22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

11. mál, skipakaup

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka aftur til máls um þetta mál hér, en það gafst nokkurt tilefni til þess í ræðu þeirri, sem hv. 2. þm. Rang. (SvbH) flutti hér áðan af nokkrum þjósti. Ég veit það vel, að þessi hv. þm. er gamalreyndur þm. og hefur margt séð og heyrt á undanförnum árum. En mér fannst nú ræða hans að mörgu leyti nánast benda til þess, sem hann væri að koma af fjöllum og hefði ekki aðeins ekki fylgzt með því, sem gerzt hefur á undanförnum árum, sem hann ekki hefur verið þm., heldur jafnvel einnig gleymt því, sem gerðist meðan hann var þm., því að svo furðuleg var ræða hans í marga staði.

Varðandi það atriði, að hér væri leikinn sá leikur af Sjálfstfl. að skipta sér eins og hans venja væri í fjöldamörgum málum, þá finnst mér nú sannast sagt, að slík ásökun komi úr hörðustu átt, því að ég held, að það séu nú engir menn þjálfaðri og reyndari í slíkum brögðum en flokksmenn þessa hv. þm. Við þurfum ekki annað en lesa aðalblað flokksins núna þessa síðustu daga til þess að sjá það, að frá degi til dags er í þýðingarmiklum málum gersamlega mismunandi stefna. Það er nánast eins og það séu tveir hópar manna, sem hafi náð samkomulagi um það, að þeir skuli ráða yfir blaðinu sinn hvorn daginn. Þessi leikur hefur verið leikinn í aðalmálgagni Framsfl. árum saman. Og það er öllum vitanlegt, að þar hafa verið gersamlega tvö sjónarmið ríkjandi, og þetta hefur komið fram hér á Álþ. í fjöldamörgum þýðingarmiklum málum. Þannig að sé þar nokkur flokkur, sem leikur það hlutverk að vilja á yfirborðinu sýna eitthvað fyrir alla, þá held ég, að það sé nú fremur öðrum flokkur þessa hv. þingmanns. Annars er hér ekki sérstakur vettvangur til þess að fara að ræða almennt um stjórnmálabaráttu flokka, og skal ég því ekki nánar fara út í þá sálma, Það gefst vafalaust tækifæri til þess á öðrum vettvangi að ræða það mál nánar, en ég segi þetta aðeins hér, að gefnu tilefni frá þessum hv. þm., og vil vinsamlegast benda honum á það, áður en hann fer að hneykslast yfir því, að mismunandi viðhorf kunni að vera til einstakra mála innan flokks, að þá ætti hann, ef hann endilega vill, að slíkri venju sé viðhaldið, að það komi aldrei fram mismunandi sjónarmið innan flokks, að reyna til að koma þeim siðabótaáhrifum sínum fyrst og fremst á framfæri innan þess flokks, sem hann sjálfur skipar, því að sé þetta á annað borð óeðlilegt, þá er ábyggilega þörfin til siðbóta á þessu sviði hvergi brýnni en þar.

Það kom svo greinilega fram í umræðu þessa hv. þm. um togaraútgerð yfirleitt og ástand hennar, að hann virðist ekki gera sér grein fyrir, hvernig að þessum atvinnurekstri hefur verið búið og hvaða orsakir eru valdandi að þeim vanda, sem hann er kominn í. Hann segir, að einkareksturinn hafi gengið sér til húðar og að það eigi að vera sönnun fyrir óhæfni hans í togaraútgerð, að togaraútgerð sé nú rekin með stórfelldu tapi. Og hann tók nú það djúpt í árinni og meira að segja dýpra en nokkur talsmanna hinna hv. sósíalistísku flokka í ríkisstj. hafa gert við þessar umræður, að halda því fram, að það skipulag, sem ákveðið var varðandi togaraútgerðina af nýsköpunarstjórninni, að selja togarana einstaklingum, bæjarfélögum og ýmsum samtökum, hefði reynzt vera óheppilegt, og þess vegna væri það ekki nema eðlileg afleiðing af því, úr því að þessir aðilar gætu ekki rekið togana hallalaust, að þá væri gripið til ríkisrekstrar, og var ekki annað sýnna af ræðu þessa hv. þm. en að hann teldi eðlilegt, að hafinn væri allsherjar ríkisrekstur togara. Ég held nú sannast sagt, að allir hv. þm. nema e. t. v. þessi hv. þm. viti ákaflega vel, að aðstaða togaraútgerðarinnar nú stafar á engan hátt af því, hvað henni hafi verið illa stjórnað, heldur af stórfelldu jafnvægisleysi í þjóðfélaginu, sem hefur valdið því, að kröfur á hendur þessari útgerð og tilkostnaður við hana er orðinn miklum mun meiri en nemur afrakstrinum af útgerðinni, miðað við það gjaldeyrisverð, sem útgerðin verður nú að búa við. Og það er því sannarlega ekki vegna þess, að einhverjir gæðingar, eins og hv. þm. orðaði það, í óhófslifnaði, hefðu orðið þess valdandi, að togaraútgerðin bæri sig ekki. Ég vænti þess, að hv. þm. viti það gerla, að meginhluti íslenzka togaraflotans nú er gerður út af bæjarfélögum eða félagssamtökum, þar sem bæirnir eru stórir aðilar að. Og ég geri ekki ráð fyrir, að hægt sé að ætla, að það séu hópar manna, forustumenn bæjarfélaga eða aðrir, sem lifi í óhófslifnaði á kostnað útgerðarinnar. Afkoma útgerðarinnar nú sannar því í engu neitt um það, hvað sé heppilegasta rekstrarform hennar. Og ég hygg nú sannast sagna, að ef út í þá sálma væri farið að gera samanburð á afkomu bæjarútgerðartogara nú og afkomu ýmissa einkatogara, þá yrði sá samanburður sannarlega ekki einkarekstrinum á neinn máta óhagstæður. (Gripið fram í.) Nei, þeir fá ekki minna, það er heldur engin ástæða til þess. Þessi styrkur er reiknaður sem uppbót á það óeðlilega gjaldeyrisverð, sem þessi atvinnurekstur býr við, en ekki sem venjulegur styrkur. Það hefur verið viðurkennt af öllum og því ekki verið haldið fram af neinum í sambandi við þetta mál, að það væri eðlilegt að mismuna í þessu efni, varðandi þessar uppbætur, sem ég vil nánast tiltekið halda fram, að sé ekki styrkur, heldur aðeins viðurkenning þjóðfélagsins á því, að það séu gerðar of þungar kröfur og miklar á hendur útgerðinni. Og þá verður eðlilega að skila henni því, sem umfram er, því að hvorki útgerð né neinn annar atvinnurekstur getur staðizt, ef á hann eru lagðar þyngri kvaðir en hann með nokkru móti getur undir risið. Ef hann á ekki að stöðvast, hlýtur þjóðfélagið — og það er skylda þess — að gera ráðstafanir til þess að jafna metin að þessu leyti. Sýni það sig hins vegar við sambærilegan rekstur og við sambærileg framlög, að hlutur einstaklinga og einkaútgerðar sé lakari, hlýtur að sjálfsögðu að leiða af því, að hún veltur um, og það er ekkert við því að segja, ef hún ekki sýnir sig hæfa í þeirri samkeppni. En ég held nú sannast sagt, að ef þessi hv. þm. hefur lesið stefnuskrá og stefnuyfirlýsingar síns eigin flokks og bandalagsflokks hans og raunar ríkisstjórnarinnar allrar, hljóti hann að hafa rekið í það augun, að þar er mjög rík áherzla á það lögð, að það, sem gera þurfi nú og sé aðalvandamálið í íslenzku atvinnulífi, sé að koma atvinnuvegunum á rekstrarhæfan grundvöll. Það er fullkomlega viðurkennt, að það sé, miðað við núverandi ástand, á engan hátt óeðlilegt, að það þurfi á ýmsan máta að styrkja útflutningsframleiðsluna, og að vandamálið og aðalviðfangsefnið sé nú það, og það vitum við ósköp vel, að það er það í okkar efnahagsmálum, að draga svo úr tilkostnaði eða reyna að jafna metin á þann veg, að undir venjulegum kringumstæðum sé hægt að reka bæði togaraútgerð og annan atvinnurekstur styrkja- og hallalaust. Og ég hefði nú haldið, að það væri miklum mun eðlilegri leið til úrræða í þessu efni að reyna að leggja fram krafta sína til þess að skapa þennan grundvöll til eðlilegs atvinnurekstrar en að hugsa sér að fara inn á þá leið, að úr því að svo hefði verið illa búið að þessum atvinnurekstri frá þjóðfélagsins hendi, að hann getur ekki gengið styrkjalaust, þá eigi að draga þá afleiðingu af því, að það eigi að setja hann allan undir stjórn ríkisins. Og hvað sem öllu sukki líður, held ég nú sannast sagna, að fáir muni í alvöru vera þeirrar skoðunar, að það mundi draga úr hallarekstrinum, ef ríkið ætti að taka allan þennan atvinnurekstur á sínar herðar.

Það færi því tvímælalaust bezt á því og mundi vera heppilegast og til mestra þjóðþrifa, ef þessi hv. þm. vildi heldur ljá sitt lið og sína góðu hæfileika til þess að reyna að finna raunverulegan rekstrargrundvöll undir útgerðina, heldur en að ætla sér að leysa málið á þann furðulega hátt, að vegna þess ástands, sem ríkt hefur, og erfiðleika, sem atvinnuvegirnir hafa átt við að stríða, eigi afleiðingin að verða sú, að ríkið eigi að taka þetta allt á sínar herðar.