29.11.1956
Efri deild: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þd. á því, að hv. 1. þm. N-M., sem talaði hér síðast, spurði hv. þd. um það í þaula, hvort hún myndi, hver afstaða sjálfstæðismanna hefði verið til þessa og til hins, til innflutnings vegagerðarvéla, til innflutnings ýmissa annarra tækja, en hann gerði ekki minnstu tilraun til þess að hrekja eitt einasta atriði af því, sem ég sagði um forustu sjálfstæðismanna og nýsköpunarstjórnarinnar um innflutning landbúnaðartækja og útvegun ræktunarvéla og margvíslegra tækja, sem íslenzkur landbúnaður hafði aldrei getað notað áður og aldrei haft aðstöðu til þess að afla sér áður. Þessi hv. þm. heldur, að það dugi bara að slá fram svona sleggjudómum í spurningaformi. Mér kemur ekki til hugar að fara að rökræða við hann um þetta. Það vita allir menn, að á síðri árum hafa sjálfstæðismenn, sumpart einir, sumpart í samvinnu við Framsfl. og aðra flokka, haft forustu um að taka tæknina í þjónustu atvinnuveganna.

Við höfum hér aðallega verið að tala um togara. Það má heita, að það standi ómótmælt, að Sjálfstfl. hefur haft alla forustu um þetta. Það er líka staðreynd, að nýsköpunarstjórnin hófst handa um vélainnflutninginn, Hv. þm. getur ekki mótmælt þessu með sleggjudómum. Ég fer ekki frekar út í að svara honum.

En hæstv. forsrh. las hér upp — og þótti nú sem hnífur hans kæmi í feitt — úr grg. frá jafnvægisnefndinni sælu, sálugu, ætti ég líklega að segja, því að mér skilst hún sé oltin upp fyrir, eitthvað um það, að í aðalatriðum hefði verið fylgt þeirri stefnu við úthlutun togaranna, að þeim hefði verið úthlutað til Faxaflóasvæðisins og til þeirra staða, þar sem peningar voru fyrir hendi. Látum nú vera, að þetta standi þarna. Ég hef að vísu ekki lesið það, en það er á borðinu hjá mér líka, og ég trúi hæstv. forsrh., að hann sé ekki að lesa rangt upp úr opinberri skýrslu, En ég segi bara við hæstv. forsrh.: Verkin sýna merkin. Það er alveg nákvæmlega sama, hvað stendur í þessari gulu bók þarna. Togararnir eru þar sem þeir eru. Það fór 1/3 togaranna, eins og ég sagði áðan, til staða utan Rvíkur og Hafnarfjarðar, þar sem ekki hafði verið togaraútgerð áður, Það fóru 2 af hinum fyrri nýsköpunartogurum til Austurlandsins, en ekki nema einn af hinum síðari. Það sýnir það, að skriðurinn komst á úthlutun togaranna út á land á tíma nýsköpunarstjórnarinnar. Annars vildi ég ekki vera að hafa neinn heiður af hv. þm. Vestm., sem þá var sjútvmrh. og hafði forustu m. a. um kaupin á þessum tíu togurum. Ég vil ekki hafa neinn heiður af honum, og það dregur enga burst úr nefi okkar sjálfstæðismanna, þó að fimm af þessum togurum hafi farið út á land, nema síður sé. Við höfðum sjávarútvegsmálin og við vorum að framkvæma stefnu, sem við höfðum markað. Framsóknarmenn höfðu barizt á móti þeirri stefnu, en gengu nú inn á hana, vegna þess að þeir sáu, að hún var orðin vinsæl með þjóðinni.

Ég bið hæstv. forseta mjög að afsaka, að ég hef þurft að kveðja mér hljóðs og nota hér athugasemdatíma í annað skipti, en ég taldi nauðsynlegt að undirstrika enn einu sinni, hver sannleikurinn er í þessu máli.