11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

11. mál, skipakaup

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef mjög fátt að segja fram yfir það, sem ég sagði hér við fyrri hluta þessarar umr, Ég vil þó geta þess, að samkv. loforði tók fjhn. þetta mál til nýrrar athugunar í því hléi, sem verið hefur á umr. nú um nokkra daga, og niðurstaðan er sú, að meiri hl. n. sér ekki ástæðu til að mæla með brtt. á þskj. 112 né 118.

Ég gerði nokkra grein fyrir því við fyrri hluta umr., að ég fyrir mitt leyti áliti þessar brtt. ákaflega þýðingarlitlar, en þær höfðu ekki legið fyrir, þegar n. afgreiddi málið, og þar af leiðandi hafði ég ekki borið mig saman við aðra nm. um þetta álit þá. En nú liggur það fyrir, að álit meiri hl. n. er það sama og ég lét í ljós við fyrri hluta umr.

Brtt. á þskj. 112 eru um það að afnema þann litla mun, sem eftir er í frv, á því, hvort um er að ræða Vestur-, Norður- og Austurland eða Suðurland. Þar sem frv., eins og það er nú, útilokar á engan hátt Suðurland frá því að geta fengið eitthvað af þessum togurum, ef sérstakar ástæður mæla með því, þá telur meiri hl. n. enga þörf á þeirra hluta vegna að samþykkja þessa brtt. og ekki rétt, þar sem hér er talað um í fyrirsögn frv., að tilgangurinn sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og það, sem á skortir um jafnvægi í byggð landsins, er það, eins og allir vita, að fólk hefur flykkzt frá þessum þremur landsfjórðungum til Suðurlands.

Það var verið að tala um það við fyrri hluta umr., að þetta gæti allt saman breytzt, það gæti komið upp atvinnuleysi á Suðurlandi og e. t. v. orðið næg atvinna í öðrum landsfjórðungum. En ég álít, að löggjöfina verði að miða við það ástand, sem ríkir á hverjum tíma og a. m. k. fullar líkur eru til að muni ríkja áfram fyrst um sinn, því að vitanlega hefur Alþ. nóg ráð til þess að gera aðrar ráðstafanir, ef til þess arna kæmi. En ég held, að það sé nú enn minni ástæða til þess að vænta atvinnuleysis á Suðurlandi núna fyrst um sinn, þar sem, eins og allir vita, hefur verið frestað þeirri ákvörðun, að varnarherinn frá Bandaríkjunum verði látinn fara úr landi. Það virðist því engin hætta vera á neinu atvinnuleysi á Suðurlandi.

Brtt. á þskj. 118 frá hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. Vestm. eru um annað efni, sem sé að fjölga þeim togurum, sem ákveðið er að reyna að festa kaup á, úr 15 upp í 20. Ég gerði grein fyrir því líka, að í sjálfu sér væri þetta óþarft, því að það mun ekki verða á morgun eða daginn eftir að þetta frv, verður samþ., að það komi 15 togarar til landsins. Það hefur verið svo, þegar togarar hafa verið keyptir, að það hefur haft nokkurn aðdraganda. Og ef það breytist á þann veg, að það þykir hentugt að fá fleiri togara, þegar þessir 15 togarar eru komnir, þá er vitanlega enginn vandi fyrir Alþ. að bæta þar við, svipað og gert var, því að hin svokallaða nýsköpunarstjórn (sem ég vék nú að síðast, að væri kannske ekki réttnefni sérstaklega) gerði ráðstafanir til þess að fá hingað æði marga togara, þá gerði næsta stjórn á eftir henni einnig ráðstafanir til þess að fá viðbót. Og ég efast um, að allir hinir svokölluðu nýsköpunartogarar hafi verið komnir til landsins, þegar þær ráðstafanir voru gerðar, a. m. k. var liðinn örstuttur tími þá frá því. Og einn kost hefur það að vera ekki að gera samning um smíði mjög margra togara í einu, og hann er sá, að smíði þeirra tekur framförum ár frá ári eins og svo margra annarra tækja. Þannig munu þessir tíu togarar, sem stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar gerði ráðstafanir til að kaupa, þykja fullkomnari en þeir, sem keyptir voru áður, og þess vegna er e. t. v. ekki hyggilegt að semja um smíði mjög margra togara í einu, því að vitanlega verður þá samið um gerð þeirra og alla byggingu um leið. Svo er auðvitað annað í þessu, að ég býst við, þó að ég vilji engar hrakspár hafa í frammi um það, að það muni ganga fullerfiðlega að fá 150 millj. kr. lán til smíði þessara togara, sem ráðgerðir eru í frv., þó að ekki sé bætt við 50 milljónum.

Ég fyrir mitt leyti held því, að það sé hyggilegast að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, og það mun vera álit meiri hl. fjhn.