04.12.1956
Efri deild: 23. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að ég mundi freista þess að flytja við það brtt., sem mér virtist eðlilegt að á því yrði gerð.

Það er í fyrsta lagi, að í staðinn fyrir, að ríkisstj. yrði heimilað að gera f. h. ríkissjóðs samninga um kaup og smíði allt að 15 togara, kæmi heimild til handa ríkisstj. um að láta smíða allt að 20 togurum.

Ég hygg, að það eigi við fyllstu rök að styðjast, að þörf sé á því, að nú þegar á þessu stigi málsins verði samið um smíði á 20 togurum, ekki einungis vegna þarfa þeirra landshluta, sem skortir atvinnutæki til þess að geta haldið uppi nægilegri atvinnu fyrir sitt fólk, heldur og fyrir suma þá staði aðra, sem togaraútgerð hafa, en hafa misst togara og eiga nú togaraflota, sem gengur óðum úr sér.

Ég geri ráð fyrir því, að þegar ákveðið hefur verið að láta smíða ákveðinn fjölda togara, muni verða mjög mikil ásókn eftir að fá þessi skip. Við höfum þegar haft fregnir af því, að í einstökum byggðarlögum hafi verið stofnuð ný togarafélög, og hæstv. ríkisstj. hafa þegar borizt umsóknir um þessi fyrirhuguðu skip.

Ég held, að það sé ekki of mikið tekið upp í sig, þó að nefnt sé, að samið skuli um smíði á 20 togurum í stað 15. Það er vitað, að afhendingartími þessara skipa verður alllangur. Það eru engar líkur til þess, að hægt sé að fá togarana alla afhenta á einu eða tveimur árum, Líklegast er, að afhending þeirra dreifðist yfir lengra tímabil. Þess vegna er það álit okkar flm. þessarar brtt., — hv. þm. Vestm. (JJós) flytur hana með mér, — að rétt sé og eðlilegt, að þessi breyting verði gerð á 1. gr. frv.

Í 1. brtt. okkar, sem við flytjum hér skriflega, er einnig gert ráð fyrir því, að bætt verði inn í 1. gr. frv. orðunum „af fullkomnustu gerð“.

Ég minntist á það við 1. umr, málsins, að miklu skipti, að þau skip, sem nú yrðu keypt til landsins, yrðu af allra fullkomnustu gerð og með nýtízku sniði. Togaraútgerð Íslendinga er, eins og kunnugt er, í dag rekin með gífurlegum halla. Ein leiðin til þess að koma þessum þýðingarmikla atvinnurekstri á réttan kjöl, er að fá honum sem fullkomnust tæki. Við töldum þess vegna rétt, að það yrði beinlínis tekið fram í þeirri löggjöf, sem sett verður um væntanleg togarakaup, að skipin skyldu vera af fullkomnustu gerð, og ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á því, að nokkur hv. þdm. vilji greiða atkv. á móti því.

Tvær aðrar brtt., sem við flytjum, eru í samræmi við brtt. við 1. gr. Önnur brtt. er við 2. gr. frv., að fyrir „150 millj. kr.“ komi 200 millj. kr., sem sagt miðað við það, að skipin verði 20, en ekki 15, og 3, brtt. við 5. gr. einnig afleiðing af brtt. við 1. gr., að skipin verði 20, en ekki 15.

Ég leyfi mér að óska þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þessum brtt., sem bæði eru skriflegar og of seint fram komnar. Að lokum vil ég vænta þess, að hv. þd. samþykki þessa brtt. okkar hv. þm. Vestm. og sýni þar með skilning sinn á þörf íslenzks atvinnulífs.

Það er óþarfi að endurtaka það, að togararnir eru stórvirkustu framleiðslutæki þessarar þjóðar. Á sviði skipasmíða og smíði togara hefur á undanförnum árum orðið veruleg framför, þannig að það eru líkur til þess, að hægt sé að fá hentugri skip nú, ódýrari og hagkvæmari í rekstri en unnt var fyrir um það bil áratug, þegar samið var um smíði hinna fyrstu nýsköpunartogara, sem reynzt hafa hin mestu happafley, sem þessi þjóð hefur eignazt, og átt hafa ríkan þátt í því, að framleiðsla okkar hefur aukizt stórkostlega og grundvöllurinn þar með orðið sterkari undir lífsafkomu þjóðarinnar og skapað möguleika til þess að bæta lífskjör almennings. Það er ekki þessum tækjum sjálfum að kenna, að þjóðin hefur ekki kunnað að hafa hóf á í efnahagsmálum sínum, þannig að rekstur þeirra er nú sokkinn í fen stórkostlegs taps.

Ég endurtek það, að ég vænti þess, að hv. þd. sýni þá framsýni og það frjálslyndi að samþ. þá brtt., sem ég hér hef mælt fyrir.