27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

11. mál, skipakaup

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti, Það er í raun og veru til þess að undirstrika og taka frekar fram eitt atriði, sem kom fram hjá hv. þm. N-Ísf. (SB), sem ég kvaddi mér hljóðs. Hann var að lýsa því yfir fyrir hönd sína og Sjálfstfl., að þeir gætu vel verið með því að láta það opinbera reka fyrirtæki, þegar heill þjóðarinnar krefðist þess, en hann fór dálítið í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut, hver þörf þjóðarinnar væri að þeirra dómi, en þó kom það nú skýrt fram hjá honum og það var til að láta það koma enn skýrar fram, sem ég kvaddi mér hljóðs. Hún er þessi: Þegar einstaklingarnir geta ekki grætt nóg á atvinnulífinu, þá á þjóðin, hið opininbera, bæir eða ríki, að reka það. Meðan einstaklingarnir gátu grætt nóg að þeirra dómi á togaraútgerðinni, var fordæmt niður fyrir allar hellur, að hún væri í höndum bæjarstjórna eða ríkisins. En um leið og útlit var fyrir, að það færi að halla undan fæti og verða tap á útgerðinni, var sjálfsagt, að hið opinbera tæki hana að sér og ræki. Það var tækifærisstefnan til að koma á heildina því, sem menn áður höfðu grætt á, sem Sjálfstfl. fylgdi hér, eins og raunar í mörgum öðrum málum.

Þetta sagði hv. þm. svona óbeint oftar en einn sinni í sinni ræðu, en af því að það kom ekki skýrt fram, fann ég ástæðu til að undirstrika þetta. Sömuleiðis annað, sem hann sagði. Hann sagðist vera með þessum togarakaupum, og það skilst mér nú að flestir séu. Ég er ekki alveg viss um það enn, hvort maður á að vera með þeim á þessu stigi málsins. Hann sagði sjálfur, hv. þm, N-Ísf., réttilega, að það þyrfti að finna fjárhagslegan grundvöll fyrir starfsemi togaranna og framleiðslulíf þjóðfélagsins yfirleitt. Það þarf að gerast fyrst að mínum dómi. Það hefur Sjálfstfl. aldrei séð, aldrei reynt til að skapa, en hvort þessari stjórn, sem núna situr, tekst það eða ekki, er ósýnt enn, og þess vegna er ég ekki enn þá viss um það, hvort ég er með þessum togarakaupum eins og málin standa. Um leið og skapast heilbrigður grundvöllur fyrir starfi togaranna, þannig að þeir geti borið sig, er vitanlega sjálfsagt að kaupa þá. En hvað haldið þið, að Sjálfstfl. segi þá? Haldið þið, að hann vilji þá láta ríkið kaupa þá? Nei, takk. Þá á ríkið ekki lengur að kaupa þá, Þá eiga einstaklingarnir að kaupa þá til að græða á þeim. Þá á ekki ríkið að kaupa þá. Þess vegna vilja þeir núna, á meðan fjárhagsgrundvöllurinn er eins og hann er, fá ríkið til að kaupa þá og bera halla og borga með þeim, en ekki einstaklingana, og þeir vilja gjarnan láta þá koma strax, á meðan hallareksturinn er augsýnilegur og viss, en um leið og gerðar verða ráðstafanir til þess að breyta þeim grundvelli, þannig að togararnir geti borið sig sjálfir, eiga einstaklingarnir að kaupa þá, en ekki ríkið. Þetta er hentistefna Sjálfstfl. nú og út frá þeirra sjónarmiði ósköp skiljanleg.

Það var þetta, sem ég vildi að kæmi dálítið skýrar fram en hjá þm. N-Ísf. Hann sagði að vísu allt þetta sama og ég hef sagt, bara óljósara og með nokkuð öðrum orðum.