20.12.1956
Neðri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég held að við, sem hér höfum sótt þingfundi og fylgzt sæmilega með þingstörfum, getum út af fyrir sig ekki tekið hæstv. fjmrh. það illa upp, þó að hann sé því ókunnugur, hvernig hér hefur til gengið, vegna þess að hann hefur hér sárasjaldan sézt og verið víðs fjarri, þannig að ég segi alls ekki, að það sé vegna þess, að hann vilji halla réttu máli eða fara rangt með, þegar hann ber á móti því, að þingið hafi verið starfslaust, heldur vegna þess, að hann er því gersamlega ókunnugur. Hann hefur dvalið á einhverjum allt öðrum slóðum en á Alþ. Íslendinga í haust, og veit ég, að betur væri fyrir þeim góða manni komið, ef hann hefði valið sér betri félagsskap en hann hefur verið í.

Um það, að Alþ. hafi haft nógum málefnum að gegna, þá er það kunnugt, að einn af helztu valdamönnum þingsins, — ég vonast til þess, að það verði ekki illa tekið upp eða sagt, að ég sé að ljóstra upp leyndarmálum, — hefur sagt það hér við ýmsa þm., að ef stjórnarandstæðingar væru ekki að flytja frv., þá væri ómögulegt að halda þingfundi yfirleitt. Og þetta er ekki eingöngu vegna þess, að stjórnin hafi þurft svo langan tíma til að undirbúa vandasöm mál til að leggja fyrir þingið, vegna þess að ef hún hefði hugsað um hyggileg vinnubrögð, þá er töluvert af málum til, sem Alþ. þarf að afgreiða og verulegan tíma þarf til að átta sig á, en stj. hefur einfaldlega ekki haft hugsun á að leggja fyrir þingið. Þannig eru t. d. dæmi þess, að brbl., að vísu mjög lítilvæg, sem þurfti að leggja fyrir þingið, eru alveg nýlega fyrir það lögð. Hér er stór lagabálkur, sem er búið að útbýta fyrir fáum dögum. Hann er upp á 117 greinar, mál, sem vitað er að ýmsir þm. hafa mjög mikinn áhuga fyrir, tekur töluverðan tíma og fer ekki eftir flokkum, hvernig verður afgreitt. Það er frv. til l. um lax- og silungsveiði. Það er lagt fyrir þingið aðeins fyrir örfáum dögum. Ætli það hafi tafizt á því, að stj. hafi þurft að verja svo miklum tíma til að íhuga málið og undirbúa að þessu sinni? Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp grg.:

„Frv. þetta er flutt samkv. beiðni landbúnaðarráðherra. Nefndin og einstakir um. áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og fylgja breytingartillögum, sem fram kunna að koma.“ Frv. fylgdi svo hljóðandi greinargerð:

„Samhljóða frv. var lagt fyrir síðasta Alþ., en varð ekki útrætt. Meiri hl. landbn. efri deildar skilaði þá nál. um frv. á þskj, 544 og bar fram nokkrar brtt. við frv. á þskj. 545. Um grg. fyrir frv. vísast til athugasemda þeirra, sem fylgdu frv., þegar það var lagt fyrir síðasta þing.“

Hér er grg. búin. Þetta er allt það mikla starf, sem ríkisstj. hefur lagt til þess að undirbúa þennan 117 greina lagabálk fyrir þetta þing. Hefði nú ekki verið nær, þegar hér hafa setið 52 menn, að langsamlega mestu leyti starfslausir í 2½ mánuð, að láta frv. eins og þetta, sem tekur töluverðan tíma og vinnu fyrir þá, sem eiga að setja sig inn í það, koma tímanlega fyrir, þannig að hægt væri að vinna að því á þeim mánuðum, sem liðnir eru?

Ég skal nefna annað dæmi. Þegar ég var dómsmrh., skipaði ég n. til þess að undirbúa nýja umferðarlöggjöf, sem er mjög mikið og umfangsríkt starf. Ég hygg, að þessi n. hafi skilað mjög rækilegu, löngu og greinargóðu frv. til hæstv. ríkisstj., dómsmrn., um miðjan september. Ég hef ekki séð þetta frv. enn fyrir Alþ. Ég hef verið að reyna að grennslast eftir því og haft af því óljósar fregnir, en þó skilizt, að það mundi eiga að leggja frv. fyrir Alþ., og mér þykir sannast sagt mjög ósennilegt, að hæstv. ríkisstj. sjálf verji miklum tíma til að íhuga frv., vegna þess að það er algerlega ópólitískt í eðli, en er með þeim hætti, að það hlýtur að taka töluverðan tíma að athuga, og það þarf ekki síður athugunar við innan þingsins en í rn. eða í þeirri n., sem um málið hefur fjallað. Hvernig er hægt að verja það að láta frv. um mjög aðkallandi efni liggja aðgerðalaust í stjórnarráðinu allan þennan tíma, en halda þingbákninu hér gersamlega starfslausu eins og allir vita aðrir en þá þessir háu herrar í ríkisstj. Það vita allir þm. aðrir. Og jafnvel stjórnarliðar hafa blygðazt sín fyrir það, svo grandvarir menn sem þeir eru, að taka laun fyrir þá þrásetu, sem þeir hafa hér þurft að hafa, meðan beðið hefur verið eftir þessari jólagjöf, sem nú er rétt að landslýðnum og verið er að tilreiða í dag og á morgun, til þess að öruggt sé, að fólkið fái að sjá framan í fegurð hennar fyrir sjálfa jólahátíðina.