt, að þessi „þingsætaþjófnaður verði ekki látinn viðgangast fremur en annar opinber þjófnaður“, Og hverjir eiga að dæma um það? Alþingi, segir hann í blaðinu: „Alþingi er hæstiréttur í máli kosningasvindlaranna.“

Nú kemur þessi málsvari Alþb., — ekki til að framfylgja boðskap sínum og kosningaloforðum um að vera vörður réttlætisins, láta úthluta uppbótarsætum í einu lagi fyrir þessa flokka og reka „svindlarana“ og „þingsætaþjófana“ heim. Nei. Nú segir Finnbogi R. Valdimarsson: Ég finn hvergi í 142. gr. kosningalaganna nein bein ákvæði um þetta, og það er þess vegna vafamál, hvort Alþingi hefur nokkra heimild til þess að ógilda kjörbréf uppbótarmannanna. Það segir ekkert um þetta tilvik í lögunum, og hvað tekur við, ef Alþingi ógildir kjörbréf þessara fjögurra manna? Ja, hvar stöndum við? Verða þá ekki bara auð þessi fjögur sæti? — Hinn mikli bardagamaður, hetja lýðræðis og jafnréttis, Finnbogi R. Valdimarsson, gerist nú talsmaður blindrar bókstafsdýrkunar og bókstafstúlkunar, vegna þess að það vanti í 142. gr. kosningalaganna ákvæði um þetta atriði, þá getur Alþingi víst ekkert við þessu gert. Ef Alþ. nú samt sem áður ógildir þessi kjörbréf, hver á þá að gefa út kjörbréf handa öðrum uppbótarmönnum?

Ekki kemur til mála, að landskjörstjórnin geri það, segir hv. þm. Meiri hl. hennar, framsóknarmennirnir og Jón Ásbjörnsson, er búinn að túlka sinn lagaskilning og kveða upp sinn úrskurð. Ætlast Sjálfstfl. til, spyr hv. 4. landsk. þm., að Jón Ásbjörnsson og meiri hl. landskjörstjórnar fari að breyta sínum lagaskilningi fyrir einfalda ályktun á þingsetningarfundi?

Ég verð að segja, að ég er undrandi yfir jafnmiklum þekkingarskorti hjá jafngreindum manni. Það er augljóst mál, hvernig með á að fara, ef Alþ. ógildir kjörbréfin. Annaðhvort felur Alþ. landskjörstjórninni að reikna út uppbótarsætin að nýju í samræmi við réttar reglur, þ. e. að leggja saman atkv. bandalagsins, Ef landskjörstjórnin neitaði að gera það, væri það sama og undirdómari eða héraðsdómari neitaði að fylgja því, sem hæstiréttur mælir fyrir, því að í þessu máli, varðandi lögmæti kosninga og gildi kjörbréfa, er landskjörstjórn undirréttur, en Alþ. hæstiréttur. Það kemur oft fyrir, að héraðsdómarar kveða upp dóma, sem ekki standast fyrir hæstarétti. Stundum breytir hæstiréttur þeim beinlínis. Stundum er máli vísað heim í hérað aftur til löglegri meðferðar og dómsálagningar, Vitanlega er það skylda undirdómarans að taka þá málið fyrir að nýju og kveða upp nýjan dóm, Hann getur ekki sagt: Ég dæmi ekki málið að nýju, því að ég er búinn að dæma samkvæmt minni sannfæringu. — Hann verður að gera svo vel að taka málið fyrir og kveða upp nýjan dóm í samræmi við þær reglur og sjónarmið, sem hæstiréttur mælti fyrir um. Það fer nákvæmlega eins, ef Alþ, neitar að taka gild þessi kjörbréf og felur landskjörstjórn að reikna út að nýju eftir réttum reglum, þá er landskjörstjórn vitaskuld skylt að gera það.

Ef svo undarlega vildi til, að landskjörstjórn neitaði að gera slíkt, þá eru auðvitað hæg heimatökin hjá Alþingi að láta reikna út, hverjir eigi að hljóta uppbótarsæti, og löggilda þá sem þingmenn. Mætti fela það hagstofunni eða öðrum aðila. Það er mjög auðvelt reikningsdæmi.

En við skulum hugsa þessa lögskýringu hv. 4. landsk. þm. lengra, að Alþingi geti ekki ógilt kjörbréf landsk. þm. af því að landskjörstjórn geti ekki breytt sinni skoðun. Af því leiðir rökrétt það, að Alþ. getur heldur ekki ógilt kjörbréf kjördæmakosins þm., sem fengið hefur kjörbréf frá yfirkjörstjórn, því að alveg með sama rétti mundi yfirkjörstjórn neita að breyta sinni skoðun og gefa út nýtt kjörbréf. Afleiðingin af skilningi hv. 4. landsk. þm. yrði því þessi: Alþingi hefur ekkert vald og enga heimild til að vera að fást við kjörbréf eða ógilda kosningu þingmanns.

Nú segir stjórnarskráin í 46. gr.: „Alþingi sker sjálft úr, hvort þm. þess séu löglega kosnir.“ Alþingi hefur æðsta vald í þessum málum, er hæstiréttur. Hitt er svo annað mál, hvort það er stjórnskipulega æskilegt í framtíðinni, að Alþ. sjálft skeri úr um kjörbréf þm., að þingmenn séu dómarar um sín eigin mál. Hjá ýmsum þjóðum dæma sérstakir dómstólar um það, hvort kosning hefur farið löglega fram, hvort þm. er kjörgengur og yfirleitt um allt varðandi lögmæti kosninga.

Í lögum um kjör forseta Íslands er ákveðið, að allt varðandi kjörgengi og lögmæti kosningar forseta Íslands er undir úrskurði hæstaréttar. Við endurskoðun stjskr. gæti vel komið til greina, að sérstakur dómstóll eða hæstiréttur skæri úr þessum málum. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að það sé æskilegra. En stjskr. hefur nú haft þetta ákvæði og hefur það enn í dag, að Alþ. skeri sjálft úr, og það er hæstiréttur í þessu máli.

Þessi málflutningur hv. 4. landsk. þm. er aðeins eitt dæmi um það, hvernig greindir menn geta fallið í gildrur og snörur, þegar þeir allt í einu þurfa að söðla um, víkja frá því, sem þeir áður hafa haldið fram, og takast á hendur það hlutskipti að tala gegn sinni eigin sannfæringu.

Það hefur heyrzt manna í milli undanfarnar vikur og mánuði, að það væri ákaflega illa gert gagnvart þessum 4 uppbótarþm. Alþfl. að ógilda kjörbréf þeirra. Það yrðu svo mikil vonbrigði fyrir þá, ef þeir yrðu sendir heim, eftir að hafa hampað kjörbréfunum í höndum sér um nokkurt skeið. Sumir hafa reynt að gera þessa fjórmenninga að píslarvottum, sem hinir vondu sjálfstæðismenn væru að ofsækja.

Ég hef persónulega ekki nema það bezta um þessa fjórmenninga að segja, og þeir eru að mínu viti miklum mun mætari menn en sumir þeir, sem slysazt hafa inn á þing fyrr og síðar. En þó að kjörbréf þeirra yrðu ekki tekin gild, þá eru þetta ekki alveg munaðarlausir einstæðingar, Einn þeirra er utanrrh., annar menntmrh., og við mundum njóta návistar þeirra hér, hvað sem kjörbréfum liður, a. m. k. meðan stjórnin lifir. Þeim þriðja hefur verið falið með brbl. að veita forstöðu öllum innflutnings-, verðlags- og fjárfestingarmálum landsins, og er það sæmileg vegtylla. Sá fjórði nýtur þeirrar virðingarstöðu að vera einn af áróðursforstjórum Sambands ísl. samvinnufélaga, og ég býst við, að ríkisstj. mundi ekki láta þann myndarmann verða út undan um vegsauka og vegtyllur, a. m. k. ber ég í því efni fullt traust til núverandi ríkisstj.

Ég minntist á það, að 28 þúsund kjósendur Framsóknar- og Alþýðuflokksins hefðu nú fengið 25 þm. eftir þessum skilningi, en þetta eru 33.8% af greiddum atkv. Nú er það athugandi, að sáralitlu munaði, að þetta bandalag fengi hreinan meiri hluta á Alþ. Hefðu þeir fengið, ef ég man rétt, 27 atkv. fleira í S.-Múlasýslu og V.-Skaftafellssýslu, þá hefðu þeir hlotið 27 þingsæti. Hvort sem þessi tala er rétt munuð eða ekki, þá munaði sárafáum atkv., að þriðjungur þjóðarinnar fengi meiri hluta á Alþ., meira að segja færri kjósendur hlutfallslega en þó stóðu á bak við Framsfl. einan 1931. Það er svo önnur saga, sem sýnir það hrun, sem orðið hefur í þessum flokkum, að báðir samanlagt skuli nú fá hlutfallslega minna en Framsfl. einn fyrir 25 árum. Þetta sýnir vissulega, hvílík hætta er hér á ferðum, og það er nauðsyn fyrir Alþ. að staldra við og athuga, hvað það er að gera með því að ætla að fara að úthluta þessum uppbótarsætum eins og hér er gert ráð fyrir.

Barátta fyrir réttlátari kosningatilhögun og kjördæmaskipun hefur oft verið háð áður, og sú barátta hefur alltaf fengið sigur að lokum, ekki til fulls í hverjum áfanga, en þó miðað í áttina. Í þessum átökum hefur Framsfl. alltaf verið þversum, alltaf verið verndarvættur ranglætis og sérréttinda. En í þessum átökum um breytingar á kjördæmaskipuninni hefur Framsfl. alltaf að lokum orðið undir, þó að hann hafi unnið stundarsigra. En Alþfl. og kommúnistafl. hafa lengstum staðið með jafnrétti og umbótum á kjördæmaskipuninni. Nú hafa báðir þessir flokkar brugðizt svo gersamlega sem frekast er unnt. Þeir hafa vafalaust sínar hvatir til þess, Alþfl. kannske hræddur um að tortímast, eins og Sveinbjörn Högnason komst að orði, og kommúnistarnir eygi þarna loksins möguleika til að brjótast út úr þeirri einangrun, sem þeir hafa verið í um langt skeið, og komast til valda. Og nú gerðust íslenzkir sósíaldemókratar fyrstir og einir allra sósíaldemókrata á Vesturlöndum til þess að taka það í mál að sitja með kommúnistum í ríkisstj.

Alþýðuflokksmenn hafa ekki aðeins lagt blessun sína yfir þessi brögð, heldur eru þeir sjálfir með í samsærinu frá upphafi.

Hvað er nú orðið af jafnréttishugsjón jafnaðarmanna, þegar þeir telja það sjálfsagt, að þriðjungur þjóðarinnar geti hrifsað til sín meirihlutavald á Alþ.? Hvað er orðið af stefnuskrá þeirra og kjörorði á sínum tíma, að þeir ætluðu bæði að jafna kosningarréttinn og jafna kjörin? Og hvað er orðið um hugsjónir hins gamla leiðtoga þeirra, Jóns Baldvinssonar, og hans löngu baráttu fyrir réttlátri kjördæmaskipun?

Nei, Alþfl.-menn mega vissulega með kinnroða líta yfir starfið, svo mjög sem þeim hefur miðað aftur á bak upp á síðkastið, og ég ætla, að sé leitun á jafnaðarmannaflokki, sem framið hefur meiri ójöfnuð en þennan, sem hér er á ferð.

En þó að hlutur Alþfl. sé ekki góður, þá er hlutur kommúnistafl. að sumu leyti enn verri. Alþfl. gekk þó til kosninganna með þeim hætti, að menn vissu, að hann var þátttakandi í þessum samtökum, en kommúnistar villtu á sér heimildir, þóttust vilja réttláta úthlutun uppbótarsæta og gengu til kosninga á þeim grundvelli. Þeir héldu því einnig fram fyrst um sinn eftir kosningarnar, að ógilda bæri uppbótarkjörbréf Alþfl. og reikna uppbótarsætin fyrir flokkana í einu lagi. Hér hefur því orðið alger kúvending hjá kommúnistaflokknum, Í rauninni er aðeins ein skýring á því, og þeir vita hana ósköp vel sjálfir. Ástæðan fyrir því, að þeir falla frá sínum stóru orðum um „þingsætaþjófnað“ og loforðum um vernd lýðræðis og réttlætis, er þátttaka þeirra í ríkisstj. — ráðherrastólarnir og ekkert annað. Kjörorð þeirra er leynt og ljóst, að valdið á jafnan að vera ofar réttlætinu.

Svo virðist, að kommúnistar sjálfir séu orðnir svo vanir línudansinum fyrr og síðar, að þeim finnist þetta varla umtalsvert. Annað eins hefur nú skeð, hugsa þeir, eins og það, þó að þeir þurfi að kyngja örfáum blaðagreinum, stefnuskráryfirlýsingum og loforðum. Stalín sálaði var páfi þeirra í aldarfjórðung og dýrkaður sem guð, og einn af fyrrverandi þm. kommúnistaflokksins orti klökkan lofsöng um Jósef Djugasvili, son skóarans :

„Hér brosir aðeins maður,

sem er mannsins bezti vin.“

En eftir aldarfjórðungs tilbeiðslu er því auðvitað kyngt af kommúnistum, að þessi sami Jósef Djugasvili Stalín hafi verið vitfirrtasti illvirki og manndrápari sögunnar. Og náttúrlega breytir kommúnistaflokkurinn ekkert um svip, þó að hann innbyrði í þingmannahópinn einn afhrópaðan Alþýðuflokksformann og í fylgd með honum einn taugalækni.

En kommúnistar hafa eftir þessi brigð sín ekki manndóm til að segja: Þetta er að vísu ranglæti, en við teljum meira virði að komast í stjórn, og þess vegna jarðsyngjum við í bili allar fullyrðingar okkar um lýðræði og þess háttar. Við jarðsyngjum þessar hugsjónir, kannske gröfum við þær upp einhvern tíma seinna, — eins og Rajk hinn ungverska, — þegar hentar að nota þær til hátíðahalda.

En þegar litið er á allt þetta mál og hvernig núverandi hæstv. ríkisstj. er til orðin, þá hlýtur dómurinn að verða sá, að sjaldan hafi ríkisstj. hafið göngu sína ógiftusamlegar en þessi. Lýðræðinu er misþyrmt, ákvæði stjskr. um jöfnunarsæti misnotuð í stórum stíl. Kommúnistar bregðast því, sem þeir höfðu lofað kjósendum sínum um að ógilda uppbótarsætin. Alþfl. hafði rétt fyrir kosningar gefið fyrir munn formanns síns, Haralds Guðmundssonar, hátíðlega yfirlýsingu fyrir öllum landslýð um, að Alþfl. mundi aldrei ganga í stjórn með kommúnistum. Framsfl. gaf svipaðar yfirlýsingar í Tímanum nokkrum dögum fyrir kosningar. Báðir þessir flokkar gengu á bak orða sinna og mynduðu stjórn með kommúnistum.

Þannig er þetta á alla enda og kanta á sömu bókina lært. Vissulega er ógiftusamleg og ill þessi fyrsta ganga.

Og svo kemur loksins aðalafsökun kommúnistanna fyrir því, að nú ætla þeir að samþykkja þessi fjögur uppbótarsæti: Við höfum samið um það, að stjskr. verði endurskoðuð og kjördæmaskipunin leiðrétt. — Hvað segir í stjórnarsamningnum? „Ríkisstjórnin mun vinna að því, að lokið verði á starfstíma stjórnarinnar endurskoðun stjórnarskrárinnar, og munu stjórnarflokkarnir vinna að samkomulagi sín á milli um lausn þessa máls.“

Þetta eru vissulega mikil gleðitíðindi og fagnaðarboðskapur. Það verður sett nefnd, og hún á að reyna að vinna að því, að samkomulag náist um að endurskoða stjskr. og gera það, áður en 4 ár eru liðin. Og hvert á svo að vera efni þessarar endurskoðunar? Um hvað er samið efnislega? Ekki neitt. Að minnsta kosti hafa fulltrúar kommúnistaflokksins ekki upplýst, að neinu ákveðnu hafi verið lofað um leiðréttingar á kjördæmaskipun og kosningatilhögun. Og það er náttúrlega barnaskapur, þegar hv. 4. landsk, segist hafa tröllatrú á því, að Framsfl. muni sýna fulla sanngirni í kjördæmamálinu. Hver er reynslan undanfarinn aldarfjórðung? Eru þessir menn gersamlega blindir? Hafa þeir gleymt sögunni með öllu? Vita þeir ekki, að um hverja einustu lagfæringu á kjördæmaskipuninni hefur Framsfl. streitzt á móti og reynt fyrst og fremst að halda í forréttindi og rangsleitni?

Reynslan af Framsókn bendir vissulega ekki til, að hægt sé að finna sanngjarna, eðlilega lausn á stjórnarskrár- eða kjördæmamálinu með þeim flokki. Svo hefur Sósfl. eða kommúnistaflokkurinn verið áfjáður í völdin, í ráðherrastólana, að hann hefur ekki einu sinni haft manndóm í sér til þess að tryggja einhverjar ákveðnar umbætur í réttlætisátt.

Ætli það verði ekki eins og Sveinbjörn Högnason orðaði það um árið, að þeir fái „naglasúpu“ í stað réttlætis?

Það, sem nú er nauðsynlegt að gera, er að mínu viti þrennt:

Í fyrsta lagi að slá því föstu, að samkvæmt anda og tilgangi stjórnarskrárinnar beri að reikna jöfnunar- eða uppbótarsætin út í einu lagi fyrir bandalag Alþýðu- og Framsóknarflokksins.

Í öðru lagi að gera sem allra fyrst breytingu á kosningalögunum, þar sem öll tvímæli eru tekin af skýrum stöfum.

Í þriðja lagi að taka upp stjórnarskrármálið og breyta kjördæmaskipuninni í réttlátara horf, ekki þannig, að sett sé nefnd til þess að reyna að vinna að samkomulagi áður en fjögur ár eru liðin, heldur strax.

Baráttunni mun ekki linna fyrir jafnrétti kjósendanna, fyrir grundvelli lýðræðisins, fyrir réttri skipan Alþingis. Það má aldrei til lengdar svo standa, að Alþ., hin þúsund ára þjóðstofnun, elzt þinga um gervalla jörð, verði skrípamynd af vilja þjóðarinnar, heldur skal það vera rétt mynd af því, sem íslenzka þjóðin, fólkið sjálft, vill.