27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að það sé öllum hv. þm. í fersku minni, hvernig ástand togaraflota okkar Íslendinga var við lok síðustu heimsstyrjaldar. Þjóðin átti þá milli 30 og 40 botnvörpuskip, sem öll voru fjörgömul og gengu yfirleitt undir nafninu ryðkláfar. Á þessum skipum sigldu íslenzkir sjómenn þó yfir öll stríðsárin og öfluðu þjóðarbúinu mikilla gjaldeyristekna og áttu þátt í því að gera skerf íslenzku þjóðarinnar til baráttunnar fyrir frelsi og lýðræði í heiminum miklu stærri og glæsilegri en ella hefði orðið. Það er staðreynd, að íslenzkir sjómenn og fiskimenn lögðu fram glæsilegan skerf til þess að fæða þá lýðræðisþjóð heimsins, sem um skeið stóð ein uppi í baráttunni gegn ógnaröflum kúgunar og ofbeldis. Ég á þar við brezku þjóðina, sem um skeið barðist ein við nazismann, eftir að aðrar lýðræðisþjóðir höfðu verið að velli lagðar og kommúnistar og nazistar höfðu svarizt í fóstbræðralag og gengið í eina sæng saman.

Togararnir voru, eins og ég sagði, í lok síðustu styrjaldar gersamlega úreltir og margir hverjir naumast sjófær skip. Það var því vissulega brugðizt við mannlega og eins og þörf þjóðarinnar krafðizt, þegar sú ríkisstj., sem mynduð var á morgni lýðveldisins, ákvað að verja verulegum hluta af þeim gjaldeyrisinnstæðum, sem þjóðin hafði eignazt á styrjaldarárunum, til þess að endurnýja með togaraflotann. Þeirri ákvörðun hefur sennilega verið almennar fagnað af íslenzkum sjómönnum, útgerðarmönnum og fiskimönnum en nokkurri annarri, sem íslenzk ríkisstj. hefur tekið, þegar e. t. v. er undanskilin ákvörðunin um friðun fiskimiðanna og það skref, sem stigið var fyrir fjórum árum, þegar fiskveiðitakmörkin voru færð út. Sjómenn eygðu nýjan tíma, nýja möguleika til þess að sjá sér og sínum borgið og nýja möguleika til þess að stunda atvinnu sína við stórum meira öryggi en þeir áður höfðu átt kost á á hinum gömlu og úreltu skipum.

Ég get ekki stillt mig um það, þó að það liggi dálítið til baka í tímanum, að minnast á það, hvernig stjórnarandstaðan á þeim tíma, sem var hv. framsóknarmenn, tók þeirri ákvörðun nýsköpunarstjórnarinnar að verja allmiklu af gjaldeyrisinnstæðu þjóðarinnar til þess að kaupa fyrir ný og fullkomin skip. Ríkisstj., og þá sérstaklega Sjálfstfl., var hundelt og svívirt fyrir þessa ákvörðun. Einn af þm. Framsfl., greindur og glöggur maður, sem enginn frýr vissulega vits, lýsti aðförunum við undirbúning togarakaupanna, — og margir hafa heimfært það, og ég held með réttu, yfir á það, að hann hafi verið að lýsa raunverulega hinum nýju skipum, — þannig, að fyrst væri spýta, svo væri spýta, svo væri spýta upp og svo væri spýta niður, svo væri spýta í kross og svo færi allt í ganginn. Með þessu var verið að draga dár að þessum samningum um þessi glæsilegustu atvinnutæki, sem til landsins hafa verið keypt, og reynt að læða því inn hjá þjóðinni, að eiginlega væri verið að flana út í einhverja vitleysu, sem yrði landsfólkinu ekki til góðs, heldur til ills eins og ógæfu.

Annar mjög mætur og glöggur leiðtogi Framsfl. talaði um hin nýju skip sem gums, sem lítið mundi upp úr leggjandi, og hæstv. núverandi forsrh., sem flutti hér skynsamlega framsöguræðu og vel rökstudda fyrir þessu frv., lét einnig í ljós mikla vantrú sína og flokks síns á það fyrirtæki, sem hér væri verið að ráðast i. Og alltaf síðan hefur aðalmálgagn Framsfl., Tíminn, talað um það, að nýsköpunarstjórnin hafi sóað þeim gjaldeyrisinnstæðum, sem söfnuðust á stríðsárunum, sóað þeim m. a. í það að kaupa togara. Þetta minnir mig nú á það, sem eitt ágætt skáld segir í einu af kvæðum sínum, að „sumir menn sóuðu æsku sinni í nám á meðan aðrir vörðu henni í vín“. Aðalmálgagn Framsfl. hefur sem sagt talað um það, að gjaldeyrisinnstæðum þjóðarinnar hafi verið sóað vegna þess, að þeim var varið til þess að kaupa fyrir stórvirkustu atvinnutæki og fullkomnustu atvinnutæki, sem Íslendingar hafa nokkurn tíma eignazt.

Það má nú segja, að það sé ekki aðalatriðið að horfa um öxl til fortíðarinnar, þegar þetta frv. hér kemur til umr., en það er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um staðreyndir, sem liggja til baka í tímanum í þessu sambandi.

Það er alkunna, hver áhrif hinna nýju togara og útgerðar þeirra hafa orðið á íslenzkt atvinnulíf, Af 42 eða 43 togurum, sem við eigum nú nýja, eru nú gerðir út aðeins 16 héðan frá Reykjavík, — einn hefur nýlega farizt. En hinir eru gerðir út úti á landi. Það var vissulega stórfelld breyting, sem gerðist með tilkomu nýsköpunartogaranna til landsins varðandi útgerð þeirra. Togaraútgerðin hafði fram til þessa svo að segja öll verið í Reykjavík og Hafnarfirði, og vegna hvers? Vegna þess, að fjármagnið hafði verið látið ráða staðsetningu þeirra. Það var ekki til fjármagn úti á landi til þess að kaupa þessi dýru og stórvirku framleiðslutæki, og þess vegna voru togarar eingöngu keyptir til Reykjavíkur og urðu þar sú atvinnubót, sem fólkið úti á landi vissulega þurfti einnig á að halda.

Ég er alveg sannfærður um, að það er ein af meginástæðunum fyrir því, hversu Reykjavík hefur vaxið hratt og allt of hratt og er í dag allt of stór höfuðborg í okkar litla og fámenna landi, að hér upphófst fyrst nýtízku atvinnurekstur og þá fyrst og fremst nýtízku sjávarútvegur. Fólkið hrúgaðist þess vegna hingað, þar sem atvinnutækin voru bezt og fullkomnust. Margir af djörfustu og hraustustu sjómönnunum fóru hingað til þess að komast á togarana. Mér er t. d. kunnugt um það, að um skeið var meiri hluti eða um það bil helmingur togaraskipstjóranna hér í Reykjavík Vestfirðingar, fæddir Vestfirðingar, menn, sem fóru úr þessum landshluta vegna þess, að þar voru engir togarar, og fóru þangað sem þessi nýju og fullkomnu skip voru. En með tilkomu nýsköpunarstjórnarinnar var alveg brotið blað í þessum efnum. Þá var fjármagnið ekki lengur látið ráða því, hvar skipin skyldu staðsett. Það var ákveðið að gera bæði einstaklingum, félögum og bæjar- og sveitarfélögum úti um land kleift að eignast þessi skip, enda þótt þau hefðu ekki nægilegt fjármagn til þess að komast yfir þau. Ríkisvaldið tók það sem sagt að sér að dreifa fjármagninu, flytja það út um land, þar sem það skorti og þar sem fólkið skorti ný atvinnutæki til þess að geta unað og starfað að framleiðslu úti í byggðarlögunum. Ég álít, að þetta sé ein merkilegasta breyting á afstöðunni til strjálbýlisins, sem gerzt hefur á undanförnum áratugum, að í stað þess að fjármagnið hafði verið látið ráða staðsetningu stórvirkustu framleiðslutækja þjóðarinnar allt fram til þess tíma, þá var nú horfið að því ráði að hjálpa landsbyggðinni til þess að eignast þessi tæki með því að dreifa fjármagni út um land. Áhrifin létu ekki heldur standa á sér. Við vitum, að engin ráðstöfun hefur falið í sér meiri og raunhæfari atvinnubót en hin aukna togaraútgerð úti um landið. Þetta er svo alkunn staðreynd, að ég þarf ekki að lengja mál mitt til þess að færa rök fyrir henni frammi fyrir hv. þdm.

Jafnframt hefur hraðfrystiiðnaðurinn tekið stórt stökk fram á við í flestöllum landshlutum. Atvinnuleysi hefur þorrið og afkoma fólks í þeim landshlutum, sem hinnar nýju togaraútgerðar hafa notið, orðið stórum betri og öruggari. Það er þess vegna staðreynd, að engin ráðstöfun hefur átt meiri þátt í því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins á undanförnum árum en dreifing togaranna út um landið og sú dreifing fjármagnsins, sem í því fólst og ég minntist á áðan.

Ég minntist á jafnvægi í byggð landsins. Það er orð, sem mikið hefur verið notað á undanförnum árum. Í því sambandi vil ég minnast þess, að hinn 4. febr. 1953 var samþ. þáltill., sem ég var fyrsti flm. að og flutt var af nokkrum sjálfstæðismönnum öðrum og framsóknarmönnum, um undirbúning heildaráætlunar í þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Þessi þáltill. var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar undirbúning að heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum. Að slíkum undirbúningi loknum skal ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi tillögur sínar um nauðsynlegar framkvæmdir. Skulu þær stefna að því að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins og tryggja sem mest framleiðsluafköst þjóðarinnar. Fiskifélag Íslands, Búnaðarfélag Íslands og Landssamband iðnaðarmanna skulu vera ríkisstjórninni til aðstoðar við starf þetta.“

Þessi till., sem ég nú hef lesið, með leyfi hæstv. forseta, var fram komin vegna þess, að það var skoðun okkar flm. hennar, að enda þótt hin aukna togaraútgerð, sem þá var verið að stofna til, hefði stórfellda þýðingu og mundi stuðla að jafnvægi í byggð landsins, dugði hún ekki til þess að skapa þetta jafnvægi. Það þurfti margt fleira til að koma og það þurfti umfram allt að halda áfram að dreifa fjármagni í nægilega stórum stíl til nauðsynlegra framkvæmda úti á landi, til þess að hægt væri að koma þar upp þeim atvinnutækjum, sem tryggðu afkomu fólksins.

Því miður verð ég að viðurkenna, að þó að ég hafi stutt tvær hæstv. ríkisstj., sem setið hafa á þessu tímabili frá 1953, frá því að þessi till. var samþ., hafa þessar stjórnir ekki gert það, sem æskilegt hefði verið og þeim bar að gera til þess að framkvæma þessa till. okkar. Það er að vísu hægt að benda á fjölmargt, sem gert hefur verið, sem bæði við sjálfstæðismenn höfum beitt okkur fyrir og Framsfl., sem við höfum verið í stjórnarsamstarfi við, hefur sumpart stutt og sumpart haft frumkvæðið að. Engu að síður sýna verkin bezt merkin um það, að ekki hefur nóg verið gert. Það heldur áfram stöðugt að fækka fólki við framleiðslu úti um land, einnig á þessum árum, og fjölga því fólki, sem flytur hingað til Reykjavíkur og hinna stærstu kaupstaða og burt frá framleiðslustarfi, burt frá útflutningsframleiðslu til gjaldeyriseyðslu, því að það er það, sem er að gerast og hefur gerzt. Það er að vísu, eins og ég sagði, hægt að benda á margt, sem gert hefur verið til þess að skapa þetta margumtalaða jafnvægi. Það má benda þar fyrst og fremst á rafvæðinguna, sem nú er í fullum gangi og við vonum að verði lokið við, Það má benda á tillögur, sem fluttar hafa verið um uppbyggingu iðnaðar úti í kaupstöðum og sjávarþorpum, en að vísu hafa nú ekki enn þá verið framkvæmdar. Það má benda á bætt hafnarskilyrði, bættar samgöngur og fleira og fleira, sem gert hefur verið til þess að stuðla að þessu margumrædda jafnvægi. En engu að síður hefur ekki verið nægilega rösklega brugðizt við til þess að veita fjármagni í stórum stíl til nýrra atvinnutækja og framkvæmda víðs vegar um land, þar sem framleiðsluskilyrði eru góð og fólkið á að geta unað glatt við sitt og unir glatt við sitt, ef það aðeins hefur tækifæri til þess að bjarga sér.

Ég taldi rétt að minnast á þetta atriði einnig í sambandi við þetta mál, sérstaklega vegna þess, að hæstv. forsrh. drap aðeins á það hér í sinni framsöguræðu. En það er skoðun mín, að þrátt fyrir mörg spor, sem stígin hafa verið í rétta átt til sköpunar jafnvægis í byggð landsins, hafi þessi spor verið of fá og of smá og of seint stigin. Það er vegna skilnings á þeirri staðreynd, sem undanfarin ár hafa verið flutt fjölmörg frv. og tillögur um aukinn stuðning við kaup atvinnutækja og framleiðslutækja víðs vegar um land. Við sjálfstæðismenn höfum flutt till. t. d. um stuðning við togarakaup, við höfum flutt frv. um atvinnujöfnunarsjóð og um allsherjar stuðning við nýsköpun í atvinnulífi í þeim landshlutum, sem fyrst og fremst þurfa á slíkum stuðningi að halda, Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt í beinu framhaldi af þessum frv., sem þm. bæði úr Sjálfstfl. og öðrum flokkum hafa flutt á undanförnum árum, og það er vissulega ástæða til þess fyrir okkur, sem höfum opin augun fyrir nauðsyninni í þessum efnum, að fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur flutt þetta frv.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að hæstv. fyrrverandi ríkisstj. fól okkur 4 þm., 2 mönnum í Sjálfstfl. og 2 mönnum úr Framsfl., fyrir 2 árum að semja frv. um kaup á nýjum togurum. Þetta frv. var samið og ríkisstj. var fengið það. Í því var lagt til, að ákveðinn fjöldi togara yrði keyptur á hverju ári til landsins, sumpart til endurnýjunar hinum gamla togaraflota og sumpart til viðbótar til rekstrar á þeim stöðum, þar sem þörf var fyrir slík skip og þau voru ekki fyrir hendi áður. En hæstv. ríkisstj. taldi sig hafa í það mörg horn að líta, að hún flutti aldrei þetta mál, það varð útundan. Ég skal ekki deila á hæstv. stjórn fyrir þetta, hún hafði í mörgum stórfelldum framkvæmdum að snúast. En ég álít samt miður farið, að hæstv. fyrrv. stjórn skyldi ekki flytja þetta frv. Ef það hefði verið flutt og samþ., væri nú lengra á veg komið en raun ber vitni um kaup á nýjum togurum til landsins, það væri búið að semja um þetta fyrir nokkru og væntanlega mundu fyrstu skipin vera þá í þann mund að koma hingað nú eða koma þá alveg á næstunni. Nú vitum við, að það tekur, — ég veit nú ekki, hvað hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að það taki langan tíma, þar til fyrstu skipin, sem keypt verða samkvæmt þessu frv., komi til landsins. En mér þykir ekki ólíklegt, að það verði a. m. k. 2–3 ár, og á meðan verður þörfin náttúrlega stöðugt brýnni fyrir þessi tæki á þeim stöðum, sem fyrst og fremst þurfa á þeim að halda.

Ég vil segja það, að ég lýsi mig í höfuðdráttum fylgjandi þessu frv. og fagna því, að það er fram komið. Ég teldi hins vegar, að eftir að við höfum misst nú á síðustu árum nokkra af hinum fyrri nýsköpunartogurum, þá hefði nauðsyn verið á því að kaupa fleiri skip en 15. Ég hefði talið, að lágmarkstalan, sem við ættum að semja um nú, væri 20 togarar, og ég mun taka það til athugunar síðar undir meðferð þessa máls að freista þess að fá fram komið brtt. um það atriði. Enn fremur vil ég leggja mikla áherzlu á það og teldi æskilegt, að tekið væri eitthvert ákvæði um það inn í frv., — ég sé ekki, að það sé hér fyrir, — að þessi skip verði af allra nýjustu og fullkomnustu gerð. Við vitum það, að togaraútgerð hér á Íslandi er nú rekin með stórfelldum halla. Það hefur þó komið í ljós, að nýjustu og fullkomnustu skipin, dieselskipin, eru töluvert hagkvæmari í rekstri og að rekstrarhallinn á að minnsta kosti sumum þeirra er miklu minni en á hinum skipunum. Ég tel það þess vegna rétt, að inn í frv. yrði tekið eitthvert skýrt ákvæði um það, að þegar samið yrði um smíði þessara skipa, yrði það tryggt, að þau yrðu hin fullkomnustu og mest nýtízku skip, sem nú er kostur á, Með því yrði áreiðanlega hægt að draga verulega úr þeim gífurlega og uggvænlega halla, sem nú er á rekstri þessara stórvirkustu framleiðslutækja þessarar þjóðar.

Ég veit, að þegar rætt er um kaup á 15 togurum eða nýjum togurum eða jafnvel 20 nýjum togurum, eins og ég hef talið æskilegt, að samið væri um kaup á nú, þá vaknar sú spurning hjá mörgum, hjá ýmsum að minnsta kosti: Ja, hvers vegna að vera að kaupa nýja togara? Er ekki togaraútgerðin á slíku bólakafi með rekstur sinn hér og slíkur baggi á ríkinu, að það er að bera í bakkafullan lækinn að fara að fjölga þessum skipum, — verður ekki bara enn þá þyngri baggi á ríkinu og erum við ekki komnir enn þá lengra út í kviksyndið með því að fjölga þessum framleiðslutækjum? — Þessu er náttúrlega fyrst og fremst því að svara, að ef eftir þessu ætti að fara, þá má í raun og veru segja, að þeir sömu menn sem hafa þessar mótbárur í frammi ættu bara að leggja til, að öllum togaraflotanum yrði lagt strax í dag. Þar með væri tapið af rekstri þeirra hindrað. Leggja bara skipunum. Nei, lausnin er ekki sú. Lausnin verður að vera sú, að fundnar séu skynsamlegar leiðir til að draga úr hallarekstri þessara tækja, sem eru einn burðarásinn í efnahagslegri starfsemi þjóðfélagsins. Ef við getum ekki rekið togara hallalaust, ja, hvar er þá okkar atvinnulíf statt? Hvar er þá okkar efnahagur allur á vegi staddur? Nei, það er ekki hægt að hafa þá mótbáru í frammi gegn kaupum nýrra togara og endurnýjun togaraflotans, að skipin séu nú rekin með halla. Það verður fyrst og fremst að skera fyrir meinsemd hallarekstrarins og tryggja rekstur tækjanna, og meðal annars með því að vanda sem mest til byggingar þeirra nýju skipa, sem keypt verða.

Það hefur allmikið verið rætt um það ákvæði þessa frv., sem felst í 4. gr. þess, að ríkisstj. sé, að fengnum till. atvinnutækjanefndar, heimilt að setja á stofn sérstaka ríkisútgerð togara í því skyni, að skip ríkisútgerðarinnar leggi afla sinn á land sérstaklega á þeim stöðum, þar sem ekki eru fyrir hendi fjárhagslegir möguleikar til að kaupa og reka togara. Það er að sjálfsögðu alkunna, að við sjálfstæðismenn teljum atvinnurekstri yfirleitt betur borgið í höndum einstaklinga og félagasamtaka þeirra en í höndum hins opinbera. Engu að síður hafa engir menn sýnt það greinilegar en við, að við gerum ekki rekstrarform tækjanna að algeru aðalatriði. Ef ekki er fyrir hendi fjármagn á þeim stöðum, þar sem framleiðsluskilyrði og afkomuskilyrði eru góð og fólkið vantar atvinnu, höfum við ekki hikað við það að láta hið opinbera skerast í leikinn, leggja fram fjármagn og jafnvel efna til opinbers rekstrar. Ég hygg, að þetta sé afstaða Sjálfstfl. í heild í dag, að hann hiki ekki við það að láta hið opinbera skerast í leikinn, þar sem brýn nauðsyn er á því frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð. Við erum „principielt“ andvígir opinberum rekstri, en andstaða okkar við hann nær þó ekki lengra en það, að ef hann er eina leiðin til að leysa atvinnuþörf fólksins og tryggja velmegun og hagsæld þess, hikum við ekki við að hverfa til opinbers rekstrar, enda var það svo, að þegar hinir fyrri nýsköpunartogarar voru keyptir til landsins, voru það bæjarfélögin á fjöldamörgum stöðum, sem hófu samvinnu við einstaklinga um kaup þessara skipa og útgerð þeirra og víða undir forustu okkar sjálfstæðismanna.

Ég skal að vísu játa það, að ég tel ríkisútgerð í atvinnutækjum ógeðþekkari en rekstur bæjar- og sveitarfélaga. En ég mun ekki snúast gegn þessu ákvæði frv. Það má gjarnan sjá, hver reynslan verður af slíkri útgerð, og aðalatriðið er ekki, eins og ég hef lagt áherzlu á hér áður, formið á atvinnurekstrinum og framleiðslunni, heldur það, að fólkinu sé tryggð afkoma og öryggi. Ef fjármagnið er ekki fyrir hendi hjá einstaklingsframtakinu eða félagsframtakinu, verður ríkið eða bæjar- og sveitarfélag að leggja það fram.

Ég vildi gera þessar aths. þegar við 1. umr. þessa frv. Í samræmi við það, sem ég sagði hér áðan, mun ég ef til vill flytja nokkrar brtt. við frv, á síðara stigi meðferðar þess. En ég endurtek það, að ég fagna því, að ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir smíði 15 nýrra togara. Ég tel, að vegna þess að togaraflotinn er að ganga úr sér óðum, hefði verið nauðsynlegt að semja um smíði allmiklu fleiri skipa, a. m. k. 20, og ég legg höfuðáherzlu á það, að reynt verði að tryggja, að þessi skip verði eins fullkomin og frekast er kostur, og allar þær nýjungar hagnýttar, sem sífellt eru að verða til í skipasmiðaiðnaði nútímans.