22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

11. mál, skipakaup

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég lét þess getið við 2. umr. málsins, að ég mundi við þessa umr. leggja fram brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Sú brtt. er á þskj. nr. 58 og gengur út á það, að 4. gr. frv. falli niður. Ég gerði nokkra grein fyrir þessu við fyrri umr. og skoðun minni á því, hverjar mundu verða afleiðingar þess, ef frv. yrði samþ. með þessari gr., eins og hún liggur nú fyrir.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessa frv. verður með tímanum minnzt í atvinnusögu landsins, ekki vegna kaupa á togurunum eða vélbátum, heldur vegna 4, gr. frv., sem gefur heimild til þess að stofna til ríkisútgerðar. Það má segja, að mjór sé mikils vísir. Þessi heimild, sem mörgum þykir nú æði sakleysisleg, er þó líkleg til þess, áður en mörg ár líða, að koma sjávarútvegi landsmanna í ríkisrekstur og þjóðnýtingu, Sumir hafa bent á, að hér sé ekki mikil hætta á ferðum, vegna þess að hér sé aðeins um heimild að ræða. Já, það er rétt, hér er aðeins um heimild að ræða. En það hefur jafnan sýnt sig, að það er auðveldari eftirleikurinn, þegar gefin hefur verið heimild í lögum. Eða kemur nokkrum manni til hugar, að núv. sjútvmrh. muni nota vald sitt til að hindra það, að þessi heimild verði notuð, meðan hann ræður yfir þessum málum? Ég held ekki, að ástæða sé til þess að væna hann um slíkan þvergirðingshátt. Það er sýnilegt, að tveir flokkar í ríkisstj. ætla sér með þessum lögum að koma í framkvæmd þjóðnýtingu togaraflotans til að byrja með og síðan alls sjávarútvegsins. Þetta er þegar farið að koma í ljós og sannar þau orð mín, hvað fyrir þeim vakir. Það eru ekki nema tveir dagar síðan birt var í Alþýðublaðinu samþykkt frá ungum jafnaðarmönnum, svo hljóðandi:

„Þingið fagnaði ákvörðun ríkisstj. um stofnun ríkisútgerðar togara sem stærsta sporinu í átt þjóðnýtingar togaraflotans.“

Mér er ekki verið að draga úr, hvað við er átt. — Enn fremur segir:

„Lýsti þingið yfir því, að leysa bæri vandamál útgerðarinnar á grundvelli þjóðnýtingar og áætlunarbúskapar.“

Hvað finnst nú þeim góðu mönnum, sem fullyrtu hér, að ekki væri nein hætta á því, að farið yrði út í ríkisútgerð togara, þó að heimildin væri gefin? Ég hefði haldið, að bezta hjálpin, sem ríkið gæti veitt bæjar- og sveitarfélögum, væri að hjálpa þeim til að hjálpa sér sjálf. En ég vil spyrja: Er þetta, sem hér er stefnt að, slík hjálp? Er verið að hjálpa sveitarfélögunum til þess að hjálpa sér sjálf með því að setja á stofn ríkisútgerð togara? Ég hafði haldið, að ekki þyrfti annað en að tilkynna, að einhver bæjar- eða sveitarfélög vilji fá togara til sín, að þá sé hann sendur þeim svo að segja með orðinu. Vitanlegt er, að þau bæjarfélög, sem nú vilja kaupa sér togara, hafa hvorki afl til þess að kaupa þá né standa undir rekstrinum, því miður, en fljótt kemur fram þessi skilningur manna á málinu, því að ekki eru nema þrír eða fjórir dagar síðan aðalstuðningsblað ríkisstj. birti þá fregn, að þegar væri komið tilboð um að kaupa tvo nýja togara og um að láta byggja fyrir sig nýtt frystihús. Þessi samþykkt var frá Siglufirði, Blaðið segir:

„Sýnir þessi samþykkt, að ekki mun standa á fólkinu í bæjunum úti á landi, ef það á þess kost að eignast ný atvinnutæki.“

Það er ekki við að búast, að það standi á fólkinu, ef það getur fengið atvinnutækin fyrir ekki neitt og ríkissjóður borgar allan halla, sem á þeim verður.

Ég er ekki á neinn hátt að lasta það, þótt Siglufjörður vilji fá tvo togara í viðbót, En það er öllum vitanlegt, hvernig sú útgerð hefur gengið og hver staðið hefur undir taprekstri hennar. Vel kann að vera, að það hafi verið nauðsynlegt og sé nauðsynlegt. En það er þó eitt gott við þá útgerð. Hún er ekki „ríkisútgerð“ þrátt fyrir allt. Þeir, sem lifa það að sjá sjávarútveginn rekinn af ríkinu, munu einnig verða vitni að stórfelldum mistökum, óstjórn og fjársukki í þeim málum, því að ég hygg, að enginn atvinnuvegur á þessu landi sé jafnilla fallinn til ríkisrekstrar og sjávarútvegurinn, hvort sem um er að ræða útgerð með togurum eða vélbátum. En ef það er satt, sem komið hefur fram hjá a. m. k. tveimur ræðumönnum í þessu máli, að ekki vaki fyrir þeim, að þessi heimild sé notuð nema í neyð, ja, hvers vegna er þá ekki reynt að ná þessu marki, sem hér er keppt að, með öðrum ráðum en þessum, með öðrum ráðum en þeim að hefta sjávarútveginn í ríkisrekstur og opna þar með borgarhliðin fyrir því fjársukki, sem hlýtur að leiða af rekstri ríkisins á þessum atvinnuvegi? Ef nauðsynlegt er að hjálpa ýmsum útkjálkastöðum um fisk til verkunar — því að hér er ekki um annað að ræða — til þess að halda uppi atvinnu á stöðunum, hvers vegna má þá ekki ná sama takmarki með fjárstyrk frá ríkissjóði? Ef ríkissjóður veitir þann fjárstyrk, er enginn hörgull á að fá fiskinn á staðina. En það er sá munurinn á þessu, að ríkissjóður og Alþingi vita þá hverju sinni, hversu miklu er kastað í þessa hít.

Menn geta verið vissir um, að sá styrkur, sem mundi koma að sömu notum, yrði sízt meiri en það vísa tap, sem ríkissjóður mundi hafa af ríkisútgerð togara og enginn veit, hvað mikið verður, fyrr en það dynur á ríkissjóði. Ef ekki vakir fyrir þeim góðu mönnum, sem að þessari hugmynd standa, það eitt að koma sjávarútveginum í ríkisrekstur, heldur hitt, að koma útkjálkastöðunum til hjálpar, þá má gera það með því, að ríkissjóður leggi fram styrk til þess að gera þetta, án þess að sjávarútvegurinn sé færður í ríkisrekstur og ríkissjóður viti aldrei, hversu miklu hann þarf að sökkva í þá hít.