13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

11. mál, skipakaup

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef ætlað mér að greiða þessu frv. atkv., og geri ég það vegna þess, að ég tel ástandið í ýmsum landshlutum orðið þannig, að það verði að gera ráðstafanir sem neyðarúrræði til þess að ráða bætur á því atvinnuástandi, sem víða er. Hins vegar hefur það komið hér í ljós í ræðu hæstv. forsrh., að þetta frv. svífur nokkuð í lausu lofti, vegna þess að á honum var að skilja, að það væri enn þá ekki nein vissa og jafnvel engar líkur fyrir lánsfé til þess að kaupa þessa togara, sem hér er gert ráð fyrir. En þó að þetta sé svona, ætlaði ég nú ekki við þessa umr. að taka hér til máls, ef til þess hefðu ekki gefizt sérstök tilefni frá hv. 5. landsk. þm. (BG) og hv. þm. Hafnf. (EmJ), sem fóru hér að draga þetta mál inn á mjög pólitískan vettvang, sem ástæða er til að minnast hér nokkru nánar á.

Þessir menn hafa báðir gefið það í skyn, að Sjálfstfl. væri svona um og ó að fylgja því að fjölga togurum eða að fylgja togararekstri hér í okkar landi. Hann vissi svona naumlega, í hvorn fótinn hann ætti að stíga. Ég held, að þessum mönnum báðum og öðrum úr þeirra liði og mörgum öðrum farist það ákaflega illa að vera með nokkrar getsakir eða glósur í garð Sjálfstfl. varðandi þetta efni, vegna þess að þeir vita það báðir og allir aðrir hv. þm., að það var fyrir forustu Sjálfstfl. og í félagi við Sameiningarflokk alþýðu — sósfl., sem það var gert hér á árunum, sem bjargað hefur einna mest okkar atvinnulífi, að kaupa hingað 32 togara á þeim tíma, sem það var mjög hagkvæmt, og þó að þeir þættu dýrir þá — munu hafa kostað um þrjár millj. kr. —, þá er nú talið, að verð á fullkomnum togurum nú sé nálega ferfalt við þá upphæð. Hins vegar er það mjög undarlegt að heyra hér nokkra menn koma með setningar eins og komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni og voru á þá leið, að einstaklingarnir eigi að hafa rekstur atvinnutækjanna, þegar hann borgi sig, en þegar hann borgi sig ekki, eigi það opinbera að taka við.

Ég segi þetta vegna þess, að núna er hvorki hægt að tala um opinberan rekstur né einkarekstur, sem svari arði, ekki togaraútgerð, sem talin hefur verið arðvænlegasti atvinnurekstur í okkar landi, ekki bátaútgerð og jafnvel ekki neitt annað vegna þess ástands, sem skapað hefur verið í þessu landi, og þess vegna er það undarlegt mjög að heyra þá menn, sem eru meðal stærstu sakaraðilanna á því sviði, vera að tala um, að einstaklingarnir eigi að taka við, þegar arðsvon sé af fyrirtækjunum.

Í fyrra var álitið, að það þyrfti fimm þús. kr. á dag með hverjum einasta togara í þessu landi, til þess að hann gæti verið rekinn hallalaust, Nú er mér sagt, að svo langt sé komið í þessu efni, að það þurfi ekki 5 þús. kr. á dag, heldur 9500 kr. á dag til þess að jafna hallann. Við getum hugsað okkur, að ekki séu miklar líkur til, að þessi upphæð minnki, ef keyptir eru togarar með ferföldu verði frá því, sem nýsköpunartogararnir kostuðu. En þrátt fyrir þetta verður ekki hjá því komizt vegna atvinnuástandsins í landinu víðs vegar, að það verður að halda áfram að reka þessa atvinnugrein, sem er þó margra hluta vegna ein æskilegasta atvinnugrein í okkar landi, og það verður ekki gert með því að halda heppilegasta rekstrarfyrirkomulaginu á þessum hlutum, vegna þess að það hafa engir einstaklingar neitt bolmagn til þess að standa undir hinum mikla kostnaði og jafnvel ekki heldur nein sveitar- eða bæjarfélög, nema þá helzt kannske höfuðborgin.

En af hverju mundi það nú vera, að við erum komnir út á þetta svið? Af hverju mundi það vera, að það þarf þessar gífurlegu upphæðir til þess að jafna halla á slíkum rekstri og togararekstrinum? Það vita allir, sem vilja vita það, það er vegna þess, að launamennirnir og fulltrúar þeirra hafa á undanförnum árum skrúfað upp tilkostnaðinn með sinni vísitöluskrúfu þannig, að það getur enginn atvinnurekstur þrifizt nema með meðgjöf frá ríkinu. Það er vegna þess, að launakostnaðurinn við atvinnureksturinn, beint og óbeint og á öllum sviðum, er orðinn svo gífurlegur annars vegar, að framleiðslan borgar sig ekki, en að hinu leytinu það, að skattarnir til hins opinbera eru að sliga allan rekstur.

Það var upplýst hér um daginn í útvarpsumræðu, þegar fjárl. voru til meðferðar, af hv. 4. þm. Reykv. (HG), formanni Alþfl., sem var í raun og veru engin upplýsing fyrir mig, að það mundi láta nærri, að útgjöld ríkisins að meðtöldum gjöldum til framleiðslusjóðs og bátagjaldeyri yrðu um einn milljarð kr. á þessu ári. Ég veit, að þetta mun vera mjög nærri lagi, og svarar það til þess að vera 10 þús. kr. útgjöld fyrir hvern einasta mann í landinu frá 16 ára til 67 ára. Er það nú furða, þó að það sé eitthvað örðugt fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðfélagsins, þegar komið er út á þetta svið. M. ö. o., það er skattabyrðin annars vegar, launahæðin hins vegar, sem hefur skrúfað upp tilkostnaðinn við togara og alla framleiðslu svo, að það ber sig ekki, nema með því móti að taka til baka nokkuð, og það svo að verulegu nemi, af launatekjunum til þess að gefa með framleiðslunni.

Allar ásakanir í garð sjálfstæðismanna í þessu efni eru út í bláinn, vegna þess að þeir hafa á þessu sviði verið í varnaraðstöðu, og ég er ekkert hikandi við það að greiða atkv. hér með frv. eins og þessu, þegar það kemur í ljós, að núverandi hæstv. ríkisstj., sem er fyrst og fremst ríkisstj. verkamanna og annarra launamanna, vill ganga inn á það, sem sennilega er ekki um annað að tala, að auka við framleiðslutæki sjávarútgerðarinnar í stórum stíl á þeim grundvelli, að það verði að borga hallann með því að leggja hann á launatekjur þeirra stétta, sem þeir eru fulltrúar fyrir, því að það hlýtur að verða afleiðingin af því að halda áfram á þeirri braut, sem hér er stefnt á og er ekkert annað en neyðarúrræði, vegna þess að það er búið að koma atvinnurekstrinum út á það svið, að einstaklingarnir og hin máttarminni bæjarfélög eru ekki fær um að standa undir honum.

Það var spurt af hv. 5. landsk, þm. (BG): Hvernig stendur á því, að Sjálfstfl., sem hefur hreinan meiri hluta í Reykjavík, hefur farið inn á það svið að stofna til bæjarútgerðar á togurum? Því er ákaflega auðsvarað, það hefur verið gert annars vegar vegna þess, að það voru ekki fáanlegir einstaklingar til þess að standa undir þeim hallarekstri, sem hér er um að ræða, í öðru lagi vegna þess, að það byrjaði með því, að það var af því, að bæjarútgerðirnar eru skattfrjálsar, einstaklingarnir verða, hvenær sem einhver hagnaður er af rekstrinum, að borga skatt af honum.

Ég ætla nú ekki að fara nánar út í þetta að þessu sinni, en vænti þess, að hv. alþm. geti skilið, að það er ekki með neinum glöðum hug, sem menn geta fylgt því að fara út í ráðstafanir, sem þó verður að fara út í, vegna þess að þær eru neyðarúrræði miðað við það ástand, sem komið er, og byggðar á því, að það er heppilegra fyrir landsfólkið og ekki sízt verkalýðinn í landinu. Það er heppilegra, að því sé þó tryggð atvinna í þeim stöðum, þar sem það á heima, enda þótt það þurfi að taka meira og minna af launatekjunum til þess að borga hallann af rekstrinum, sem stofnað er til. Þess vegna er það, að þó að þetta frv., eins og ég sagði áðan, svífi mjög í lausu lofti að því er framkvæmdirnar snertir, er ég ekkert hikandi við það, að ég mun fylgja því.