29.11.1956
Efri deild: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

11. mál, skipakaup

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var af því, að hv. þm, N-Ísf. (SB) taldi, að það, sem ég sagði um daginn, hefði verið eitthvert vantraust á hæstv. ríkisstj. Orð mín voru þau, að ég teldi mjög vafasamt, hvort hefði átt að ganga á undan, það að reyna að skapa fjárhagsgrundvöll fyrir atvinnulífið í landinu eða fá hingað fyrirtæki, sem menn vissu, eins og nú væri komið högum atvinnulífsins eftir aðgerðir Sjálfstfl., að ekki mundu verða arðvænleg og ekki bera sig. Og ég sagðist vera í vafa um, hvort ég gæti fylgt þessu frv., fyrr en ég sæi framan í till., sem yrðu þess valdandi, að þegar þær væru samþ., sköpuðu þær heilbrigt fjárhagslíf fyrir atvinnutækin í landinu. Hann má kalla þetta vantraust á ríkisstj., ef hann vill. Nú er sá munur á okkur, að hann virðist ætla að fylgja frv., hvað sem verður um allan fjárhagsgrundvöll. Hann sagði sjálfur, að ýmsir menn á Vestfjörðum vildu fá togara til þess að treysta atvinnu sína í framtíðinni. Þeir voru ekki að hugsa um atvinnulífið, heldur atvinnu sjálfra sín. Þeir, sem keyptu togarana, treystu því sem sagt, að ríkið mundi borga þeim það kaup með greiðslu á hallarekstri togarans, að þeir gætu sjálfir haft atvinnu við það, og þess vegna vildu þeir fá togara, en ekki hitt, að hann gæti borið sig og skapað meiri tekjur í viðkomandi þorpi. Það var ekki tilfellið. Þetta er „typisk“ hugsun sjálfstæðismanna. Fyrst ég, svo flokkurinn og síðast heildin.

Ég vil helzt og langhelzt fylgja frv. í fullu trausti þess, að þrátt fyrir alla andstöðu Sjálfstfl. heppnist okkur hér á þessu þingi að gera þær ráðstafanir, að atvinnulífið geti borið sig. Og þetta vona ég að takist þrátt fyrir þá hörðu stjórnarandstöðu, sem leggur sig í líma til að reyna að fyrirbyggja allt slíkt, og þess vegna geti frv. komið að gagni. Ég vil gera það, ég mun fylgja því í þeirri von og með þeirri forsendu, að okkur heppnist að skapa fjárhagsgrundvöll fyrir framleiðslu landsmanna.

Annars leiðist mér dálítið alltaf þessi metingur um það á milli flokka og manna, hver hafi átt frumkvæðið að þessu eða hinn. Ég vil leyfa mér að minna hv. sjálfstæðismenn á ýmis atriði í því sambandi, án þess þó að ganga nánara inn á þau. — Muna þeir, hvernig þeir tóku því, þegar saltfisksmarkaðurinn á Spáni hrundi og Runólfur sál. Sigurðsson fór að vinna upp freðfisksmarkað erlendis? Muna þeir, hvernig þeir tóku því? Það mun hafa verið fyrsta tilraunin til að reyna að vinna upp almennilegan freðfisksmarkað erlendis, sem þá var gerð. Hvar stóðu þeir þá? Muna þeir, hvernig þeir tóku till., sem flutt var í Nd. og samþykkt þar 5. febr. 1943, um það að láta vegamálastjóra og vitamálastjóra rannsaka, hvort ekki mætti fá til landsins stærri og fljótvirkari vélar, sérstaklega frá Ameríku, heldur en þá voru notaðar hér? Muna þeir það?

Svo er verið að deila um, hver hafi átt fyrstu framkvæmd að þessu eða hinu af mönnunum, sem stóðu á móti, þegar fyrst var verið að hreyfa málunum í þinginu, mennirnir, sem héldu því fram, að það væri vantraust á vegamálastjóra að ætlast til, að farið væri að rannsaka, hvort ekki mætti fá fljótvirkari og betri vélar til að gera með vegina en var 1942, þegar till. var lögð fram á Alþ. og samþykkt eftir áramótin. Þá héldu þeir því blákalt fram, að þetta væri vantraust á vegamálastjóra, að verið var að flytja tillöguna. Hann hefði alla kunnáttu á þessu og vissi, hvaða vélar væru beztar og hentugastar. Þetta væri nærri því ósvífni. Og svo eru sömu mennirnir að metast um, hver hafi átt forustu að þessu eða hinu.

Nei, ef maður leitar eftir því, hver hafi átt forustu í þessu eða hinu, má oft um það deila. Það er engin ástæða til þess, þegar góð mál ná fram að ganga. Hitt er náttúrlega oft ekki sæmandi, að reyna að vera að telja sér eitt og annað, sem maður ekki á. Sem sagt, það, sem kom mér til að standa upp núna aftur og kveðja mér hljóðs, var mistúlkun þm. N-Ísf. á því, sem ég sagði: það var þetta: Ég geri ráð fyrir því, að ég komist að þeirri niðurstöðu, að ég fylgi þessu frv., eingöngu af því, að ég treysti því, að hin sterka andstaða á móti ríkisstj. hér í þinginu verði þess ekki valdandi, að hún geti ekki rétt við fjárhagsgrundvöllinn, sem atvinnulífið hvílir á, þó að stjórnarandstöðuna langi til að koma því öllu í svartakol.