29.11.1956
Efri deild: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég mun reyna að bregðast ekki trúnaðartrausti hæstv. forseta og mæla hér aðeins örstutt. Ég ætla mér að svara nokkrum atriðum í ræðu hæstv. forsrh. Hann er nú fjarverandi um skeið úr hv. þd., en ég verð engu að síður að fara nokkrum orðum um fá atriði úr ræðum hans.

Hann sagði, að allir hefðu verið með fullar hendur fjár, þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir, og þá hefði ekki verið mikill vandi að eignast þessi tæki og koma þeim út um landið. Ég átti nú sæti og var forseti bæjarstjórnar í einum þeirra kaupstaða, sem sóttu um nýsköpunartogara, og ég verð að segja það, að það er mjög fjarri réttu lagi, að á þeim stað hafi allir verið með fullar hendur fjár, þegar um það var að ræða að kaupa nýsköpunarbogarana. Þvert á móti þori ég að fullyrða, að enginn af þessum fyrstu nýsköpunartogurum hefði verið keyptur fyrir þennan stað, ef ríkisvaldið hefði ekki hlaupið þar myndarlega undir bagga og markað þar alveg nýja stefnu, eins og ég minntist á í frumræðum mínum, þegar 1. umr. hófst um þetta mál hér í hv. þd. Það var brotið í blað þá með þeim hætti, að fjármagnið var ekki látið ráða staðsetningu skipanna. Togaraútgerðin hafði öll verið í Reykjavík og Hafnarfirði, vegna þess að þar var fjármagnið, Nýsköpunarstjórnin sagði: Við tökum fjármagn og lánum til Ísafjarðar, til Akureyrar, til Seyðisfjarðar og til annarra þeirra staða, þar sem þessi atvinnutæki skortir. — Og það var sú stefnubreyting, sem mest hefur orðið í aðstoðinni við atvinnulíf strjálbýlisins hér á landi. Það er sú stefna, sem í raun og veru er verið að framkvæma með því frv., sem hér liggur fyrir. Og ég segi: Núverandi hæstv. ríkisstj, á þakkir og lof skilið fyrir það, að hún kann að haga sér nokkuð eftir því, sem undanfarandi stjórnir hafa bezt gert.

Hæstv. forsrh. hélt því fram, að fyrst hefði komizt skriður á úthlutun togara til byggðarlaga úti á landi, þegar hinir síðari nýsköpunartogarar voru keyptir, tíu togararnir, sem stj. Stefáns Jóh. Stefánssonar beitti sér fyrir, að keyptir væru til landsins, og hv. þm. Vestm. var sjútvmrh. í, Ég vil nú sízt hafa neinn heiður af þeirri stjórn, ekki sízt vegna þess að ég veit, að hv. þm. Vestm., þáverandi hæstv. sjútvmrh., átti hvað ríkastan þátt í því, að haldið var áfram togarakaupunum og að brotin var niður andstaða Framsfl. gegn því að láta byggðarlög úti um land og þjóðina yfirleitt eignast meira af þessum tækjum. En ég vil bara benda á það, að þegar hæstv, forsrh, segir nú, að fyrst hafi komizt skriður á úthlutun togara út um land, þegar þessir tíu togarar voru keyptir til landsins, þá er það alger misskilningur. Ef hæstv. ráðh. athugar, hvernig þessir togarar skiptust milli einstakra byggðarlaga, þá sér hann það mætavel. Staðreyndin er nefnilega sú, að af þessum tíu togurum, seinni togurunum, fóru fjórir til Reykjavíkur og einn til Hafnarfjarðar, samtals fimm til þeirra staða, sem togaraútgerðin hafði öll verið á, Hinir togararnir skiptust eins og hér segir: Tveir fóru til Patreksfjarðar, einn til Ísafjarðar, einn til Akureyrar, og ég segi og skrifa einn til Austfjarða, þar sem togaraútgerðin var þó minnst fyrir.

Ég sé ekki, að það hafi komizt neinn sérstakur skriður á úthlutun togara út um land með tilkomu þessarar nýju ríkisstj., sem hélt áfram að framkvæma stefnu nýsköpunarstjórnarinnar. Helmingurinn af togurunum fór til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Hinn helmingurinn fór út um land, þar á meðal einn til Austfjarða og einn til Norðurlandsins, — einn til Norðurlandsins, Vestfirðirnir urðu þar bezt úti, sem betur fór, Þeir þurftu mest á því að halda. Ég er ekki að segja, að hinir hafi ekki þurft á því að halda líka. Þvert á móti. Og þessir tveir, sem fóru til Patreksfjarðar, fóru þangað fyrir alveg sérstakt harðfylgi og ötula baráttu þáverandi þm. Barð., Gísla Jónssonar, sem einnig hafði barizt fyrir því, að togarar færu þangað af hinum fyrri nýsköpunartogurum. En ég vil benda hv. þm. Barð. (SE) á það, sem talaði hér síðast, þegar málið var til umr., að þegar hinir fyrri nýsköpunartogarar voru keyptir til landsins, höfðu Patreksfirðingar nýlega keypt tvo togara frá Þýzkalandi (Gripið fram í: Já, en ákaflega óhentug skip), ákaflega óhentug skip, sem þeir ekki sáu, fyrr en hin nýju skip komu. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. segir, að það vissu menn ekki, þegar þeir keyptu þessi skip til Patreksfjarðar, hversu óhentug þau mundu reynast. Þess vegna var ekki sótt um togara. Það var ekki sótt um nema einn togara til viðbótar frá öllum Vestfjörðum, þegar hinir fyrri nýsköpunartogarar voru keyptir. Við, sem þá vorum í meiri hluta í bæjarstjórn Ísafjarðar, sóttum um tvo togara, og við fengum einn. Aðrir sóttu ekki um togara þar.

Ég álít þess vegna, að það sé alveg að deila um keisarans skegg, þegar ég og hæstv. forsrh. erum að deila um það, sem stendur bara alveg ómótmælanlegt, að nýsköpunarstjórnin braut í blað um togaraútgerð hér í landi. Hún hjálpaði strjálbýlinu til þess að eignast togara, og nýsköpunartogaranna fyrstu, hinna 92, var sendur til staða úti um land. Og þó að hæstv. forsrh. vilji ekki kalla til Akraness og Keflavíkur og Vestmannaeyja út um land, þá er það vissulega út um land. Og sérstaklega er það út um land í þeim skilningi, að það var engin togaraútgerð til á þessum stöðum áður. Ég held, að ég muni það alveg rétt, að í Vestmannaeyjum og á Akranesi og í Keflavík hafi engin togaraútgerð verið áður, og það var verið að brjóta í blað með aðstoð nýsköpunarstjórnarinnar við þessi byggðarlög til þess að eignast togara. Ég held þess vegna, að fyrir því öllu, sem ég sagði um þetta hér, hafi ég haft gild rök, og að hæstv. forsrh. hafi ekki tekizt að hnekkja ummælum mínum um þetta. Hinu var svo varla við að búast, að hann gæti betrumbætt jafnforstokkaðan syndara og mig í ekki lengri ræðu en þetta. Enda þótt ég viti, að mannbætandi áhrif stafi frá hæstv. forsrh., er náttúrlega ekki við því að búast, að hann geti í tveimur ræðum bætt svo forstokkaðan syndara og hann talaði um hér að ég væri, vegna þess að ég skildi ekki og vildi ekki muna stuðning Framsfl. við endurnýjun togaraflotans í lok síðustu styrjaldar. Ég held nú, að það geti varla nokkrir aðrir en hæstv. forsrh. talið mér það til forstokkunar að muna ekki eftir þeim stuðningi. Ég held, að stuðningurinn hafi ekki verið meiri en svo.

Já, herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa aths. miklu meira. Ég vildi aðeins af því tilefni, að hæstv. forsrh. sagði, að einhver maður áhangandi Sjálfstfl. eða einhvers staðar í námunda við Sjálfstfl. hefði talað um, að það ætti að leggja landbúnaðinn niður, minna hæstv. forsrh. á það, að einn af mikilhæfustu stuðningsmönnum eins stærsta flokksins, sem styður núv. ríkisstj., komst einu sinni þannig að orði um landbúnaðinn, að hann væri sport fyrir idjóta og það borgaði sig betur að kosta alla bændur á Hótel Borg en að láta þá vera að föndra við þetta búhokur úti um sveitir landsins. Ja, þetta er nú svona bara af tilefni þessara ummæla hæstv. forsrh., sem ég minni á þessi ummæli.

Að lokum vil ég svo segja það, sem einnig hv. þm. Vestm. minntist á, að það er auðvitað mesta blekking, sem hægt er að bera á borð fyrir íslenzka þjóð, að nýsköpunarstjórnin hafi ekkert gert fyrir landbúnaðinn. Það var undir hennar forustu hafinn innflutningur nýtízku landbúnaðarvéla, jeppa, vegagerðarvéla, ræktunarvéla og hvers konar nýrra kækja, sem um var vitað að þá voru til í heiminum, en við hefðum farið á mis við og sumpart voru ný á þeim tíma. Það var alveg brotið í blað um innflutning þessara tækja. Bændur höfðu flestir aldrei séð slík tæki og þau höfðu ekki verið til hér í landinu. Nýsköpunarstjórnin hvatti bændur eins og hugsanlegt var til þátttöku í nýsköpuninni. Aðrir menn reyndu heldur að gera hana tortryggilega og draga úr áhuga bænda fyrir henni, og í þeirra hópi voru því miður sumir mætir menn í Framsfl., enda þótt margir af ágætum mönnum úr Framsfl. skildu alveg kall hins nýja tíma, bæði bændur og jafnvel þm. og leiðtogar flokksins. Það má líka minna á það, að sú löggjöf, sem nú hefur undanfarið orðið bændum að mestu gagni, löggjöfin um eflingu lánastofnana landbúnaðarins, var sett fyrir frumkvæði nýsköpunarstjórnarinnar, löggjöfin um eflingu ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, lagfæring nýbýlalaganna, að ég minnist nú ekki á setningu raforkulaga 1946, sem rafvæðing landsins byggist á í dag. Nei, það er ekki ástæða til þess að vera að fjölyrða um þessa liðnu hluti, en það var nauðsynlegt, þegar því er enn einu sinni haldið fram af hv. leiðtogum Framsfl., að nýsköpunarstjórnin hafi sóað þeim gjaldeyrisinnstæðum, sem þjóðin átti í lok styrjaldarinnar, að bera það þá enn einu sinni til baka og að láta sannleikann í ljós í þessum efnum.

Ég vil svo láta þá ósk í ljós, að þetta frv., sem hér er til umr., verði samþ., og ég vona, að jafnvel hv. þm. N-M. verði með því og styðji þetta mál vegna þess, að þetta er gott mál og skynsamlegt, og að atvinnulífinu á Íslandi, úti um landið, eigi eftir að verða mikill stuðningur að þeim nýju tækjum, sem gert er ráð fyrir að verði keypt til landsins samkvæmt þessu frv., og sérstaklega, að jafnvægið í byggð landsins verði aukið og komið í veg fyrir ýmiss konar öfugstreymi, sem nú á sér stað, og flótta frá framleiðslu í byggðarlögum, sem hafa mikla möguleika, til staða, þar sem fólkið vinnur miklu minna að framleiðslu og í raun og veru miklu óþjóðnýtari störf. Þó að allt fólk í landinn vinni hvert á sinn máta gagnleg störf, vitum við það, að það er á framleiðslunni, sem uppbyggingin veltur, og á afrakstrinum af henni, sem möguleikar þjóðarinnar byggjast.