20.12.1956
Neðri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fáein orð út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) tók fram. Hann fann nú í þessu frv. tilefni til þess að ræða um vinnubrögð á hv. Alþ. í vetur og sagði, að Alþ. hefði verið haldið starfslausu undanfarið og það hefði verið auðvelt að ljúka afgreiðslu fjárlaga. Þetta var eins konar bergmál af því, sem við höfum séð í blaði hv. þm. undanfarið, þar sem því hefur verið haldið fram, að einhverjir óvenjulegir hættir hafi verið á störfum Alþ. í vetur að þessu leyti. Þetta er náttúrlega úr lausu lofti gripið og enginn veit það betur en hv. 1. þm. Reykv., jafnþingvanur og stjórnvanur maður og hann er, hann veit, að það hefur ætíð verið svo nú um mörg ár, að framan af þingi hafa störfin farið í það að ákveða ráðstafanir í framleiðslu- og efnahagsmálum, og a. m. k. þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið önnum kafnir við að starfa að þeim málum í samráði við ríkisstj. Hitt er annað mál, að hv. 1. þm. Reykv. hefur sjálfsagt haft minna að gera í vetur en hann hefur haft undanfarna vetur, og það er sennilega það, sem glepur honum sýn í þessu máli. Ég hef ekki getað séð annað en það hafi verið mjög svipað haldið á störfum og verið hefur áður að þessu leyti. Þegar síðan tillögur eru tilbúnar um þessi mál, kemur sprettur bæði varðandi afgreiðslu þeirra og eins fjárl. Við höfum ekki talið, að það væru tök á því að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár fyrr en búið var að ákveða, hvaða ráðstafanir átti að gera í efnahagsog framleiðslumálunum vegna margvíslegra breytinga, sem koma til greina í því sambandi og hafa áhrif á fjárl., enda sýnir það frv., sem nú hefur verið lagt fyrir einmitt um þessi mál, að þar er samband á milli, og hefði ekki verið hægt að láta fjárl. ganga á undan núna, þó að það væri í raun og veru auðvelt í fyrra, þar sem þá stóð ekki til að gera neinar ráðstafanir í efnahagsmálunum, sem höfðu stórfelld áhrif á fjárl. En í sambandi við þær ráðstafanir, sem nú standa til, þá er m. a. gert ráð fyrir talsvert mikilli breytingu á tekjustofnum ríkissjóðs, og fleira kemur til. Ég held því þess vegna fram, að vinnubrögðin hafi verið alveg eðlileg í vetur um þessi mál, en held, að það villi hv. 1. þm. Reykv. sýn, að hann hefur áður verið einn fremstur manna í stjórnarliðinu, en er nú í stjórnarandstöðunni.

Ástæðan til þess, að ég hef stungið upp á, að svo langur frestur yrði hafður um afgreiðslu fjárl., er sú, að ríkisstj. ætlar sér að gera það að till. sinni, að hv. Alþ. komi ekki saman fyrr en 21. janúar, en rök fyrir því eru þau, að það þarf að undirbúa fyrir framhaldsþingið ýmis frv., sem hafa verið ráðin einmitt nú í þeim pólitísku samningum, sem hafa staðið yfir síðustu vikur. Það kann að vera, að það sé óþarft frá sjónarmiði hv. 1. þm. Reykv. að halda áfram þinginu til þess að lögfesta þau mál, sem stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að beita sér fyrir, en frá sjónarmiði stjórnarflokkanna er það brýn nauðsyn og hæfilegt að hafa einmitt þennan frest til þess að undirbúa málin. Af þessum ástæðum verður að gera ráð fyrir því, að afgreiðsla fjárlaga geti dregizt á þá lund, sem gert er ráð fyrir í frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. sagði, að það væri erfitt að slita svona í sundur efnahagsmálin og framleiðslumálin og fjárlagaafgreiðsluna, og satt er það, að æskilegast hefði verið að geta látið þetta verða alveg samferða, en á því hafa bara engin tök verið af ástæðum, sem ég þegar hef greint, og vegna þess, hvernig jólafríið bútar niður starfstímann. Hitt er svo misskilningur hjá honum, að engin grg. hafi komið fram um það, hvert samband sé á milli hugsaðrar fjárlagaafgreiðslu og efnahagsmálanna, sem fyrir liggja, eða að það sé einhver skelfilegur leyndardómur, hvað menn ætlist fyrir með þann tekjuauka, sem fyrirhugaður er samkv. frv. um efnahagsmálin.

Ég lýsti því hér í gærkvöld í stórum dráttum, hvernig á þessum tekjuauka stæði, og nokkru nánar en gert var í grg. frv. Ég benti á það, að 25 millj. fara til þess að jafna á móti söluskattinum í smásölu, sem felldur er niður. Ég benti á, að um 25 millj. þarf til viðbótar til þess að greiða þær niðurborganir á innlendum vörum, sem nú þegar eru greiddar, og ég benti á, að þær 50 millj., sem þá eru eftir, mundu áreiðanlega ekki reynast of drjúgar til þess að fé yrði aukið nokkuð frá því, sem nú er á fjárl., til almennra verklegra framkvæmda, nokkuð til atvinnuaukningar yfir höfuð, nokkuð til rafmagnsmála og nokkuð til þess að kosta ný lagaákvæði um aukin ræktunarframlög, eins og komið er inn á í sambandi við frv. um efnahagsmálin.

Þetta eru nú nokkrir liðir, sem þarf að taka til greina við afgreiðslu fjárl., og kemur þó að sjálfsögðu fleira til varðandi einstök atriði. En stóru drættina í þessu má alveg sjá, eins og þeir eru fyrirhugaðir, af þeim greinargerðum og upplýsingum, sem fram hafa komið.

Ég vildi aðeins láta þessi fáu orð falla til þess að benda á, að frá sjónarmiði okkar, sem stöndum að þessum frumvarpaflutningi, hefur ekki verið á nokkurn hátt óeðlilega á þessum málum haldið.