27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

11. mál, skipakaup

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. (JJós) taldi sig vera að mótmæla rangfærslum sem ég hefði farið hér með en ég verð nú ákaflega mikið að efast um, að honum hafi tekizt að sanna það, að ég hafi farið hér með rangt mál.

Ég hef í fyrsta lagi aldrei mótmælt því, að við höfum fundið að því með ýmsu móti, með hverjum hætti togararnir 30, eða þeir sem síðar urðu 32, voru keyptir, og ég hygg, að það hafi ekki komið fram í ræðu hv. þm., að honum hafi tekizt að hnekkja því, að það a. m. k. orki tvímælis í ljósi reynslunnar, hvernig þessi framkvæmd tókst.

Ég hélt því fram, að þá hefði verið svo mikið fjármagn til hjá einstaklingum, bæjarfélögum og félögum og svo miklir lánsmöguleikar fyrir íslenzka einstaklinga og félög erlendis, og því héldum við fram á þeim tíma, sem togararnir voru keyptir, að það væru líkur til þess, það verður vitanlega aldrei sannað, hvort við höfum haft rétt fyrir okkur, — að jafnmargir togarar mundu hafa verið keyptir á svipuðum tíma og valið hefði sennilega farið betur úr hendi.

Það getur vel verið, að við höfum haft rangt fyrir okkur, en ég hygg nú samt sem áður, að ýmsar líkur bendi til þess, að við höfum haft alveg rétt fyrir okkur, Hér er bent á það af hv. þm., að það hafi verið keyptir 30, síðar 32 togarar. Það er víst rétt, að það var bætt við tveimur dieseltogurum seinna. En mér er það kunnugt, að á þeim tíma var það skoðun fjöldamargra fróðra manna, þar af eins af siglingafróðustu mönnum og kunnugustu í notkun togara og annarra skipa, að það ætti að kaupa eingöngu dieseltogara. Og staðreynd er það, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) benti á, að sá togari, sem er hentugast byggður, bezt valinn, ber sig bezt í dag, hann er keyptur utan við þessi samtök. Um það held ég að ekki sé nein deila, og þó að keyptir væru síðar, þegar raddir urðu háværar um það, að kaupa hefði átt dieseltogara, tveir togarar, tveir togarar af 32, sem voru ný skip, er samsvöruðu hinni nýju tækni, þá hnekkir það ekki á neinn hátt þeim efasemdum mínum, sem ég bar hér fram og hef einatt borið fram, að valið í þessum skipakaupum hafi verið meira en vafasamt. Ég held, eins og ég sagði áðan, að reynslan bendi til þess, að ég hafi ekki tekið of djúpt í árinni með það, síður en svo. Ég er ekki að neita því, að farið hafi verið eftir ráðum ýmissa góðra manna, en það er alltaf hætt við því, og það er ómögulegt að neita því, að sú er hættan enn, að þegar keypt er af einum aðila í einni svipan, eins og þarna var gert, þá er þessi hætta alltaf yfirvofandi, ef ekki er farið að með fyllstu gát.

Þetta voru nú aðalaðfinnslurnar, sem komu fram hjá Framsfl. viðkomandi þessum kaupum, en ekki það, að fjármunum væri eytt til þess að kaupa framleiðslutæki.

Það er enn fremur vitanlega algerlega rangt með farið hjá hv. þm., að Framsfl. hafi verið á móti aukningu frystihúsa í landinu, Það er öllum kunnugt, sem til þekkja, að Framsfl. beitti sér fyrir því að ryðja þeirri nýjung braut á árunum 1934 og þar á eftir að byggja hin fyrstu frystihús í landinu og lagði á það megináherzlu, vegna þess að Spánarmarkaðurinn tapaðist, að breyta fiskverkuninni í þetta horf. Framsfl. er því tvímælalaust brautryðjandi á þessu sviði, en hefur ekki verið letjandi.

Þá er það það atriði, hvernig togurunum hafi verið dreift út um land. Ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég myndi ekki, hvað þeir hefðu verið margir togararnir, sem sendir hefðu verið til afskekktari staða, og vildi þess vegna ekki fara með þá tölu, en þeir hefðu verið tiltölulega fáir. Þannig fórust mér orð, og það hefði verið fyrst, þegar togararnir tíu voru keyptir, að verulegur skriður hefði komizt á það mál. Þannig fórust mér orð einnig um það atriði. Nú telur hv. þm. sig þurfa að sanna það, að ég hafi líka hér farið með rangt mál, en hér eru tölurnar yfir það, hvernig togurunum var dreift. Það er Reykjavík með 16 togara, Akureyri með 3, það er að vísu á Norður- og Vesturlandi, við skulum telja það til þeirra staða, sem úti um land, Neskaupstaður, þar sem að vísu hafði nú verið togaraútgerð áður, ef ég man rétt, Akranes, sem náttúrlega tilheyrir Faxaflóasvæðinu og tilheyrir hér Suðvesturlandi og allra vitund, að aðstaða til togaraútgerðar er þar svipuð og hún er hér, Hafnarfjörður fimm, Vestmannaeyjar tveir, einnig á þessu svæði hér suðvestanlands, Siglufjörður með eiun togara, Seyðisfjörður einn togara, Keflavík einn togara, einn á Faxaflóasvæðinu og Ísafjörður með einn togara. Með öðrum orðum, ég get ekki betur séð en að sex af þessum 32 togurum hafi farið út á land. — Þessar tölur eru áreiðanlegar og munu ekki verða vefengdar, ég hef fengið það frá þeim heimildum. Af þessu er augljóst, að það kom enginn skriður á það að gera út togara frá afskekktum stöðum úti um land, Norður- og Vesturlandi, á þessu tímabili.

Ég hef ekki tölur við höndina til þess að sanna, hvað mikið fór af togurunum 10, sem síðar voru keyptir, út um land, en hér stendur í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Með togarakaupunum fyrri og síðari eftir styrjöldina og tilfærslu síðustu árin hefur rúmlega þriðji hluti hinna nýju skipa, eða nú 16 talsins, verið staðsettur og gerður út frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum.“

Þessar tölur bera það með sér þegar þær eru bornar saman við þær fyrri tölur, sem ég las, að á þetta mál kemst fyrst skriður, eins og ég sagði áðan, þegar togararnir 10 voru keyptir, enda vitað, að þeim var í höfuðatriðum dreift út um landið í þessum tilgangi að auka þar atvinnu, koma jafnvægi á byggð landsins, eða í svipuðum tilgangi og liggur til grundvallar fyrir þessu frv.

Ég held þess vegna, að því verði ekki með réttu haldið fram, að ég hafi farið hér með rangt mál, nema síður sé. En um atriðið, sem ég nefndi fyrst, fyrirkomulagið á kaupum þessara 30 eða 32 togara, hvort það hefur farið betur úr hendi hjá nýsköpunarstjórninni eða framkvæmt af einstaklingum, eins og þá voru möguleikar til vegna fjárhagsgetunnar, er vitanlega hægt að deila endalaust, því að úr því verður ekki skorið til fullnustu.