22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

11. mál, skipakaup

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd, sem ég vildi gera. Hv. 2. þm. Rang. (SvbH) og nokkrir fleiri stjórnarsinnar, sem hér hafa talað, hafa haft mörg og stór orð um það, að einstaklingsreksturinn á því sviði, sem hér er um að ræða eða togaraútgerðarinnar, hafi gengið sér til húðar, brugðizt með öllu o. s. frv. En ég vildi nú leyfa mér að benda hv. 2. þm. Rang. og öðrum, sem talað hafa í þeim tón, á það, að þeir skyldu gjarnan kynna sér rekstrarreikninga frá togurunum, sem safnað hefur verið í sambandi við störf ýmissa nefnda, sem að undanförnu hefur verið falið að rannsaka hag sjávarútvegsins, en ég hef stundum átt þess kost að líta á þessar skýrslur og kynna mér þær. Ég get fullyrt svo mikið, að þeir reikningar, sem safnað hefur verið um þessi efni, sanna það síður en svo, að einstaklingsreksturinn hafi gefið lakari raun í þessu efni en önnur rekstrarform, en þá hef ég fyrst og fremst í huga bæjarútgerðirnar, að hið gagnstæða er í miklu ríkari mæli tilfellið.

Hitt er svo annað mál, að það er rétt, að einstaklingsrekstur á þessu sviði hefur dregizt saman, en á því er önnur skýring en sú, að þessir togarar séu yfirleitt lakar reknir, Skýringin er nefnilega sú, að um allmörg undanfarin ár hefur ekki verið fyrir því grundvöllur, að togaraútgerð mætti reka án taprekstrar, og það er gefið mál, að einstaklingar hafa ekki bolmagn til þess að bera þau stórfelldu töp, sem á togaraútgerðinni hafa alltaf verið. Í því efni er aðstaða bæjarútgerðanna betri, því að jafnvel þótt töpin muni þar að jafnaði meiri en í einkarekstrinum, þá hafa bæjarstjórnirnar þann möguleika að ganga í vasa skattþegnanna og láta þá standa undir hallarekstrinum.