13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

11. mál, skipakaup

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Í sambandi við ummæli hv. 2. þm. Reykv. vil ég segja þetta: Ég held ekki, að mjög mikil hætta sé á, að nota þurfi ákvæði 4. gr. um ríkisútgerð togara, ef þeir, sem óska eftir að kaupa togara nú, fá þá fyrirgreiðslu, sem frv. gerir ráð fyrir. Það eru ekki líkur til, að byggð verði fleiri skip á næstu tveimur, þremur árum en kaupendur eru að nú þegar. Og ég held, að fyrir þann tíma verðum við að vera búnir að finna viðhlítandi lausn á vandamálum togaraútgerðarinnar, og mun þá ekki skorta kaupendur að skipunum jafnóðum og þau fást byggð.

Annars kvaddi ég mér aðallega hljóðs til þess að lýsa nokkuð í sambandi við 4. gr. frv. þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þessu efni á Vestfjörðum. Þar hefur verkun á afla Ísafjarðartogaranna farið fram með samvinnu nágrannabyggðarlaganna, Ísafjarðar, Hnífsdals, Bolungavíkur og Súðavíkur. Þessi samvinna hefur gefizt svo vel, að nú, þegar augljóst er, að brýn nauðsyn er að kaupa 1–2 togara til viðbótar á þessum stöðum, hafa tvö hraðfrystihús á Ísafirði og eitt í Hnífsdal tekið höndum saman um að kaupa a. m. k. einn nýjan togara ásamt Eyrarhreppi og nokkrum einstaklingum. Samvinna þessara byggðarlaga byggist á sæmilega tryggum samgöngum á landi milli allra þessara staða sumar og vetur. Það hefur verið reynt að landa úr togurum annars staðar á Vestfjörðum, með því að láta þá fara á eina höfnina af annarri, en það hefur gefizt illa. Virðist það mesta, sem hægt er að teygja sig í því efni, að skipin geti landað á tveimur stöðum og þá ekki nema litlum slatta á öðrum staðnum. Samkvæmt þessari neynslu er það ljóst, að skipin eiga að landa fiskinum og fá nauðsynjar sínar helzt á einum stað, sem þá jafnframt á, ef unnt er, að vera heimahöfn skipsins. Hins vegar á að bæta samgöngur við smærri staðina svo, að unnt sé að láta þá fá hráefnaslatta, sem þeir komast yfir að vinna.

Sumir kunna að segja, að þetta sé ekki hægt, að byggja viðunandi og sæmilega trygga vetrarvegi hér á landi. Það var líka álitið fyrir vestan, áður en þeir voru lagðir. Það var meira að segja talið ókleift að byggja þar nokkra vegi, hvað þá vetrarvegi. Reynslan hefur þó sýnt allt annað, og ég hygg, að svo muni fara víðar, ef unnið er að vegarlagningunni með þeirri tækni og þekkingu, sem við nú ráðum yfir, og hæfilegrar framsýni og bjartsýni gætir í vegarlagningunni.

Til viðbótar má geta þess, og vísa ég þar til skýrslu mþn. um jafnvægi í byggð landsins, að eitt af því, sem gerir því nær ókleift að skipa upp úr togurum á smáhöfnunum, er, að þar vantar öll mikilvirk tæki til að flýta uppskipuninni, og verður hún því seinvirk og allt of dýr. Einnig er þá ekki hægt að nota biðtíma skipanna til viðgerða, sem alltaf eru nauðsynlegar eftir hverja veiðiferð. Sjómenn geta ekki heldur farið heim til sín, og margt fleira mætti telja, sem gerir þessa aðferð til þess að losna við aflann erfiða og kostnaðarsama. Þar að auki er hún, m. a. af þessum sökum sem ég hef nú lýst, óvinsæl af útgerðarmönnum og sjómönnum.

Ég vildi því mælast til, að hv. fjhn. tæki til athugunar fyrir 3. umr. jafnframt till. hv. þm. Borgf., hvort ekki mætti bæta við næstsíðustu mgr. 4. gr. svo hljóðandi málsgr.: Ef ekki er unnt að bæta úr atvinnuleysinu með öðru móti. — Ég mun annars óska þess að mega bera fram brtt. um það við 3. umr.

Með því að bæta úr atvinnuleysinu á annan hátt en þann að láta togarana fara í strandferð af hverri smáhöfninni á aðra á ég fyrst og fremst við að bæta samgöngurnar á landi milli þeirra staða, sem til greina geta komið við hafnarbæina. Þetta hefur gefið betri raun fyrir vestan en nokkurn gat grunað fyrir fram.