29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Nú líkar mér hljóðið í hv. stjórnarandstöðu, því að það er ekkert annað en fagnaðarhljóð, og ég sé fyllstu ástæðu til þess að færa fram þakkir til stjórnarandstöðunnar fyrir að kalla þetta, eins og þetta er, fyrstu raunhæfu tilraunina til þess að stöðva verðbólguna. En vel er mér og ríkisstj. ljóst, að þetta er aðeins fyrsta skrefið, sem stíga verður, þegar lagt er út í baráttuna við dýrtíðina.

Hitt er aftur annað mál, að eins og till. Sjálfstfl. hafa komið mér fyrir sjónir, þá lít ég svo á, að þær séu og hafi verið allt annars eðlis. Ég held, að það hafi ekki verið gerðar þar neinar sérstakar ráðstafanir til þess að hafa hemil á dýrtíðinni, um leið og þeir hugðust að greiða niður dýrtíðina með nokkrum milljónum kr. úr ríkissjóði til þess að stöðva þar með allar kauphækkanir. En það eitt var ekki nóg.

Það, sem helzt veltist fyrir hv. 1. þm. Reykv., er það, hvort hér sé um alger sinnaskipti að ræða hjá þeim mönnum, sem standi að þessu frv. og hafi gert mögulega framkvæmd þess, eða hvort það hafi verið löngun til þess að hjálpa Eysteini Jónssyni til að manna bátinn að nýju, þegar hann var búinn að drepa af sér hásetana úr Sjálfstfl. — eða þeir hlaupnir úr skiprúminu, ég skal ekki deila um, hvernig það gerðist.

Ég vil aðeins í sambandi við þetta segja það, að það var nauðsynlegt til þess að koma þessu máli fram að manna bátinn að nýju. Það dugði ekki, að það væru fulltrúar milliliða í hverju rúmi á þeim bát, sem átti að koma með þennan aflafeng að landi. Og það var líka gert. Það er nú öðruvísi skipað í svo að segja hverju rúmi þeirrar fleytu, sem nú á að skila þeim aflafeng að landi, sem hér er um að ræða, að stöðva afætu dýrtíðarófreskjunnar.

Þá var það, sem ræðumaður vék að, hvort samráð mundi hafa verið haft við þá aðila, sem skýrt hefur verið frá að samráð hafi verið haft við. Þetta gefur mér tilefni til að víkja örlítið að þeim tveim meginádeiluatriðum, sem áður hefur verið hreyft, sérstaklega í blöðum, út af þessu frv.

Í fyrsta lagi er það, sem hefur verið rætt um í stjórnarandstöðublöðunum, sérstaklega í Morgunblaðinu, þetta: Hvers vegna lét forseti Alþýðusambandsins, sem nú fer jafnframt með embætti félmrh., ekki ræða þessi mál á fundum í verkalýðsfélögunum almennt, áður en lögin voru sett? Og í öðru lagi: Hvers vegna voru lögin sett, rétt áður en verkafólk átti að fá 6 stiga kauphækkun? Hvort tveggja er þetta sett fram til þess að vita, hvort ekki sé hægt að vekja neina úlfúð eða tortryggni innan verkalýðsfélaganna út af þessum aðgerðum.

Um þessi tvö atriði er sjálfsagt að ég ræði hér, alveg á sama hátt og ég hef rætt þessi tvö atriði áður við verkalýðsfélögin. Ég hygg, að hver sá, sem hugsar málið, muni fljótlega komast að þeirri niðurstöðu, einkanlega ef hann hugsar málið út frá hagsmunum verkalýðsstéttarinnar, að umræður á almennum fundum um málið, áður en lögin voru sett, hefðu áreiðanlega vakið nokkuð ríka tilhneigingu, að ekki sé meira sagt, til þess að hækka sem fljótast það verðlag, sem ætlunin var síðan að miða við í næstu fjóra mánuði. Þegar hins vegar er litið á það, að það átti að binda vísitöluna, þá hefðu auðvitað allar slíkar verðhækkanir verið gerðar á kostnað launafólksins í landinu, en orðið beinn gróðavegur fyrir milliliðina. Þess vegna var það, sem allar opinberar umræður voru sniðgengnar, var forðazt, að málið yrði rætt almennt opinberlega, til þess að milliliðirnir gætu einmitt ekki makað sinn krók og skellt verðhækkunum yfir á verkafólkið, sem átti að búa við hið bundna kaupgjald. Það var sem sé lífsspursmál fyrir hagsmuni vinnandi fólks, að engin vitneskja bærist um, hvað til stæði, fyrr en lögin væru gengin í gildi.

En hvernig var þá hægt að samrýma þetta tvennt, að hafa með einhverjum hætti samráð við verkalýðssamtökin og halda þó leyndu fyrir kaupsýslustéttunum, hvað stæði til að gera í verðlagsmálunum?

Þetta var framkvæmt á þann hátt, sem nú skal greina :

Í fyrsta lagi var lagt fyrir verðgæzlustjóra að safna verðskýrslum með venjulegum hætti um land allt seinni partinn í ágúst. Og svo var ákveðið með lögunum, að verðfestingin skyldi miðast við miðjan ágúst. En á þeim tíma gat enginn fengið nokkurn pata af hinni fyrirhuguðu lagasetningu. En samráðs við verkalýðshreyfinguna var svo leitað á þann hátt, að formenn flestra verkalýðsfélaganna, sem til náðist, voru spurðir um það, hvort þeir mundu fremur telja verkafólki vera til hagsbóta að láta dýrtíðarskrúfuna ganga sinn gang, þ. e. a. s., að 1. sept. fengi verkafólkið 6 stiga kauphækkun, um miðjan þann sama mánuð kæmi síðan 11.8% verðhækkun á landbúnaðarvörur, og margs konar hækkanir aðrar, sem þá strax var vitað um, mundu fylgja í kjölfarið, og svo ætti verkafólkið aftur að fá nokkra kauphækkun 1. des. og svo koll af kolli á víxl fram á næsta ár. Það var spurt um, hvort verkafólkið vildi, að stjórnin léti þessa þróun eiga sér stað eða gera tilraun til stöðvunar á öllu verðlagi og festa þá jafnframt vísitöluna í 178 stigum næstu 4 mánuði, þ. e. til næstu áramóta. Og hver voru svör verkalýðsfélagaformannanna, sem leitað var til og fengu aðstöðu til þess að bera málið í kyrrþey undir sína meðstjórnendur? Svörin voru öll á einn veg: Við viljum ekki flóðið, við viljum heldur stöðvun. — Einn form. sagði afdráttarlaust, ég man það vel: Ég held, að fólkið ætlist til þess af ykkur, að þið stöðvið verðhækkunarskrúfuna. Það var ekki látið við það sitja að leita til formanna allra stærstu verkalýðsfélaganna úti um allt land, heldur var leitað einnig til allra formanna fjórðungssambandanna innan Alþýðusambandsins við nákvæmlega sömu undirtektir af þeirra hendi, og svo var gert hér í Rvík það, sem ég held að sjaldan eða aldrei hafi verið gert áður, að kvöldið áður en lögin voru sett, var kallaður hér saman í Iðnó fundur allra stjórna verkalýðsfélaganna í Rvík. Þegar stjórnirnar voru þarna saman komnar, var fullur salurinn í Iðnó, og þar var þessi sama spurning lögð fram. Niðurstaða þess fundar var ekki alveg eins eindregin og formannanna, sem hafði verið leitað til úti um land, en svarið var samt ákveðið. 94 af þeim, sem þarna voru mættir, sögðu eindregið, að þeir vildu, að verðlag og kaupgjald yrði stöðvað, 15 greiddu atkvæði á móti og 17 sátu hjá. Svarið var á þann veg, að það var ekki til neins að efast um vilja verkalýðsfélaganna í Rvík. Þá var einnig rætt um þetta mál á ýmsum stigum þess í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, og miðstjórn Alþýðusambandsins og stjórn fulltrúaráðsins hér — allir meðlimir þessara stofnana — voru á einu máli um, að það yrði að reyna þessa stöðvun sem bráðabirgðaúrræði, meðan væri verið að leita annarra varanlegri úrræða um stöðvun verðbólgunnar.

Ég spyr nú: Getur nokkur efazt um, að þarna hafi verið leitað til verkalýðssamtakanna á þann hátt, sem tiltækilegt var, til sem allra flestra formanna verkalýðsfélaganna í sambandinu, til formanna stjórnanna í fjórðungssamböndunum, til Alþýðusambandsstjórnarinnar, til allra stjórna verkalýðsfélaganna í Rvík og til fulltrúaráðsins hér? Er til nokkurs hlutar að halda því fram, að það hafi verið gengið fram hjá verkalýðshreyfingunni, áður en lögin voru sett, þegar þetta er upplýst?

Nei, sá áróður er líka alveg dottinn niður, að það hafi verið gengið fram hjá verkalýðshreyfingunni. Þetta var gert í eins nánu samráði við hana og með þeim hætti, að ekki væru opnaðir möguleikar til þess að hleypa verðlaginu upp, áður en lögin kæmu í gildi, en það hefði orðið afleiðingin af því, ef við hefðum farið út um allt land að skipuleggja opna verkalýðsfundi um þetta mál, löngu áður en lögin voru komin í gildi. Þetta er mitt svar við því, sem hér var varpað fram áðan, hvort samráð hafi verið haft við þá aðila, sem þessi mál skipta mest. Það var gert á þennan hátt.

En þá var það þetta, sem ekki kom fram núna, en hefur oft verið deilt á mig annars staðar út af, hvers vegna var einmitt rokið til að láta lögin taka gildi örfáum dögum áður en verkafólkið átti að fá 6 stiga kauphækkun. Er það þá ekki fjandskaparbragð við verkalýðinn? Það má ef til vill túlka það þannig, en það þarf ekki að velta málinu lengi fyrir sér til þess að komast að þeirri niðurstöðu, að það hefði sennilega lítið orðið úr þessum aðgerðum, ef enginn hefði viljað byrja.

Hugsum okkur, að verkafólkið hefði fengið því framgengt að fá sín 6 stig fyrst á kaupið sitt, 1. sept. Þá dettur mér ekki annað í hug en að bændur hefðu eðlilega sagt: Nei, við skulum ekki ganga inn á þetta fyrr en eftir 15. sept., að við erum búnir að fá 11.8% hækkun á okkar landbúnaðarafurðum. — Og þá hefðu verkamenn eflaust sagt: Ja, bændurnir eru rétt nýbúnir að fá sína hækkun, við skulum bíða, þangað til við sjáum, hvað vísitöluhækkunin verður 1. des. og þannig koll af kolli auðvitað. Það er líka ekki um það að deila, að aðstaðan til að framfylgja svona banni er í mínum höndum a. m. k. margfalt sterkari við það að geta bent þeim aðilum á, sem leita hvað fastast á um að bera ekki byrðar í sambandi við þessa verðfestingu og vilja fá henni velt af sér yfir á aðra, ríkið eða einhverja aðra, — ég get með góðri samvizku svarað þeim: Þið verðið að bera til hins ýtrasta ykkar byrðar, svo lengi sem þær eru innan sanngjarnra takmarka, úr því að verkafólkið byrjaði á því að fórna 6 stigum í kaupgjaldi, sem það átti að fá eftir örfáa daga, er lögin voru sett. — Hingað til hafa flestir aðilar orðið að viðurkenna það, að úr því að byrjað var á verkafólkinu, þá á enginn neinn siðferðislegan rétt til þess að skorast undan því að bera sínar byrðar. Með þessu móti er þetta framkvæmanlegt. Ef ég hefði hlíft verkafólkinu og látið það fyrst fá sína 6 stiga kaupgjaldshækkun og ekki látið lögin koma í gildi fyrr en eftir 1. sept., þá hefðu allir aðrir getað vísað til þess, að þeir yrðu líka að fá sína möguleika til þess að hagnast, áður en lögin væru framkvæmd á þeim.

Ég hef ekkert farið í grafgötur með þessi viðhorf mín viðvíkjandi þessum tveimur deiluefnum við verkafólkið sjálft, og ég tel rétt, að þingheimi sé það einnig kunnugt, að á þennan hátt hefur þetta verið túlkað við verkalýðshreyfinguna, enda lítið orðið úr þeim tortryggnisáróðri, sem settur var í gang til þess að gera verkafólkið óánægt út af þessu tvennu.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en endurtek þakkir mínar til hv. stjórnarandstöðu út af því, að hún viðurkennir þetta sem raunhæft byrjunarskref, þangað til varanlegar ráðstafanir verða fundnar til þess að halda áfram stöðvun verðbólgu og dýrtíðar.